17.4.2022 | 06:27
Svaðalegar kerlingabækur
Þetta er svaðalegt var stundum sagt og er kannski sagt enn. Er þá átt við svakalegt, hrikalegt eða eitthvað verulega slæmt. En hvaðan er svaðalegt upprunnið? Um upprunann má lesa í fyrstu hallærum íslandssögunnar.
Árin skömmu fyrir 1000 voru slæm hallærisár með hörðum vetrum. Veturinn 975-976 var talin harðastur á þjóðveldisöld, þó svo að fleiri slæmir kæmu fyrir árþúsundamótin. Vildu sumir meina að þessi hallæri hafi flýtt fyrir kristnitöku á Íslandi.
"þá átu menn hrafna og melrakka, og mörg óátan ill var étin. En sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir og drepnir. Þá vógust skógarmenn sjálfir, því það var lögtekið að ráði Eyjólfs Valgerðarsonar, að hver frelsti sig, sá er þrjá dræpi seka". (viðauki Skarðsbókar)
Í Svaða þætti og Arnórs kerlingarnefs kemur glöggt fram hversu harðneskjan var mikil, en þar tókust á tveir pólar, -harkan og gæskan. -Gleðilega páska.
- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -
Mikil og margföld er miskunn allsvaldanda guðs í öllum hlutum og háleitur hans dómur er hann lætur öngan góðgerning fyrirfarast heldur kallar hann elskulegri mildi þá sem eigi kunna hér áður til að nema, skynja og skilja, dýrka og elska sinn lausnara sem vor herra Jesús Kristur, lifandi guðs son, hefir sýnt í mörgum frásögnum þó að vér munum fár tína. Svo sem yfirboðan miskunnar tilkomu og fullkomins kristindóms á Íslandi sýnir guð í þeim frásögnum sem eftir fara að hann styður og styrkir hvert gott verk þeim til gagns er gera en hann ónýtir og eyðir illsku og grimmd vondra manna svo að oftlega fyrirfarast þeir í þeim snörum er þeir hugðu öðrum.
Nokkuru eftir utanferð Friðreks biskups og Þorvalds Koðránssonar gerðist á Íslandi svo mikið hallæri að fjöldi manns dó af sulti. Þá bjó í Skagafirði nokkur mikilsháttar maður og mjög grimmur er nefndur er Svaði, þar sem síðan heitir á Svaðastöðum.
Það var einn morgun að hann kallaði saman marga fátæka menn. Hann bauð þeim að gera eina mikla gröf og djúpa skammt frá bæ sínum við almannaveg. En þeir hinir fátæku urðu fegnir ef þeir mættu hafa amban erfiðis síns með nokkuru móti og slökkva sinn sára hungur. Og um kveldið er þeir höfðu lokið grafargerðinni leiddi Svaði þá alla í eitt lítið hús.
Síðan byrgði hann húsið og mælti síðan til þeirra er inni voru: "Gleðjist þér og fagnið þér því að skjótt skal endir verða á yðvarri vesöld. Þér skuluð hér búa í nótt en á morgun skal yður drepa og jarða í þeirri miklu gröf er þér hafið gert."
En er þeir heyrðu þann grimma dóm fyrir sitt starf, er þeim var dauði ætlaður, síðan tóku þeir að æpa með sárlegri sorg um alla nóttina. Þar bar svo til að Þorvarður hinn kristni, son Spak-Böðvars, fór þá sömu nátt upp um hérað að erindum sínum en leið hans lá allsnemma um morguninn hjá því sama húsi er hinir fátæku menn voru inni. Og er hann heyrði þeirra grátlegan þyt spurði hann hvað þeim væri að angri.
En er hann varð vís hins sanna mælti hann til þeirra: "Vér skulum eiga kaup saman ef þér viljið sem eg. Þér skuluð trúa á sannan guð þann er eg trúi á og gera það sem eg segi fyrir. Þá mun eg frelsa yður héðan. Komið síðan til mín ofan í Ás og mun eg fæða yður alla."
Þeir sögðu sig það gjarna vilja. Tók Þorvarður þá slagbranda frá dyrum en þeir fóru þegar fagnandi með miklum skunda ofan í Ás til bús hans.
En er Svaði varð þessa var varð hann harðla reiður, brá við skjótt, vopnaði sig og sína menn, riðu síðan með öllum skunda eftir flóttamönnum. Vildi hann þá gjarna drepa en í annan stað hugsaði hann að gjalda grimmu sína svívirðu er hann þóttist af þeim beðið hafa er þá hafði leysta. En hans illska og vondskapur féll honum sjálfum í höfuð svo að jafnskjótt sem hann reið hvatt fram hjá gröfinni féll hann af baki og var þegar dauður er hann kom á jörð. Og í þeirri sömu gröf er hann hafði fyrirbúið saklausum mönnum var hann sjálfur, sekur heiðingi, grafinn af sínum mönnum og þar með hundur hans og hestur að fornum sið.
En Þorvarður í Ási lét prest þann er hann hafði með sér skíra hina fátæku menn er hann hafði leyst undan dauða og kenna þeim heilug fræði og fæddi þá þar alla meðan hallærið var.
Það segja flestir menn að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi skírður verið af Friðreki biskupi en Gunnlaugur munkur getur þess að sumir menn ætla hann skírðan verið hafa á Englandi og hafa þaðan flutt við til kirkju þeirrar er hann lét gera á bæ sínum. En móðir Þorvarðs Spak-Böðvarssonar hét Arnfríður, dóttir Sleitu-Bjarnar, Hróarssonar. Móðir Sleitu-Bjarnar var Gróa Hrafnsdóttir, Þorgilssonar, Gormssonar hersis, ágæts manns úr Svíþjóð. Móðir Þorgils Gormssonar var Þóra dóttir Eiríks konungs að Uppsölum. Móðir Herfinns Eiríkssonar var Helena dóttir Búrisláfs konungs úr Görðum austan. Móðir Helenu var Ingibjörg systir Dagstyggs, ríks manns.
Á þeim sama tíma sem nú var áður frá sagt var það dæmt á samkomu af héraðsmönnum, og fyrir sakir hallæris og svo mikils sultar sem á lá var lofað að gefa upp fátæka menn, gamla, og veita öngva hjálp, svo þeim er lama var eða að nokkuru vanhættir og eigi skyldi herbergja þá. En þá knúði á hinn snarpasti vetur með hríðum og gnístandi veðrum.
Þá var mestur höfðingi út um sveitina Arnór kerlingarnef er bjó á Miklabæ í Óslandshlíð. En er Arnór kom heim af samkomu þessi þá gekk þegar fyrir hann móðir hans, dóttir Refs frá Barði, og ásakaði hann mjög er hann hafði orðið samþykkur svo grimmum dómi. Tjáði hún fyrir honum með mikilli skynsemd og mörgum sannlegum orðum hversu óheyrilegt og afskaplegt það var að menn skyldu selja í svo grimman dauðann föður sinn og móður eða aðra náfrændur sína.
"Nú vit það fyrir víst," segir hún, "þó að þú sjálfur gerir eigi slíka hluti þá ertu með öngu móti sýkn eða hlutlaus af þessu glæpafullu manndrápi þar sem þú ert höfðingi og formaður annarra, ef þú leyfir þínum undirmönnum að úthýsa sínum feðginum eða frændum nánum í hríðum og jafnvel þó að þú leyfir eigi ef þú stendur ekki í mót með öllu afli slíkum ódáða."
Arnór skildi góðfýsi móður sinnar og tók vel ásakan hennar. Gerðist hann þá mjög áhyggjufullur hvað er hann skyldi að hafast. Tók hann þá það ráð að hann sendi þegar í stað sína menn um hina næstu bæi að safna saman öllu gamalmenni því er út var rekið og flytja til sín og lét þar næra með allri líkn.
Annan dag stefndi hann saman fjölda bónda.
Og er Arnór kom til fundarins mælti hann svo til þeirra: "Það er yður kunnigt að vér áttum fyrir skömmu almennilega samkomu. En eg hefi síðan hugsað af sameiginlegri vorri nauðsyn og brotið saman við þá ómannlegu ráðagerð er vér urðum allir samþykkir og gáfum leyfi til að veita líftjón gamalmenni öllu og þeim öllum er eigi mega vinna sér til bjargar með því móti að varna þeim líflegri atvinnu. Og hirtur sannri skynsemd iðrast eg mjög svo illskufullrar og ódæmilegrar grimmdar. Nú þar um hugsandi hefi eg fundið það ráð sem vér skulum allir hafa og halda. Það er að sýna manndóm og miskunn við mennina svo að hver hjálpi sínum frændum sem hver hefir mest föng á, einkanlega föður og móður og þar út í frá, þeir sem betur mega fyrir sulti og lífsháska, sína aðra náfrændur. Skulum vér þar til leggja allan vorn kost og kvikindi að veita mönnum lífsbjörg og drepa til hjálpar vorum frændum faraskjóta vora heldur en láta þá farast af sulti svo að engi bóndi skal eftir hafa meira en tvö hross. Svo og eigi síður sá mikli óvandi er hér hefir fram farið að menn fæða fjölda hunda svo að margir menn mega lifa við þann mat er þeim er gefinn. Nú skal drepa hundana svo að fáir eða öngir skulu eftir lifa og hafa þá fæðu til lífsnæringar mönnum sem áður er vant að gefa hundunum. Nú er það skjótast af að segja að með öngu móti leyfum vér að nokkur maður gefi upp föður sinn eða móður, sá er með einhverju móti má þeim hjálpa en sá er eigi hefir lífsnæring til að veita sínum náfrændum eða feðginum, fylgi hann þeim til mín á Miklabæ og skal eg fæða þá. En hinn er má og vill eigi hjálpa hinum nánustum frændum þá skal eg grimmu gjalda með hinum mestum afarkostum. Nú þá mínir kærustu vinir og samfélagar heldur en undirmenn, fremjum í alla staði manndóm og miskunn við vora frændur og gefum ekki færi til óvinum vorum því oss að brigsla að vér gerum með of mikilli fávisku við vora náunga svo ómannlega sem á horfist. Nú ef sá er sannur guð er sólina hefir skapað til þess að birta og verma veröldina og ef honum líkar vel mildi og réttlæti sem vér höfum heyrt sagt þá sýni hann oss sína miskunn svo að vér megum prófa með sannindum að hann er skapari manna og að hann megi stjórna og stýra allri veröldu. Og þaðan af skulum vér á hann trúa og öngan guð dýrka utan hann einn saman ríkjanda í sínu valdi."
Og er Arnór hafði þetta talað þá var þar Þorvarður Spak-Böðvarsson við staddur og segir svo: "Það er nú sýnt Arnór að sá hinn sami guð er þú kvaddir að þínu máli hefir sinn helgan anda sent í þitt brjóst til að byrja svo blessaðan manndóm sem þú hefir mönnum nú tjáð í tölu þinni og það hygg eg ef Ólafur konungur hefði þig heyrt slík orð segja að hann mundi gera guði þakkir og þér fyrir svo fagran framburð og því trúi eg að þá er hann spyr þvílíka hluti að hann verði forkunnar feginn og víst er oss það mikill skaði að vér skulum hann eigi mega sjá eða heyra hans orð sem mér þykir ugganda að hvorki verði."
En er allir þeir er þar voru saman komnir létu sér þetta allt vel viljað er hann hafði talað þá slitu þeir með því þinginu. Þá var hinn snarpasti kuldi og frost sem langan tíma hafði áður verið og hinir grimmustu norðanvindar en svelli og hinu harðasta hjarni var steypt yfir jörð svo að hvergi stóð upp. En á næstu nótt eftir þennan fund skiptist svo skjótt um með guðlegri forsjá að um morguninn eftir var á brottu allur grimmleikur frostsins en kominn í staðinn hlær sunnanvindur og hinn besti þeyr. Gerði þaðan af hæga veðráttu og blíðar sólbráðir. Skaut upp jörðu dag frá degi svo að af skömmu bragði fékk allur fénaður nógt gras af jörðu til viðurlifnaðar. Glöddust þá allir menn með miklum fagnaði er þeir höfðu hlýtt því miskunnar ráði er Arnór hafði til lagt með þeim og tóku þegar í mót svo nógan velgerning guðlegrar gjafar að fyrir þá skyld gengu allir þingmenn Arnórs, karlar og konur, fljótt og feginsamlega undir helga siðsemi réttrar trúar með sínum höfðingja er þeim var litlu síðar boðið því að á fárra vetra fresti var kristni lögtekin um allt Ísland.
Arnór kerlingarnef var son Bjarnar Þórðarsonar frá Höfða. Móðir Bjarnar hét Þorgerður, dóttir Þóris ímu og Þorgerðar dóttur Kjarvals Írakonungs. Höfða-Þórður var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hróks, Áslákssonar, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar.(Svaða þáttur og Arnórs kerlingarnefs)
Málsháttur páskaeggsins þessa páska er; "Bregður ávexti til rótar".
Flokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 08:24 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög páskalegur boðskapur og við hæfi á þessum degi, Magnús. Sérstaklega finnst mér merkilegt að lesa um hallærin sem urðu fyrir kristnitökuna. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að rifja upp það sem dr. Helgi Pjeturss, jarðvísindamaðurinn snjalli skrifaði um þetta. Hann talaði jákvætt um heiðnina áður en hún komst aftur í tízku á Íslandi. Hann hélt því fram að veðurfarið hafi versnað út af kristninni og taldi samband við gömlu goðin myndi bæta veðurfarið.
En þessir hörðu vetur fyrir kristnitökuna hafa mögulega flýtt fyrir kristnitökunni. Merkilegt er það einnig að miklar jarðhræringar og gos urðu þegar Snorri og fleiri meistarar skrifuðu sín rit og á þegar Íslendingasögurnar voru ritaðar.
Það má spyrja sig hvort umbrotatímarnir í jörðinni núna beri líka með sér einhverjar breytingar á menningunni, kannski minni áhrif auðrónanna, sem myndi vita á gott.
En allir ættu að geta verið sammála um að gleðjast yfir vorkomunni, sem er sennilega sú hátíð sem heiðnir menn héldu uppá, og breyttist í páskana.
Það er huggun harmi gegn, að grimmd mannanna á okkar tímum er ekki meiri en hún var áður.
Gleðilega páska, sömuleiðis.
Ingólfur Sigurðsson, 17.4.2022 kl. 15:50
Hér á Íslandi komu landnámsmenn frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Skotlandi og Írlandi og íbúar þessara landa hafa væntanlega fengið fréttir af eldgosum hér á Íslandi frá landnámsmönnum í ferðalögum á milli til að mynda Íslands og Noregs.
En þrátt fyrir þessar fréttir fluttu margir íbúar þessara landa einnig hingað til Íslands.
Og íbúar Norður-Evrópu, til að mynda kristnir landnámsmenn hér á Íslandi, hafa væntanlega einnig frétt af eldgosum í Etnu og Vesúvíusi, skammt frá páfanum í Róm.
"Í þann mund sem fyrstu landnámsmennirnir settust hér að var nýlokið eða um það bil að ljúka stórgosi að Fjallabaki, nánar tiltekið þar sem nú heita Vatnaöldur.
Opnaðist þar a.m.k. 10 km löng sprunga sem spýtti úr sér 3,3 km3 af gjósku auk lítilræðis af hrauni.
Í þessu gosi myndaðist hið svokallaða "landnámslag" sem er tvílitt gjóskulag ættað úr þessu gosi og gosi sem varð samtímis í Torfajökulskerfinu."
"Öskufall varð töluvert um allt land nema á Vestfjörðum og hefur áreiðanlega víða valdið skemmdum á grónu landi."
Vatnaöldur 870
Katla - Eldgjá 934
Þorsteinn Briem, 17.4.2022 kl. 17:53
Staðfest eldgos í Vesúvíusi skammt frá borginni Napólí á Ítalíu eftir árið 79, þegar borgin Pompei eyddist í eldgosi, voru árin 203, 472, 512, 787, 968, 991, 999, 1007, 1036 og 1631 en eftir það hefur eldvirknin í fjallinu verið nokkuð sífelld.
Napólí er þriðja stærsta borg Ítalíu með rúmlega 1,3 milljónir íbúa og á stórborgarsvæðinu búa tæplega 4,5 milljónir en borgin er um 2.500 ára gömul.
Og skammt fyrir norðan Napólí er borgin Róm, þar sem um 2,5 milljónir manna búa. Róm var til forna höfuðborg rómverska heimsveldisins, menningarleg höfuðborg Miðjarðarhafssvæðisins og kölluð borgin eilífa.
Etna er á austurströnd Sikileyjar og hæsta virka eldfjall Evrópu, um 3.350 metra hátt. Fjallið hefur verið virkt í meira 2,5 milljónir ára og fá eldfjöll í heiminum eiga eins langa skráða gossögu, allt aftur til ársins 1500 fyrir Krist.
Eldgos í Etnu hafa kostað mannslíf, enda er töluverð byggð við rætur og í neðri hlíðum fjallsins, þar sem jarðvegur er frjósamur og skilyrði til ræktunar góð eins og undir Eyjafjöllum, þar sem nú er kornrækt á Þorvaldseyri.
Og hér var töluverð kornrækt á Reykjanesskaganum á Landnámsöld.
"Gjóskan fer fljótt ofan í svörðinn og þegar hún er komin ofan í svörðinn er hún orðin hinn besti áburður og sprettan er yfirleitt betri eftirá.
Þetta eru mjög góð efni í svörðinn og því er íslenskur jarðvegur eins frjósamur og hann er," sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í Kastljósi 20. apríl 2010.
Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum - Mynd
Þorsteinn Briem, 17.4.2022 kl. 17:56
Eigðu góða páska Ingólfur, og þakka þér fyrir þetta innihaldsríka innlegg.
Gaman að þú skulir vitna svona í jarðvísindamanninn Helga Pjeturs, þó svo að ég hafa ekki lesið mikið eftir hann, á það inni.
Mér varð hugsað til landvættanna í dag úti í góða veðrinu og vorinu. Hversu vandmeðfarið er að ákalla þá og hugsaði þá m.a. til íslenska karla landsliðsins í fótbolta.
Það má segja að allt hafi farið að ganga á afturfótunum upp úr því að KSÍ kynnti nýtt merki með landvættum Íslands og myndbandið sem því fylgdi, sem var um þjóðleg minni.
Nú á tímum virðist ekki vel liðið að halda fram þjóðlegum gildum, jafnvel íslenskan á verulega í vök að verjast í pólitíska réttbúnaðinum. Meðan sá röndótti blaktir í opinberum flaggstöngum um fram þann bláa. Landsliðsfyrirliðinn þar að auki að verðabúin að afplána árs stofufangelsi í Englandi fyrir ókunnar sakir.
Það þarf því engum að koma á óvart að landvætta áminning KSÍ hafi mætt mótspyrnu rattrúnaðarins. Þær leiklistir sem við höfum fyrir augunum í fjölmiðlum þessa dagana eru ætlaðar til að ganga endanlega frá þjóðríkinu og þar með þjóðlegum gildum.
Ég er ekki viss um að landnámsmenn Íslands hafi verið eins heiðnir og sagan segir. Allavega voru þeir margir hverjir kristnir þó svo að þeir hafi ekki verið fylgjendur Rómarkirkjunnar. Í því sambandi þarf ekki að benda á annað en hið mikla landnámsföruneyti Auðar djúpúðgu. Margir fleiri landnámsmenn komu hingað vestan um haf og voru sennilega sannkristnir í heiðni sinni.
Mér svona flaug þetta í hug um landvættina og kristnina, um leið og ég fór fram hjá Arnheiðarstöðum í Fljótsdal rétt áðan fagnandi vorkomunni. En eftir þeirri Arnheiði, sem var jú upprunnin fyrir vestan haf, hefur bærinn Arnheiðarstaðir heitið frá landnámi og hefur lengstan þann tíma verið Kristfjárjörð.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2022 kl. 18:09
Eigðu góða páska Steini, og þakka þér fyrir fróðleikinn.
Þú klikkar ekki á hinum svo kölluðu sögulegu staðreyndum á meðan sveimhuginn ég leifi huganum að trítla í kringum gamalt torf.
Ég er var mikið að spá í það í dag, eftir að hafa hlustað á lækinn hjala í Atlavíkinni, hvernig best væri farið að því að virkja landvættina.
Magnús Sigurðsson, 17.4.2022 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.