7.1.2022 | 19:47
Draumur í dós
Undarlegir hafa þeir verið draumar mínir í upphafi árs.
Hríðin stríð svo leita varð vars í skóginum, því þar var örlítið meira skjól. Hentist á harðahlaupum yfir ódáinsakur, til þess eins að ná skógarjaðrinum hinu megin áður en glóruleysið skylli saman og byrgði alla sýn. Visin var á þeim akri uppskeran, en með andvara sumars sem eitt sinn var.
Stóð þétt með fáum í hrímuðum sinumóum, við yl frá konu sem ég þekkti ekki hót. Í fámenni hélt bakleiðis í bæinn. Stóð fyrir framan gamla kaupfélagið, sem nú hafði að geima gróða grið, -til þeirra er vildu komast inn. Horfði úr svalanum inn í gegnum glerið á fjöldann sem þráði heitast að komast út.
Þetta voru reyndar tveir draumar, -en í sömu dós.
Athugasemdir
Mér virðist þú þarna hafa verið draumspakur. Hríðin kann að vera kófið svonefnda sem menn nefna svo, manngert, og uppskeran það sem verður þegar löndin grípa til misgóðra viðbragða.
Já og svo finnst mér merkilegt þetta með óþekktu konuna sem veitti yl. Þannig er náungakærleikurinn svo dýrmætur, þegar hann kemur ekki bara frá þeim sem maður hefur mest samskipti við.
En hver er skógurinn?
Þetta eru merkilegir draumar, sannarlega.
Ingólfur Sigurðsson, 8.1.2022 kl. 01:29
Þakka þér fyrir tilraun til draumráðningar Ingólfur. Umhverfi draumanna var hér fyrir austan þannig að skógurinn var Egilsstaðarskógur og akurinn var þar sem nú er íbúðabyggð, en var hrossagirðing þegar ég fyrst man.
Hrímuðu sinumóarnir og fólkið, sem ég þekkti ekki, voru í tveimur örðum bæjum þar sem ég kannaðist við umhverfið. Mér fannst samhygðin hjá þessum hópi ókunna hópi fólks áþreifanleg í draumnum.
Annars hefur umhverfið s.s. lítið með efni drauma að gera nema þegar maður er berdreyminn og dreymir atburði nokkurnvegin nákvæmlega. Það hefur ekki oft komið fyrir mig, en þó.
Magnús Sigurðsson, 8.1.2022 kl. 08:31
Sæll Magnús.
Í tilefni drauma og hvort þetta geti átt við um þá:
Úr „Fimmtatröð"
„Eilífðartrúin og tímanleg hyggja
turna í himininn byggja.
Gjaldið, sem drýpur í djáknanna hendur,
ber drottins vald yfir Fylkjanna strendur
og borgar jafnt anda sem brauð."
„En enginn tælist af orðum um jöfnuð,
auður og fátækt á hvort sinn söfnuð."
„Ekkert jafnast í jarðar heim
við Jórvík nýju í organhreim
og fésæld á Fimmtu-tröð.*
En einn er sem ræður. í engils mynd
í innsta hjarta berst dyggð við synd,
frá altari gullkálfs að stafkarls stöð."
„Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi
og erindisleysa með dugnaðarfasi.
Þeir trúa með viti í Vesturheim. -
Viltu sjá þjón fyrir herrum tveim,
þá farðu á Fimmtu-tröð."
Höf. Einar Benediktsson.
* „Fifth Avenue", breiðstræti í New York-
borg.
Þetta að lokum e. Heinrich Heine:
„Mit Wehmut erfúllt mich jedesmal
dein Anblick, mein armer Vetter,
Der du die Welt erlösen gewollt,
Wie töricht? du Menschheitsretter!
Sie haben dir übel milgespielt,
die Herren vom hohen Rate.
Wer hiess dich auch reden so rück-
sichtslos
von der Kirche und vom Staate.
Geldwechsler, Bankiers hast du sogar
mit der Peitsche gejagt aus dem Tempel.
Unglücklicher Schwärmer, jetzt
hängst du am Kreuz
als warnendes exempel!
Húsari. (IP-tala skráð) 8.1.2022 kl. 10:03
Þakka þér fyrir þessar ágætu vísur Húsari, þær hef ég ekki séð áður.
Manni koma þeir báðir, Jesú Kristur og Nikola Tesla, til hugar við lestur Fimmtu traðar Einars Benediktssonar, "Ekkert jafnast í jarðar heim við Jórvík nýju í organhreim og fésæld á Fimmtu-tröð. En einn er sem ræður. í engils mynd í innsta hjarta berst dyggð við synd, frá altari gullkálfs að stafkarls stöð".
HeinrichHeine sýnist mér vera alveg kýrskír. Aumkunarvert varð hlutskipti frelsarans eftir að hafa rekið víxlarana úr musterinu. Ef hann endaði til þess eins á því að hanga á krossinum sem ofstækismaður öðrum til viðvörunnar.
Magnús Sigurðsson, 8.1.2022 kl. 11:15
Sæll Magnús.
Hvað niðurlagið varðar þá voru þetta ekki nema 318 fulltrúar sem samþykktu friðþægingarkenningu Páls, minnihluti þeirra sem á þinginu voru og til
viðbótar kenninguna um þríeinan Guð en hún er sem bögglað roð fyrir brjósti mér og reyndar öðrum en Páll á þá kenningu með rentu rentum.
Rétt að hætta þessu áður en bannfæringin ríður yfir!
Húsari. (IP-tala skráð) 8.1.2022 kl. 11:45
Þú átt að gefa út ritgerðasafn Magnús.
Þorsteinn Siglaugsson, 9.1.2022 kl. 22:14
Þakka þér fyrir Þorsteinn, en það yrði bara kostnaður.
Magnús Sigurðsson, 10.1.2022 kl. 06:17
Sæll Magnús.
Þingið* Hér er átt við þingið í Nikeu
árið 325 sem eflaust er flestum ferskt í minni!
Húsari. (IP-tala skráð) 10.1.2022 kl. 18:29
Fersku minni segirðu Húsari, -já er þetta ekki þingið þegar trúar-kenning Krists var gerð að brögðum? Páll sagðist hafa umboð til þess, ef ég man rétt.
Magnús Sigurðsson, 10.1.2022 kl. 19:19
Sæll Magnús.
Það er um þann stað
eins og það
er rösklega er riðið í hlað
rétt um sólarlagsbil.
Það er nú líklegast til!
Húsari. (IP-tala skráð) 10.1.2022 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.