21.4.2022 | 08:36
Hvað helgar daginn?
Þeir eru fáir dagarnir sem hafa jafnstór fyrirheit í nafninu og Sumardagurinn fyrsti. Það veit samt engin lengur hvað helgar þennan dag annað en nafnið, en upp á hann hefur verið haldið á Íslandi frá því land byggðist.
Hvað helgar daginn annað en það sem felst í nafninu er sem sagt ekki vitað. Einhversstaðar rakst ég á að dönskum kirkjuyfirvöldum hefði þótt rétt á 18. öld að banna guðþjónustur á þessum degi í íslenskum kirkjum, þegar þau fréttu af því að þessi dagur hefði verið brúkaður sem messudagur á Íslandi frá alda öðli.
Sumir telja helgi dagsins komna aftan úr heiðni. Nú í seinni tíð hefur aðallega verið sótt að Sumardeginum fyrsta sem helgidegi með því að færa hann til og bæta honum við langa helgi. Stundum hefur heyrst að bæta eigi svona dögum við sumarfrí eða aðra orlofsdaga launþega, -færa fram á sumarið.
Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur mánaðarins Hörpu í gamla íslenska tímatalinu og ber alltaf upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Hann er auk þess svo kallaður yngismeyjadagur. Þessi dagur var talin mikill hátíðisdagur áður fyrr, gjafir voru gefnar þennan dag og hjá yngra fólki var dagurinn álíka hátíðlegur og aðfangadagskvöld.
Það góða við sumardaginn fyrsta er að hann er alltaf á sumardaginn fyrsta, -hvernig sem viðrar.
Gleðilegt sumar.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Magnús og sömuleiðis. Alltaf fær maður einhver fróðleik með þegar maður les bloggið þitt. Þessi síða er einn af daglegum viðkomustöðum mínu og alltaf fær maður nýjan og skemmtilegan fróðleik.....
Jóhann Elíasson, 21.4.2022 kl. 09:10
Tek undir með Jóhanni, alltaf gaman að lesa pistlana þína. Og ekki megum við gleyma gömlu mánaðarheitunum.
Gömlu mánaðarheitin.
Mörsugur á miðjum vetri
markar spor í gljúfrasetri
Þorri hristir fannafeldinn
fnæsir í bæ og drepur eldinn
Góa á til grimmd og blíðu
gengur í éljapilsi síðu
Einmánuður andar nepju
öslar snjó og hendir krepju
Harpa vekur von og kæti
vingjarnleg og kvik á fæti
Skerpla lífsins vöggu vaggar
vitjar hrelldra, sorgir þaggar
Sólmánuður ljóssins ljóma
leggur til og fuglahljóma
Heyannir og hundadagar
hlynna' að gæðum fróns og lagar
Tvímánuður allan arðinn
ýtum færir heim í garðinn
Haustmánuður hreggi grætur
hljóða daga, langar nætur
Gormánuður grettitetur
gengur í hlað og leiðir vetur
Ýlir ber er byrgist sólin
brosa stjörnur, koma jólin.
Höf: Hallgrímur Jónsson
barnakennari í Reykjavík
Haukur Árnason, 21.4.2022 kl. 10:30
Ég myndi ráðleggja að færa sumardaginn fyrsta eitthvað framar í dagatalinu, t.d. að sameina daginn 1.MAÍ.
Það mun t.d. frysta á landinu eftir 1 viku.
Jón Þórhallsson, 21.4.2022 kl. 10:38
"Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi."
"Það er hvergi sagt berum orðum í lögum en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins.
Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur."
Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur? - Vísindavefurinn
Þorsteinn Briem, 21.4.2022 kl. 10:46
Takk fyrir athugasemdirnar.
Harpa vekur von og kæti vingjarnleg og kvik á fæti
Þannig að hún er kannski ekki alveg gull trygg, frekar en aðrir mánuðir ársins hvað frost varðar.
Eins og vísindavefurinn segir þá var gamla tímatal íslendinga einstakt, ekki það sama og í nágrannalöndunum.
Það er áhugaverður tengill í pistlinum hér að ofan um gamla íslenska tímatalið, þar sem það er rakið til Babýlon.
Magnús Sigurðsson, 21.4.2022 kl. 11:29
Gleðilegt sumar, Magnús
og bestu þakkir fyrir alla þína pistla, vetra og sumra undangenginna ára.
Og ekki var nú verra að krækja í viðbótarefni þitt um íslenska tímatalið og þar undir krækju á erindi frænda míns Freysteins heitins Sigurðssonar um Herúla, sem ég hlustaði á, mér til fróðleiks. Þó tókst mér einungis að hlusta á þátt 1 af 8. Veistu hvernig maður getur nálgast hina 7? Fann þá ekki við leit mína á gúgglinu.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.4.2022 kl. 13:07
Sæll og blessaður Pétur Örn, og takk fyrir mig.
Alla hina mjög svo merkilegu pistla Freysteins heitins Sigurðssonar um uppruna íslendinga ættirðu að finna á þessar slóð.
https://www.youtube.com/results?search_query=freysteinn+sigur%C3%B0sson+her%C3%BAlar
Magnús Sigurðsson, 21.4.2022 kl. 15:45
Bestu þakkir Magnús.
Hafði í millitíðinni náð að finna og hlusta á þætti 3/8, 4/8, 6/8 og 8/8, auk 1/8.
Með hjálp slóðarinnar ætla ég núna að hlusta á þættina alla, í heild. Bestu þakkir, enn á ný.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.4.2022 kl. 16:35
Ekkert að þakka Pétur Örn. Eftir að hafa hlustað á Freystein frænda þinn þá gerir maður sér betur grein fyrir hverskonar "gral" íslensku fornbókmenntirnar eru. Þær skýra, hvorki meira né minna, en frá hinni óopinberu mankynssögu frá Asíu til Ameríku.
Magnús Sigurðsson, 21.4.2022 kl. 20:29
Já, svo má með sanni segja, Magnús.
En manni finnst að áhugi landa okkar mætti almennt vera meiri fyrir þessu. Það er sem hann hafi koðnað niður hin síðustu árin.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.4.2022 kl. 22:15
Þú segir nokkuð Pétur Örn. Það er samt svo að á þessu grali byggja erfðarannsóknir. Ef við gefum okkur svo að islendingabok.is sé rétt og kennum hana við Kára og tökum svo Ynglingatal Snorra, þá getur því sem næst hver einasti íslendingur rakið sig nafn fyrir nafn til Svartahafs Herúlanna.
Það vill þannig til að ef ég set sjálfan mig inn í það gral þá eru 31 ættliður til Þorsteins rauða Ólafssonar víkingakonungs í Skotlandi, sonar Auðar djúpúðgu landnámskonu á Íslandi. Og aðrir 31 ættliðir til Ingva Tyrkjakonungs föður Njarðar í Nóatúnum, sem Ynglingaætt er rakin til og var forfaðir Vana við Svartahaf hjá Ásum.
Ef maður vill fara alla leið þá hef ég séð þá ættartölu, en þá erum við komnir í Biblíusögurnar, með millilendingu í Babýlon. Þess vegna var ég með þessa uppástungu um kunningsskap Gísla Hallfreðssonar, sem skrifaði Íslenska tímatalið í bók sinni Betur vitað, við Freystein Sigurðsson. Svo merkilegt er þetta gral og íslenska tímatal með sínum fyrsta sumardegi.
Þetta er náttúrulega ekkert merkilegri uppruni eða uppspuni hvernig sem á það er litið en hvert mannsbarn á jörðinni á. En það er einstakt að steypukall austur á landi, og þar af leiðandi flestir Íslendingar, skuli því sem næst getað rakið sig nafn fyrir nafn aftur til Adams og Evu með skjalfestum heimildum. Til að komast blóðlínuna alla leið á enda með millilendingu í Babýlon má lesa um þá sem voru forfeður Herúla í Úlfar og arfleið.
https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1372165/
Magnús Sigurðsson, 22.4.2022 kl. 06:19
Flottur(!)Gott að nýta aldur húsdýra (smbr.Þ.Briem)og kanna viðbrögðin; 43ja vetra.
Helga Kristjánsdóttir, 22.4.2022 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.