Þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína

Ef eitthvað er, -sem ætti skilyrðislaust að að sleppa í löngum bloggpistli í von um lesendur, þá er það að minnast á eilífðina, sálina, kærleikann og Guð, -hvað þá fara með ljóð þessu tengd. Allar þessar grundvallarreglur ætla ég að brjóta þennan langa föstudag og hef meir að segja ljóðlínur í fyrirsögn.

Kærleikurinn og kærleiksviljinn, traust á handleiðslu æðri máttar og einlæg viðleitni að samþýðast honum, eru aðalþættirnir í kenningu Jesú og allri sannri guðsdýrkun. Það í trúarbrögðunum sem er fram yfir þetta er að mestu leyti “hljómandi málmur og hvellandi bjalla”.

Í kirkjum kristinna manna er það oftast bjölluhljóðið, sem mest ber á.

Við jarðarfarir nálgast kirkjurnar það mest að vera musteri guðs. Ekki vegna þess, sem þar er venjulega sagt, heldur vegna þeirrar hljóðlátu undirgefni undir guðs vilja, sem fram kemur við slík tækifæri. (Skriftamál einsetumannsins kafli VI - Hið mikla dularfulla - bls 37)

Þessar vangaveltur um trúarbrögðin, kirkjuna og kærleikann í kenningu Krists má finna í bókinni Skriftarmál einsetumannsins eftir Sigurjón Friðjónsson, sem kom út 1929. Þar birtast skoðanir hans á andans málum í ljóðrænum og þ.m.t. tilgangi trúarbragða. Sigurjón lenti upp á kannt við þjóðkirkjuna á sínum yngri árum.

Í bók um Sigurjón Friðjónsson, sem Arnór sonur hans tók saman um ljóð hans og ævi, kemur fram hvað bar þar á milli. Sigurjón Friðjónsson og Kristín Jónsdóttir létu ekki skíra börnin sín, sem á 19. öld samsvaraði nánast því að segja sig úr lögum við Guð og menn. Þetta gerðu þau Kristín þrátt fyrir að vera sjálf gefin saman í kirkju.

Það sem meira var að Sigurjón hirti ekki um að greina frá ástæðum þess að skíra ekki börnin, og lenti snemma í ógöngum. Í bréfi til vinkonu sinnar í Vesturheimi skýrði hann ástæðuna og segist þar vel vita hvað það geti þýtt að taka sig út úr í þessu efni, og þá einkum fyrir börnin. Hans skoðun var sú að börn eigi að fá að taka þessa ákvörðun sjálf þegar þau hafi aldur og þroska til, -og segir;

“Ég þykist ekki hafa gert neitt jafn stórt drengsakaparbragð í lífinu og það að brjóta í bága við venjuna í þessu efni enda gerði ég það eftir skýlausri skipan tilfinningar minnar fyrir því hvað rétt er og rangt. En þó þekki ég ekkert dæmi þess, að það hafi verið lagt öðruvísi út en á verri veg”.

Sigurjón hafði komist í mikinn vanda vegna þessarar afstöðu sinnar þegar Sigurbjörg, annað barn þeirra hjóna, lést á fyrsta ári. Presturinn á Grenjaðarstað, séra Benedikt Kristjánsson, taldi sig ekki geta jarðað barnið vegna þess að það var ekki innan þjóðkirkjunnar. Jarðarför Sigurbjargar fór samt fram í kirkjunni í Nesi í Aðaldal eftir fjölmenna messu þar sem séra Benedikt þjónaði fyrir altari.

Þar flutti Sigurjón sjálfur ræðu og las síðan stutt kvæði við gröf barnsins. Í kvæðinu kvaðst hann fela hana minningu móður sinnar með ljóði “þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína”, en móðir sína missti hann sjálfur á 6. ári. Eftir að ljóðið var flutt við gröfina, gekk Friðjón faðir Sigurjóns til prestsins, sem stóð álengdar, og fékk hann til þess að taka rekuna og molda kistuna með vanalegum formálsorðum.

Sigurjón hélt ævilangt vopnahlé við kirkjuna, þó svo að ekkert af hans 11 börnum hafi verið skírð eftir sem áður, né fermd. Hann sótti ekki mikið kirkju um ævina nema við jarðarfarir nágranna, segir Arnór. Í bók Sigurjóns, -Skriftamál einsetumannsins, sem kom út árið 1929 á 63. aldursári hans, kemur glöggt fram hversu mikla virðingu hann bar fyrir almættinu og kærleiks boðskap Krists.

Hið eilífa snertir manninn eins og háfjalla kyrrð. Eins og dásamlegur friður. Eins og hamingja sem ekki verður skýrð með orðum.

Eins og niður fjarlægra vatna. Eins og vængjaþytur hvítra svana. Eins og hvískur gróandi skóga.

Í faðmi þess verður fljót sorgarinnar lygnt. Harmur hins liðna eins og brimgnýr í miklum fjarska. –

Eins og hlýr geislastafur, sem brýst í gegnum ský; brýst í gegnum myrkur og kulda – svo er kærleikur þess dularfulla. (Skriftarmál einsetumannsins kafli XII - Návist hins ósýnilega bls 64)

Mér lá mikil forvitni á að vita hvernig jaðarförin að Nesi hefði farið fram, því á hana hafði verið minnst á við mig þegar ég var enn vel innan við þrítugt og við Matthildur mín vorum að eignast okkar börn, á svipuðum aldri og Sigurjón og Kristín voru þegar Sigurbjörg annað barn þeirra var jarðað.

Þegar ég svo las þessi fáu orð úr ljóði í vetur “þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína”, þá fannst mér ég verða að finna ljóðið ef mögulegt væri. Arnór segir ekki mikið um jarðaför systur sinnar, en gefur þá vísbendingu að frá henni hafi Erlingur Friðjónsson, bróðir Sigurjóns, sagt í bók sinni, -Fyrir aldamót.

Ég fór því að leita eftir bókinni ef allt ljóðið skyldi vera þar, eins til að fá nákvæma lýsingu á þessum atburði. Bókina fann ég svo í fornbókaverslun og keypti. Þar er þessum jarðafarardegi lýst nákvæmlega, enda var Erlingur sjálfur viðstaddur og dagurinn honum sjálfsagt minnisstæður alla ævi.

Erlingur segir frá þeim bræðrum sínum Sigurjóni og Guðmundi Friðjónssonum sem ekki voru sammæðra Erlingi. Friðjón faðir þeirra átti fimm börn með móður Erlings án þess að þau hjónakornin hefðu gifst. Guðmundur var ungt skáld sem fór opinberlega gegn kirkjunni. Sigurjón gerði það sem fáheyrðast var, -hann fór ekki með börnin sín til skírnar.

Erlingur, sem var mikill félagsmálamaður og alþingismaður á sinni tíð, telur að kirkjuyfirvöld hafi verið búin að setja séra Benedikt fyrir, vegna trúarskoðana þeirra feðga á Sandi. Presturinn hafi því hvorki talið sér skylt né fært að jarðsyngja Sigurbjörgu þar sem hún var óskírð.

Í bókinni Eftir aldamót er þessum jarðafaradegi lýst sem björtum og fögrum síðsumardegi. Húskveðja fór fram heima á Sandi áður en haldið var til messu með litlu kistuna. Kirkjan var aldrei þessu vant yfirfull á venjulegum messudegi. Erlingur telur það vera vegna þess að mörgum hafi leikið forvitni á að vita hvernig þessi jarðaför barns, sem var óskrifað blað, færi fram. Enda afstaða prestsins hljóðbær orðin.

Öllu er lýst nákvæmlega, -hvar ungu hjónin sátu í kirkjunni við hornið á altarinu og hvar litla kistan stóð hjá þeim sunnan við gráturnar, en vaninn var við jarðaför að láta kistuna standa beint fram af altarinu. Þegar séra Benedikt hafði lokið venjulegri sunnudagsmessu gekk hann frá altarinu og settist við vegginn norðan við.

Sigurjón stóð á fætur og las yfir kistunni ræðu sem hann hafði á blöðum, hann talið hægt og með hléum. Ræðan var nokkuð löng og vék hann eitthvað að trúarskoðunum sínum. Hann hallaði ekki einu orði á kirkjuyfirvöld, en talaði um hversu lítið væri vitað um lífið hinumegin grafar.

Að ræðunni lokinni var litla kistan borin út að gröf og látin síga niður. Þar fór Sigurjón með ljóð, sem var eins og talað til móður hans sem hvíldi í gröfinni. Presturinn hafði ekki fylgt nánustu ættingjum eins og vani var við jarðarför, heldur stóð einn álengdar og fylgdist með hópnum við gröfina.

Þegar þarna var komið kom hik á jarðaförina, messufólkið stóð hljótt eins og beðið væri eftir einhverju. Friðjón faðir þeirra bræðra gekk þá til prestsins og talaði eitthvað við hann í hálfum hljóðum, sem engin heyrði, og ekki sá Erlingur séra Benedikt svara neinu.

En séra Benedikt gekk að gröfinni, tók skóflu úr moldarbingnum og þögnin var rofin með orðunum: “Af jörðu ertu komin. Að jörðu skaltu aftur verða. Og af jörðu skaltu aftur upp rísa.” Og nokkur korn af mold féllu á kistuna í gröfinni við hverja setningu.

Það létti yfir söfnuðinum, sem staðið hafði þögull þétt saman í kirkjugarðinum. Erlingur segir að úr andlitum fólksins hafi mátt sjá að presturinn hafði unnið það verk, sem í vitund þess var þýðingamest við skilnað manneskju við þetta líf.

Þegar séra Benedikt og kona hans voru kvödd við brottför frá Grenjaðarstað, voru Sigurjón og Kristín flutt úr kirkjusókn séra Benedikts og í aðra sveit. Þau hjónin gerðu sér ferð í kveðjusamsæti til heiðurs presthjónunum. Þar talaði Sigurjón til þeirra og sagði að ýmsir myndu halda að hann væri í andstöðu við prestinn, en þau hjónin væru komin til að sýna að svo hefði aldrei verið, ef einhver ágreiningur hefði verið, þá væri hann um ytri atriði í siðvenjum kirkjunnar.

Ljóðið sem ég vænti að finna í bók Erlings Friðjónssonar, -Fyrir aldamót, var ekki þar nema ein hending, en Erlingur segir erindin hafa verið þrjú, annað virðist því glatað, -en erindið er svona:

Þess vegna, móðir, ég hneigi hér,

er hélar um stigu mína,

þær fegurstu vonir, er fæddust mér,

í faðmlög við minningu þína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ungbarnaskírn var aldrei viðhöfð í "kristnum" söfnuðum fyrr en eftir að Rómarkeisari lögleiddi Míþrasartrúna undir kristnu heiti. Eins og bæði Jóhannes og síðar postular Jesú litu skírnina, getur barn ekki undirgengist hana því það veit ekki hvað það er að gera. Þetta viðurkenndu biskupar og guðfræðingjar Rómversk-Kristnu kirkjunnar og bættu breyttu því heiðnum manndómsvígslum kynþroska unglinga yfir í fermingu (Confirmation) skírnarinnar og þá að undangenginni fræðslu.

Hver skilningur Jóhannesar og postula Jesú voru (og þá væntanlega Jesú sjálfs), væri efni í langa færslu.

Bestu kveðjur og gleðilega páska.

Guðjón E. Hreinberg, 7.4.2023 kl. 08:36

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi grein hreyfði heldur betur við mér og ekki laust við að ég yrði svolítið "meir" er ég las um viðskipti Sigurjóns og Kristínar við kirkjuyfirföld.  Kannski er ég eitthvað að misskilja kristna trú en að mínum dómi felst hún ekki í skírn eða fermingu heldur í framkom og gjörðum viðkomandi manns.  Þar sem ég bjó í Noregi var mikið um sértrúarsöfnuði og var haft orð á því með ýmsa menn sem stóðu framarlega í flokki í þessum söfnuðum að ÞEIR LEGGÐU HÖND Á BIBLÍUNA OG KEYRÐU YFIR Á RAUÐU LJÓSI.  Að mínu áliti segir kirkjusókn ekki mikið um trú viðkomandi, kannski segi ég þetta vegna þess að ég fer lítið í kirkju.

GLEÐILEGA PÁSKA MAGNÚS OG VONANDI HAFIÐ ÞIÐ MATTHILDUR ÞAÐ GOTT.......

Jóhann Elíasson, 7.4.2023 kl. 11:48

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina Guðjón.

Maður kemur sjaldnast að tómum kofanum hjá þér þegar trúarbragðaumræða er annars vegar og gott að fá þetta Míþasar-púsl í myndina.

Það rann upp fyrir mér í vetur þegar ég las bókina, Aldrei nema kona eftir, sem er heimildaskáldsaga þriggja ættliða þar sem Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir rekur sögu ættmæðra sinna í Skagafirði, hvað skírnin var gríðarlega stór þáttur í þjóðfélagsgerðinni á öldum áður.

Fermingin var auk staðfestingar skírnarheitsins staðfesting þess að viðkomandi gat lesið sér til einhvers skilnings og þannig segja að kirkjan hafi farið með grunnmenntun ungdómsins, allavega eftirlit með því að réttværi með farið.

Orðið ferming hefur mér alltaf þótt svolítið ruglandi á íslensku, staðfesting ætti betur við, Norðmenn tala t.d. um konfirmasjón. Það er nokkuð ljóst að barnsskírnin var notuð sem stjórntæki við að halda samfélaginu í skorðum fyrr á öldum.

Takk fyrir púslið, já og gleðilega páska.

Magnús Sigurðsson, 7.4.2023 kl. 12:57

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir einlæga athugasemd Jóhann, -já þessi jarðafararsaga hreyfði við mér og gott að vita að ég hef komið einhverju til skila.

Þau Sigurjón og Kristín voru langi-afi minn og langa-amma. Þau voru bæði skírð og fermd auk þess að vera gefin saman í kirkju. Það hefur þurft svolitla sérvisku til að fara þessa leið.

Móðir mín bar nafn Kristínar ömmu sinnar og var skírð og fermd að því ég best veit og eins er það með mig og mín systkini. Mér var gerð grein fyrir því að fermingin væri staðfesting á skírn og þar var aldrei vafi í mínum huga. Auk þess erum við Matthildur mín gefin saman í kirkju.

Hvort að (fermingin) skírnin hefði verið jafn sjálfsögð á þeim aldri ef ekki hefðu foreldrarnir látið skíra mig sem ómálga barn veit ég náttúrulega ekki, en stórfjölskyldan er samt sem áður kristin. Mér hefur aldrei komið til hugar að segja mig úr þjóðkirkjunni þó svo að ég hafi ekki alltaf verið sammála áherslum kirkjuyfirvalda.

Það má segja að mér finnist það sama og Sigurjóni, að við jarðarfarir komist kirkjan næst því að vera musteri Guðs ásamt því þegar presti tekst að boða kærleiksboðskap Krists svo að hann hreifi við manni. Sem betur fer eru svoleiðis prestar til innan þjóðkirkjunnar.

Gleðilega páska.

Magnús Sigurðsson, 7.4.2023 kl. 13:20

5 identicon

Bestu þakkir fyrir þennan pistil Magnús.

Segir merka sögu og ljóðið er afbragðsgott svo sem vænta mátti frá langafa þínum.  Þekki nokkuð til frændfólks þíns frá Sandi í Aðaldal og þó einkum ljóðskáldsins Sigfúsar Bjartmarssonar. Allt ljóðelskt fólk kannast svo vitaskuld við Guðmund Friðjónsson, bróður Sigurjóns, langafa þíns.  Það stendur því að þér hagur stofn til orðs og verka og reyndar sem sjálfstæðra manna sem finna sér eigin leið, af hyggjuviti eigin skynsemi, þó ekki sé hún alltaf fjöldans.  En þannig er lífið, að tíminn vill ekki alltaf tengjast sem menn hyggjuvitsins vildu helst, en fara þó staðfastlega þá slóð sem þeir trúa á, beintengdir við almættið sjálft.

Óska þér og Matthildi gleðilegra og góðra páska.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.4.2023 kl. 15:10

6 identicon

Vil bæta einu sérstaklega við og það er að nálgun langafa þíns í Skriftamálum einsetumannsins við almættið og eilífðina er af fegurðinni einni.  Einstaklega hrífandi skrif.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.4.2023 kl. 16:28

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa fallegu athugasemd Pétur Örn, -hún er sérvitring mikils virði.

Já, mér fannst líka Skriftarmál einsetumannsins fegurðin ein, löngu áður en ég kunni að meta ljóðin hans Sigurjóns, sem mörg hver eru með einstökum náttúrumyndlíkingum.

Það voru reyndar loftbólur andans sem kenndu mér að meta ljóð upp á nýtt þegar ég komst til vits og ára, en því hafði ég næstum glatað rétt eins og barnssálinni.

Svo því sé haldið hér til haga, vegna þess að ég sé að ég hef gleymt því í pistlinum, þá var Sigurbjörg skírð í höfuð móður Sigurjóns.

Ég óska þér og Guðrúnu gleðilegra páska. 

Magnús Sigurðsson, 7.4.2023 kl. 17:24

8 identicon

Þessum degi helgum við kærleiksgjörningi Guðs, sem var að gefa eingetinn son sinn Jesú Krist í dauðan fyrir þig, svo að þú mættir af jörðu, úr gröfinni, rísa upp til eilífs lífs með honum.

Þetta er kallað Hjálpræðið. Þetta er fagnaðarerindið sem Biblían kennir okkur. Það er ekki bundið við neina kirkjudeild.

10 En engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: 11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Lúk. 2.

Án þessa takmarkalausa kærleika, sem er innsti kjarni Guðs, er allt annað hjóm, jafnvel trúin, samt verður ekki tekið við Hjálpræðinu nema í trú.

Gleðilegan upprisudag, gleðilega páska.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 7.4.2023 kl. 18:59

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri innlitið og athugasemdina Guðmundur Örn, -og minna með afgerandi hætti á tilefni dagsins, -takmarkalausan kærleikann.

Gleðilega páska.

Magnús Sigurðsson, 7.4.2023 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband