2.8.2022 | 06:07
Orð
Íslenskan á sér mörg orð þar sem merkingin er ekki alltaf einhlít. Þetta kom mér í hug við Kárahnjúkastíflu fyrir skemmstu þegar staðið var á útilistverkinu Hringiðu. En í iðunni las ég forn spjöll fira. Mér datt fyrst í hug að þarna hefðu umhverfissinnar fengið að senda Landsvirkjun tóninn og látið hana borga brúsann. þegar gengið var um verkið mátti finna fleiri orð á stangli límd á steina, sem og staflausa staði.
Á upplýsingaskilti neðan við Hringiðu sá ég svo öll vísubrotin, sem voru á víð og dreif í iðunni, og var þar seinni hluti fyrsta erindis Völuspár: Viltu að eg, Valföður, / vel fyr telja / forn spjöll fira, / þau er fremst um man. -Skýring á þessum orðum völvu Völuspár var á skilti Landsvirkjunar þessi: Menn vildu að ég segði Óðni af mönnum og goðum svo langt aftur í tíma sem ég frekast man.
Skilningur minn á forn spjöll fira hafði verið í fljótu bragði sá að þarna væri átt við spellvirki yfirgangsmanna. En spjöll merkja yfirleitt skemmdaverk nú á tímum. En þegar málið er skoðað þá getur þýðingin verið misjöfn eftir því hvort spjöll eru dregin af spell eða spjall. Getur svo hver og einn dregið ályktun út af fyrir sig í hvaða merkingu þessi orð hafa lent í Hringiðuna.
Með mér þarna á grjóthrúgunni var náttúrulega hún Matthildur mín, ásamt Búdda munknum bróður mínum, master í burðarþols verkfræði. Þau voru að tala saman um annað en þann stað sem ég stóð á og þau orð sem ég var í að spá. Þar koma fram hjá Matthildi minni að þetta hefði verið við böltann austan við Læknishúsið á Djúpavogi.
Ég hef svo oft heyrt Matthildi mína tala um bölta að ég vissi upp á hár að þarna var hún að tala um grasi vaxið barð, þó svo master verkfræðingurinn hváði. En ég ákvað samt þarna í grjót hringiðu orða við Kárahnjúka að kryfja þetta orð bölti næst þegar gæfist tími, því ég hef enga heyrt nota það nema hana og hennar nánustu.
Það er einu sinni þannig að ef maður er alin upp á íslensku og veit hvaðan uppruni orðanna kemur þá hefur maður mikið meiri skilning á tilverunni, getur jafnvel séð í gegnum holt og hæðir eins og hún Matthildur mín, eða jafnvel fram og aftur í aldir rétt eins og völvan sem fræddi Óðin æðstan goða um forn spjöll fíra.
Samkvæmt Orðabók Menningasjóðs er; -Bölti, -a, -ar k, hjalli, brekka, hóll, þúst.
Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar er; -Bölti k., böltur k. (17. öld) hjalli, barð, hóll, þústa. E.t.v. upphafl. u-st. *baultu- og v.b. bölti ung og hefur fengið ö frá böltur. Sbr.nno. balt smástrákur, sendisveinn, balter flóki, hnoðri, sæ máll. bulten böggulslegur, feitlaginn og d. bylt böggull sem er e.t.v.to. úr (m)lþ. bult(e) bunki, dyngja (hljsk.). E.t.v. er ísl. örn. Bylta (fjallsheiti) (s.Þ.) af þessum sama toga. Af germ. rót *bel-t, ie *bhel-d-, sbr. *bhel- í bali (1) og bolur.
Orðsifjarnar fara þarna um víðan böltann, ef ekki hreinlega út um þúfur, svo maður verður að lúta í gras. Einna helst má skilja að orðið komi úr þýsku í gegnum dönsk áhrif frá því á 17. öld, og geti verið yfir nánast hvað sem er.
Þó svo að íslenskan þyki ekki einföld með öllum sínum fallbeygingum þá eru tökuorð ekki til að einfalda málið þó svo að þau lúti íslenskri málhefð, og svo sem ekki alltaf nýyrði heldur. Tökuorð og nýyrði eða nýjar merkingar orða koma oft af sjálfu sér í gegnum notkun fólks á tungumálinu og hafa þá þannig oft bæði dýpt og einfaldleika til að bera.
Fjölskylda dóttur minnar er margtyngd, móðurmál húsbóndans er s-amerísk spænska, húsmóðurinnar er íslenska, og saman tala þau oft á lítt innblásinni ensku. Ævi 4 ára dóttir þeirra talar svo öll tungumálin þrjú. Já, -og vel á minnst, það var ekki íslenski hluti fjölskyldunnar, sem átti hugmyndina af nafni með íslensku æ-i, orði sem er eins í öllum föllum.
Í þessari fjölskyldu hafa orðið til mörg kjarnmikil íslensk nýyrði og Ævi segir sögu á þremur tungumálum. Hún hefur meir að segja byrjað sögu á íslensku, sagt miðhlutann á ensku og niðurlagið á spænsku án þess að rugla orðum tungumálanna saman.
Mamma Ævi heitir Snjófríður Kristín eftir ömmum sínum, en er frá bernsku kölluð Systa, -sama og Snjófríður amma hennar var kölluð. Eiginmaðurinn kallar hana hvorki Systu né Snjófríði, enda ókunnugt um að önnur hver formóðir í kvenlegg hefur verið nefnd eftir Snjófríði frá 1741,- að minnsta kosti. Hann segir ekki einu sinni Kristín, heldur Snjóma, -sennilega samsett úr Snjófríður Magnúsdóttir, án þess að ég hafi spurt.
Ævi hefur búið til nokkur íslensk nýyrði sem ekki er hægt að hrekja með rökum. Eins og önnur börn þá er hún ekki alltaf til í að fara að sofa á kvöldin. Þá segir hún að það sé ekki kominn náttatími, þver neitar að það sé sama og háttatíma, og rökstyður muninn á honum og náttatíma. Þá sé komið myrkur og bæði kominn tími til að hátta og sofa.
Nú er sumar og Ævi í sumarskapi, þá skal fara í útilegu. Í fyrrasumar fórum við oftar en einu sinni á fleiri en einn stað með henni og tjölduðum í veðurblíðu einstaks sumars. Auðvitað vildi Ævi útilegu í sumar og bað um að fara út í tjaldastaði og var þá ekki sama hvert var farið. Tjaldastaðir er nefnilega alveg sérstakur staður.
Þeir eru gamlar steypumalarnámur úti í Hjaltastaðaþingá í bökkum Lagarfljóts. Þar höfum við Matthildur mín oft tjaldað part úr degi undanfarin sumur á góðviðrisdögum. Matthildur þá átt til að prjóna á meðan ég spái í steypu, eða við bara horfum saman á Fljótið streyma hjá og njótum veðurlagsins blíða. Aldrei hafði okkur hugkvæmst að kalla þennan sælureit Tjaldastaði.
Ps. Höfundur útilistaverksins Hringiða er myndlistakonan Jónína Guðnadóttir í Hafnafirði. Völuspá hefur verið talið að samið hafi, Kolskeggur vitri Iberíasson í Krýsuvík, -seinni tíma- svokallaður Kölski.
Athugasemdir
Sæll Magnús.
Yfirleitt er það samhengi orðanna við efnið sjálft sem
skiptir höfuðmáli.
Reyndar er það þegar ljóst af upphafsorðum vísu þessarar
hver merking hljóti að vera:
Hljóðs bið eg allar
helgar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdallar.
Síðan eru frásagnir þessar og tölur upptaldar
hver af annarri, vísu fyrir vísu.
Hvað listaverkið sjálft áhrærir þá má segja
að þar fari saman listamaður af Guðs náð og það tákn
sem nærtækast er allri mannkind; allri skepnu.
Húsari. (IP-tala skráð) 4.8.2022 kl. 09:31
Tek undir hvert orð Húsari, -svo er spurning hvort það var trix að byrja ekki á byrjuninni.
Magnús Sigurðsson, 5.8.2022 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.