2.7.2021 | 05:59
Blóðberg
Það var trú fornmanna að með því að drekka rótsterkt seyði af blóðbergi kæmust þeir í djúpt andlegt ástand, sem gerði þeim mögulegt að komast í samband við huldar vættir. Þá er trú margra að blóðbergste dragi úr timburmönnum. Sterkt te af jurtinni, drukkið fjórum til sex sinnum á dag, 2-3 daga í senn, er talið gott til að venja fólk af áfengisdrykkju.
Blóðbergið er samt mest notað gegn kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að eyða sýklum og losa um slím. Vegna bakteríudrepandi áhrifa sinna voru jurtablöndur úr blóðbergi og rósmarín notaðar til inntöku og innöndunar til að styrkja ónæmiskerfið og komast hjá ýmsum pestum. Einnig var blóðbergsolía notuð sem sótthreinsandi lyf fyrir aðgerðir og uppskurði. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.
Í sögu grasalækninga er blóðbergið mjög áberandi jurt og í dag er hún viðurkennd sem áhrifarík lækningajurt, bæði til innvortis notkunar fyrir öndunarfæri og meltingarveg og ekki síður til notkunar útvortis sem verkjastillandi á vöðva og gigtarverki. Áhrif hennar gegn bakteríu- og sveppasýkingum og styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið eru ekki síður þekkt svo og bólgueyðandi og græðandi áhrif á útbrot og sár sem gróa seint og illa.
Seyði af blóðbergi er gott í munnskol við sárum og bólgum í munni og hálsi og losar það slím úr öndunarfærum sé það soðið í vatni og gufunni andað að sér. Sé seyðið drukkið er það gott fyrir meltingarfærin, örvar og bætir meltinguna og dregur úr vindverkjum og bólgu í þörmum. Við gigtar- og vöðvaverkjum er gott að setja nokkra dropa af blóðbergsolíu út í baðvatnið eða nudda gigtarstaðinn með áburði eða nuddolíu úr blóðbergi.
Sem kryddjurt til matar hefur blóðbergið löng-um þótt ómissandi þegar vanda á til matargerðar. Það er vinsælt í pottrétti og til marineringar bæði fyrir kjöt og fisk og er þá blandað saman blóðbergi, ólívuolíu, rósmarín og sítrónusneiðum. Blómin eru bæði notuð í te og sem krydd, t.d. á lambakjöt. Íslenskt blóðberg er skylt erlendu kryddjurtinni timian.
Blóðberg hefur ágætan kraft til að styrkja sinar og lina krampa. Blóðbergste er það áhrifaríkasta sem ég hef fundið við sinadrætti í fótum, sem hafði hrjáð mig árum saman. Með því að drekka te af blóðbergsblóma hvarf sinadrátturinn til lengri tíma. Ég hafði áður étið banana dag hvern til að slá á sinadráttinn, hálfur banani á dag verið þrautarlendingin, en af banana fæ ég brjóstsviða. Við að drekka blóðbergs te frá sumri fram á haust hvarf sinadrátturinn. Virkaði í marga mánuði eftir að ég hætti að drekka blóðbergsteið.
Blóðberg er vel þekkt um allt land, vex í malarjarðvegi nánast frá fjöru til fjalls upp í 900 m hæð, en plantan hefur meir að segja fundist í yfir 1000 m hæð og má því finna í blóma stóran hluta sumars. Nú er kominn tími blóðbergsins, við Matthildur mín höfum farið um mela og móa undanfarin sumur til tínt blóðberg, og er engin undantekning þar á þetta sumarið.
Nú er setið yfir blóðbergstei kvöld eftir kvöld og lyngið sem til fellur, eftir að blómin hafa verið hreinsuð af í teið, brennt til að hreinsa út illa anda líkt og með reyk af salvía. Við greinum jafnvel hulda vætti eins og fornmenn forðum, t.d. er ekki loku fyrir það skotið að grillt hafi í elli kellingu í gegnum tegufuna og reykjarkófið, en sú verður fljót að láta sig hverfa þegar aftur verður farið út um þúfur í guðsgrænni náttúrunni til að ná í meira blóðberg.
Heimildir: Heilsuhringurinn, Íslenskar lækningajurtir, -og fleiri kellingabækur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.