Borg óttans

Reykjavík er stundum kölluð borg óttans og kannski ekki að ástæðulausu. Jafnframt hefur því heyrst fleygt að suðvestur hornið allt sé kallað landráðaskagi af landsbyggðarlýðnum. Það breytir samt ekki því að Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og fæðingabær síðuhafa.

Ég fór til Reykjavíkur s.l. sunnudag. Flaug suður til að fara í þræðingu á Hjartagátt Landspítalans eldsnemma á mánudagsmorgunn. Fékk gistingu í Barmahliðinni hjá Dagbjörtu systir sem hringdi í Áskel bróðir og boðaða að hann yrði heimsóttur á sunnudagskvöldið af sér og okkur Sindra bróðir.

Guðjón mágur keyrði upp í Grafarvoginn og á þeirri leið varð mér hugsað hvað ég hefði oft keyrt þessa leið þau fjögur ár sem við Matthildur bjuggum í Grafarvoginum. Breytingarnar á Grafarvogi eru ekki miklar á 20 árum, helst að trén hefðu stækkað og gróðurinn virtist suðrænni.

Morguninn eftir keyrði Guðjón mér á Landspítalann við Eiríksgötu þar sem ég var þræddur. Þessi þræðing var ákveðin í byrjun júní og ég búin að vera með undanbrögð í allt sumar, sem ég tímdi ekki að eyða degi af í leiðindi.

Meðan ég lá á gáttinni bíðandi eftir að slagæðin lokaðist, sem voru um 4-5 klukkutímar, varð mér hugsað til þess, gónandi upp í loftið á rafmagnsljósin, að á horninu hinu megin við götuna hefði verið klippt á naflastrenginn fyrri öllum þessum árum síðan, enda hafði ég um ekkert að hugsa snjall tæknilaus maðurinn og búin að drepa á mínum gsm læstum inn í skáp.

Dagbjört systir kom svo og sótti mig og þegar við komum í Barmahlíðina ákváðum við að ganga út á Klambratún í Kjarvalstaði og skoða portrettin hans Kjarvals. Mér þóttu Borgfirðingarnir, nágrannar mínir að austan bestir og fannst þekkja hvern andlitsdrátt.

Ein af stóru myndunum var af fjórum mönnum stöddum í Hjaltastaðaþinghá í svífandi umhverfi með Selfljótinu og Dyrfjöllunum séðum frá Kjarvalshvamminum. Þeirri mynd snaraði Kjarval á striga í geðshræringu þegar honum var færður Gullmávurinn að gjöf, norskan Norlending, seglbát sem Kjarval sigldi einn niður Selfljótið út á Héraðsflóann og þokuna áður en hann kom inn á Borgarfjörð.

Þá var Kjarval 71 árs siglinga tækjalaus og óreyndur siglingamaður en ekki brást honum ratvísin heim í þokunni. Spurning hvernig menn hefðu sig í gegnum þetta snjalltækjalausir í dag þegar gps og kort eru komin í hvert snjallúr og síma.

Á þriðjudagsmorgunninn fór Dagbjört með mér á rölt um Reykjavík. Við keyrðum upp á Skólavörðuholt og löbbuðum niður Skólavörðustíginn niður í gömlu Reykjavík sem var orðin gjörbreytt neðan við Lækjargötu frá því ég kom þar síðast.

Ég get nú ekki sagt sem svo að ég hafi beint veri imponeraður af nýju Reykjavík þó svo að steinsteypan hafi fengið að njóta sín á stöku stað í því H&M Kalverstraat, þá minnti það meira á Sovéskan supermarkað. Túrista vaðallinn hafði velst um allar götur, en þarna brá svo við að ekki var hræðu að sjá innan um heimsklassa herlegheitin.

Á Austurstræti streymdi túristavaðalinn og hægt var að fylgja straumnum upp á Skólavörðuholtið aftur þar sem markmið ferðarinnar var fullkomnað með því að skoða Listasafn Einars Jónssonar. Það safn hafði ég aldrei skoðað og varð dolfallinn.

Dagbjört keyrði mér svo út á Reykjavíkurflugvöll. Það má því segja að ferðin í borg óttans sem ég hafði forðast í allt sumar hafi endað sem menningartengd borgarferð.

IMG_5203

Kjarval engum líkur í sinni fjölbreytilegu litadýrð

 

IMG_5210

Íslenskt handverk á boðstólum í gamalli steypu

 

IMG_5215

Gimli í Lækjarbrekku, húsið sem ég vann síðast við múrviðgerðir í Reykjavík, en ég var svo heppin að vinna mikið í gömlu Reykjavík þegar við bjuggum í Grafarvogi 

 

IMG_5218

Nýja Reykjavík

 

IMG_5226

Sovéskur súpermarkaður?

 

IMG_5237

Meir að segja skatturinn er farinn, en myndin hennar Gerðar Helgadóttur stendur fyrir sínu

 

IMG_5241

Eftirsóttasta hornið heitir ekki lengur Kaffi París, nú heitir það Dukc & Rose

 

IMG_5246

Hressó stendur vaktina

 

IMG_5249

Lækjarbrekka án lambasteikur

 

IMG_5250

Skólavörðustígur og glóballinn

 

IMG_5251

Ferðamenn í haustlitum

 

IMG_5254

Ísland í dag

 

IMG_5256

Skólavörðuholt 

 

IMG_5270

Slakað á garðinum á bak við Listasafn Einars Jónssonar

 

IMG_5282

Sjá má grilla í hrjóstrugt Skólavörðuholtið í allri hnattrænu hlýnuninni

 

IMG_5289 - Copy

Útlaginn hans Einars Jónssonar, mitt upp á hald

 

IMG_5333

En má sjá gömlu litfríðu Reykjavík líkt og rigningarskúri á stöku stað


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús. Skatturinn er ekki farinn neitt, það er bara gengið inn á öðrum stað en áður, austast í húsinu.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 14.9.2022 kl. 12:21

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þær upplýsingar Ingibjörg, -og Tollurinn er þá væntanlega á sínum stað eða hvað?

Magnús Sigurðsson, 14.9.2022 kl. 12:49

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalstöðvar Skattsins eru á Laugavegi 166 en hann er með starfsstöð í Tollhúsinu, Tryggvagötu 19.

12.6.2021:

"Skatturinn og Fjársýsla ríkisins munu flytja starfsemi sína í 11.700 fermetra húsnæði í nýbyggingu í Katrínartúni 6 í desember 2022."

"Snorri Olsen ríkisskattstjóri bendir á í tilkynningu að Skatturinn sé í dag með starfsemi í þremur byggingum á höfuðborgarsvæðinu en muni verða á einum stað eftir flutningana.

Í byrjun árs 2020 voru embætti Tollstjóra og Ríkisskattstjóra sameinuð í nýtt embætti sem fékk nafnið Skatturinn.

Þá sameinuðust Skatturinn og Skattrannsóknarstjóri 1. maí 2021."

Skatturinn flytur í Katrínartún

5.5.2022:


Listaháskólinn sameinast undir einu þaki í Tollhúsinu

Þorsteinn Briem, 14.9.2022 kl. 16:33

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Steini. Svona er nú að horfa ekki á sjónvarp, maður verður á endanum eins og álfur út úr hól í borginni.

Vonandi að listháskólanemarnir kunni að meta myndina hennar Gerðar, en kroti ekki yfir hana eða komi fyrir ruslatunnu til að skjóta út í geim eins og hverri annarri Guðríði.

Skatturinn er semsagt á förum og maður tekur númer við Katrínartún í framtíðinni.

Veistu hvort það verður sér númer fyrir skattinn og annað númer fyrir vaskinn og hvort tollurinn verði í hinum endanum?

Magnús Sigurðsson, 14.9.2022 kl. 17:27

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú veit ég ekki hvernig þetta verður, Magnús minn, en afgreiðslan verður væntanlega öll á jarðhæðinni í þessu níu hæða húsi.

"Katrín­ar­tún 6 er síðasta bygg­ing­in sem rís á Höfðatorgi.

Flug­fé­lagið WOW air var með höfuðstöðvar í bygg­ingu á sömu lóð en það hús var rifið.

Und­ir Katrín­ar­túni 6 verður bíla­kjall­ari sam­tengd­ur bíla­kjall­ar­an­um und­ir Höfðatorgi."

Þorsteinn Briem, 14.9.2022 kl. 18:22

6 identicon

Reykjavík ó Reykjavík

Þú ert ekkert merkilegri en Krísuvík

Hunskastu norður á Húsvík

Og haltu kjafti og éttu skít

Bjarni (IP-tala skráð) 14.9.2022 kl. 18:22

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir viðleitnina Steini og vísuna Bjarni.

Auðvitað er Reykjavík ekkert merkilegri en Húsavík og Krýsuvík var eitt sinn merkilegust þeirra allra.

https://ferlir.is/krysar-skuggi-jockum-m-eggertsson/

Magnús Sigurðsson, 14.9.2022 kl. 19:20

8 identicon

Þakka þér fyrir skemmtilegar myndir.
Vel orðað, Sovéskan supermarkað. Það á fátt betra við þennan óskapnað sem meiri(minni)hlutinn í Reykjavík býður upp á. Ekki má gleyma vindgöngunum sem boðið er upp á þarna á milli húsanna.

Nonni (IP-tala skráð) 15.9.2022 kl. 12:11

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina Nonni. Ég fékk sem betur fer blíðalogn á þessu borgarrölti svo ekki reyndi á vindgöngin.

Ég bjó í Grafarvoginum um tíma og vann þá oft í gömlu Reykjavík. Þetta var á þeim tíma sem Skuggahverfið hvarf og upprisu svartir Dubai draumar.

Mér hefur oft komið það til hugar að þær hamfarir sem hafa orðið í gömlu Reykjavík hefðu verið betur komnar upp í Geldinga- og Gufunesi sem hefði þá sómt sér sem nokkurskonar Manhattan Íslands.

Svo ætti meiri-minnihlutinn að hugsa út í það hvað mætti segja um Færeyinga ef þeir tækju upp á því að rífa byggingasöguna í Þórshöfn og byggja svarta turna upp í himinninn í stað litlu timburhúsanna með torfþökunum sem prýða gömlu Þórshöfn.

Hvað þá ef Sovéskur Súpermarkaður yrði reistur í miðri Bergen.

Magnús Sigurðsson, 15.9.2022 kl. 14:23

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikið rýkur nú moldin í logninu hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt. cool

Borgarstjórnarmeirihlutinn hér í Reykjavík er með þrettán borgarfulltrúa af 23 og nægir því tólf.

Samfylkingin er með fimm borgarfulltrúa, flesta borgarfulltrúa flokkanna í meirihlutanum.

Sjálfstæðisflokkurinn er með sex borgarfulltrúa og missti tvo í borgarstjórnarkosningunum í vor en Miðflokkurinn missti sinn eina borgarfulltrúa. cool

Í Reykjavík býr meira en þriðjungur landsmanna (36%), íbúum Reykjavíkur hefur fjölgað um meira en heila Akureyri síðastliðna tvo áratugi og væntanlega hafa þeir sjálfir valið að búa í Reykjavík.

Margra hæða hús eru við norðurströnd Reykjavíkur, allt frá Seltjarnarnesi að Mosfellsbæ. cool

15.5.2015:

"Framkvæmdir eru hafnar við Tollhúsið í Reykjavík en þar verða reistar áttatíu íbúðir, auk verslunar- og skrifstofuhúsnæðis."

Seðlabankinn er eina húsið við Kalkofnsveg sem heitir eftir kalkbrennsluofni sem þar var og notaður til að brenna kalk til sementsgerðar.

Þar var einnig sænska frystihúsið, fyrsta frystihúsið á landinu sem sérstaklega var byggt sem slíkt, og stærsta hús á landinu þegar það tók í fyrsta skipti á móti fiski til frystingar árið 1930.

Og næstu hús við byggingarnar sitt hvoru megin við Geirsgötuna eru stórhýsi á íslenskan mælikvarða, Harpa, Seðlabankinn og Tollhúsið. cool

Þar var stórt bílastæði og heljarinnar rampur, þannig að hægt var að aka upp á Tollhúsið og leggja átti hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið.

"Grjótaþorpið var í niðurníðslu og Reykjavík með það á prjónunum að valta yfir þorpið, leggja hraðbraut í gegn og byggja fleiri Moggahallir."

Og Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra í broddi fylkingar, lét árið 1985 rifa þar Fjalaköttinn, elsta uppistandandi kvikmyndahús í heiminum. cool

Fjalakötturinn

Torfusamtökin voru stofnuð á fjölmennum fundi í Sigtúni 1. desember 1972 í þeim tilgangi að knýja á um verndun Bernhöftstorfunnar, húsalengju ofan við Ingólfsbrekku, á milli Lækjargötu og Skólastrætis í miðborg Reykjavíkur.


Þá hafði í nokkur ár staðið til að rífa húsin til að rýma fyrir nýrri stjórnarráðsbyggingu." cool

Torfusamtökin

Í Gömlu höfninni í Reykjavík er langmestum botnfiskafla landað hér á Íslandi, ríflega 71 þúsund tonnum í fyrra, um 20 þúsund tonnum meira en í Grindavík, sem er þar í næsta sæti. cool


Landanir í íslenskum höfnum árið 2021

Nú er bílakjallari fyrir um eitt þúsund og tvö hundruð bifreiðar undir Hafnartorgi og neðanjarðar við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.


Og þar sem nú er íbúðarhúsnæði, hótel og nýtt húsnæði fyrir Landsbankann og fleira var stór vöruskemma og geymslusvæði sem Hafskip hafði til umráða fyrir margt löngu.

Gömlu húsin í Skuggahverfinu eru langflest enn á sínum stað, svo og gömlu húsin í Þingholtunum og Gamla vesturbænum. cool

Þar að auki hefur fjöldinn allur af gömlum húsum á þessu svæði verið gerður upp, til að mynda af Þorsteini Bergssyni í Minjavernd en við erum þremenningar.

Minjavernd

Og íbúðarhúsin á þessu svæði, póstnúmeri 101, þar sem ríflega 16 þúsund manns búa, eru með þeim dýrustu á landinu, bæði nýju húsin og þau gömlu.


Erlendum gjaldeyri er mokað á land í 101 Reykjavík, bæði í gömlu höfninni og fjölmörgum hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum og verslunum. cool

Ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur landsins, bæði hvað snertir mannafla og gjaldeyrisöflun.

Og gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu.

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi." cool


Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Þorsteinn Briem, 15.9.2022 kl. 15:46

11 identicon

Meiri(minni)hlutinn í Reykjavík sem samþykkti Sovéskan supermarkað
í miðbæ Reykjavíkur hefur misst meirihlutann. Því hefur þurft að ráða ræðara úr öðrum flokkum og/eða glepja þá til samstarfs með bitlingum eins og stjórnunarstöðu. Því er rétt að kalla þetta meiri(minni)hluta. Nú eða minni(meiri)hluta. Það er kannski réttara?

Amma þín sem bjó á Baldursgötu snýr sér væntanlega við í gröfinni við það að sjá þig uppnefna götuna sem hún bjó við. Það er jú enginn greinir á nafni Baldursgötu, ekki frekar en Geirsgötu, Grjótaþorpi, Þingholtum né Skuggahverfi.

Sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóra í broddi fylkingar, lét árið 1985 rifa þar Fjalaköttinn, elsta uppistandandi kvikmyndahús í heiminum.
Eigi skal svo böl bæta að benda á annað. Þó svo þau mistök hafi verið gerð að rífa Fjalaköttinn, þá er ekki þar með sagt bullkórinn í ráðhúsi Reykjavíkur hafi rétt til þess að gera hvað sem þeim dettur í hug. Benda svo á rif Fjalakattarins sem afsökun þess að mega ganga gegn vilja borgaranna og/eða landsmanna allra.

Nonni (IP-tala skráð) 15.9.2022 kl. 20:30

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir þessa þörfu upprifjun Steini og Nonni, hún skýrir nokkuð vel hvaða hamfarir hafa verið viðhafðar af meiriminnihlutanum í gömlu Reykjavík í gegnum tíðina, sem aðallega skýrast af minnimáttarkenndarmikilmennskubrjálæði fyrir íslenskri arfleið, sem hefur fyrir löngu verið umsnúið í gröfinni.

Magnús Sigurðsson, 16.9.2022 kl. 13:45

13 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Nei, Reykjavík er ekki höfuðborg allra Íslendinga heldur Lýðveldis fjölnismanna og elítukróga þeirra. Það eru tvö þjóðríki á Íslandi og annað þeirra ólögmætt Lýgveldi.

Guðjón E. Hreinberg, 23.9.2022 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband