Nafni minn

Það sem gefur blogginu gildi, öðru fremur, eru athugasemdirnar, þær víkka sjóndeildarhringinn. Þess vegna eru þær vel þegnar á þessari síðu hvort sem þær eru undir nafni eður ei. Sumir setja þumalinn upp með like merki, þá væntanlega ef þeim líkar pistillinn. Mbl bloggið er ekki tengt fésbókinni á annan hátt og er mér t.d. ómögulegt að finna út úr því hver setur like við pistil.

Stundum kemur fyrir að ég fæ skilaboð í gegnum þriðja aðila, sem viðkemur bloggfærslu, og er það þá yfirleitt að viðkomandi hafi líkað. Svo kemur það ekki ósjaldan fyrir að bæði kunnugt og bláókunnugt fólk hringir í mig til að ræða einhver atriði sem fram koma í bloggi. Það eru alveg sérstaklega skemmtileg símtöl.

Undir vorið í vor hringdi í mig kunningi úr steypunni til að fá nánari skýringar á bloggpistli og spurði mig í leiðinni hvort ég gæti sagt honum hver Katrín væri, stúlka sem ólst upp á Seyðisfirði snemma á 20. öld. Þannig væri að í Firði hefðu verið tvær Katrínar á því sem næst sama aldri og báðar Jónsdætur.

Ég gat frætt hann á því að önnur þeirra hefði verið systir afa míns hún hefði alist upp hjá frændfólki sínu. “Mér datt það í hug” -sagði kunninginn en hann var nær fólkinu í Firði í skiydleika en ég og með aðra tengingu.

Eftir þetta samtal fór ég að grúska í gúggúl og Íslendingabók. Fann mynd á gúggúl af Katrínunum tveim saman á barnsaldri. Í sama myndasafni kom upp mynd af fjölskyldu sem ég fékk áhuga á, þó svo að sú mynd væri frá því á 19. öld og ég hefði aldrei séð þetta fólk á mynd.

Þessi mynd festist með einhverjum dularfullum hætti á destoppnum hjá mér og blasti við í hvert skipti sem ég fór í tölvuna, varð ég að fá son minn til að fjarlægja hana af desktoppnum næst þegar hann kom í heimsókn því mín kunnátta á tölvu var ekki svo yfirgripsmikil.

Myndin var af fjölskyldu sem á enga afkomendur; maður, kona og dóttir. En til þessara hjóna á fjöldi fólks nöfn sín að rekja enn þann dag í dag. Nöfnin eru Magnús og Herborg, sem er auk þess til í samsetningunni Magnea Herborg. Dóttirin hét Björg.

Á sama tíma og kunningi minn úr steypunni hringdi var ég að lesa fágætan fróðleik í doðranti bóka sem heita Austurland. Þar var þessa Magnúsar getið sem glöggs búsýslumanns með sauðfé og þá sem sérlega vinsæls fjármanns hjá stórbændum á Héraði. Var hann m.a. fengin til að sjá um eitt fyrsta fjárræktarbú á Austurlandi, sem stórbændur kostuðu á Ormsstöðum í Hallaormstaðarskógi.

Í minni bernsku heyrði ég oft að Björg amma og Magnús afi væru bæði ná skyld Magnúsi Sigurðssyni hinum merka sauðfjárbónda á Úlfsstöðum, frænda mínum sem ég var part úr tveimur sumrum hjá í sveit sem strákur. Ég vissi fljótlega að Sigurður faðir Magnúsar á Úlfsstöðum og Björg amma voru systkin, en fékk aldrei nákvæma skýringu á skyldleika afa.

Þegar ég spurði afa út í þetta á gamals aldri, þá sagði hann; nú skaltu spyrja einhvern annan en mig nafni minn, enda var ættfræði ekki hans helsta áhugamál. Í sóknarmanntölum sést að Magnea Herborg móðir Magnúsar var uppeldissystir Jónbjargar móður afa. Þær voru systradætur, Jónbjörg er sögð tökubarn, fósturdóttir Pálínu Jónsdóttir móður Magneu Herborgar en móðir Jónbjargar hét Guðlaug Þorbjörg.

Pálína þessi var í sóknarmanntölum skráð sem vinnukona hjá Magnúsi Guðmundssyni og Herborgu Jónsdóttur á Ormstöðum í Hallormsstaðaskógi, og síðast Víðilæk í Skriðdal. Þegar ég spurði afa hvers vegna hann hefði verið skírður Magnús, og hvaðan Magnúsar nafnið okkar væri upprunnið, þar sem það var ekki til í hans langfeðratali, þá tiltók hann að mig grunar þennan Magnús.

Í þá tíð var hvorki til siðs að nefna börn út í bláinn né Magnús sérstakt tískunafn. Minnir mig að hann hafa sagt að hann væri nefndur eftir einhverjum Magnúsi á Hallbjarnastöðum, en Víðilækur er út úr Hallbjarnarstöðum og þær systur Pálína, Herborg og Guðlaug voru frá Hallbjarnarstöðum.

Magnús og Herborg áttu eina dóttir, -Björgu, sem dó af fyrsta barni og barnið líka. Nöfn þessa fólks lifa enn innan fjölskyldnanna sem eiga ættir að rekja til þeirra uppeldisystra Jónbjargar og Magneu Herborgar.

Til að enda þessa hugleiðingu og gera langa sögu stutta, um hann nafna minn, -þá á Björg litla systir mín, sem hefur búið í S-Frakklandi rúm 30 ár, son í franska hernum. Hann heitir Remi Paul Magnús. Svona getur nú komið í ljós hvað leiðir nafns liggja víða með einni athugasemd, eða í stuttu símtali um tvær Katrínar.

Magnús Guðmundsson (f.1835 - d.1911) bóndi á Ormsstöðum í Skógum, Herborg Jónsdóttir (f.1848 - d.1931) kona hans og Björg Magnúsdóttir (f.1887 - d.1906) dóttir þeirra.

Myndin á sem festist á desktoppnum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Mikið voru ættfeður vorir áberandi myndarlegt fólk.Mér kom í hug lýsing skálda á einstaklingum og kunni þær svona utan að í minni eftirhermu; Hann var með hátt enni skarpur til augnanna með sterklega kjálka,röddin var ----eins og þokulúður.. nei næ þessu ekki lengur. Elsti sonur minn dundar við ásamt öðrum að nefna/skrifa á netið ásamt öðrumm sjaldgæf íslensk orð.Í gær sendi ég honum orðið "vaðsekkur" og þar áður "skekta"  Taska og árabátur.Menn hafa ofan af fyrir ser á ýmsa vegu;  Mb.Kv.  

Helga Kristjánsdóttir, 30.8.2021 kl. 03:36

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Helga, og takk fyrir innlitið, kjarnyrta athugasemdina og fróðleikinn. Ég hef ekki áður veitt orðinu vaðsekkur eftirtekt. En skekktu hef bæði heyrt, séð og róið.

Fólkið á myndinni urðu ekki ættfeður samkvæmt bókstaflegri merkingu þess orðs, en ef marka má hversu vel nöfn þeirra lifa þá hefur það bæði verið fyrirmyndar fólk og gæða sálir.

Magnús Sigurðsson, 30.8.2021 kl. 06:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband