13.6.2022 | 16:34
Þjóðsaga
Þeir sem hafa litið inn á þessa síðu hafa vafalaust tekið eftir því að hér er þjóðsagan í hávegum höfð, sú saga ekki látin gjalda skjalfests sannleika sem sannari þykir, -eða þannig. Um helgina varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að veita prófessor í sagnfræði leiðsögn um sögusvið þjóðsögunnar.
Þannig vildi til að einn góður bloggari hér á mogga blogginu spurði mig að því í vetur hvort hann mætti benda á mig varðandi Tyrkjaránssögu, en þeir sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út bækur á ensku um Tyrkjaránið árið1627 á Íslandi. Aðstoðin fólst aðallega í því að benda þeim á samantekt austfirskra þjóðsagna í Dvergasteini bók Öldu Snæbjörnsdóttur auk ýmissa munnmæla á Djúpavogi.
Það var Jóhann Elíasson gæðabloggari sem gerði mér þann greiða að benda á mig, enda hrifinn af því að menn tali umbúðalaust og láti engan rétttrúnað trufla sig og ætti hann sjálfur fyrir löngu að vera komin á áberandi stað í umræðunni hér á moggablogginu, enda bæði skeleggur og afkastamikill bloggari, auk þess að vera bæði vel og mikið lesinn.
Útgáfukynningin í Lönubúð á Djúpavogi var vel sótt eins og vænta mátti, síðri var hún á Egilsstöðum daginn eftir þar sem engin mætti og mega söguslóðar á Austurlandi skammast sín,- fyrir mér
Þeir komu svo núna um helgina austur á land Karl Smári og Adam Nichols, sem er prófessor við háskólann Marryland, vegna bókar sinnar um Tyrkjaránið á Austfjörðum Enslaved. Áður hafa þeir gefið út bækurnar; Northern Capitives um Tyrkjaránið í Grindavík og Stolen Lives um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum, auk The Travels of Reverend Ólafur Egilsson, -Reisubók sr Ólafs Egilssonar.
Ég fór með þeim félögum um sögusviðið allt frá Hvalnesi í Lóni að Andey í Fáskrúðsfirði og sagði þeim stanslausar lygasögur í heila tvo daga, -þjóðsögur eða þannig. Þeir létu vel af með því að segja; við hefðum betur talað við þig áður en bókin fór í prentun. Búnir að steingleyma að mér tókst ekki, þó ég reyndi mikið til áður en bókin kom út, -að fá þá til að skila Hermannastekkunum aftur á sinn stað.
Þannig er að Þorsteinn Helgason sagnfræðingur rengdi bæði munnmæli og þjóðsögur í Glettingi - tímariti um austfirsk málefni. Þar misskildi hann gjörsamlega hvar Hermannastekkar voru og þar af leiðandi munnmælin líka og flutti allt heila klappið yfir Berufjörð. Seinna varði hann doktorsritgerð um Tyrkjaránið á Íslandi og Hermannastekkarnir nú komnir ritrýndir á snarvitlausan stað.
Sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson t.v. og Adam Nichols t.h á Hvalnesi, eftir að hafa skoðað fyrsta lendingastað sjóræningjanna frá Algeirsborg við Ísland
Þeir félagar lögðu ekki í að geta Hermannastekka í bók sinni og flytja þá frá Berunesi yfir á Búlandsnes þar sem þeir eiga heima, til að styggja ekki doktorinn, en gátu þess í stað um Álfheiðarskútann og sögðu þegar þeir sáu staðhætti á Búlandsnesi þar sem bæði Álfheiðarskúti og Hermannastekkar eru; við hefðum betur verið búnir að fara um sögusviðið með þér áður en við kláruðum bókina.
Álfheiðarskúti efst í klettinum fyrir miðri mynd. Nafnið er þannig til komið að vinnukona á Búlandsnesi flýði þangað undan ræningjunum. Sagt er að einn ræningi hafi árætt að fara í rákina að skútanum. En Álfheiður varðist og hrapaði hann fram af klettunum til dauðs. Þá hættu þeir ekki á meira, en hún hélt sig í hellinum þar til ræningjarnir yfirgáfu Djúpavog. (samkvæmt Þjóðsögu Sigfúsar)
Adam hafði mikinn áhuga á að vita hvort ég vissi um afdrif húsfreyjunnar á Hamri, en á Hamri rændu þeir 13 manns. Tyrkjaránssaga segir svo um húsfreyjuna; en kona mannsins var mjög veik og vanmáttug, svo hún gat ei gengið í burt með hinu fólkinu. Hana slógu þeir með byssu undir vangann svo hún hné niður, þá spyrntu þeir við henni fótum og meintu að hún mundi dauð og skildu við hana, en ráku allt hitt til skips".
Afdrif konunnar voru prófessornum verulega hugleikin og hafði hann orð á því oftar en einu sinni. Svo var það þegar þeir félagar voru komnir í Löngubúð til að kynna bókina að ég settist niður með fyrrum nágrönnum á Djúpavogi að spurt var hvort ég hefði ekki örugglega sýnt þeim lækjarsprænuna sem unga ófríska konan hefði drekkt sér í frekar en að lenda í höndum Tyrkja.
Þessi saga hafði alveg farið fram hjá mér og því þráspurði ég um nákvæma staðsetningu. Eftir að hafa talað við þrjú innfædd var staðsetningin á hreinu, að vísu voru þau öll hissa á því hvernig væri hægt að drekkja sér í svo lítilli lækjarsprænu og væri það það eina sem rýrði sannleiksgildi munnmælanna sem þau höfðu öll heyrt um þennan stað í bernsku. Staðurinn er við þjóðveginn rétt utan við Hamar.
Á eftir bókarkynninguna gat ég frætt prófessor Adam um afdrif húsfreyjunnar á Hamri og eru þeir félegar nú komnir með þá flugu í höfuðið að koma aftur að ári og gera kvikmynd byggða á bókinni.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Landsins-saga | Breytt 20.6.2022 kl. 06:29 | Facebook
Athugasemdir
Ég hitti á Karl Smára, þegar hann kom að austan og átti hann ekki til orð svo hrifinn var hann af ferðinni austur og sagði að þú hefðir hreinlega bjargað því sem bjargað varð af ferðinni. Hann sagði að Adam (prófessorinn) hafi ekki átt næg orð til að lýsa ánægju sinni með það að hafa hitt þig og Karl sagði að hann vissi ekki til þess að Adam hefði náð svona góðri tengingu við nokkurn mann áður. Karl Smári átti ekki til orð yfir hversu vel þú tókst á móti þeim og talaði sérstaklega vel um þig og svo er ekki hægt að minnast ekki á húsið þitt á Stöðvarfirði og útsýnið af "pallinum" og ekki skemmdi veðrið fyrir.....
Jóhann Elíasson, 14.6.2022 kl. 07:26
Oft hef ég hugsað, Magnús, að það hljóti að koma að því að fræðimenn bergi af brunni sagna þinna. Svo lifandi séu þær og skemmtilega fróðlegar og ekki síst þær sem af nærumhverfi þínu spretta.
Ánægjuefni að nú sé svo orðið. Og vonandi að framhald verði þar á. Segi annars sem oftar:
Kærar þakkir fyrir þennan skemmtilega og fróðlega pistil þinn, sem og hina fyrri.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.6.2022 kl. 10:59
En svo vakna reyndar upp spurningar um það hvers lenskir ránsmennirnir voru og að undirlagi hverra ránsfarirnar voru. Viss um að þið hafið rætt það og gaman væri að heyra af því. Og hvers vegna ránsmennirnir voru kenndir við Tyrki, sem nær örugglega höfðu ekkert með þessi rán og þrælasölur að gera, Hvað bjó að baki?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.6.2022 kl. 11:56
Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar Jóhann og Pétur Örn, -ég er aldrei þessu vant alveg orðlaus um þau.
Varðandi hverjir og hvers lenskir "Tyrkir" voru. Þá er skemmst frá því að segja að skipstjórnendur voru Hollenskir, -fjárplógsmenn og trúskiptingar. Áhöfnin kom frá Algeirsborg og innihélt fyrst og fremst N-Afríku menn, einnig allra þjóða kvikindi þ.m.t. einn Dana, sumir voru í anauð.
Þetta lið fékk nafnið "Tyrkir" vegna Ottoman veldisins sem stundum er kallað Tyrkjaveldi vegna þess að höfuðborgin var Istanbul en veldið var mun víðfermara bæði í Evrópu og Afríku.
Bækur þeirra félaga, Karls Smára og Adams Nichols, greina frá mun meira en hinni íslensku Tyrkjaránssögu. Í þeim er grafist fyrir um það að fremsta megni hvað um íslenska fólkið varð sem hernumið var, bæði út frá heimildum í N-Afríku og hvað almennt varð um fólk sem selt var á þrælamarkaði.
Þessi íslenska saga þykir um margt stórmerkileg á heimsvísu og ekki eru nema rúmir tveir mánuðir síðan að lesið var úr bók þeirra félaga á youtube með myndskreytingum. Það video hefur fengið nú þegar um 2 milljónir áhorfa og yfir 13.000 athugasemdir.
Svo athygliverð þykir þessi þjóðsaga.
https://www.youtube.com/watch?v=M2EJChRdxL0&t=149s
Magnús Sigurðsson, 14.6.2022 kl. 13:17
Bestu þakkir, Magnús, fyrir svarið.
Og tengilinn sem ég horfði á, sá 2.017.531.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.6.2022 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.