23.7.2022 | 05:28
Rammíslenskur splatter
Flugu hjaldrs tranar
á hræs lanar,
órut blóðs vanar
benmás granar,
Sleit und freki,
en oddbreki
gnúði hrafni
á höfuðstafni.
Sagt er að eftir að útskýrt hefur verið fyrir barni hvað fugl sé, þá muni það aldrei sjá fugl framar, aðeins hugsanir sínar um fugl samkvæmt útskýringunni. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér hvað Egilssögu varðar. Þegar hún var fyrst útskýrð fyrir mér í skóla lét kennarinn þess getið að þarna væri um magnaða lygasögu að ræða, ekki væri nóg með að söguhetjan hefði lent á sitt fyrsta fyllerí þriggja ára gömul, heldur hefði hún drepið mann sex ára. Síðan væri söguþráðurinn svo blóði drifin og lýsingar á manndrápum það yfirgengilegar, að hálfa væri miklu meira en nóg.
Egilssaga Skallagrímssonar er saga tvennra bræðra. Þar sem annar bróðirinn í hvoru pari er hvers manns hugljúfi, eftirsóttur af eðalbornum, ljós og fagur; en hinn svartur, sköllóttur, þver og ljótur. Bræðurnir eru annarsvegar, þeir Skallagrímur og Þórólfur, Kveldúlfssynir og svo synir Skallagríms þeir Þórólfur og Egill. Sagan fjallar um örlög ættar á 150 ára tímabili á víkingaöld, glímuna við að ná sínum rétti samkvæmt lögum sem valdhafar setja og breyta jafnharðan ef þeim hentar. Í sögunni falla báðir Þórólfarnir fyrir vopnum á besta aldri, þeir voru hinir hugljúfu, á meðan Skallagrímur og Egill þverskallast til elli. Sagan gerist víða í N-Evrópu, en aðallega þó í Noregi, Englandi og á Íslandi.
Þegar ég las loksins söguna í heild á sextugsaldri, en lét ekki bara útskýringar kennarans næga, þá gerði ég það mér til huggunar þar sem ég var staddur í minni sjálfskipuðu þriggja ára útlegð í Hálogalandi. Söguþráðurinn er eins og kennarinn sagði á sínum tíma, mögnuð saga af drykkju og manndrápum, sem myndi sóma sér vel í hvaða splatter sem er, -a la Tarantino. En þó var fleira sem vakti forvitni mína við lesturinn, Hálogaland var nefnilega heimavöllur Þórólfs Kveldúlfssonar. Áhugi kviknaði á að komast að því hvar nákvæmlega í Hálogalandi Þórólfur hafði alið manninn og efaðist ég um að rétt væri farið með það atriði. Á meðan á þeim heilabrotum stóð hitti ég mann sem gjörbreytti viðhorfi mínu til Egilssögu.
Leit minni að Þórólfi Kveldúlfssyni hefur áður verið gerð skil hér á síðunni. En þá hitti ég norðmann sem kunni önnur skil á Agli Skallagrímssyni en kennarinn í denn. Þessi fundur var í Borkenes nágrannabæ Harstad, þar sem ég bjó. Þangað hafði ég verið sendur um tveggja vikna skeið til að laga flísar í sundlaug grunnskólans. Þetta litla sveitarfélag gerði út á að hafa "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem hafa misstigið sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Þarna átti ég marga áhugaverða samræðuna.
Síðasta daginn minn í Borkenes höfðum við sammælst um það, fjölbreyttur vinnuhópur móttaksins og íslenski flísalagningamaðurinn, að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur, sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum rist andlitið, sá um vöfflubaksturinn og heilsaði mér með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egil Skallagrimson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig hafa himinn höndum tekið við að fá botn í heimilisfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kosti fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf Kveldúlfsson í tal sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga. En eitt vissi hann; "Egil var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).
Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með ljóðinu Höfuðlausn, þegar Egill kunni ekki við annað en að heilsa upp á fjanda sinn Eirík blóðöxi, sem óvænt var orðinn víkinga konungur í York, en ekki lengur Noregskonungur. Til York rambaði Egill í sinni síðustu Englandsferð. Þau konungshjónin (Eiríkur og Gunnhildur) og Egill höfðu eldað grátt silfur árum saman. Hafði Egill m.a. drepið Rögnvald son þeirra 12 ára gamlan, reisti þeim hjónum að því loknu níðstöng með hrosshaus og rúnaristu, þar sem hann hét á landvætti Noregs að losa sig við þá óværu sem þau hjónin sannarlega væru, en virðist hafa sést yfir það að biðja Englandi griða fyrir hyskinu.
Eiríkur náði um Egil eina nótt í York, en fyrir áeggjan Arinbjarnar fóstbróður síns, auk þess sem Arinbjörn var besti vinur Egils, lét Eiríkur Arinbjörn narra sig til loforðs um grið Agli til handa, svo framarlega sem Egill gæti samið eilífa lofgjörð um Eirík. Þá varð til ljóðið Höfuðlausn, sem Eiríkur blóðöxi gat ekki tekið öðruvísi en lofi. Úr þessu ljóði fór Leifur með erindi við vöfflubaksturinn í Borkenes um árið, og sagði svo að endingu að þarna væri allt eins um hreinustu níðvísu að ræða til handa Eiríki.
Þetta vakti áhuga minn á kveðskap Egils sem ég hafði skautað fram hjá sem óskiljanlegu þrugli í sögunni, enda vel hægt að fá samhengi í fyllerí og vígaferli Egils án ljóðanna. Þegar ég las svo Höfuðlausn náði ég fyrst litlum botni í kveðskapinn, en gekk þó betur að skilja hann á ensku en því ástkæra og ylhýra.
Þegar Hálogalandsútlegð minn lauk árið 2014 átti ég eina glímu eftir henni samfara, en þessi útlegð var tilkominn vegna ósættis við bankann. Mér hafði tekist með þriggja ára Noregsdvöl að losa heimilið við óværuna. Og það án þess að reisa níðstöng með hrosshaus, en með því að senda mína hverja einustu norska krónu til þriggja ára í hít hyskisins. En eina orrustu varð ég að heyja til viðbótar. Ég gat nefnilega ekki látið bankanum eftir Sólhólinn við ysta haf, jafnvel þó á honum stæði bara dekurkofi. Vegna ósveigalegrar græðgi fjármálaflanna í skjóli ríkisvaldsins(eðalborinna okkar tíma)gekk hvorki né rak og að endingu kom mér til hugar, Höfuðlausn.
Þetta magnaða kvæði náttúrustemminga og manndrápa, þar sem blóðugur blærinn flytur dauðann yfir láð og lög. Aðeins ef ég gæti ráðið í það hvernig Egill færi að því að bjarga sínu á mínum tímum, því eins og öðrum hverjum manni af Kveldúlfsætt þá geðjast mér ekki að því að vera botnlaus fjáruppspretta aðalsins fyrir lífstíð, enda kannski ekki á öðru von, því ef Íslendingabók Kára fer með rétt mál er ég komin út af börnum Egils Skallagrímssonar. Ég ákvað því til þess að komast að leyndarmáli lausnarinnar myndi ég mála mynd af kveðskapnum og væri best að stytta sér leið og byrja á höfðinu.
Þess er skemmst að mynnast að byrjunin lofaði ekki góðu, þegar ég hafði gert lítið meira en koma blindrammanum á trönurnar fékk ég hjartaáfall af verri gerðinni, hjarnaði við á hjartadeild. Við tók nokkurra vikna endurhæfing undir handleiðslu hjúkrunarfólks og sálfræðings. Þegar ég færði tildrög minnar ófullgerðu höfuðlausnar í tal við sálfræðinginn var svarið einfalt; þessu skaltu reyna að gleyma þú hefur ekkert þrek lengur í að stofna til orrustu. Myndin lenti ókláruð upp á skáp þó svo hún væri fullkláruð í höfðinu. Það var síðan núna í vetur sem ég tók hana fram aftur og fullgerði hana enda lausnin fyrir löngu fram komin.
Þegar ég las Egilssögu í annað sinn með hliðsjón af myndinni þá áttaði ég mig á því að lofgjörð Egils í Höfuðlausn er ekki ort til Eiríks blóðöxi. Það sést á þeim náttúrustemmingum sem ljóðið hefur að geyma að þetta er ljóð um orrustuna á Vínheiði þar sem Þórólfur bróðir Egils lét lífið nokkrum árum fyrir magnþrungnu nóttina í York. Sú orrusta hefur verið kölluð orrustan við Brunanburh og mun hafa markað upphafið að nútíma skipan Bretlands. Þar hafði Þórólfur gengið á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi ásamt Agli bróður sínum og víkingum þeirra.
Um liðskipan þeirra bræðra í orrustunni lét Þórólfur Aðalstein konung ráða, við mótmæli Egils, því fór sem fór, þrátt fyrir frækilegan sigur þá lét Þórólfur lífið. Lýsingarnar á Agli þegar hann kom til sigurhátíðar Englandskonungs eru magnaðar. Þar settist hann gengt konungi yggldur á brún, með sorg í hjarta og dró sverð sitt hálft úr slíðrum án þess að segja eitt aukatekið orð og smellti því svo aftur í slíðrin. Aðalsteinn hætti ekki á annað en láta bera gull og kistur silfurs í röðum til Egils um leið og hann þakkaði honum sigurinn.
Ljóðið Höfuðlausn orti Egill svo í sinni seinni Englandsferð þegar hann fór til að heilsa upp á Aðalstein Englandskonung og herma upp á hann loforð. Í enskri útgáfu ljóðsins má m.a. finna þessar hendingar;
The war-lord weaves
His web of fear,
Each man receives
His fated share:
A blood-red suns
The warriors shield,
The eagle scans
The battlefield.
----
The ravens dinned
At this red fare,
Blood on the wind,
Death in the air;
The Scotsmens foes
Fed wolves their meat,
Death ends their woes
As eagles eat.
----
Carrion birds fly thick
To the body stack,
For eyes to pick
And flesh to hack:
The ravens beak
Is crimson-red,
The wolf goes seek
His daily bread.
Þetta er varla lofgjörð til nokkurs manns þó svo Egill hafi leyft Eiríki blóðöxi að halda svo um árið í York. Það var rétt með farið hjá Leif í Borkenes að þarna er kveðið argasta níð til rangláts valds. Það er nær að ætla að Egill hafi haft bróðir sinn í huga þegar hann yrkir kvæðið þessa nótt í York. Höfuðlausn sé því í minningu Þórólfs og þeirra Þór-álfa sem láta glepjast af gylliboðum um frama með þjónkun við það vald sem telur sig eðalborið til yfirgangs og græðgi.
Þó Höfuðlausn sé tvíeggjað torf og tímarnir aðrir þá en nú á dögum markaðsvæddra svartra föstudaga, lögfróðra og bankstera; er rétt að fara varlega í að útskýra fyrir blessuðu barninu hvers eðlis fuglinn er, og hafa þá efst í huga orð mankynslausnarans. "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"
Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir rúmum fjórum árum og er nú endurbirtur í gúrkunni.
Athugasemdir
Ekki ætla ég að tvínóna við að segja huga minn:
Egils-saga er sú sem er uppáhald mitt. Já, punktur. Bestu þakkir fyrir pistilinn, Magnús.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.7.2022 kl. 12:37
Egilssaga stendur fyrir sínu bæði í bundnu og óbundnu máli, sannkallað eilífðar listaverk.
Magnús Sigurðsson, 23.7.2022 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.