28.6.2021 | 06:12
Hrúturinn Hreinn
Nú er fokið í flest skjól hjá þeim sem lét flatskjáinn fjúka fram af svölunum eins og hvern annan frisbee disk um árið. Það er kominn annar mun stærri, sem bleikur fíll í miðja stofuna. Þessi ósköp verður afi gamli að þola þó svo að engin viti betur en hann að sjónvarpið er verkfæri djöfulsins. Hún Ævi hefur verið heimagangur undanfarið og pabbi hennar kom með sjáinn til að stytta henni stundirnar í útlegðinni að heiman.
Ævi segist vera prinsessa og ég gæti vel trúað að það sé rétt hjá henni, svona miðað við stjórnsemina og útganginn. Undir þessa vissu hennar ýta svo þættir sem hún horfir á í sjónvarpinu. Þriggja ára blessunin veit ekki að svona er boðskap sónvarpsins lætt inn í saklausa barnssálina. Síðar þegar árin hafa líka læðst yfir verður boðskapurinn að hreinni drepasótt, og ekki aftur snúið nema með því einu að slökkva bæði á sjónvarpinu og símanum.
Því segi ég að fokið sé í flest skjól að ég freistaðist til að horfa á verkfærið með Ævi um daginn. En hún á það til að læðast fram og læsa mömmu sína frammi, og jafnvel ömmu líka um leið og hún segir; -afi mig langar að horfa á youtube. En þá byrja ég alltaf á því að sega hátt og snjallt; -mamma þín vill ekki að þú horfir á youtube því það geta komið svo ljótar myndir í auglýsingunum á youtube í prinsessu þáttunum.
Svo var það um daginn að ég lét mig hafa það að horfa á hrútinn Hrein með henni. Þar hafði hundurinn á bænum orðið sér út um dróna, sem hann batt við sólstólinn sinn, til að létta sér eftirlitið með rollunum rétt áður en hann sofnaði. Hrúturinn Hreinn komst í fjarstýringuna hjá hundinum og kunni ekki betur á hana en svo að hann sendi hundinn á loft sofandi í sólstólnum.
Þegar hundurinn rumskaði og áttaði sig á að það var hann sjálfur sem sveif um í sólstólnum yfir rolluhópnum fjarstýringarlaus rak hann upp skaðræðis boffs og bóndinn kom út til að aðgæta hvað væri eiginlega um að vera og náði um fjarstýringuna fyrir drónann en tók svo hart á í öfuga átt að hann braut stýripinnann af fjarstýringunni og hundurinn sveif stjórnlaust í sólstólnum út í geim.
Þar sem hundurinn var kominn út á meðal stjarnanna í sólstólnum, svo að segja til himnaríkis, kom svífandi að honum geimfarabúningur, en ekki engill, og stillti sér upp við hliðina á hundinum og tók selfí á símann sinn. Eftir myndatökuna tók sólstóllinn óvænt að hrapa með hundinum á hvolfi og nálgaðist jörðina aftur á ógnar hraða.
Hrúturinn Hreinn og rollurnar fylgdust með í angist og urðu sér í snatri út um brigði úr rúllubaggaplasti og strengdu það á milli sín, ekki til að bjarga hundinum heldur drónanum. Hundurinn náði í tíma að gera sér röndótta fallhlíf úr áklæðinu á sólstólnum og sveif mjúklega til jarðar. Bæði dróninn og hundurinn björguðust blessunarlega svo lífið á bóndabænum gat haft sinn vanagang þrátt fyrir þessa óvæntu himnaför hundsins.
Á sama tíma í himnaríki var geimfara búningurinn að skoða selfíið sitt í símanum sínum af sér og hundinum. Hann stillti svo símanum með selfíinu upp á hvíta hillu úr skýi og tók niður geimfara hjálminn. Þá blasti við grár hundur alveg eins og sá brúni á jörðu niðri með hrútinum Hreini og rollunum, nema hrukkóttur og eldgamall. Þá sagði Ævi; -þessi er alveg eins og afi, en mig langar að horfa á youtube.
Athugasemdir
Góðan daginn Magnús.
Dásamleg frásögn í byrjun dags, já afi passar sig vel á að orð uppeldisins heyrist hátt og skýrt svo allir viti að hann taki hlutina alvarlega.
Veistu, það má vel vera að margt sem hannað er og kennt við snjall þetta eða hitt, sé af rótum eða vilja þess í neðra, en hinum fær það ekki breytt, þetta er nútíminn og kannski okkar að setja út árar og róa gegn því skaðlega.
Með því að horfa, vera tilbúinn að spjalla, ekki setja sig á háan hest, til þrautavara er alltaf hægt að biðja í örvæntingu sinni til þess sem býr skýjum ofar, og biðja hann um að frekar sé horft á þennan þáttinn en hinn, það virkar, sönnun þess fékk ég þegar synir mínir stöldruðu mjög stutt við Stubbana, fóru þess í stað að horfa á Bubba byggir og seinna á þátt um framtaksama brunabíla þar sem Rauður var fremstur meðal jafningja, seinna svo Dóru og Klossa.
Bubbi var völundur og kunni örugglega að steypa, svo var hann góður í mannlegum samskiptum.
Þrátt fyrir allt er fullt af barnaefni sem eru mannlegt, segir sögur, fyndið, og boðskapurinn alltaf eitthvað svona í ætt við jákvæðni.
En hið forboðna er hluti af því að þroskast, þá er gott að einhver sýni því skilning, komi því svona að að það séu skýringar á af hverju mömmurnar láti svona, kannski er þetta svo ljótt að mamma yrði sár ef hún vissi, kannski betra að kíkja á þetta, það er það sem hetjurnar gera, þær kunna að velja, slást við ljótu kallana (vona að það sé ekki kynbundið), láta þá ekki stjórna sér.
Því börn eru sjálfstæð, skýrleiki þeirra tær, skuggi spillingarinnar kemur seinna, ef hann þá á annað borð kemur. Ljótleikinn er vissulega þarna úti, en börnin okkar eru með náttúrulega vörn gegn honum, hana þarf aðeins að næra og það er það sem við köllum uppeldi.
Þegar ég horfi á jafnaldra sona minna, þá sé ég ekkert annað en flott fólk, heilbrigða, jákvæða, skemmtilega krakka, kannski er það bara umhverfið í hinum smærri byggðum, utanhaldið og nándin, en þá er það bara staðfesting á því að þetta er allt þarna, útkoman ræðst af því hvernig hlúð er að á uppvaxtarárum.
Og ég get fullyrt það Magnús, að synir mínir segja að ekkert sé betra en afi og amma.
Það fór í gegnum huga minn þegar ég las þessa yndisfrásögn.
Kveðja úr blíðunni í neðra.
Ómar Geirsson, 28.6.2021 kl. 08:56
Góðan daginn Ómar, og þakka þér fyrir skemmtilega athugasemd.
Það á engin séns í sjónvarpið, það má segja sem svo að það sem hefur ekki verið sýnt í sjónvarpi sé ekki til. Enda líkur flestum rökræðum á kaffistofum landsins þegar mönnum greinir á, "jú víst ég sá það í sjónvarpinu".
Og ekki er snjallsíminn skárri þegar "sjáðu" er kannski eina orðið sem sagt er heilan kaffitíma um leið og síminn er rekinn upp í andlitið á næsta manni.
Við vitum samt innst inni að sjónvarpið og síminn eru tímaþjófar, en viljum gleyma því að það dýrmætasta sem við eigum er tími fyrir blessuð börnin og hvatning til alls unga flotta fólksins okkar að halda sjálfstæði sínu og draumum í stað þess að leggja á sig heilaþvott við að gerast fræðingar.
Ævi á það til að fara út um þúfur með ömmu sinni og afa til að tína hundasúrur, þá tekur hún með litla "suitcase" undir hundasúrurnar sínar, en þær enda reyndar flestar upp í henni jafnóðum svo fær hún stundum kórónu úr fíflum hjá mömmu sinni og ömmu.
Hún veit líka um fjallagrös rétt fyrir utan lóðina og þegar hún fer með ömmu sinni í hundasúruleiðangur þá er víst ekki við annað komandi en fara niður á kletta og tína fjallagrös í grautinn hans afa.
Eins og vísindamaðurinn vinur minn hefur oft sagt mér þá er allt sem maður þarft til að lifa góðu lífi við höndina, -en ekki í sjónavarpinu. Því vil ég árétta að sjónvarpið er verkfæri djöfulsins.
Ég hefði t.d. aldrei orðið alvöru steypukall nema af því að ég gaf sjónvarpinu ekki séns á mínum uppvaxtarárum. Það var náttúrulega ekki til farm undir 10 ára aldurinn og eftir að það fór að sjást leiddist mér það óendanlega. Vinirnir hreinlega soguðust inn í sápuóperur á við Dallas.
Já, hugsaðu þér ef ég hefði misst af því um ævina að verða steypukall, ég vil allavega alls ekki að Ævi missi af því að vera prisnsessa. En óttast satt að segja að fjandans sjónvarpið eigi eftir glepja henni sýn og ræna henni þeirri ánægu þegar fram líða stundir.
Bjartsýnis kveðjur í blíðuna í neðra úr mósku mollunni úr efra.
Magnús Sigurðsson, 28.6.2021 kl. 14:39
Blessaður Magnús.
Þú ert með þetta, þegar upp var staðið snérist ekkert um okkur, en reynsla okkar og vit, í jákvæðu samhengi, það skilar áfram til þroska kynslóðanna.
Hreint út Magnús, á einhverjum tímapunkti varst þú sigraður, og röfl um eitthvað, allt snéri að fortíð, það var ekki til umræðu eftir að lokað var á mömmu og ömmu, aðeins er spurt um afann hvort hann hlusti og skilji.
Magnús, steypukall, sá þroski og lífsreynsla, fyrir utan allt annað, þú ert kannski með próf uppá það, en lífsþroska sem og reynslu sem steypan gaf, og enginn fær stolið, allra síst prinsar hér og þar, eða ég gerist þungur, þeir sem drepa samfélög og líf, með því að segja að þetta sé aðeins kostnaður.
Magnús minn, prinsessur spyrja ekki um slíka hluti.
Þær segja aðeins.
Afi.
Kveðja úr blíðunni og í augnablikinu, sólinni.
Að austan.
Ómar Geirsson, 28.6.2021 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.