3.5.2021 | 06:00
Þarf að endurskrifa Íslandssöguna?
Ég hef farið víða, ég hef verið hér og þar, og ég veit að við öllum þessum spurningum er til eitt og annað loðið svar, -söng nafni minn þjóðskáldið um árið. Svo er það æskufélagi minn sem sjaldnast fer neitt en lendir hingað og þangað. Segja má að svipað eigi við um mig upp úr því að sumardagurinn fyrsti hefur litið sólarupprásina og ég geri hlé á því að lesa á milli línanna eftir há-skaðræðis tímann.
Milli-línu-lestur er sömu lögmálum gæddur og lesblinda. Maður tekur ekkert eftir því sem stendur í leiðbeiningunum, heldur því sem sleppt var að segja þegar þær voru skrifaðar. Rekur svo tærnar oftar en ekki á það sem liggur beint fyrir framan nefið á manni. Þessu heilkenni má einna helst líka við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríinu sínu en var ekki kominn lengra en í næsta fylki þegar sumarfríið varð búið.
Þegar Íslendingasögurnar eru lesnar þá liggja gríðarlegar upplýsingar á milli línanna. Sem dæmi þá er ég með blátt skol í æðum, kominn af Haraldi hárfagra. Er þá styst að rekja til nafna míns berfætts sem stundum hefur verið kallaður síðasti víkingakonungurinn og var drepinn á Bretlandseyjum. Þetta get ég fengið staðfest í Íslendingabók. Svo má líka finna það út að ég sé kominn af Mýrkjartani konungi á Írlandi. Þó svo megi lesa á milli línanna þá gæti þurft að umsnúa einhverjum þúfum til að fá þær staðfestingar að Norðmenn hafi verið gamlir Írar sem áttu eitt sinn heima suður við Svartahaf.
Það á að hafa verið sagt af þjóðminjaverði seint á síðustu öld að það borgaði sig ekki að fara út í þann þúfnaviðsnúning svo það þyrfti að endurskrifa Íslandssöguna vegna einhverra moldarkofa sem finnast í móum landsins. En eftir því sem tækni til aldursgreininga fornminja verður fullkomnari fer æ fleirum að gruna landnámið fyrir landnám, sem Árni Óla skrifaði um, eigi við áþreifanleg rök að styðjast. En ekki einungis að einstaka lesblindingi hafi mislesið Landnámu og Íslendingasögurnar.
Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur og hans fólk hafa verið við uppgröft á Stöðvarfirði í nokkur sumur og rannsakað þar hús og gripi, sem Bjarni hnaut um í þýftu túninu á Stöð, fyrst árið 2007. Bjarni segir æ fleira koma í ljós, en fjöldi gripa hefur fundist við rannsóknina auk húsa og telur hann eldri skálann, sem talinn er frá því um 800, vera útstöð frá Norður Noregi þaðan sem fólk hafi ferðast og haft sumardvöl á Íslandi og nýtt sér auðlindir sjávarins, fisk, hval og sel.
Þarna reynir Bjarni að rugga ekki Landnámu um of, en hún greinir svo frá "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." -hvernig sem bann við drápi villtra dýra svo samrýmist út-Stöðvar kenningunni og það að hvalir hafi verið dregnir langt inn í dal.
Fornleifarannsóknin á skálanum að Stöð í Stöðvarfirði hefur leitt í ljós að þar hafi verið gríðarlega öflugt býli. Svo virðist sem þar hafi búið höfðingi sem síðar hafi horfið úr sögunni. Ef við horfum á þá kvarða sem notaðir eru til að mæla auð, völd og stöðu þá er þetta orðið öflugasta býli sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Það er samt alls ekki það sama og að um sé að ræða öflugasta býli landsins. Það er sama á hvaða gripaflokk litið er. Við erum alls staðar með fleiri en fundist hafa í fyrri rannsóknum hérlendis. Þetta er líka stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið. Stærðin er yfirleitt ein öruggasta vísbendingin um velsæld. Þarna virðist hafa búið höfðingi sem síðan hefur horfið úr sögunni. Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því hann hófst formlega sumarið 2016.
Rannsóknir á landnámsskála (hugsanlegum) og mögulegri útstöð höfðingja á Stöð í Stöðvarfirði fengu hæsta styrkinn úr Fornminjasjóði í ár (2021), fjórar milljónir króna. Lítið fé til fornleifarannsókna veldur því að aðeins er hægt að vinna í mánuð á sumri. Með þessu áframhaldi tekur tíu ár til viðbótar að ljúka uppgreftrinum.
Nú er semsagt öldin önnur og menn komnir fram fyrir Landnámu þó styrkir séu smáir og hægt gangi þúfnagangurinn. Á sumardaginn fyrsta fórum við Matthildur mín að Stöð í Stöðvarfirði, sem er farið að kalla út-Stöð svo ekki þynnist um of bláablóðið sem Landnáma var skrifuð upp úr á kálfskinnið.
Þegar við komum að út-Stöðvar-uppgreftrinum voru þar tveir Stöðfirðingar fyrir og sögðu okkur að lítillega ætti að gramsa í moldarflagi Bjarna þúfnabana í sumar og freista þess að finna nokkrar perlur í viðbót með teskeiðinni, en þessi uppgröftur er einhver sá ríkulegasti að fornmunum á Íslandi hingað til, auk þess að innihalda stærsta landnámsútskála sem fundist hefur hér á landi.
Gallinn er aftur á móti sá að þessi risa skáli er frá því fyrir skráð landnám og því eru styrkveitingar til rannsókna vandfundnar. Það ku víst vera allt eins auðvelt að fá styrki hér á landi til að grafa upp coke dósir og skrá, sem Bandaríski herinn skildi eftir á öskuhaugunum.
Athugasemdir
Ágæt grein Magnús, en lókalpatríótisminn leynir sér ekki. Bjarni Einarsson hefur notið góðs af því að halda því fram að að hann hafi fundið skála frá því fyrir okkar hefðbundna landnám. En enginn fundur bendir til þess og það eina sem Bjarni talar um er ein (kannski tvær) kolefnisaldursgreiningar, sem enginn fær að heyra niðurstöðuna á. Allir vita að óregla í 13C/14C var mikil á þeim tíma sem um ræðir og því eru kolefnisaldursgreiningarnar frá þessum tíma mjög kenjóttar. Ég hef skrifað á Fornleifi (sjá hægri dálkinn) um Stöð og fundi Bjarna. Yfirlýsingar hans eiga sér ekki almennilega undurstöðu. Hann hefur talað í einhverju óráði um perlur sem hann hefur ekkert vit á.
FORNLEIFUR, 3.5.2021 kl. 06:53
Lestu vinsamlegast þessa grein https://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/2251781/ og greinar þær sem vísað er til í henni neðst.
Ég held þó ekki að Bjarni fái ekki "nóga" styrki vegna þess að hann fer með fleipur.
Ég legg til að fólk á Austurlandi, sem trúir á tilgátur Bjarna, safni í sjóð fyrir Bjarna. Rannsókn hans er falleg og skálinn er glæsilegur, og Bjarni er vissulega góður fornleifafræðingur þegar kemur að uppgreftri, en það þarf meira til að fullvissa mig um tilgátu hans en perlur sem hann veitt ekki rassgat um.
FORNLEIFUR, 3.5.2021 kl. 06:59
Blessaðir drengir.
Kallast þetta ekki faglegur ágreiningur??
En ég hef allavega lesið greinina á Fornleifi og hún kallar á svör frá Bjarna sem ég hef ekki lesið.
En svona umræða drífur áfram þekkingarleitina og niðurstaða hennar ætti að vera að sá sem fékk síðasta kvóta Stöðfirðingar fjármagni frekari fornleifarannsóknir.
Það væri mikil friðarbót ef svona 3-5 milljarðar af strípuðum hagnaði (það er þegar reiknikúnstir eru búnar að strípa hann inn að skinni) sjávarútvegsfyrirtækja færi sjálfviljugur í að rannsaka sögu þjóðarinnar.
Það er vel varið peningum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.5.2021 kl. 08:14
Sæll Fornleifur og þakka þér fyrir athugasemdirnar. Ég las Arabíu perlu pistilinn á sínum tíma og gerði það aftur núna og finnst hann góður. En svo ég segi alveg eins og er þá hef ég ekki hundsvit á vísindum.
Mér hlýnar um hjartaræturnar þegar þú segir að "lókalpatríótisminn leynir sér ekki", það var akkúrat meiningin með pistlinum.
En ég geri mér vel ljóst hvað þjóðerniskennd -eða stolt, hvað svo sem menn vilja kalla það, er vandmeðfarið og þess vegna blanda ég Írum, Nornmönnum og Svartahafi saman við bláa blóðið.
Mér finnst reyndar alls ekki útilokað að Íslendingar séu að stofni til ein af ættkvíslum Ísraels, og þá hreinustu Benjamínítar sem nú fyrir finnast á jarðkringlunni.
En varðandi út-Stöðvarkenninguna og landnámið fyrir landnám, þá finnst mér þú staðfesta það nokkuð við hvað öfl er að etja, enda við lítið annað að styðjast en sjálfa söguna.
Ég hafði mjög gaman af bókinni hans Bjarna, Bærinn sem hvarf í ösku og eldi, og geri mér fulla grein fyrir, þrátt fyrir skort á allri vísindalegri þekkingu, að Bjarni er kenningasmiður auk fornleifafræðinnar.
Það má segja að það hafi verið Bergsveinn Birgisson sem kom mér fyrst á bragðið með að kunna meta svona kenningasmíði þegar ég las bókina hans Svarti víkingurinn.
Þar áður hafði Árni Óla hrært upp í kollinum á mér, en samt á allt annan hátt.
Sem dæmi þá var Hrafnkelssaga ein af sögunum sem við vorum látin lesa í barnaskóla, sennilega vegna þess að hún er lókal, en vorum jafnframt upplýst um að þarna teldu fræðimenn að um hreina skáldsögu væri að ræða.
Það hefur hvorki þurft bókmenntafræðinga né fornleifafræðinga til að benda á hvar rústir sögusviðs Hrafnkelssögu leynast.
En ég er alveg sammála þér með það að heimamönnum stendur það næst að styrkja Bjarna við uppgröftinn í Stöð, enda held ég að þeir geri það eftir fremsta megni.
Magnús Sigurðsson, 3.5.2021 kl. 13:51
Sæll Ómar, þú ert nokkuð hvass núna í norðaustan þræsingnum, að ætla kvótagreifunum að fjármagna Bjarna fyrir hönd Stöðfirðinga.
Hugmyndin er góð og finndist mér sjálfsagt að þeir fjármögnuðu uppbyggingu á skálanum í Stöð eftir að Bjarni hefur fundið öll kurl, komið þeim til grafar og teiknað upp tilgátu myndina.
Svona skáli er t.d. á Borg á Lofoten og er mikill túristatrekkjari þar um slóðir. Rétt eins og á Stöð voru fornminjarnar á Borg rétt undir grasrótinni í túninu. Komu að mér skilst í ljós þegar bóndinn plægði túnið.
Ég myndi alls ekki telja það útilokað að styrkur fengist frá þeim sem fara með gullegg þjóðarinnar fyrir út-skálabyggingu á Stöö.
Sjálfur réri á þau mið fyrir nokkrum árum síðan við að koma húsnæði í stand fyrir handverksmarkað, og fékk góðar undirtektir, mun betri en hjá opinbera apparatinu þar sem þær voru engar.
Þekkti reyndar þá verandi formann LÍÚ og auk þess naut ég aðstoðar frá frænda mínum í þinni heimabyggð tókst þá að koma Salthúsmarkaðnum í húsaskjöl. Sá markaður er til enn í dag 12 áru seinna.
Þessir menn eru reyndar báðir Seyðfirðingar en ég mátti bara ekki segja frá því.
Með kveðju úr hríðarhraglandanum í efra.
Magnús Sigurðsson, 3.5.2021 kl. 14:14
Já, Adolf var góður, enda gegnheill Austfirðingur.
Mér fannst þú eiginlega staðfesta að þeir sem eru nærri okkur, séu viðræðuhæfir.
Sérstaklega ef þeir hafa migið í saltan sjó (þó ekki annað en væri en að hafa mígið af bryggju), eða þekkt einhvern sem hafi migið í slíkan sjó.
Skrifræðið í 101 er hins vegar eins og það er.
Ég kom í Salthúsmarkaðinn með mömmu fyrir ári síðan á hækjum mínum, þvílík fyrirgreiðsla (notaðu útihurðina þar sem ekki eru tröppur), yndislegar konur, flott handverk og góðar sultur, þar á meðal ein sem við keyptum þar sem rót bragðsins var frá fíflum. Hvaðan skyldi það nú hafa komið??
Ég held samt að það sé hægt að tala við greifana, en það er vonlaust að tala við skrifræðið, það sem slíkt annað hvort heldur að við fyrir austan austan fjall séum útdauð, eða til vara, að við ættum að vera útdauð.
Ég var ekki hvass Magnús, ég var bjartsýnn.
Kveðja úr garranum að neðan.
Ómar Geirsson, 3.5.2021 kl. 15:50
Til að fyrirbyggja allan misskilning Ómar.
Þá var það Salthúsið sjálft sem naut góðvildar sjávarútvegsins á sínum tíma, -þar sem frúin geymdi fellihýsið á veturna.
Þegar Salthúsmarkaðurinn var settur upp vorið 2009 kostaði LÍÚ prentun á risa myndum af gömlu flaggskipi Stöðfirðinga vaðandi í síld og fólki við fiskvinnslu á staðnum.
SVN, Alcoa ofl, kostuðu lýsingu, standsetningu húsnæðis og ýmislegt varðandi uppsetningu ofl, samtök ungs fólk í fiskvinnslu sköffuðu svo kvikmyndir úr saltfiskvinnslu í Grindavík og af togveiðum á Íslandsmiðum.
Einn salurinn var notaður fyrir "show" handa erlendum ferðamönnum sem vildu fræðast um aðal atvinnuveg þjóðarinnar á fimm mínútum, -en þurftu að ganga í gegnum markaðinn til að sjá herlegheitin.
Sýningin var sett upp í þessu aflagða fiskvinnsluhúsi sem hýsti húsvagna á veturna til að trekkja að og styðja við handverksfólkið á staðnum sem opnaði markaði og fékk endurgjaldslausa aðstöðu fyrir söluaðstöðu á sumrin.
Árið eftir var það sama reynt, án þess að höggva í sömu knérunn, þá var höfðað til opinberu menningarelítunnar, enda sá þá útskriftarárgangur Listaháskólans um trakteringarnar, en þá vildi svo einkennilega til að ekki fékkst ein króna.
Enda þurfa víst þeir sem sækja um til þeirrar elítu að vera langskólagengnir styrkþegar til að kunna að fylla út umsóknarblöð, og nú höfum við heila Austurbrú til að brúa þann brunn. Handverksmarkaðurinn var samt áfram í Salthúsinu á sumrin til 2015.
Salthúsmarkaðurinn sem þú heimsóttir í sumar nýtur fyrirgreiðslu Fjarðabyggðar hvað húsnæði varðar, að því ég best veit. Þangað þarna flutti markaðurinn um það leiti sem ég seldi Salthúsið.
Með bjartsýniskveðjum í gegnu élin úr efra.
Magnús Sigurðsson, 3.5.2021 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.