28.4.2022 | 06:08
Tvöfeldni sannleikans
Að búa í tveimur heimum, -að minnsta kosti, er daglegt brauð. Aðeins með því að láta hafa sig að fífli er hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að raunveruleikinn er margfaldur og oftast er hægt er að velja sér þann sannleika sem best hentar.
Sem dæmi þá sit ég núna við tölvuna framan við stofugluggann og hamra þetta inn. Ef ég opna á fjölmiðlana þá vofir þriðja heimstyrjöldin yfir, -allt eins með kjarnorkuvetri. Tveggja ára drepsóttin er sem betur fer á niðurleið en alls endis óvíst hversu lengi það ónæmi varir.
Þegar horft er út til heimsins í gegnum medíuna má fyllast ótta vegna blekkinga, óstöðugleika, hópuppsagna, ringulreiðar og stríðs. En þegar ég horfi út um stofugluggann sé ég vorkomuna í allri sinni dýrð. Þrestina gæða sér á eplum frá henni Matthildi minni og hrafninn svífa yfir í von um að ég muni eftir honum.
Auk þess sé ég inn allt Hérað þar sem spegilslétt Lagarfljótið hlykkjast inn að Snæfelli í morgunnkyrrðinni. Ef ég fer út á svalir þá heyri ég gæsir og álftir kvaka á Egilsstaðanesinu í bland við lóunnar dýrðin dí og get hlustað á þytinn í stéli hrossagauksins þar sem hann steypir sér niður að Gálgaklettinum við kirkjuna.
Svona snemma morguns yfirgnæfir meir að segja niðurinn í Eyvindaránni úr fjarska, hvininn í loftræstisamstæðunum á skólaþakinu þar sem minni kynslóð var kennt að opna glugga til að hleypa nýjum degi inn með fersku andblæ um leið og mætt var til kennslustofu. Já, -bí bí og blaka, -álftirnar kvaka, -ég læt sem ég sofi, -en samt mun ég vaka.
Ég hafði fullkomið val um að fara strax út í þennan veruleika, sem er fyrir utan stofugluggann, með því einu að fara út á svalir, en hef í staðin freistast til að kíkja á fréttir í tölvunni, áður en ég fer út í daginn til vinnufélaganna í steypunni, til að standa ekki á gati, -og er medían ekki beint kræsileg frekar en fyrri daginn.
Um síðustu helgi slapp ég undan krananum í heila tvo sólahringa. Við Matthildur mín fórum niður á sælureitinn við sjóinn, í Sólhólinn okkar þar sem úthafsaldan brotnar í grýttri fjöru á hleinunum neðan við kot. Endurheimtum gónhólinn úr flækju þyrnihríss og sinu, svo nú má góna berfættur á skýjabólstra bera við hafsauga frá besta stað í morgunnkyrrðinni.
Við búum svo vel að hafa góðan aðgang að tveimur veruleikum. Annar er loftkastali með sama útsýni og kirkjuturninn, sem er eitt það besta á Héraði. Má segja að það sé hús vindanna þar sem golan þýtur um miðjan daginn í trjátoppunum neðan við svalirnar á leið sinni inn um opnanleg gluggafögin með fögnuði yfir enn einum dásemdar deginum.
Hinn sannleikinn er niður við hafið þar sem æðarfuglinn úar í fjöruborðinu sem er neðst í garðinum. Þar á skarfurinn sinn stað á hleininni og þegar hafgolan rennir sér inn fjörðinn með innfallinu, þerrar hann vængina líkt og prestur sem blessar söfnuðinn. Yfir og allt um kring syngja þrestir og máríerlur ásamt suðandi hunangs humlum í garðsins hrísi.
Við dvöldum sem sagt í gula bárujárnshjallinum okkar niður við hafið bláa hafið um síðustu helgi, laus við allan ófögnuð því þar höfum við aldrei haft nettengingu eða sjónvarp, hvað þá snjallsíma um hönd og útvarpið er notað til spari þegar hlustað skal á óm angurværra dægurlaga frá síðustu öld.
Annars sitjum við bara úti á palli við öldunnar nið og vaggandi blæ til að fylgjast með skýjum himinsins, prjónandi eða lesandi. Ég las um Gísla á Uppsölum enda missti ég af honum í sjónvarpinu á sínum tíma, því ekki orðin vanþörf á að kynnast lífshlaupi og ljóðum Gísla, -á svefnsins örmum svífur -sálin í draumalönd inn, -líður um ljósa heima -líkama fráskilin.
Í seinni tíð hefur þeim farið fækkandi þessum dásemdar dvalar dögum niður við hafið. Börnin og þeirra fjölskyldur hafa komist upp á lagið. Sonur minn sagði við mig fyrir stuttu; pabbi ég óttast það mest að verða á endanum eins og þú. -Hvernig þá; spurði ég. -Þú et eini maðurinn sem ég hef heyrt segja að það væri skemmtilegra að sitja heilan dag og fylgjast skýjunum á ferð þeirra yfir himininn frekar en að horfa á sjónavarp, ég er ekki frá því að ég sé farinn að fatta hvað þú áttir við, -sagði hann.
En nú ætla ég ekki að hafa þetta eintal lengra hérna við bansetta tölvuna. Krummi er löngu mættur og svífur fyrir framan svalirnar. Tími til komin að svífa úti á svölum í smástund með krumma, fara síðan út í sumarið til að steypa og vera ég sjálfur.
Athugasemdir
Frásögn þessi er falleg og ég fagna að þið gefið krumma líkt og ég.
Helga Kristjánsdóttir, 28.4.2022 kl. 15:56
Þakka þér fyrir Helga. Krummi er einstaklega háttvís fugl.
Magnús Sigurðsson, 28.4.2022 kl. 17:31
Serdeilis god lesning inn i nyjan dag. Takk fyrir mig.
Godar stundir, med kaerri kvedju ad sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 29.4.2022 kl. 04:01
Takk fyrri Halldór. Þau vöktu upp fyrir fimm útskriftarnemar ME, -dimitera í morgunnsólinni með söng og fögnuði á vagni aftan í traktor.
Matthildi minni varð á orði; -mikið væri gaman að vera svona ungur. Þau minntu á að það ber að fagna hverjum nýjum degi.
Magnús Sigurðsson, 29.4.2022 kl. 05:56
Eins og konurnar segja
(og við kallarnir megum einnig segja)
Þetta er sannkölluð yndislesning.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.4.2022 kl. 12:54
Þetta er blessað sumarið Pétur Örn, sem gerir mennina mjúka. Ég hef trú á að framundan sé sumar blíðum í blænum fyrir alla landsmenn.
Magnús Sigurðsson, 29.4.2022 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.