1.5.2022 | 06:35
1. maí baráttudagur verkalýðsins
Ég fór með einn af eldri vinnubílunum í dekkjaskipti í vikunni. Þetta er gamall lúinn jálkur, sem engin nennir lengur að keyra, en er notaður til að sækja hádegismatinn í steypuverksmiðjuna. Það gafst stund á milli stríða hjá mér enda orðin eldri og lúnari en gamli rauður.
Þegar ég var þarna var ung kona á símafundi í snjallsímanum sínum fyrir utan dekkjaverkstæðið, þar sem drundi í loflyklum og glamraði í affelgunar vélum. Konan hafði gengið yfir planið og stóð á grasbala þar sem hún hafði stillt sér tígurlega upp og beindi símanum að sér svo hún sæist sem best í selfí.
Hvort unga litfríða og ljóshærða konan var að tala við ritarinn sinn veit ég náttúrulega ekkert um, en ef svo hefur verið þá hefur ritarinn væntanlega þurft að segja þeim sem áttu erindi við hana að hún væri ekki viðlátin hún væri á fundi.
það getur verið flókið að vera á vinnustað án mætingarskyldu og ætti að borga dekkjastrákum og gömlum lúnum jálkum, sem hafa ekkert gáfulegra að gera en spá í skýin, betra kaup fyrir þess lags álag.
Nei ég segi nú bara svona, -til að segja eitthvað á baráttudegi verkalýðsins.
Athugasemdir
Ræðurnar niðri á Ingólfstorgi verða sennilega ekki innihaldsríkari þetta árið
Enginn mun þora að minnast á samtakamáttinn hjá Eflingu né komandi kosningar
svo ætli verði ekki talað mest um það sem allir íslendingar virðast vera sérfræðingar í
sölugengi hlutabréfa Íslandsbanka í Kauphöllinni
Grímur Kjartansson, 1.5.2022 kl. 09:41
Það kæmi mér ekki á óvart Grímur að Íslandsbanka gengið komi til tals, -og svo hitt óvænta málið "viðbrögð við verðbólgu".
Ofurbótaþegunum virðist hafa komið það gjörsamlega í opna skjöldu að tveggja ára hlutabótaleið og fjarvinna skuli hafa fokkað upp spálíkaninu.
Magnús Sigurðsson, 1.5.2022 kl. 10:42
Verkalýðurinn er orðinn einhvers konar aukaatriði nú á dögum snjallsíma og vel klæddra frúa á fundum fyrir utan dekkjaverkstæði. Það að framleiða verðmæti þykir hallærislegt, en að framleiða blaður flott.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.5.2022 kl. 22:58
Það er satt Þorsteinn. Og þessa dagana er það "verkalýðurinn" sem hefur verið á fjarfundi frá skrifstofunni sem á samúðina óskipta.
Þau sem eru á tvö og jafnvel þreföldum launum umbjóðenda sinna. Þessum búpeningi verður trauðla komið af jötunni. Sorglegt en satt.
Magnús Sigurðsson, 2.5.2022 kl. 06:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.