Lömbin þagna

Í gær grilluðu stjórnmálamenn í atkvæðasmölun kótelettur í nýja miðbænum í grennd við höfuðborgina, að sögn til að halda uppi gamalli hefð. Í gær fórum við Jökuldalinn upp til heiða. Á Dalnum var það sláandi að í brakandi þurrki var engin byrjaður að slá. Þó svo punturinn bylgjaðist blíðum í blænum, -öðruvísi mér áður brá.

Upp á heiðunum voru víðast hvergi lömb að sjá, svo langt sem augað eygði. Við Matthildur mín plokkuðum upp fjallagrösin yfir sólbjartan daginn í flugnasuði á meðan spóinn vall í kappi við svanasönginn, og gæsirnar gáruðu heiðarvötnin með ungahópunum sínum, sem eru blárri en blá. Hvergi var sauðkind með lömb að sjá, -öðruvísi mér áður brá.

Niður Vopnafjörðinn hans Ratcliffs vöfruðum við, en rétt eins og á Jökuldalnum var ekki heyskap að sjá, fyrr en komið var út undir sjó í grennd við golfvöllinn skammt innan við nú dauflegan miðbæinn á Tanganum þar sem sumarið er hvað blíðast á Íslandi. Í sjoppunni var ekki hræðu að sjá, -öðruvísi mér áður brá.

Skyldi íslenska sauðkindin verða safngripur á lendum auðróna, eftir haustið í haust og raðlygarar og skúffukjaftar grilla nýsjálenskar lambakótelettur næsta sumar, í síðasta bænum í dalnum? Mun þá áfram verða boðið upp á kolefnisjafnað grill í nýja miðbænum í minningu gamalla hefða, eða mun fólk greikka kolefnissporið á leið sinni úr síðasta bænum í dalnum? Guð blessi allt Ísland, -öðruvísi mér áður brá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Seinustu málsgreinarnar mætti ég ekki skrifa án ess að fá áminningu frá þeim sem þykjast eiga Ísland. F

Helga Kristjánsdóttir, 11.7.2021 kl. 15:45

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Helga og takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Nú er ég ekki alveg áttaður á hvað nákvæmlega í síðustu málsgreininni vekur upp áminningar hjá þeim sem þykjast eiga Ísland.

En mér segir svo hugur að það verði ekki mikið lengur íslenska suðkindin, og fjallalambið sé að syngja sitt síðasta, -og hvað gera bændur þá?

Magnús Sigurðsson, 12.7.2021 kl. 04:19

3 identicon

Bændurnir fara á sósíalinn og styttu vinnuvikuna eins og allir hinir. Fegnir að losna úr ánauðinni. 

En hvað gera neytendur þá?

Hvað gera sjálfskipuðu kolefnisfótsporsfræðingarnir þá?

Hvað gera dýraverndunarsinnarnir þá? (þegar meira og minna verða í boði afurðir af dýrum sem illa er farið með)

Hvað gera afleiddu fyrirtækin af landbúnaðinum þá?

Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 12.7.2021 kl. 11:38

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni og þakka þér fyrir búmannlegar spurningar en afleitt svar. 

Vinnuvikan styttist reyndar mismikið hjá fólki og ég held að hjá þeim  sem á annað borð er eftirspurn eftir styttist hún ekki mikið, lengist jafnvel.

En ekki lýst mér á þetta með bændur og íslensku suðkindina. Betri matur en lambakjöt er vandfundinn og betri ævi en blessað lambið lifir er vandfundin, íslenski draumurinn í eitt sumar. Kjötframleiðsla innanhúss er í flestum tilfellum dýraníð.

Mér er það hulin rágáta hvernig það getur skeð á minni vakt að sveitir landsins séu að leggjast í auðn. Sjálfur steypi ég fram í rauðann dauðann þó kaupið sé lágt frekar en að fara á hlutabætur hjá slekktinu.

En það er vissulega vitlaust gefið og bændur hafa verið einstaklega óheppnir með stjórnmálamenn rétt eins og flestir landsmenn. Hyski, -rykaðra raðlygara, aftursætisfarþega og kúlulánaauðróna, sem hefur verið ginkeypt fyrir aflands upphefð handónýtrar stjórnsýslu. 

Magnús Sigurðsson, 12.7.2021 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband