25.7.2022 | 06:38
Krossflöt
Það hefur færst í vöxt á 21. öldinni að krossar séu reistir rétt utan við þjóðvegi landsins. Þarna er oftast verið að minnast þeirra sem hafa farist í bílslysum. Krossar voru ekki áberandi við þjóðvegina á 20. öldinni, nema þá frá gamalli tíð í ætt við Nadda-krossinn í Njarðvíkurskriðum til verndar vegfarendum fyrir illum vættum.
Í Hamarsfirði er kross í minningu konu sem lést þar í bílslysi á þjóðveginum veturinn 2002. Krossinn er við stað sem heitir Krossflöt, nafnið er samt frá fyrri tíð, eldra en elstu menn muna. Ofan við krossinn og Krossflöt í hinum vegkantinum er lítill lækur með fossi rétt ofan við veg og rennur lækurinn um ræsi undir veginum.
Krossinn, fossinn, og Krossflötin, þar sem lækurinn rennur um til sjávar, fer að mestu fram hjá vegfarendum vegna þess að þetta er í blindbeygju á veginum og sést því aðeins örskots stund. Þó svo að ég hafi farið þennan veg ótal sinnum fór staðurinn fram hjá mér, jafnvel þó svo mér hafi verið kunnugt um bílslysið sem þarna varð.
Ég hef sagt frá því oftar en einu sinni hér á síðunni að þegar ég var á ferð með sagnfræðingunum Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols, sem gáfu út Tyrkjaránsögu Austfjarða á ensku, að Adam hafi verið hugleikið hvað af húsfreyjunni varð þegar Tyrkir rændu bæinn á Hamri. Tyrkir hernámu allt fólkið, börðu og spörkuðu í húsfreyjuna, skyldu hana eftir ósjálfbjarga, -töldu hana jafnvel dauða.
Eins hef ég sagt að eftir kynningafund bókarinnar á Djúpavogi hafi ég getað frætt þá um hvað af húsfreyjunni varð, því mér hefði verið sögð saga af stúlku sem hefði drekkt sér í smá lækjarsprænu skammt frá Hamri við þjóðbrautina út á Djúpavog og þar hefði sennilega verið átt við húsfreyjuna á Hamri.
Það verður að segjast eins og er að eftir að ég heyrði þessa sögu í Löngubúð á bókarkynningunni hafi mér orðið húsfreyjan á Hamri jafn hugleikin og ameríska sagnfræði prófessornum. Ég leitaði því að uppruna sögunnar um stúlkuna sem drekkti sér og fann hann að lokum í þjóðsagnasafni.
Í stuttu máli þá er sagan orðin til svona, -og alls ekki svo gömul:
Á krossmessu vorið 1917 gekk vinnustúlka á Hamri, sem var á heimleið frá Hálsi, fram á stúlku sem var grá, raunaleg og lyktaði af mold. Hún var ekki þessa heims því stúlkan hvarf þegar hún reyndi að snerta hana. Stúlkan var við fossinn ofan við Krossflöt.
Dreymdi hana síðar stúlkuna, vildi stúlkan fá að komast til hennar í draumum, frekar en vera henni sýnileg. Sagði hún henni að hún hefði drekkt sér í læknum undir fossinum frekar en að lenda í höndum Tyrkja þegar þeir voru að ræna við Hamarsfjörð sumarið 1627. Hafði hún síðan verið þar við fossinn einsömul föst á milli heima.
Sagði Ragnheiður (en svo hét vinnukonan) Kristínu móður Ólafas Thorlsius læknis á Búlandsnesi frá þessu þegar hún var þar í vist. Vorkenndi Kristín stúlkunni mikið. Í árslok 1922 var Ragnheiður komin til Reykjavíkur. Dreymdi hana þá stúlkuna sem þá var mikið breytt, bæði orðin björt yfirlitum og glaðleg.
Sagði hún Kristínu hafa komið til sín og hjálpað sér og væri hún nú komin til fólks þar sem henni liði vel. Nokkru síðar frétti Ragnheiður lát Kristínar. Dreymdi hana þá stúlkuna sjaldnar en áður og síðast árið 1925. Sagði stúlkan þá að hún kæmi ekki til hennar næstu 5 árin.
Sigurður Nordal skrásetti þessa sögu eftir Ragnheiði Stefánsdóttur árið 1927. Mun lengri frásögn af stúlkunni á Hamri er að finna í þjóðsagna safninu Gráskinnu og stendur þar í eftirmála að Ragnheiður Stefánsdóttir sé merk og vönduð stúlka og engir sem til hennar þekki dragi í efa að hún segi samviskulega frá reynslu sinni.
Þar sem Krossflöt er um svo margt merkilegur staður þá gat ég ekki látið vera að koma á hann. Það er ekki auðvelt að stoppa á þjóðveginum í Hamarsfirði á milli tímatrekktra túrista, blindbeygja og -hæða, með ræsi og vegrið í vegköntum. Ég varð því að stoppa nokkru frá staðnum og ganga að honum.
Það verður að segjast eins og er að staðurinn er ægifagur og hefur yfir sér sömu friðsæld og finna má í grafreit. Því er auðvelt að ímynda sér að hann geymi örlög fólks öld fram af öld, þó svo að hann skjótist framhjá og sé aðeins sýnilegur örskotsstund í amstri dagsins.
Þarna við krossinn hefur þjóðleiðin legið í gegnum aldirnar, dularfull sagan kallað fram harmþrungna atburði, -frá Tyrkjaráni til okkar daga. Auk þessa hefur nafnið Krossflöt verið haft um staðinn frá ómuna tíð og á sér vafalaust einnig sína sögu.
Athugasemdir
Það er rétt að taka fram að Krossflöt er svo nefnd á örnefnakorti Landmælinga Íslands, eins á korti www.ja.is.
Sami staður er nefndur Krossflötur í Örnefnaskrá Árnastofunnar. Þar segir í örnefnaskrá í Hamarslandi; -"Utan við Reiðingshraunið er Krossflötur grasbali, og rennur eftir honum lítill lækur. Við hann er bundin sagan "Stúlkan á Hamri" í Gráskinnu I, bls 75, skrásett af Sigurði Nordal".
Krossflötur eða Krossflöt, -hvort er réttara veit ég ekki, en notaði Krossföt. Nafnið Krossflötur er bundið sögunni "Stúlkan á Hamri" skrás. af S N samkvæmt Örnefnaskrá Árnastofnunar.
Í Sveitir og jarðir í Múlaþingi er getið jarðar sem eyddist 1744 og hét Krosshóll og var utan við Bragðavelli sunnan Hamarsfjarðarfjarðar og hefur þá verið gegnt Krossflöt norðan fjarðar.
Magnús Sigurðsson, 26.7.2022 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.