18.2.2022 | 21:21
Hjaðningavíg femínismans
Íslenskan á orð yfir margt sem geymir hulda sögu. Má þar t.d. nefna Kænugarð og Garðaríki sem hátt fara í fréttum þessa dagana. Samkvæmt íslenskum sagnaarfi var Kænugarður eitt af höfuðbólum Ruzía. Það er fleira forvitnilegt í fornsögunum sem á skírskotun til nútímans. Til dæmis má ætla að staða konunnar hafi verið allt önnur í heimi heiðninnar en kristninnar.
Völsungasaga hefur frá æsku verið síðuhöfundi hugleikinn, og ekki hefur áhugin minnkað með árunum. Sagan segir frá heimsmynd, sem var á hverfanda hveli, og frá atburðum sem ekki fyrirfinnast í hinni opinberu mankynssögu. Hægt er að átta sig á því að sögusviðið nær frá Asíu til V-Evrópu. Sagt er frá orrustum þar sem liðsöfnuðurinn kom um Njörvasund og náði allt til Héðinseyjar. Ljóst er við lestur sögunnar að þarna hafa farið fram mikil og stór uppgjör.
Það er einnig ljóst að með Njörvasundum er átt við Gílbraltar. En hvar var Héðinsey og hvers vegna hafði hún það nafn? Í Göngu-Hrólfs sögu má finna þennan texta; Menelaus er konungr nefndr. Hann réð fyrir Tattararíki. Hann var ríkr konungr ok mikill fyrir sér. Tattararíki er eitt kallat mest ok gullauðgast í Austrríki. Þar eru menn stórir ok sterkir ok harðir til bardaga. Undir Menelaus konung lágu margir konungar ok mikils háttar menn.
Svá er sagt, at milli Garðaríkis ok Tattararíkis liggr ey ein, er Heðinsey heitir. Hún er eitt jarlsríki. Þat er fróðra manna sögn, at Heðinn konungr Hjarrandason tæki fyrst land við þá ey, er hann sigldi til Danmerkr af Indíalandi, ok þaðan tók eyin af honum nafn síðan. Um þessa ey stríddi jafnan Tattarakonungr ok Garðakonungr, ok þó lá hún undir Tattarakrúnu.(Göngu-Hrólfs saga 17. kafli)
Wikipedia segir um Menelaus konung; In Greek mythology, Menelaus was a king of Mycenaean Sparta, the husband of Helen of Troy, and the son of Atreus and Aerope. Trója var á vesturströnd Tyrklands þannig má ætla að Tattararíki sé þar sem nú er Grikkland / Tyrkland. Upp frá Svartahafi lá svo Garðaríki, -siglingaleið upp í Eystrasalt, -Mikligarður kallast Istanbul í dag, Kænugarður þar sem nú heitir Kiev og Hólmgaður þar sem nú er Novgorod upp undir St Pétursborg.
Á milli Tattararíkis og Garðaríkis er Svartahaf með Krímskaga, sem samkvæmt sögunum hefur þá heitið Héðinsey ef marka er textann í Göngu-Hrólfs sögu. En hver var þá þessi Héðinn Hjarrandason? Um þann Sýrlenska sjóræningja má lesa í Sörla þætti eða Héðins sögu og Högna. Þar er engin smá saga sögð, því þar má finna hupphafið af látlausu stríði milli þeirra sem helst af öllu ættu að standa saman, -svokallaðra hjaðningavíga, -Héðinsvíga.
Sörla þáttur hefst á þesssum orðum: Fyrir austan Vanakvísl í Asía var kallat Asíaland eða Asíaheimr, en þat fólk var kallat Æsir, er þar byggðu, en höfuðborgina kölluðu þeir Ásgarð. Óðinn var þar nefndr konungr yfir. Þar var blótstaðr mikill. Njörð ok Frey setti Óðinn blótgoða. Dóttir Njarðar hét Freyja. Hún fylgdi Óðni ok var friðla hans. Menn hafa getið sér þess til að Vanakvísl sé það fljót sem nú er kallað Don í suður Rússlandi og Ásgarður hafi því verið austan við Krímskaga og Don c.a. þar sem Rostov-on-Don er nú, en þar lék íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í lokakeppni HM 2018.
Sörlaþáttur segir frá því hvernig Freyja eignaðist Brísingamenið, sem dvergarnir smíðuðu, með því að sofa eina nótt hjá hverjum þeirra. Óðinn fékk Loka til að rannsaka málið og ná af henni meninu. Þegar Freyja kom til að endurheimta það sagði Óðinn; at hún skal þat aldri fá, svá at eins hefir hún at því komist, - "nema þú orkir því, at þeir konungar tveir, at tuttugu konungar þjóna hvárum, verði missáttir ok berist nieð þeim álögum ok atkvæðum, at þeir skulu jafnskjótt upp standa ok berjast sem þeir áðr falla, utan nokkurr maðr kristinn verði svá röskr ok honum fylgi svá mikil gifta síns lánardrottins, at hann þori at ganga í bardaga þeira ok vega með vápnum þessa menn. Þá it fyrsta skal þeira þraut lyktast, hverjum höfðingja sem þat verðr lagit at leysa þá svá ór ánauð ok erfiði sinna fárligra framferða." -Freyja játtaði því ok tók við meninu.
Um þann kristna mann, sem lauk tímum Hjaðningavíga Freyju, má lesa í lok Sörlaþáttar. Nú má segja sem svo að öld kristninnar með sínum hrútaskýringum og feðraveldi sé runnin sitt skeið og öld feminsismans sé runnin í garð. Vonandi auðnast mannkyninu að beita öðrum meðulum en Freyju þegar hún endurheimti sitt Brisingamen.
Athugasemdir
Forfaðir undirritaðs í 33. ættlið, Haraldur III. Noregskonungur harðráði, var karl í krapinu, annað en vesalingarnir í Sjálfstæðisflokknum í alltof þröngum bláum jakkafötum og aldrei hafa migið í saltan sjó.



Haraldur harðráði fæddist árið 1015 og var foringi Væringja í Miklagarði, sem var stærsta borg Evrópu og síðar Istanbúl í Tyrklandi.
Hann þurfti ekki Viagra til að herða jarl sinn eins og skjólstæðingar Elínrósar Svíndal í Mogganum.
Haraldur barðist úti um allar koppagrundir við Miðjarðarhafið, til að mynda á Sikiley, sem nú tilheyrir Ítalíu. En nú þurfa menn ekki annað en að liggja eins og útflattir þorskar á sólarströnd til að fá myndir birtar af sér í Mogganum.
Haraldur harðráði var foringi í her Jarisleifs í Kænugarði í Garðaríki og veturinn 1043-1044 kvæntist hann dóttur Jarisleifs, prinsessunni Elísabetu.
Systur hennar giftust einnig evrópskum konungum, Anastasía Andrési I. konungi Ungverjalands og Anna Hinriki I. konungi Frakklands.
Haraldur harðráði var konungur Noregs á árunum 1046-1066 en karlinn féll í orrustunni við Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge) í Englandi 25. september 1066, sem margir sagnfræðingar telja lok Víkingaaldar.
Slavnesku orðin grad og gorod (til dæmis í Leningrad og Novgorod) eru skyld íslenska orðinu garður og enska orðinu garden.
Í íslensku merkir orðið garður bæði vegg og svæðið innan veggjarins en margir bæir og borgir voru fyrst virki, til dæmis til að verja verslunarleiðir í Garðaríki.
Þorsteinn Briem, 19.2.2022 kl. 09:58
Þakka þér fyrir þessa ágætu sögustund Steini. Ekki nóg með það, í Miklagarði var Grettis Ásmundarsonar hefnt eftir ódæðið úti í Drangey heldur betur og vasklegar. Þegar Þorsteinn drómundur bróðir hans sneið höfuðið af Þorbirni öngli með saxi Grettis, -Kársnaut. Eftir að báðir höfðu gerst málaliðar Væringja.
Já, þeir eru ekki merkilegir íslensku utanríkisráðherrarnir þessi árin, frekar en borgastjórarnir. Annaðhvort eins og útvatnaður saltfiskur á skíðum eða rafmagnslaus drusla á sléttum túttum í ófærðinni. Við megum muna okkar fífil fegurri, en ekki vissi ég þetta með dætur Jarislefs í Kænugarði. Þar liggur sennilega hundurinn grafinn.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2022 kl. 11:51
Þakka þér fyrir Magnús Sigurðsson og þér Þorsteinn Briem. Hafið þið heiður af.
Egilsstaðir, 19.02.2022 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 19.2.2022 kl. 15:00
Aldeilis stórskemmtilegur og fróðlegur pistill og athugasemdir góðar.
Eitt vil ég þó nefna og það er að það hafði alveg farið fram hjá mér að Ilionskviða Hómers (um þá Akkiles, Hektor, Menelás og Helenu fögru og alla guðasúpu grísku goðafræðinnar) og Göngu-Hrólfs saga tengdust á þann hátt sem þú bendir óyggjandi á. Virkilega áhugavert, finnst mér.
Hafðu miklar þakkir fyrir eftirtektarverðan fróðleikinn.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.2.2022 kl. 15:58
Þakka ykkur fyrir góðar athugasemdir Jónas og Símon Pétur. Ekki hafði ég áttað mig á því heldur hvernig Hómer kemur við sögu íslendingasagnanna og Úkraínudeilunnar fyrr en á er bent.
Íslendingar munu jú flestir hverjir ver komnir út af Göngu-Hrólfi þó svo að hann hafi aldrei til Íslands komið svo vitað sé, þó svo Hrollaugur bróðir hans hafi numið Hornafjörð.
Hins vegar kom Kaðlín dóttir Göngu-Hrólfs með föruneyti Auðar djúpúðgu og út af henni eiga Íslendingar langfeðratal. Inn í það getur náttúrulega hver og einn mátað sig með því að fara inn á Íslendingabókina hans Kára.
Ef svo Ynglingatali Snorra er bætt aftan við Íslendingabók, þá má rekja langfeðratalið nafn fyrir nafn aftur til Ásgarðs, væntanlega í grennd við Rostov on Don. Og það sem meira er, að Vanir sem gengu til lags með Ásum eru taldir vera þeir sem um er getið í Illionskviðu Homers.
Íslendingar eru auk þess Skjöldungar í gegnum Völsunga, langflestir komnir út af Sigurði Fáfnisbana í gegnum Áslaugu kráku og son hennar Sigurð orm í auga, einhverjir þó Björn járnsíðu.
Það er sem sagt ekki leiðum að líkjast og ekki versna ættartölurnar við þær upplýsingar sem Steini Briem kemur með hér að ofan um hann Jarislef í Kænugarði.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2022 kl. 17:52
Takk fyrir svarið í athugasemd þinni, Magnús.
Já, þetta er aldeilis magnað og hefur alltof lítill gaumur verið þessu gefinn, hin síðari árin og áratugi. Þar kemur til einhver undarleg háskólapólitík þunnvitra sagnfræðinga og prófessora og ráðherra. Að maður minnist nú ekki á Bessastaðaflónið. Betra væri að halda friðinn og grufla smá og grúska, sem við aðhöfumst hér, svo sem hvaðan við komum og hvert við stefnum, í stað þess að hlaupa sem blábjánar fram á þann Heljarslóðavöll sem allt stefnir í.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.2.2022 kl. 18:52
Já ég er sammála Símon Pétur, að við eigum að halda friðinn við mann og mús, sú hefur verið arfleið Íslands til þessa. Latínu liðið læst ekkert vita, er hrætt um að verða álitið álfar, en eru náttúrulega bara bjálfar.
Forsetinn bjálfinn, ásamt landráðaliði stjórnsýslunnar, var það stór upp á sig að geta ekki einu sinni stutt íslenskt knattspyrnulandslið í Rostov on Don (og þá sennileg ekki heldur í sjálfum Ásgarði) þrátt fyrir að það væri í fyrsta og eina skipti sem Ísland hefur komist á úrslitakeppna HM karla.
Íslendingar ættu að koma sér upp lengra fundarborði við að fronta bjálfana en Rússar notuðu á fundi Putins og Macron í Úkraínudeilunni.
Magnús Sigurðsson, 19.2.2022 kl. 19:25
Takk fyrir svarið í athugasemd, Magnús.
Tek heils hugar undir orð þín um Thorlacíusinn.
Mér virðist að það mæri þann garm enginn
af moggabloggurum, nema ESB-Björn, Engeyingur.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 19.2.2022 kl. 21:10
Haraldur harðráði réðst að baki Haralds Guðinasonar með innrás sinni við Stafnfurðubrú, þegar nafni hans beið Vilhjálms bastarðar við Ermarsund. Í orustunni við Stafnfurðubrú fékk Haraldur harðráði ör í hálsinn og féll. Em með þessu athæfi sínu mun hann óbeint hafa orðið valdur að því að bastarðurinn sigraði í orustunni við Hastings.
En ekki munu endalok Vilhjálms hafa verið sérlega glæsileg samkv. því sem hér kemur fram: History's Most Disturbing Funeral: William the Conqueror
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 19.2.2022 kl. 22:42
Engeyingnum hefur ekki oft tekist annað en vaða villu og svima, helst þó þegar hann stundaði Falum gong leikfimina. Honum var var nú reyndar fljótlega kippt heim af hólnum með þær æfingar ef ég man rétt, eða um leið og Kínverski kommúnistaflokkurinn fór að breiða út sinn mannréttindafögnuð vestur um heim í upphafi nýrrar aldar.
Já vel á minnst Hörður, bastarðurinn var víst afkomandi Göngu-Hrólfs rétt eins og við, og ef ég fer rétt með þá er Vilhjálmur talin ættfaðir núverandi slektis á Bretlandi. Gott ef ekki einn Vilhjámurinn taki við áður en hann verður allur.
Reyndar blæs ekki billega fyrir Andrési frænda, ekki frekar en íslensku fótboltastrákunum okkar sem mega varla kasta af sér vatni orðið án þess að femínista bullurnar fari hamförum á öldum ljósvakans.
Hvað verður til að stoppa hjaðningavígin sem nú eru í uppsiglingu er ekki gott um að spá. Allt lítur út fyrir að skepnan hafi ákveðið að svo skuli böl bæta með því að búa til annað verra.
Ekki líst mér á að elliærir Biden og Putin ásamt allri heilu helvítis náhirðinni takist að laga nokkurn skapaðan hlut með því að kokka upp gömul trix í Úkraínu.
Kannski verður það bara blessunin hún Túnberg og hennar kynslóð sem verður bjargvætturinn, ef hún kemst þá til vits og ára áður en hún verður sprautuð niður í öllu pestar fárinu.
Magnús Sigurðsson, 20.2.2022 kl. 07:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.