4.7.2021 | 05:40
100 ára steypa
Nú fer hver steypan af annarri að komast á þjóðminja stigið. Nýlega var minnst 100 ára afmælis rafstöðvarinnar í Elliðaárdal. Þau eru nú orðin um allt land steinsteyptu húsin sem sjálfkrafa lúta vernd húsfriðunarnefndar við 100 ára aldurinn. En ekki er langt síðan að þar var einungis um innflutt 19. aldar timburhús að ræða sem síðar höfðu verið klædd með bárujárni samkvæmt hugviti landans.
Það má segja sem svo að steinsteypa hafi verið byggingarefni íslendinga á 20. öld, tók við af torfi og grjóti, eftir að það hafði verið byggingarefni þjóðarinnar í meira en þúsund ár. Til eru þeir sem fjargviðrast út í verndun húsa og finnst sjálfsagt að þau víki skilyrðislaust úr vegi fyrir krosslímdum nútímanum sem er að taka við af myglugifsinu. Steinsteypan fái sama sess og torfbærinn í byggingarsögu landsins, sem jarðýtan sá um að varðveita.
Þó ættu allir að hafa í huga að verðmæti gamalla steyptra bygginga er mun meira en bara minjagildið. Í reglugerðafargani nútímans kostar t.d. mikla fjármuni að hanna hús og koma í gegnum byggingaleifaferlið á meðan að endurbætur húsa lúta ekki sömu lögmálum, -enn sem komið er, -þó svo að vissulega láti fræðingar innflutningsiðnaðarins sig dreyma um slíkt.
Á undanförnum árum hefur Jóni og Gunnu verið gert ókleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið með eigin höndum. Sú þróun hefur tekið ótrúlega stuttan tíma og hefur haldist fullkomlega í hendur við fræðinga framleiðslu latínusamfélagsins og vexti víxlaranna. Það sem verra er að húsnæði verður sífellt lélegra og er jafnvel innflutt myglan nú mun svæsnari en sú heimafengna var þegar þjóðin skreið út úr hálfhrundum moldarkofunum í upphafi 20. aldarinnar.
Það var í lok nýliðinnar aldar sem andskotinn hitti ömmu sína og tók fram fyrir hendurnar á Jóni og Gunnu. Nú hefur einnig verið slegið á putta byggingameistaranna þannig að þeirra aðkoma að húsbyggingum er einungis að ábyrgjast kolefnisjafnaða krosslímið formsins vegna, sem flutt er inn CE vottað frá kolakynntri austur Evrópu eða jafnvel stálið, stolið og stælt alla leið úr reykspúandi þrælakistum kommúnistanna í Kína.
Sjálfur hefur síðuhöfundur staðið í steypunni frá því að hann fyrst man, en fyrstu minningarnar eru frá því að foreldrarnir komu sér þaki yfir höfuðið upp úr 1960. Skemmtileg verkefni í steypu ævinnar tengjast mörg hver 20. aldar húsum, verkefni sem lengi vel þótti sjálfsagt að kalla viðhald, sem er nú orðið að skammaryrði í einnota viðhaldsfríum hagvextinum.
Algengt er í gömlum steinsteyptum húsum að veggirnir séu ver farnir eftir því sem neðar dregur, en útbyggð þakskyggni hlífir veggjum mikið við veðrun
Eitt slíkt minjaviðhalds verkefni bankaði upp á fyrir nokkru þegar eigendur Vélaverkstæðis Eskifjarðar höfðu samband við MVA, fyrirtækið sem ég starfa hjá, og leituðu eftir aðstoð við að gera við steypta útveggi verkstæðisins og múrhúð. Ég var sendur á staðinn til að skoða verkið og þá rifjuðust upp minningar um mörg skemmtileg viðhaldsverkefni. Þegar steypukallar nutu enn kunnáttu sinnar án afskipta og milligöngu fræðingastóðsins.
Það voru þeir Björgvin Jóhannsson vélvirki, einn af eigendum vélaverkstæðisins ásamt nafna hans og afkomanda, sem ég átti samskipti við. Björgvin hafði auðskiljanlega áhyggjur af kostnaði enda viðgerðin fjármögnuð án opinberra styrkja, eigendur höfðu lagt til hliðar til varðveislu hússins. Ég stakk upp á að við negldum kostnaðinn ekki niður, heldur skildi ég gefa honum tölu í eina hlið hússins, sem ég gæti ábyrgst að ekki yrði farið yfir og svo sæjum við til með framhaldið.
Þegar ég gaf Björgvin upp töluna varð hann að mér fannst undrandi og bætti strax annarri húshlið við verkefni sumarsins svo við gætum tekið frá tíma í tíma. Ég hafði átt hús sjálfur með sambærilegum skemmdum í steypu og voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar, en þær voru aðallega til komnar vegna þess að ekki var farið almennt að nota loftblendi í steypu fyrr en á seinnihluta 20. aldarinnar.
Pólskir vinnufélagar mínir sáu um að framkvæma sérviskuna
Því vissi ég nákvæmlega hvers eðlis skemmdirnar voru og vissi upp á hár hvernig viðgeð yrði framkvæmd með minnstum kostnaði. Aðferðin fólst fyrst og fremst í því að notast við veggina eins og þeir komu fyrir og gera við þá með steypu eins og í upphafi að viðbættu loftblendi. Þá steypu kaupir maður hvorki í pokum né eftir stöðluðum uppskriftum, heldur er um nokkurskonar gjörning að ræða, sem spilast af fingrum fram á staðnum.
Þær viðgerðir sem framkvæmdar voru á Vélaverkstæði Eskifjarðar fóru fram vorið 2018 og var lokið þá, þrátt fyrir upphaflega rýmri tímaáætlun. Húsið átti að skarta sínu fegursta 2021 á 100 ára afmælinu. Kostnaður var vel innan upphaflegrar áætlunar þannig að sumarið 2019 fengu þeir Björgvinir okkur aftur og þá til að lagfæringa í kringum glugga á yngri byggingu verkstæðisins, sem fólst í að breyta gluggum þess til samræmis við eldri hluta. Þeir nafnarnir smíðuðu nýja járnglugga en gluggar gamla hlutans eru úr steyptu pottjárni.
Járn gluggi á nýlegri hluta verkstæðisins
Vélaverkstæði Eskifjarðar er enn eins og það var í árdaga, innandyra eru reimdrifnir rennibekkir og tæki sem voru þau fullkomnustu þegar húsið var byggt. Við Björgvin áttum margt áhugavert samtalið um starfsemina, sem fram fór í húsinu. Ég ætla nú að segja frá þremur húsum sem ég hef átt því láni að fagna að fá að taka þátt í að varðveita.
Vélaverkstæði Eskifjarðar er nú 100 ára þ.e.a.s. húsið, en það var Friðbjörn Hólm sem lét byggja húsið árið 1921. Það var annað fullkomnasta verkstæði sinnar tegundar á Austurlandi á sínum tíma, einungis Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar á Seyðisfirði var talin betur búin, en í því húsnæði var Tækniminjasafn Austurlands, sem varð aurskriðu á Seyðisfirði að bráð í desember s.l.
Friðbjörn Hólm var aðfluttur á Eskifirði kom frá Seyðisfirði og hafði starfað hjá Jóhanni Hanssyni. Rekstur vélsmiðjunnar gekk brösuglega fyrstu árin og leisti Landsbankinn húsnæðið til sín ítrekað. Borgfirðingurinn Sigurður Jónsson, hinn kunni brúarsmiður frá Seljamýri í Loðmundarfirði, segir þetta um veru sína hjá Friðbirni Hólm á Eskifirði.
Á Eskifirði var ég í rúm þrjú ár og lærði geysilega mikið. Hins vegar var ég ekki í formlegu iðnnámi þarna því Friðbjörn Hólm hafði ekki réttindi í vélsmíðum þrátt fyrir mikla reynslu í faginu og þrátt fyrir að hann væri frábær iðnaðarmaður. Þegar ég kom til Eskifjarðar var verkstæðið í skúrbyggingu en verkstæðishúsið var í byggingu og tekið í notkun með fullkomnustu vélum 1921. Helstu verkefni verkstæðisins á Eskifirði voru viðgerðir á vélum stærri mótorbátanna. Eigendur minni báta voru margir sjálfbjarga að miklu leyti hvað áhrærði daglegt viðhald. Ég bjó í kvistherbergi verkstæðishússins á Eskifirði og var yfirleitt í fæði hjá Friðbirni. Hann var afbragðs húsbóndi og það fór vel á með okkur. Hann sýndi mér líka mikið traust því ég varð fljótlega staðgengill hans á verkstæðinu. Annars gekk rekstur verkstæðisins erfiðlega frá upphafi og efnahagur fyrirtækisins stóð ekki í neinum blóma.
Þó svo að ýmsir eigendur væru að Vélaverkstæði Eskifjarðar í gegnum tíðina voru seinni tíma eigendur og starfsmenn oft tengdir upprunalega verkstæðinu og upphaflegu eigendum s.s. Friðbirni Hólm og Símoni Jónsyni kaupmanni sem átti það um tíma. Árið 1934 lét Símon setja upp dráttarbraut við vélsmiðjuna sem var sú best búna á Austurlandi á þeim tíma. Var hún í notkun til ársins 1960.
Enn má sjá leifar dráttarbrautarinnar
Árið 1980 eignuðust þeir Björgólfur Kristinsson vélvirki, Björgvin Jóhannsson vélvirki, Sveinn Friðriksson vélvirki og Skúli Sigurðsson plötu og ketilsmiður verkstæðið og ráku það í hlutafélagi undir nafninu Vélaverkstæði Eskifjarðar þar til rekstri þess var hætt.
Gamall gluggi úr járnsteypu í upphaflega verkstæðishúsinu
Hvammur Höfn Hornafirði var byggður 1926 af þeim mágunum Sigurði Ólafsyni frá Bæ í Lóni og Jóni Jónsyni Brunnan frá Brunnum í Suðursveit. Húsið nefndu þeir Skálholt en manna á meðal var það alltaf kallað Hvammur. Framan við húsið var í upphafi bátabryggja og vestur af henni myndarlegt sjóhús. Hvammurinn var m.a. gistihús og fyrsta flugafgreiðslan á Höfn. Eftir að Hótel Höfn tók til starfa árið 1967 var húsið notað sem verbúð fyrir farandverkafólk þá oft kallað Skakkinn en eftir það stóð húsið autt árum saman.
Hvammur í baksýn, á tímum Sigurðar Ólafssonar og Jóns Brunnan, á þeim tíma þegar Hornafjarðarfljót rann um höfnina á Höfn, áður en eiðið var gert út í Ósland
Einar Bragi Sigurðsson segir m.a. svo frá nokkrum dögum sem hann dvaldi í Hvamminum 11 ára gamall árið 1932. "Á þessum tíma kynntist ég heimilinu í Hvamminum. Heimilunum væri þó réttara að segja, því þetta var allt í senn einkaheimili, barnaheimili, sjómannaheimili, elliheimili, dagheimili þorpsbúa sem komu til að sýna sig og sjá aðra og gistiheimili hálfrar sýlunnar auk langferðagesta innlendra sem erlendra.
Hvammurinn vorið 1989, húsið var nánast rústir þegar Sveinn Sighvatsson hóf endurbætur
Árið 1989 var Hvammur tekin til endurnýjunar lífdaga eftir að hafa verið í niðurníðslu árum saman. Sveinn heitin Sighvatsson hússmíðameistari á Höfn hafði þá eignast húsið og bað mig um að koma á Höfn og hitta sig, því hann hugðist láta húsið halda útliti sínu sem steinhús og klæða það að utan með múrkerfi. Stuttu seinna seldi hann húsið Tryggva Árnasyni sem rak Hafnarbúðina og Jöklaferðir.
Það varð úr að sumarið 1989 unnum við starfsmenn Mallands á Djúpavogi við að klæða Hvamminn að utan með þýsku STO múrkerfi fyrir Tryggva auk þess að sjá um steypuvinnu á Stokksnesi fyrir Svein Sighvatsson þar sem hann byggði ratsjárstöð fyrir NATO. Eftir að Hvammur var tekin í endurnýjun lífdaga hefur verið rekið þar Gistihús og hef ég gist margar nætur í þessu merkilega húsi.
Það efast engin um það í dag að Hvammurinn átti skilið að ganga í endurnýjun lífdaga, bæði vegna notagildis síns í nútímanum og sögu fortíðarinnar. Í höfninni skammt fyrir utan húsið má oft sjá Sigurður Ólafsson SF 44 liggja við landfestar
Ásbyrgi, fyrsta húsið sem ég eignaðist, keypti ég árið 1986. Það er á Djúpavogi, byggt 1947 af Birni Gústafssyni og Rakel Jónsdóttir, sem þá voru um tvítugt. Þegar þau fluttu úr húsinu til Akraness árið 1963 höfðu þau eignast 6 börn. Margir höfðu búið í húsinu eftir Birni og Rakel, lengst af Kristján og Antonía ættforeldrar margra Djúpavogsbúa, sem kennd voru við Garða. Þegar ég eignaðist húsið var það farið að líta verulega upp á landið en samt í notkun sem verbúð fyrir farandverkafólk.
Ásbyrgi vorið 1989
Margir vildu meina að húsið væri ónýtt þegar ég keypti það og best færi á að brjóta það niður og nota lóðina annað. Steyptir veggir voru illa farnir, gluggar ónýtir og múrhúð víðast hrunin. Þegar ég leitaði fjármögnunar í Landsbankanum á Djúpavogi var húsið ekki talið lánshæft. Það kom ekki til þessa að fjármagna þyrfti endurbætur í gegnum banka. Fljótlega eftir að þær hófust árið 1989 kom fram áhugi á að kaupa húsið uppgert. Rifið var innan úr húsinu, fyllt í kjallara þar sem hafði verið olíukynding.
Við endurgerð innanhúss var fyrra skipulag látið halda sér að mestu en þó var einu litlu herbergi bætt við stofu, forstofa breikkuð og höfð opin inn í húsið til að auka birtu og rími. Eins var baðherbergi stækkað um 20-30 cm á báðar hliðar á kostnað eldhúss og hjónaherbergis. Útveggir eingraðir og múrhúðaðir á hefðbundinn hátt. Milliveggir hlaðnir úr vikri og múrhúðaðir. Allt rafmagn - og vatnslagnir endurnýjaðar. Út úr þessu fékkst lítið fjögra herbergja einbýlishús.
Fyrri part sumars 1989 var húsið gert upp að utan, múrhúðað og skipt um járn á þaki. Steypan í útveggjum hafði valdið mér heilabrotum, og þá hvort betra væri að klæða húsið og einangra að utan. Niðurstaðan varð sú að gera við steypu og múrhúða húsið með hrauni, sem sagt hefðbundið verklag á steinsteyptum útveggjum fyrri hluta 20. aldar. Sökklar og fyrrum kjallaraveggir voru einangraðir og klæddir að utan með STO múrkerfi til að fá einangrun fyrir gólfplötu. Allt steypuefni var fengið úr næstu fjöru eins og venjan var þegar húsið var byggt.
Ásbyrgi Sumarið 1989
Sumarið 1989 komu þau hjónin Björn og Rakel á Djúpavog og bönkuðu upp á hjá mér að kvöldlagi og báðu mig um að sýna þeim húsið, sem var þá komið á loka stig endurbótanna. Ég sýndi þeim það náttúrulega með glöðu geði, en óttaðist satt að segja svolítið að ég hefði breytt húsinu þannig að þeim myndi ekki líka.
Oftar en einu sinni sagði Rakel; Bjössi af hverju höfðum við þetta ekki svona, þar var um að ræða baðherbergið sem var stærra og því pláss fyrir þvottavél, en þvottahúsið hafði verið niður í kjallara sem var utangengur . Annað atrið var staðsetningin á eldhúsvaskinum sem var kominn við glugga þannig að Búlandstindurinn blasti við þegar vaskað var upp.
Þegar Rakel var sest út í bíl spjölluðum við Björn í smá stund og hann sagði mér hversu erfitt hefði verið með aðföng og efni þegar húsið var byggt, allt í höftum og skömmtunum skömmu eftir stríð. Þetta vissi ég vel því Siggi í Dagsbrún, sem er rétt hjá, hafði sagt mér að þeir hefðu byggt húsin á sama tíma og upphaflega hefðu þau verið eins. En Siggi sagðist hafa verið betur settur en Bjössi að því leiti að hann hefði haft sambönd austur á Norðfjörð og getað fengið þar eitt og annað tilfallandi í Dagsbrún.
Þó svo að Ásbyrgi hafi ekki verið ætlað langt líf af mörgum þegar ég keypti það þá hefur það þjónað núverandi eigenda í rúm 30 ár og er vel viðhaldið, í alla staði Djúpavogi til prýði og eigenda sínum til mikils sóma.
Ásbyrgi í dag, myndinni hnuplað af facebook síðu Fíu Aradóttur sem hefur verið eigandi hússins frá því árið 1989
Það sem er ánægjulegast við viðgerð gamalla húsa er að kynnast sögu þeirra og allar sögurnar sem maður fær að heyra meðan á viðgerð stendur. Bæði er að eigendur fræða mann um notkun húsanna í gegnum tíðina og oft kemur fólk af götunni til að segja sögur sem tengjast húsinu. Allar þær sögur yrði allt of langt mál að setja í stutt blogg um steypu.
Annars var Stokksnes stærsta steypan sumarið 1989
Heimildir: Frá eldsmíði til eleksírs - Smári Geirsson / Af mönnum ertu kominn - Einar Bragi.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 10.7.2021 kl. 07:20 | Facebook
Athugasemdir
Skidegodt, eins og frændur vorir Danir segja á hátíðisdögum. Steypa en góð saga.
FORNLEIFUR, 4.7.2021 kl. 10:02
Blessaður Magnús.
Gaman að lesa steypufróðleik svona áliðið morguns áður en haldið er úr þokusuddanum uppí hið sólríka hérað til að fylgjast með boltasparki.
Eins oft og ég hef keyrt framhjá Vélsmiðju Eskifjarðar að ofanverðu, þá hef ég ekki gert mér grein fyrir fegurð hennar þegar þegar horft er frá sjávarsíðunni. Það er sómi að þessu húsi og gott að sérfræðingaveldi latínuskólans undir áhrifum Brussel regluverksins skyldi hafa leyft þessar endurbætur á viðráðanlegu verði fyrir hina duglegu handverksmenn, því mér skilst að vandvirknin hjá þeim feðgum sé þess eðlis að hægt sé að tala um handverk.
Fegurð liggur í gömlum húsum þar sem verkið lofar meistarann, hvað það varðar er Eskifjörður perla sem vill oft gleymast í umræðunni um bæi sem hafa varðveitt vel eldri hús.
Takk fyrir deila fróðleik þínum, og svo má ekki heldur gleyma ádeilunni, henni þarf að halda til haga;
"Sú þróun hefur tekið ótrúlega stuttan tíma og hefur haldist fullkomlega í hendur við fræðinga framleiðslu latínusamfélagsins og vexti víxlaranna. Það sem verra er að húsnæði verður sífellt lélegra og er jafnvel innflutt myglan nú mun svæsnari en sú heimafengna var þegar þjóðin skreið út úr hálfhrundum moldarkofunum í upphafi 20. aldarinnar.".
Það er ekki öll vitleysan eins og það að við skulum halda afturábak hvað varðar gæði og endingu húsa, því hefði ekki nokkur maður trúað í þeirri kynslóð sem nú er genginn eða er að kveðja.
Eða hvernig vegið er að innlendu með "CE vottað frá kolakynntri austur Evrópu eða jafnvel stálið, stolið og stælt alla leið úr reykspúandi þrælakistum kommúnistanna í Kína.".
Ja hérna sagði kallinn, vonandi verður samt sól uppá Héraði, ég plataði frúna með í för með vilyrði þar um.
En á meðan er það kveðjan úr þokunni að neðan.
Ómar Geirsson, 4.7.2021 kl. 10:34
Takk fyrir innlitin og haugsemdirnar.
Mér skilst að skidegodt, sé ekki sem verst Fornleifur.
Það er óðum að létta til í blíðunni Ómar, -kæmi ekki á óvart að sú gula ætti eftir að glenna sig.
Magnús Sigurðsson, 4.7.2021 kl. 11:00
Takk fyrir mig. Fröðleg og skemmtileg lesning.
Góðar tundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 4.7.2021 kl. 11:01
Hvað það gleður mig að lesa pistla þína.
Þú ert sannur meistari, Magnús.
Hafðu kærar þakkir fyrir.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.7.2021 kl. 12:19
Takk fyrir þessa stórfróðlegu færslu.
Hvernig tengdirðu nýja loftblendna múrinn við þann gamla undir? Notaðirðu hænsnanet á milli og þá hvernig fest? Eða hvernig? Nákvæm lýsing frá þér gæti gagnast mörgum í svipuðum aðstæðum.
Halldór Jónsson, 4.7.2021 kl. 16:28
Segi sem Halldór, að gaman væri að fá nánari lýsingar hvort gera hafi einhverjar ráðstafanir til að ná fram festu loftblendna múrsins við gömlu steypuna.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.7.2021 kl. 17:33
Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar Halldór Egill, Pétur Örn og Halldór.
Eins og ég segi þá er aðferðin gjörningur af fingrum fram, en ég skal reyna að skýr málið.
Varðandi Vélaverkstæði Eskifjarðar og Ásbyrgi þá voru steypuskemmdirnar af svipuðum toga, þ.e. veðrunarskemmdir vegna lélegs frostþols.
Laus steypa var hreinsuð af veggjum, sumstaðar voru þeir komnir í gat þó þykkir væru enda púkkaðir með grjóti til að spara sement á sínum tíma.
Það verður samt að stoppa múrbrot á réttum stað því lítið mál er að brjóta frostskemmda steypu niður, húsið gæti þess vegna orðið að malarhaug á lóðinni. Þarna ræður tilfinning hvar á að stoppa.
Þegar búið var að hreinsa veggina við los, voru þeir baðaðir upp úr daufri akrýl blöndu þannig að þeir drukku hana í sig eins og sykurmoli kaffi.
Síðan var aftur baðað með örlítið sterkari akrýlblöndu þegar sú fyrri var orðin fullþurr og svo koll af kolli þar til veggirnir hættu að taka við akrýl. Þá voru þeir rappaðir með hefðbundinni þunnri rappblöndu úr sandi, sementi og örlitlum akrýl ofan í blautan akrýl grunn.
Ef tilefni gaf til þá voru settir net bútar í annaðhvort úr steypuneti eða hænsnaneti í djúpar dældir. Síðan var kastað steypu í dældir úr einkorna böl. u.þ.b. 7-10 mm perlu blönduð 1:3 með sementi og örlitlu af pússningssandi. Þetta var gert í nokkrum umferðum og látið þorna á milli.
Þegar var búið að byggja upp veggina, út í þykkt, voru þeir múrhúðaðir og loks filltaðir með þéttimúr á Vélaverkstæðinu, en hraunaðir með sömu perlu í Ásbyrgi.
Kúnstin er að styrkja vegginn sem fyrir er t.d. með akrýl og finna spennu jafnvægið á milli gömlu steypunnar og viðgerðanna. Það jafnvægi hefur lítið með brotþol eða bendingu að gera. Yfirleitt eru viðgerðir á gamla steypu of sterkar og spenna sig lausar frá veikara yfirborði þegar þær harðna.
Eins þekkja flestir múrarar að "verkfræðinga steypa", -þar sem einblínt er á brotþol og vatnssementstölu á það til að springa vegna of mikils styrkleika og þéttrar kornakúrfu í fylliefni. Einkorna perla og há vatnsementstala getur staðið sig betur hvað það varðar.
Steypa þarf oftar að standast veðrun en brotþol í útveggjum ef hún á að endast.
Magnús Sigurðsson, 4.7.2021 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.