23.6.2022 | 16:31
Jónsmessunætur draumur
Nú er hámark orkunnar í öllu lífi norðurhjarans og nóttin framundan verður hlaðin töfrum. Ó sumarkvölds unun, er ei verður skýrð, með alheiðan himin í sólarlags dýrð; með loggylling vesturs og litanna fjöld, hve ljúft er hið íslenska góðviðris kvöld; -svo kvað 19. aldar skáldið Steingrímur Thorsteinsson.
Jónsmessa er sögð vera fæðingarhátíð Jóhannesar skírara og er kennd við hann, enda Jón og Jóhannes tvö afbrigði sama nafns. Jónsmessunótt er aðfaranótt 24. júní og er ein þeirra fjögurra nátta í íslenskri þjóðtrú sem taldar eru hvað magnaðastar og alls kyns dularfullir atburðir geta þá gerst.
Eitt af því sem magnast upp á Jónsmessunótt er döggin. Þess vegna er það gömul trú að heilnæmt sé að velta sér nakinn upp úr dögginni þessa nótt. Sé það gert batna allir sjúkdómar og þeim sem það gera verður ekki misdægurt næsta árið á eftir. Margir létu sér þó nægja að baða andlit sitt eða ganga berfættir í dögginni, en lækningin átti að felast í því að láta næturdöggina þorna af sjálfu sér á líkamanum.
Næturnar eftir sumarsólstöðurnar eru taldar magnaðar víðast hvar á norður hveli jarðar og þar fátt sér íslenskt. Á Spáni er þessi nótt kölluð Noche de San Juan, sem þýðir einfaldlega Jónsmessunótt. Á Spáni kemur fólk víða saman á ströndinni og brennir líkneski Juan við dans og gleði ástarinnar. Allá en la playa donde yo la conocí tu sabes, en una noche de esas de San Juan te juro nunca me canse de perseguir una oportunidad para con ella hablar. (Jory Boy)
Frá því fyrst ég man hefur þessi magnaða árstíð trekt mig svo erfitt hefur verið um svefn. Og oft hef ég á þetta minnst hér á síðunni. Undanfarin ár hef ég farið út um þúfur einhverja af nóttunum frá sumarsólstöðum að Jónsmessu og komið hefur fyrir að ég hef snúið sólahringnum alveg við og verið við vinnu yfir bjarta nóttina frekar en daginn.
Þetta árið ber svo við að allar nætur frá sólstöðum að Jónsmessu eru á vrkum dögum og tíðarandinn gefur ekki gömlum steypukalli grið í steypu dagsins. Þess vegna er nú svo komið, sem ekki hefur gerst í mörg ár, að ég hef ekki orku í að fara út um þúfur næturlangt til að hlaða batteríin.
Þessi pistill hófst á ljóðlínum íslenska 19. aldar mannsins, og glóbalski 21. aldar regnboga-maðurinn tók við á spænsku, en ég ætla að enda pistilinn með ljóðlínum minnar kynslóðar sem átti sín bestu ár við leik og störf á 20.öldinni. Sannkallaður Jónsmessunætur draumur; -Sálin hans Jóns míns gjörið svo vel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.