3.5.2022 | 06:00
Heiðmyrkur og Hermann
Það er til veður fyrirbæri sem kallast heiðmyrkur. Íslenskt orðnet gefur upp skýringarnar þoka, þokudrungi eða þokumyrkur á fyrirbærinu auk 123 vensla. Þetta mun samt vera sérstök tegund lágþoku í heiðskýru verði, stundum sögð það sama og dalalæða. Það eru ekki margar heimildir til þar sem nafnið á fyrirbrigðinu kemur við sögu.
Við austurströndina er kaldur hafsstraumur sem rennir sér suður með Austurlandi og býr til hina frægu Austfjarðaþoku í samspili við hlýtt loft. Um helgina var ég niður á Stöðvarfirði og gafst færi á að fylgjast með fyrirbærinu heiðmyrkur af sólpallinum, sem ég hef reyndar oft séð áður án þess að íhuga hvað það kallaðist annað en þoka.
Myndin að ofan er af heiðmyrkri sem birgði sýn þegar þoka af hafi kom inn á sólríkan fjörðinn með innfalli og hafgolu. Neðri myndin er með sama útsýni frá kvöldinu áður
Í vetur las ég þjóðsöguna um Hermann litla sem bjargaði fólkinu sínu undan Hundtyrkjanum, en þá var heiðmyrkur.
Er Tyrkir fóru ránsferð sína 1627 komu þeir að Eyjum í Breiðdal fyrir miðjan morgun. "Náðu þeir öllu fólki heima, tóku það allt og bundu, nema dreng einn fjögurra ára er Hermann hét. Síðan fóru þeir burtu og leituðu fleiri bæja. Heiðmyrkur var á mikið. Þegar þeir voru farnir sagði móðir Hermanns við hann: -Hefurðu ekki busann þinn í kotinu þínu svo þú getir skorðið af mér böndin? Drengur hvað já við því, kom með busann og gat um síðir skorið svo böndin, að önnur höndin losnaði. Tók hún þá við busanum og skar öll bönd af sér og síðan af þeim manni sem næstur var. Fékk hún síðan þeim manni busann og bað hann að losa hitt fólkið, en hljóp sjálf til fjalls með Hermann litla. Slapp allt fólkið með þessum hætti. Þegar Hermann var fulltíða réðst hann á skip og var lengi í siglingum, var mælt að hann hafi síðar eignast Berunes. (Ættir Austfirðinga, 11307)
Hermann Ásmundsson var fæddur 1623 og passar aldurinn við þjóðsöguna. Hann er fjögurra ára er Tyrkjaránið var 1627. Í jarðarbréfum frá 16.-17. öld (s.280) sést að Hermann eignast 200 í Berunesi, en átti jörðin alla samkvæmt bréfi dagsettu 13.júlí 1687. Hermann bjó á Berunesi þar til hann lést upp úr 1695. (Dvergasteinn - þjóðsögur og sagnir / Alda Snæbjörnsdóttir)
Því er þessi sögn af Hermanni tilfærð hér af heiðmyrkri, að þegar Tyrkir rændu við Berufjörð og í Breiðdal, þá kom þokan mörgum til bjargar, en í veðurlýsingum var blíðviðri þá daga sem Tyrkir dvöldu í Berufirði, enda hásumar. Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9, -í Hamarsfirði, Berufirði og í Breiðdal, náðu fáum í Breiðdal.
Tyrkjaránssaga hefur verið talin sannsögulegt plagg enda var hún skrásett sem samtímaheimild. Tyrkir fóru frá Austfjörðum í Vestamannaeyjar og létu þar nokkra Austfirðinga lausa til að hafa pláss fyrir fleiri Vestamannaeyinga sem þeim þótti álitlegri söluvara. Saga ránanna fyrir austan var síðan skráð eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti.
Þjóð- og munnmælasögur hafa því ekki átt upp á pallborð fræðimanna hvað Tyrkjaránið varðar, nema þá sem kviksögur. Sagan af Hermanni skýrir kafla sem má finna í Tyrkjaránssögu um það hversvegna Tyrkjum tókst ekki að ræna prestsetrið Heydali. Um það hefur Tyrkjaránssaga þetta að segja.
Nú er Hamarsfólkið var til skips komið þ. 7. júlíum, fóru nokkrir af illvirkjunum enn strax aptur um fjörðinn að Berunesi, þustu svo norður yfir fjöllin, til þess þeir komu í Breiðdal. Þeir voru alls átta illmennin. Þessir komu fyrst á þann bæ, sem Ós heitir. Þar fundu þeir átta karlmenn og bundu á þeim bæði hendur og fætur og voru þar eptir tveir Tyrkjar að gæta þeirra, meðan hinir fóru yfir um ána til þeirra manna, er þeir sáu hinu megin árinnar, hverjir voru menn frá síra Höskuldi Einarssyni frá staðnum Heydölum, sem áttu að koma undan kistum nokkrum fullum af gripum, því spurzt hafði þangað af illvirkjunum. En í þessum atriðum kom að Ósi gangandi neðan úr byggðinni með sitt fólk sá maður, sem hjet Jón, af bænum Streiti. Hann vissi ekki að ófriðarmenn voru komir í Breiðdalinn. En sem þeir tveir illgjörnu vaktarar þetta fólk sáu, flýðu þeir upp í fjallið, en nefndur Jón á Streiti leysti þá þrjá menn hina bundnu, Gísla Þórarinsson með sínum syni og Ásmund Hermannsson, og flýðu þeir svo gangandi með Jóni inn eptir Breiðdal og upp í hjeruðin. Þeir menn, sem með kistur síra Höskuldar fóru, yfir gáfu þær, en flýðu síðan. úr þeim kistu tóku ræningjarnir nær 30 hundruð í silfri og klæðum, en klufu þar eptir kisturnar í sundur. Heim til staðarins fóru ræningjarnir ekki, því þeim sýndist þar klettur vera, sem staðurinn var. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðasá)
Munnmælin segja frá atburðum í Breiðdal á svipaðan hátt og Tyrkjaránssaga þó svo Hermanns litla sé ekki getið í Tyrkjaránssögu. Hermann og móður hans voru á bænum Eyjum, sem er bær fyrir innan Ós. Hvers vegna aðeins karlmenn voru heima við í böndum á Ósi gæti stafað af því, eins og reyndar kemur fram um kistur séra Höskuldar, að spurst hafi til Tyrkjanna við Berufjörð. Líklegt er að Ásmundur Hermannsson, einn af þeim sem leystur var úr böndum á Ósi, hafi verið faðir Hermanns litla.
Munnmælunum ber nokkuð vel saman við Tyrkjaránssögu um atburðina á Ósi, en hefur það þó til viðbótar að vera staðkunnug. Við Ós hef ég heyrt að hafi verið ferjustaður áður fyrr yfir Breiðdalsá og Heydalir eru handan ár, ekki er ólíklegt að þeir menn sem voru að flytja kisturnar hafi forðað sér á bát yfir ána án kistnanna og síðan í Heydali.
Þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara segir frá því að Tyrkir hafi oftar en einu sinni reynt að komast í Heydali en hafi ítrekað tínt bænum eða sýnst hann vera kletta. Þar er þess getið að séra Höskuldur hafi farið til kirkju og bænhita hans þakkað að bærinn fannst ekki, en ekki er ólíklegt að heiðmyrkri sé að þakka hvort sem séra Höskuldur bað þess í bænum sínum eða lét almættið um með hvaða hætti hann verndaði Heydali.
Það kemur víða fram í Tyrkjaránssögu hvernig dyntótt Austfjarðaþokan kom sér fyrir fólkið þessa ógnardaga, bæði vel og illa. Ein sagan er af dreng sem var fluttur úr Breiðdal í böndum ásamt fleirum. Þegar hann sá sér færi, á bænum Núpi á Berufjarðaströnd, hljóp hann inn í þokuna með hendur bundnar aftur fyrir bak. Hann komst inn í þokuna með ræningjana á hælunum en missti þá niður um sig buxurnar og féll, lá síðan grafkyrr, ræningjarnir leituðu allt í kring, svo nálægt að hann heyrði tal þeirra, en þeir fundu hann ekki, svo skyndilega getur heiðmyrkur úr Austfjarðaþokunni skollið á í glaða sólskini.
Orðabók Menningasjóðs hefur þetta að segja um orðið heiðmyrkur; "þoka á láglendi en tindar bjartir og heiður himinn. Íslensk Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal hefur ekki orðið heiðmyrkur, en um orðið heið segir; "skýlaus himin, bjart loft" og um myrkur; dimma, ljósleysi
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 06:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.