Dauðadæmdur dæmir til dauða

Stóridómur eru einhver þau hörðustu siðferðislög sem sett hafa verið á alþingi. Sennilega hafa engin lög á landi hér kostað eins mörg mannslíf. Til voru menn sem höfðu uppi burði til að verja sig gegn valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var þá 37 ára ekkja og Jón hafði nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með konu bróður síns. Þessi lagarök munu hafa verið sótt í 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja, sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir væru á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo var komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði, sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka var leyst eftir að fólk hafði verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því boðin okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann var síðar dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varðar, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marteinn Lúter, sem hin evangelísk-lúterska kirkja Íslands kennir sig við, sem sú þýska gerir víst ekki lengur, var vissulega kjarkmikill maður og hamhleypa til allra verka og ekki skorti hann orðkyngina. Eru mörg orðatiltæki hans notuð enn í dag.

Án hans væri heimurinn allt annar. En er víst að hann væri verri? Ómögulegt er að segja nokkuð til um það, þar eru "efin" allt of mörg. En eitt er víst, það var ekki allt fagurt sem úr munni hans kom og sú dómharka sem varð ríkjandi í þeim löndum sem tóku upp "siðbót" hans var án efa í hans anda.

Marteinn Lúter var ekki bara hamheypa, hann var líka harðsvíraður öfgamaður og algerlega miskunnarlaus ganvart óvinum sínum.

Hér er þáttur sem fjallar um hinar "dökku" hliðar Lúters og er þar m.a. vitnað í ummæli hans. Þetta er ensk þýðing á þýskum þætti sem heitir: Martin Luthers dunkle Seite.                          The Dark Side of Martin Luther           

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 12.10.2021 kl. 22:56

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina og tengilinn Hörður. Já vissulega hefur Marteinn Lúter verið áhrifamikill maður, svo mjög að ríkisvaldið tók  siðbót hans upp á sína arma.

Það sem er áhugaverðast þegar þetta tímabil er skoðað er hvað ríkisvaldið varð áhrifamikið í aðalhlutverki, en menn hafa stundum viljað kenna kirkjunnar mönnum um þetta ógnar tímabil stóradóms.

Athyglivert er að á þessum tíma voru sýslumannsembætti til sölu og skaffaði sýslumaður sér tekjur með dugnaði sínum svo lengi sem rentukammerið fékk sitt, sýslumenn sáu bæði um rannsókn mála og kváðu upp dóma, en þurftu að fá dauðadóma framfylgt á alþingi á Þingvöllum.

Sýslumenn virðast ekki alltaf hafa haft mikla þekkingu á lögum enda skipti það ekki öllu máli. Þjóðsagan segir að ævintýra maðurinn Jens Wium hafi keypt sér sýslumannsembætti í Múlasýslum fyrir 200 ríkisdali. Hann var framtaksamur og beitti m.a. dauðadómi.

Fræg urðu Sunnevumálin sem Hans Wium erfði eftir föður sinn ásamt sýslu, og lenti í miklum hremmingum með fyrir alþingi. Þjóðsagan grunar hann um að fullnusta dauðadóminn sjálfur heima í Fljótsdal. Til varð þjóðvísa um þau viðskipti valdsins við lítilmagnann.

Týnd er æra, töpuð er sál,

tunglið veður skýjum;

Sunnevunnar sýpur skál

sýslumaður Wíum.

Magnús Sigurðsson, 13.10.2021 kl. 06:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband