20.6.2021 | 03:04
Á sunnudegi í vígamóð
Fari það svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti. Nú er einn dagur í sumarsólstöður og eftir morgunndaginn fer að halla í hina áttina. Flissandi fábjáni sagði á svipuðum tíma og veðurfræðingurinn aflýsti sumrinu að nú væri að birta yfir landinu á meðan farfuglar til fjalla frusu á hreiðrunum og blessuð litlu lömbin skulfu á beinunum í norðan næðingnum.
Þó allur vindur sé nú úr þjóðhátíðardeginum eftir að 3. orkupakkinn kom sá og sigraði, er stemming slektisins grámyglulegri enn nokkru sinni fyrr, á meðan hvorki gengur né rekur að fikta við stjórnarskrána svo hægt sé að halda upp á daginn hans Jóns samhliða Eurovision. Já við skulum rétt vona að það sé svo að veðurfræðigarnir ljúgi og hjá þeim sem leiðist allt sem íslenskt er sé skóluð skinsemin andvana fædd því þar er það hálfa orðið meira en nóg á tekjutengdu bótunum.
Nú flykkjast ferðamennirnir helmingi færri en áður til landsins og í þeim á sennilega birtan felast yfir landinu gráa, -eða kannski réttara sagt í hinum nýja gullna þríhyrning, sem skartar Fly over Iceland, Sky lagoon og eldgosi, í birtu sem er grárri en nokkur steinsteypa var í sovéskum súpermarkaði og Ice hot one búin að taka fyrstu viðspyrnuna að nýrri flugstöð.
Út á landi er innviðabygging áformuð á fullu, enda kosningar í grennd. Flugstöðvarbyggingu á Akureyri með skógarböðum við brautarendann. Vatnajökulsþjóðgarðsþjónustumiðstöð og hóteli á Orrustustöðum í einmanalegum Skaftárhreppi. Að ógleymdu öllu því sem byggja skal upp í löskuðum Seyðisfirði. Nályktin næðir nú nöpur um flestar gáttir drepsóttarinnar, á meðan erlendur land lortur ætlar að byggja veiðihús yfir vinina upp á milljarða í landshlutanum sem hann keypti fyrir slikk.
Landinn flýtur svo nýbólusettur að feigðarósi með nýja passportið sitt fram hjá hverjum váboðanum af öðrum, -hækkandi vöxtum úr sagnabrunni Why Iceland viðundursins á eftir að sá gamli grái ákallaði lokun landsins. Rafmagn og fasteygnagjöld æða upp með húsnæðisverði í hæðstu hæðum, -kunnugleg uppskrift að gósentíð auðrónanna, og kúlulánadrottningin hikar ekki lengur við að skjóti fram skúffunni.
Já það má nú segja að það sé bjart yfir landinu fyrir fjárfestana og uppskerutími í nánd, sem kallaðir voru fyrir skemmstu hrægammar, þar til kom í ljós að um Panama prinsa í álögum var að ræða og ekki á að skemma fyrir að skattgreiðendur séu losaðir við Íslandsbanka svo þeir hafi einhverja innviði til að bjástra við að byggja í framtíðinni. Já fari hún svoleiðis norður og niður í rauðglóandi helvítis helvíti steypugráa nepjan sem næðir nú um landið á miðju sumri.
Athugasemdir
Mikil ræða og kjarnyrt svo lesa verður oftar en einu sinni. Stórþakkarvert að einhver skuli vera vakandi í allri múgsefjuninni sem lagst hefur yfir landið eins og köngulóarvefur.
Gunnlaugur Ólafsson (IP-tala skráð) 20.6.2021 kl. 10:34
Góð færsla Magnús í krafti fánans, tár fyrir tár.
Jónatan Karlsson, 20.6.2021 kl. 15:01
Takk fyrir athugasemdirnar Gunnlaugur og Jónatan. Ég sé að þið hafið áttað ykkur á innihaldinu. Pistillinn verður svolítið þvælinn við að blanda veðrinu inn í ástandið.
En Guð minn góður að fá kosningabrambolt eftir þennan ömurlega pestarvetur ofan í svona grátt sumar. Maður hreinlega óskar þessum herlegheitum öllum til helvítis.
Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir hvað er í kortunum. Hvað þá að það sé einhver stigsmunur Reykfjörð og Reykás þegar á hólminn er komið.
Magnús Sigurðsson, 20.6.2021 kl. 18:33
Dásamlegur pistill Magnús. Að lesa hann, er eins og að taka ´´ Fly over Iceland´´. Hafðu þakkir fyrir.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan, inn í Íslenska sumarnótt.
Halldór Egill Guðnason, 22.6.2021 kl. 00:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.