Sumar og sólstöður

Það vildi svo einkennilega til að það tók að birta eftir bölmóðinn sem ég setti hérna á síðuna í gær, og birti þeim mun meira eftir því sem fleiri lásu óskapnaðinn. Það verður að teljast meira en lítið skrítið ef bölbænir verða til þess að veður batnar, en hér á Héraði hafði verið ísköld norðan nepja dögum saman. 

Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag; brosir veröld víða, veðurlagsins blíða eykur yndishag, eða svo skildi maður ætla. Þessar ljóðlínur Steingríms Thorsteinssonar verða seint metnar til fjár en þykja varla merkilegar á þeim markaði sem lýtur hagvexti nútímans.

Allavega tala stjórnmálamenn ekki um svoleiðis hagvöxt, hvað þá auðrónar. En aukin yndishagur tekur þó öllum hagvexti fram fyrir Jón og Gunnu. Samkvæmt orðsifjunum þá eru "gumar" hinir jarðnesku jarðarbúar, andstætt við himnesk máttarvöldin. Þessar orðsifja sannindi mættu allir hafa í huga þegar þeir heyra tönglast á hagvexti peninga í stað yndishags manfólksins.

Í dag er sumarsólstöðu sólahringurinn og voru sólstöður kl. 03:32 í nótt samkvæmt Almanaki hins íslenska þjóðvinafélags 2021. Af því að það varð andvökubjart í gærkvöldi þá fór ég út um þúfur á meðan sólin rétt svo sleikti þúfnakollana. En þann sið hef ég haft s.s. segja frá barnæsku, og sef þá ekkert endilega á nóttinni þegar sólin varla sest.

Þar sem ég bjó á 69°N í Noregi hnitaði sólin himininn hærra á sumarsólstöðum og þar hafði ég sama sið þ.e. að fara út um þúfur andvaka. Þar var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á fótboltaleik.

Eins hef ég nokkrum sinnum verið um sumarsólstöðurnar á Spáni en þar halda innfæddir upp á þessi tímamót með "Noche de San Juan", sem er náttúrulega bara Jónsmessunótt sem er núna á fimmtudaginn. Þar var San Juan brenndur í bálkesti með viðhöfn á ströndinni, í svarta myrkri á Jónsmessunótt.

Það ætti engin sem er andvaka á þessum bjartasta tíma ársins að sleppa því að fara út um þúfur í Íslenskri náttúru, því upplifunin er einstök þegar orka norðurhjarans flæðir öllu lífi til yndishags. Þetta vita bæði furðu- og farfuglar, og má víða sjá álfa og menn verða sér út um þann yndisauka.

Ps. hér fyrir neðan eru myndir frá nýliðnum sumarsólstöðum og auðvitað eru þær úr Útmannasveit.

 IMG_0847

Selfljót við Unaós

 

Sumarsólstöður

Héraðsflói séður ofan úr Vatnsskarði

 

IMG_0826

Jaðrakan á sólstöðufundi

 

IMG_0889

Dyrfjöll í næturandaktinni

 

IMG_0891

Lagarfljót og vesturfjöllin við Héraðsflóa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þegar ég var ungur faðir fjögurra barna, veltum við okkur í Jónsmessudögginni úti í garði, um sumarsólstöður. Ekki leist nú litlu krílunum á gjörninginn í fyrstu, en sennilega muna þau þetta enn og meta mikils í upprifjun æskuáranna. Að sjálfsögðu var útskýrt hvers vegna karlinn bauð þeim upp á þetta, því aldrei var neinn þvingaður til veltingsins. Eftirá var boðið heitt súkkulaði, með rjóma og pönnuköku fyrir svefninn. Pabbi og mamma voru, þegar á allt er litið, ekki svo klikkuð, eða þannig.

 Að kunna að meta lndið sitt og viðhalda aldagömlum hefðum, telst nánast synd í dag. Nýjar þarfir og gott ef ekki endalaus kyn af öllum sortum, tröllríða nú umræðunni og gjaldfella þjóðlega siði og hefðir. Nú má ekki einu sinni hafa skoðun, nema ´´ fakttjékkarar´´ hafi gefið henni grænt ljós.

 Þakka góðan pistil, eins og þín er von og vísa.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 22.6.2021 kl. 01:07

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir góða sögu Halldór, mér kæmi ekki á óvart að börnin muni foreldrana með sérstökum yndisauka vegna uppátækja þar sem saga er sögð við að undirstrika hefðir aldanna.

Ég tek undir með þér varðandi nýungagirnina við margslungna einsleitnina þar sem allir verða að vera eins svo "fagtékkarnir" fari ekki af hjörunum með myllumerki.

Með kveðju suður.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2021 kl. 06:33

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir sólríkan pistil og athugasemdir félagar.

Spurning hvort fagtékkarar leyfðu svona meðferð á börnum, er þetta ekki brot á útivist og áhættuhegðun sem er leyfisskyld??  Spurning hvort þetta slyppi fyrir horn ef súkkulaðið hafi verið lífrænt og rjóminn innfluttur.

En persónulega finnst mér að sumarsólstöður mættu vera megnið af sumrinu, það er í þessa örfáu daga sem sólin sleppur yfir fjöllin hérna í firðinum fagra, á þeim tíma sem við kennum við kveld og kveldsól svo ég tali nú tungu ömmu minnar heitinnar.  Það er ef við göngum út frá að kvöldið byrjar klukkan 19.00, þá er kvöldsólin á pallinum mínum í heilar 45 mínútur, munar um minna, og líður fljótt hjá þegar teygir sig fram á sumar.

En vanti sólina þá vantar ekki fótboltann, sumarið er sá tími sem börn og unglingar ferðast landshorna á milli, með bros á vor og eltast við tuðruna hvernig sem viðrar, þar er leikurinn og þar er gleðin.

Sumarið er tíminn sagði söngskáldið og það er bara svo.

Sumar og sólarkveðjur úr neðra, er á meðan er.

Ómar Geirsson, 22.6.2021 kl. 08:33

4 identicon

Það er alltaf gagn og gaman að lesa pistla þína, Magnús. 

Hafðu bestu þakkir fyrir þennan, sem og aðra þína.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.6.2021 kl. 11:29

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk Meistari. 

egilsstaðir, 22.06.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 22.6.2021 kl. 12:14

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar félagar.

Já og sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt.

Magnús Sigurðsson, 22.6.2021 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband