Haugar

IMG_3187

Það hefur varla farið fram hjá neinum að sumarið er komið í öllu sínu veldi. Gamall maður sagði við mig í gær að hann hefði heyrt að sumarið yrði svipað og í fyrra, sem var once in a lifetime sumar víða um land, og yrði það hreint út stórmerkileg upplifun að fá tvö slík í röð.

Þeir eiga það til að vera óvæntir dagarnir með ábendingum úr ýmsum áttum. Helgin var tekin of geyst enda skein sól í heiði og við Matthildur mín skruppum um fjöll og firnindi. Skriðdalurinn var skreppitúrinn á sunnudaginn, sem endaði óvænt á biluðum Cherokee upp í fjallshlíð.

Innst í Skriðdal eru Haugar, bær sem kenndur er við einhver mestu skriðuföll á landi hér, enda heitir dalurinn hvorki meira né minna en Skriðdalur. Þjóðvegur eitt hlykkjaðist þarna á milli hauganna á síðustu öld. Var ein skíring á þeirri skringilega hlykkjóttu slóð að belja hefði verið látin marka vegstæðið.

IMG_3189

Dalbotninn er sléttur rétt innan við Haugahólana, vinstra megin á myndinni er hægt að sjá hvernig skriðið hefur úr fjallinu, en hægra megin á myndinni er fjallshlíðin heil. Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á þá er þessi mynd af Cherokee

Nú liggur þjóðvegurinn í beinni og breiðri braut rétt ofan við haugana í botni dalsins og rétt neðan við haugana þar fyrir ofan sem ná upp í fjallsrætur. Það gekk sennilega mikið meira á þegar Haugar urðu til en það eitt að belja gengi um dalbotninn eins og þegar vegurinn var lagður og varð manni ósjálfrátt hugsað til Íslendingasagnanna og Landnámu.

IMG_3195

Matthildur rifjar upp söguna af því hvernig vegurinn var upphaflega lagður í gegnum Haugana, en þá sögu heyrði hún í Atlavíkurferð

Það var á dögum Haralds konungs hins hárfagra, Hálfdanar sonar hins svarta, Guðröðar sonar veiðikonungs, Hálfdanar sonar hins milda og hins matarilla, Eysteins sonar frets, Ólafs sonar trételgju Svíakonungs, að sá maður kom skipi sínu til Íslands í Breiðdal, er Hallfreður hét. Það er fyrir neðan Fljótsdalshérað. Þar var á skipi kona hans og sonur, er Hrafnkell hét. Hann var þá fimmtán vetra gamall, mannvænn og gervilegur.

Hallfreður setti bú saman. Um veturinn andaðist útlend ambátt, er Arnþrúður hét, og því heitir það síðan á Arnþrúðarstöðum. En um vorið færði Hallfreður bú sitt norður yfir heiði og gerði bú þar, sem heitir í Geitdal. Og eina nótt dreymdi hann, að maður kom að honum og mælti:

"Þar liggur þú, Hallfreður, og heldur óvarlega. Fær þú á brott bú þitt og vestur yfir Lagarfljót; þar er heill þín öll."

Eftir það vaknar hann og færir bú sitt út yfir Rangá í Tungu, þar sem síðan heitir á Hallfreðarstöðum, og bjó þar til elli. En honum varð þar eftir göltur og hafur. Og hinn sama dag, sem Hallfreður var í brott, hljóp skriða á húsin, og týndust þar þessir gripir; og því heitir það síðan í Geitdal. (Hrafnkels saga Freysgoða)

Hrafnkels-saga talar um Geitdal en sá dalur er norðurdalur Skriðdals, en á þessu svæði öllu má sjá gríðarleg ummerki skriðufalla. Landnáma greinir örlítið öðruvísi frá sama atburði, en í huga má hafa að ættfærslan gengur sennilega betur upp tímalega í Hrafnkels sögu.

Hrafnkell hét maður Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var hinn fyrsta vetur í Breiðdal. En um vorið fór hann upp um fjall.

Hann áði í Skriðudal og sofnaði; þá dreymdi hann, að maður kom að honum og bað hann upp standa og fara braut sem skjótast; hann vaknaði og fór brutt. En er hann var skammt kominn, þá hljóp ofan fjallið allt, og varð undir göltur og griðungur, er hann átti. (Landnáma Sturlubók)

 IMG_3205

Upp í fjallshlíðinni liggur háspennulína, og hefur sennilega ekki verið notast við belju við þá lagningu, enda tylla staurarnir sér niður á hæðstu hauga 

Margir hafa efast um að þessar sögur eigi eitthvað skylt við sannleikann, en ekki alls fyrir lögnu rakst ég á einhverja úttekt sem greindi frá því að húsatættur gægðust undan einum haugahólnum.

Mér hefur alltaf þótt áhugavert að vita hvernig þessi undur og stórmerki gátu gerst, hvort þá hafi verið jarðskjálftar samfara steypiregni. Um þetta var velt vöngum í Haugahólunum um helgina.

Þegar heim var komið hafði ég fengið e-mail frá vini mínum í Ástralíu með sennilegri skýringu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í þessari frásögn situr eftir í mér orðasambandið once in a lifetime. Ég spyr mig, hvernig á það heima þarna? 

Björn S. Stefánsson (IP-tala skráð) 1.6.2022 kl. 10:59

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Í eina tíð. Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 1.6.2022 kl. 11:14

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er góð spurning Björn, ætli svarið sé ekki einna helst að finna á sjúkrahúsi.

Magnús Sigurðsson, 1.6.2022 kl. 11:15

4 identicon

Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína.

Hafðu enn og aftur þakkir fyrir, Magnús.

Vona að bilunin í bílnum, Cherokee, hafi ekki verið alvarleg.  Og að þið Matthildur hafið komist heil til byggða, og það á bílnum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.6.2022 kl. 11:56

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Aldrei kemur maður að "tómum kofanum" þegar maður fer á síðuna þína og alltaf kemur maður aðeins fróðari þaðan....

Jóhann Elíasson, 1.6.2022 kl. 12:12

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Guðjón og Pétur Örn, jú við komumst heil heim á Cherokee. Eftir að hafa hringt í vin til að draga Cherokee niður úr haugunum, þá datt hann óvænt í gang. Nú er Cherokee með sál og dvelur á verkstæði.  

Magnús Sigurðsson, 1.6.2022 kl. 12:17

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Jóhann, þetta er allt úr Íslendinga sögunum.

Magnús Sigurðsson, 1.6.2022 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband