Loddfáfnir, fimbulfambi og flautaþyrill

Nú er ættarsilfrið selt eins og engin sé morgunndagurinn. Innviðirnir fljóta að feigðarósi áður en þeir fjúka úr landi náhirðinni til næringar. Flissandi fábjánar, sem hástemmdir hafa galað um innviðauppbyggingu með skatttekjum og veggjöldum, hafa góða trú á að samkomulag náist um skilyrði sem að tryggja eiga þjóðar­hags­muni í seldu þýfi.

Þetta eru sömu dýrlæknarnir og tryggðu fæðuöryggið um árið með taumlausum innflutningi á sýklalyfjuðu kjöti og eru nánast búnir að gera íslensku suðkindina að safngrip. Þeir keppast nú við að gjaldavæða vegakerfið svo það megi selja það eins og hverja aðra silfurskeið í kjaft vel valinna vina svo þeir geti gert sér gildandi tölur í aflands bókhaldið úr góssinu.

Þjóðin situr síðan uppi með hyskið og snuðið, japlandi á því ásamt Landspítalanum fyrirheitna frá því á síðustu öld, sem flýtur eins og kúkur í lauginni. Að ógleymdri elli ærri karl kvölinni sem enn flýgur af og til á klakann á framfæri þjóðarinnar í félegum félagskap með kolefnissporið strókandi aftanúr rassgatinu og vill leggja frá landinu umhverfisvænan ljósahund.

Hvernig bókhald aflátsábyrgðarskírteinanna, sem seld voru úr silfursettinu, sem hrein endurnýtanleg orka til erlendra auðróna um árið, verða reiknuð í kolefnisbókhaldið er ekki vandi um að spá. Það ætti ekki að fara fram hjá örðum en skaðmenntuðum spekifíflum að loddfáfnir, fimbulfambi og flautaþyrill blakta nú í boði þjóðarinnar á stjórnlausu skerinu eftir uppskrift að utan. Guð blessi Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góðu pistill Magnús.  En einu vil ég bæta við og því miður hefur það ekki vera í umræðunni en getur ekki verið að fólk sé kannski ekki búið að átta sig á því?  Mér finnst nú að það ætti að fara viðvörunarbjöllur af stað, þegar talað er um að LÍFEYRISSJÓÐIRNIR komi til með að fjárfesta í þessu sem nemur 20% í þessu.  MITT SJÓNARHORN Á MÁLIÐ ER AÐ ÞAÐ SÉ VERIÐ AÐ "TÆMA" LÍFEYRISSJÓINA INNAN FRÁ (EINS OG VAR GERT MEÐ BANKANA Í HRUNINU) OG ÞAÐ LÍÐI EKKI NEMA NOKKUR ÁR Í ÞAÐ AÐ ÞAÐ VERÐI TILKYNNT AÐ LÍFEYRISSÓÐAKERFIÐ SÉ HRUNIÐ...............

Jóhann Elíasson, 25.10.2021 kl. 10:17

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mig minnir að ég hafi sett það á bloggið hjá þér nýlega Jóhann, að þegar farið er að gaspra hve frábært lífeyrissjóðakerfi sé þá fari að styttist í að sjóðirnir verði tæmdir.

Almenna lífeyrissjóðakerfið hér á landi er skandall - lögbundinn þjófnaður, eins og allir vita sem hafa eitt ævinni í að greiða í það spilavíti.

Mér kæmi hreint ekki á óvart að þarna sé millileikur við að gambla aflands, og þá að minnstu leiti í þágu sjóðfélaga.

Magnús Sigurðsson, 25.10.2021 kl. 12:52

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég mundi ekki eftir þessari athugasemd frá þér Magnús, þegar ég setti þessa athugasemd hjá þér.  En ég sé að við erum á nákvæmlega sömu blaðsíðunni í þessu, eins og fleiru.  Ef við förum aftur í LÍFEYRISSJÓÐINA, þá get ég ekki séð að fjárfestingar þeirra undanfarið, standist kröfu þeirra um 3,5% ávöxtun  og því er ég nokkuð viss um að það  sé verið að skafa innan úr LÍFEYRISSJÓÐUNUM......

Jóhann Elíasson, 25.10.2021 kl. 13:01

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sjóðir eru ekki fyrir aðra en þá sem hafa tök á því að tæma þá og hafa aldrei verið. Ef einhver getur nefnt eitt dæmi um annað í Íslandssögunni þá myndi ég gleðjast.

Svo ég miði okkur nú einu sinni enn við Noreg, þá eru lífeyrissjóðurinn innfalin í skattinum og greiddur út af ríkinu. Svo máttu leggja til hliðar einhver 2% sem viðbótarsparnað í sjóð með skattaívilnunum.

Þegar þetta er haft í huga eru skattar í Noregi mun lægri en á Íslandi þar sem skyldu áskrift að lífeyrissjóði er 15,5% af launum.

Magnús Sigurðsson, 25.10.2021 kl. 13:10

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Magnús.

Núna er skrifað eins og enginn sé morgundagurinn.

Hvað getur maður sagt??

"Nú er ættarsilfrið selt eins og engin sé morgunndagurinn. Innviðirnir fljóta að feigðarósi áður en þeir fjúka úr landi náhirðinni til næringar. Flissandi fábjánar, sem hástemmdir hafa galað um innviðauppbyggingu með skatttekjum og veggjöldum, hafa góða trú á að samkomulag náist um skilyrði sem að tryggja eiga þjóðar­hags­muni í seldu þýfi.

Þetta eru sömu dýrlæknarnir og tryggðu fæðuöryggið um árið með taumlausum innflutningi á sýklalyfjuðu kjöti og eru nánast búnir að gera íslensku suðkindina að safngrip. Þeir keppast nú við að gjaldavæða vegakerfið svo það megi selja það eins og hverja aðra silfurskeið í kjaft vel valinna vina svo þeir geti gert sér gildandi tölur í aflands bókhaldið úr góssinu.".

Eiginlega ekkert það er ef tilgangurinn er að bæta við meitlaðan texta.

Hins vegar greinir okkur á um vopn þess í neðra, en það er önnur saga.

Keisarans skegg er aldrei issjú þegar enginn tekur á móti.

Þó get ég sagt;

Viska býr í steypunni.

Kveðja að neðan á milli skúra.

Ómar Geirsson, 26.10.2021 kl. 13:11

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri innlitið Ómar, og kveðjuna úr neðra.

Hér í efra, við keisarans skegg, eru þokubólstrar á stöku stað en sól í grennd, -og litlu við það að bæta.  

Nema þá það sem steypukallinn sagði um árið eftir að hann hafði keyrt á Fjallkirkjuna, -"ég hélt að þetta væri þokubólstur góði minn".

Morgunndagurinn mun ekki ríða við einteyming og ólán þjóðarinnar þaðan af síður á stjórnlausu skerinu.

Með kveðju úr móskunni í efra.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2021 kl. 14:48

7 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Já, kallaði ekki Ómar þetta ráðherrabörn? Virðist passa vel. Mjög góður pistill, þar sem tekið er á ástandinu.

 

Ég vil þó gera athugasemd við eitt orð, við höfum báðir mikinn áhuga á Hávamálum, Magnús. Loddfáfnir mun víst ekki merkja skrímsli villunnar eða loddaraskaparins. Loddfáfnir mun merkja "kvenfaðmari", sbr lodda er fornyrði yfir konu almennt, eða svo segir í orðsifjabók Ásgeirs Blöndal, og fáfnir telur hann að hafi merkt þann sem faðmar. Þótt maður leiti á netinu eru menn ekki að finna þessa skýringu hvorki á Íslandi né annarsstaðar. Kannski leita menn ekki nógu djúpt í orðsifjarnar. Hinsvegar passar þetta vel inní Hávamál, þar sem Óðinn er að leggja ungum mönnum lífsreglurnar. 

 

Aftur á móti er ekkert á móti því að nota orðið loddfáfnir í þessari merkingu, því vafalaust eru Hávamál mjög margræð og þessi Loddfáfnir er af sumum talinn Loki sjálfur, "sá í neðra", og er þá komin full réttlæting á notkun orðsins í þessari merkingu.

 

En finnst mér ráðamenn og spillingareinokarar landsins ekkert hafa lært af síðasta hruni. Lokaorð pistilsins eiga mjög vel við, því siglt er hraðbyri í ógöngur.

Ingólfur Sigurðsson, 26.10.2021 kl. 15:16

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Stundum heldur maður eigi sé hægt að bæta við viskuna, en þessi stund var bara afsláttarmiði og maður hugsaði til baka, "ég hefði átt að þegja.".

En þá hefðir þú  líklegast þagað líka.

Ég uppskar, sem og margur annar.

Líkt og ég las í athugasemdum hér fyrir ofan,

Ennþá er kveðjan úr lognmollunni hér að neðan.

Þetta endar kannski í kaffisopa.

Ómar Geirsson, 26.10.2021 kl. 15:38

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Ingólfur, -gaman af henni. 

Varðandi Loddfáfnir, -þá er orðið oft að finna í III þætti Hávamála eins og þú bendir á, -og sjálfsagt hefur Ásgeir Blöndal sótt sína skýringu þangað, þó ég hafi ekki vitað af henni.

Hvað mig varðar þá leynir sér ekki að orðið loddfáfnir er samsett, -úr loddari og Fáfnir.

Loddari er einfaldlega sá sem beitir margvíslegum blekkingum í eigin þágu. Til að átta sig á hver Fáfnir var þarf að lesa Völsungasögu.

Fáfnir var fégræðgin í drekalíki holdi klædd, hann sveik sína nánustu fyrir gullfjársjóð sem Loki hafði greitt Heiðmari föður hans í sonargjöld vegna Oturs.

Það var svo Sigurður Fáfnisbani sem drap Fáfnir með ráðum Regins bróðir þeirra Oturs og Fáfnis.

Ég held mig við mína skýringu á orðinu loddfáfnir, en þakka þér samt fyrir að benda á skýringu Ásgeirs Blöndal.

 Með kveðju úr blíðunni.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2021 kl. 16:13

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, til að segja söguna alla af þokubólstrinum og Fjallkirkjunni þarf kaffisopa.

Sú saga er ekki til á prenti og verður sennilega ekki færð í letur úr þessu.

Með lágskýjuðum kveðjum að ofan.

Magnús Sigurðsson, 26.10.2021 kl. 16:19

11 identicon

Það er kraftur í þessum pistli.

Hafðu þakkir fyrir, meistari Magnús.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.10.2021 kl. 18:16

12 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka kennsluna ........

Jónas Gunnlaugsson, 26.10.2021 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband