15.12.2021 | 05:55
Trjónukrabbabréfið
Það hefur varla farið fram hjá neinum að undafarið hefur ritstuldur átt sviðið í jólabókaflóðinu. Málatilbúnaður þessi nær aftur að landnámi og hafa margir þjóþekktir einstaklingar komið við sögu, Seðlabankastjóri sem þjófur og Svarti víkingurinn sem brotaþoli, svo nýtti Finnbogi nokkur Hermannsson sér sviðsljósið til að auglýsa bók sína um hinn þjósagnakennda Steinólf í Fagradal.
Við það flæktust deilurnar talsvert, því þá var Svarti víkingurinn allt í einu kominn í þjófshlutverkið fyrir að hnupla orðatiltækum Steinólfs frænda síns í skáldsögu frá því 2010, úr bók Finnboga um Steinólf. Það má því segja að huldumaðurinn í allri þessari atburðarás sé eins og málin standa, -Steinólfur.
Svarti víkingurinn bar á Finnboga að hann hefði stolið ævisögu Steinólfs úr búi Þjóðsögu, sem enginn hefði haft umboð yfir, enda væri Finnbogi gjörsneyddur orðsnilld Steinólfs. Um umboð Finnboga til Þjóðsögu eru deilendur ekki sammála. En eins og fram hefur komið var Steinólfur gæddur frumlegri hugsun, eitthvað sem deiluaðilar eru þó sammála um og að Finnbogi hafi ekki til að bera í sama mæli.
Steinólfur Lárusson, bóndi í Fagradal, sendi Pétri Þorsteinssyni, sýslumanni í Dalasýslu, bréf árið 1984 til að vekja athygli á furðuskepnunni trjónukrabba og hvort ekki mætti hugsa sér að veiða dýrið og nýta. Efni bréfsins bar á góma á sýslunefndarfundi og málið komst á rannsóknarstig virtra stofnana í Reykjavík. Bréf þetta var lengi mikið feimnismál innan stjórnsýslunnar og ekki ætlað að koma fyrir almenningssjónir.
Trjónukrabbabréf Steinólfs til yfirvaldsins í Dalasýslu gæti því allt eins orðið merkilegt málsgagn í öllu þessu ritstuldarmáli og síðast, en ekki síst til að varpa ljósi á frumlega hugsun bóndans í Fagradal. Er stafsetning Steinólfs látin halda sér í hér í þessar útgáfu af Trjónukrabbabréfinu, enda var Steinólfur að eigin sögn lítill ufsilonsvinur. Glöggir lesendur greina einnig að Steinólfur sólundaði ekki stórum stöfum í neina vitleysu.
Afskrifað tveim dögum firir Mikjálsmessu 1984. Herra Pétur Þorsteinsson sýslumaður. Alúðar heilsan óskir bestu. Þar sem ég hef sannspurt að þú sért áhugamaður um sjáyargagn og aðra aðskiljanlega náttúru, á, og hér framundan þessum veraldarinnar útnára sem Dalasýsla teljast má vil ég vekja athigli þína á eftirfarandi. Hér framundan láðinu bír ein sérkennileg sjókind bæði djúpt og grunnt, og virðist vera af stjarnfræðilegri stofnstærð en meðal stærð þessa kvikindis sem einstaklings er svipuð og eitt handsápustikki, sava de París, en þó fram mjókkandi og endar í trjónu búkurinn, augu á stilkum svo sem Marsbúar hafa og getur dýrið horft aftur firir sig og fram, og haft ifirsín fyrir báða sína enda jafntímis, leikur frammsóknarmönnum mjög öfund til þessa hæfileika dírsins tvær tennur hefur dírið sína í hvoru munnviki og bítur saman tönnum frá hlið, tennur þessar eru ekki umluktar vörum heldur nokkurskonar fálmurum og brosir dírið þar af leiðandi sífelldlega, og þó heldur kalt til að bera sig um, hefur skepnan 10 fætur og ber kné mjög hærra en kviðinn, það er mjög krikagleitt líkt og hestamenn sem lengi hafa riðið feitu
Ævinlega gengur dírið útá hlið ímist til hægri eða vinstri og virðist vera mjög pólitískt, einnig má það teljast mjög siðferðislega þróað skapnaðarlega þar sem spjald vex firir bligðun þess mjög sléttfellilega, einna líkast skírlífisbeltum ekki verður dírið kingreint af þessum sökum nema með ofbeldi, ef menn vilja hafa einhverjar nitjar af díri þessu er afskaplega örðugt að aflífa það snirtilega, þar sem það sökum síns skapnaðarlags fæst hvorki heingt né skorið skotið eða rotað, því brinja hörð umlikur skepnuna gjörsamlega og er lífseigla þessa dírs með ólíkindum, sé það geimt í haldi á þurru landi mun sultur einn ganga frá því dauðu að því er virðist. bíður það þá örlaga sinna mjög stillilega en þegar því fer að eimast biðin, gefur það frá sérsladdandi hljóð, samskonar sladdandi hljóð mátti heira í baðstofum hér áður firr einkum firripart nætur þegar griðkonur feitar voru gnúðar sem ákaflegast til frigðar.
Bíldrikkur sá er bensín kallast hefur mér reinst einna bestur tilað aflífa þessa skepnu óskemmda í þeim tilgangi að þurka hana innvirðulega og gefa konum í Reykjavík ágætum og ærupríddum, sem ég hef kunningsskap við utanklæða, þær stilla þessari skepnu upp við hliðina á Hallgrími Péturssyni ellegar mind af forsetanum og svo innan um plattana tæplega mun vera vænlegt að veiða skepnu þessa í þeim tilgangi, en ef takast mætti að veiða hana í stórum stíl og upphugsa þokkalega aðferð til að afiífa hana, vaknar sú spurning hvort ekki mætti verka þessa skepnu í dægilega krás tilað selja þjóðum er mér fortalið að Job danskir kaupi og eti ólíklegustu kvikindi og borgi þeim mun meira firir sem skepnan er svipljótari, samkvæmt okkar smekk. Í þessu skini mætti eftil vill biðja dírðarmenn firir sunnan um rannsókn á þessu díri og fá plögg, með línuritum og prósentum, svo sem í eina stresstösku til að birja með Vertu blessaður Steinólfur Lárusson
Svo ekkert fari á milli mála um heiimildir þá var bréf þetta birt í Morgunnblaðinu 1992 undir aflabrögð; https://timarit.is/page/1770258#page/n3/mode/2up
Athugasemdir
"Hvert er hvað og hvurs er hvert" sagði einhver við einhvern, ég get ekki með nokkru móti m unað hver sagði þetta við hvern en fannst vissara að geta þess að ég hafði heyrt þetta einhvers staðar annars gæti ég verið kærður fyrir ritstuld. En það virðist vera vandratað um bókaheiminn í dag en flestir virðast nú enn ganga þar varlega um.......
Jóhann Elíasson, 15.12.2021 kl. 08:06
Mér sýnist Jóhann á með hraðferð um gúuggul að þú sleppir við ritstuld með því að slá um þig með "Hver er hvurs og hvurs er hvað" þetta hefur verið notað m.a. um málþing yfir Íslenskar þjóðsögur og í Fréttabréfi ættfræðifélagsins.
Sennilega ertu samt á gráu svæði með því að gefa ekki upp skothelda heimild fyrir þessum orðum.
Kannski er allt þetta fjaðrafok í bókmenntaheiminum í og með ódýr auglýsingamennska. En mig grunar að Steinólfur hafi ekki skrifað Trjónukrabbabréfið í þeim tilgangi. Hann hafi verið létta mönnum lundina og skaffa stjórnsýslunni verkefni. Setja málið í nefnd, -eða þannig.
Magnús Sigurðsson, 15.12.2021 kl. 13:47
Hér komu fyrir nokkrum áratugum tveir sýslumenn og lásu fyrir hreppstjórann föður minn, téð trjónukrabbabréf. Augljóst var að þeir höfðu verulega gaman af bréfinu.
Ekki kveikti ég þó fyrst í stað að lesa bókina "Einræður Steinólfs..." þegar hún kom út. Endað þó með því að ég gerði það og tel hana eina af bestu ævisögum sem ég hef lesið.
Síðan hafa borist manni ýmsar sögur af Steinólfi eftir ýmsum leiðum og allar góðar.
Maðurinn var frásagnarsnillingur og líka afar frásagnaverður.
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 15.12.2021 kl. 14:47
Þakka þér fyrir þessa frásögn Bjarni, það eru einmitt svona frásagnir sem gefa athugasemdunum gildi. Mér kemur reyndar ekki á óvart að sýslumenn hafi laumast á milli bæja með trjónukrabbabréfið hans Steinólfs.
Oft var ég búin að heyra á þetta bréf minnst án þess að vita hvað það innihélt. Og þó svo að menn segðu þetta með betri húmor sem þeir hefðu heyrt þá treysti sér engin til að hafa það eftir svo vel færi.
Ég prófaði að gúggla trjónukrabbabréfið fyrir þennan pistil og fann það þarna tímarit í Morgunnblaðinu frá því 1992. Trjónukrabbabréfið er náttúrulega rakið dæmi um frumlega hugsun við að létta samferðamönnum sínum lundina.
Magnús Sigurðsson, 15.12.2021 kl. 15:32
Ég var þeirri lukku aðnjótandi að kynnast höfðingjanum Steinólfi nokkuð vel, meðan hann lifði. Kynntist honum fyrst er við tengdapabbi leigðum af honum trillu og héldum við sambandi lengi eftir það. Trillan hét auðvitað Krabbi.
Eitt er víst að hann skemmtir sér konunglega yfir þessu undarlega deilumáli, þegar hann lítur niður til okkar núna.
Gunnar Heiðarsson, 15.12.2021 kl. 19:59
Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Gunnar.
Eins og ég sagði hér að ofan þá eru svona athugasemdir alltaf skemmtilegar, þegar einhver segir frá sem til þekkir.
Sjálfur þekkti ég ekkert til Steinólfs annað en að hann væri sérkennilegur kall á Vesturlandi og Trjónukrabbabréfsins af afspurn.
Eins vissi ég af lestri bókar Bergsveins Birgissonar fyrir 5 árum síðan, Leitin af svarta víkingnum, að Steinólfur frændi hans hefði verið sérstakur.
Þess vegna er alltaf gaman að fá staðfestingar frá þeim sem eitthvað til þekkja, að þetta hafi verið raunverulegur maður sem stóð undir nafni sem einstakur persónuleiki.
Magnús Sigurðsson, 15.12.2021 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.