Fasista fabrikkan

Eftir að fávisku fabrikkur ríkisins tók að sér barnauppeldi frá ómálga hefur fasista fabrikkunni fleytt fram. Vinnufélagi minn í steypunni segir stundum að þetta megi rekja til þess þegar leikvöllur varð að skóla og börn hættu að róla án leiðbeininga og fengu þess í stað tilsögn í takt.

Í mínu tilfelli tók fávisku fabrikkan við um 7 ára aldurinn, en þessi vinnufélagi minn slapp fyrir horn þar til hann varð 8 ára. Þetta kostaði mig lengri tíma í að átta mig á tilsögninni, og sat uppi með falsað fagbréf og meistarabréf úr Cocoa Puffs pakka til forsjár fyrir fasistana.

Vinnufélaginn hafði vit á því að hætta í skóla um leið og það var löglegt. Hann á flest sem hugurinn girnist, svo sem tvo góða bíla, einkaflugvél, einbýlishús og hjólhýsi til sumarferðalaga. Á meðan ég berst um í bökkum í blokk á eld gömlum Duster og Cherokee frá því á síðustu öld, of hjartveikur og illa fyrirkallaður til að geta tjaldað í sumarfríinu, -og telst gott ef ég næ að greiða síðustu afborgun af ævilöngu húsnæðisláninu áður en ég geispa golunni.

En það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að barma mér yfir, heldur lýsa því hvernig fasista fabrikkunni hefur allstaðar fleytt fram á minni ævi. Byggingabransinn hefur t.d. verið fullkomlega fábjánavæddur og er allur kominn í gult. Lengi móaðist ég við í gráu  lopapeysunni minni, sem Matthildur mín prjónaði um árið, en mátti þá líka eiga á hættu að fá orðaleppa á við “ég vísa þér út af svæðinu”, eða “hér eru allir í gulum vestum með hjálm nema Magnús, hann er í steypu gráu lopapeysunni sinni”.

Það er orðið nokkur ár síðan að ég nennti ekki að hlusta á svona heilræði og svara blíðlega til baka, “veistu; -ég yrði bara feginn, það var ekki ég sem óskaði eftir því að vera hérna og það er aldrei að vita nema þetta sé í síðast skiptið sem ég vinn fyrir verklega vanvita”, nú orðið er ég kominn í appelsínugult eins og álfur út úr hól með sjálflýsandi sportröndum.

Við fengum mannauðsverkfræðing í fabrikkuna í fyrra sem hélt öllum mannskapnum, -sem telur tugi, -á tánum í tvo daga við að mála gular línur á gólfið, -til að ganga síðan eftir rétt eins og hauslausr hænur. Ég benti mannauðsverkfræðinginum vingjarnlega á, eftir fyrri daginn, að hann skildi reyna að fá aftur sölumannsstarfið hjá tryggingafélaginu, -þetta sem hann kulnaði í eins og kelling um árið, frekar en reyna að kenna iðnaðarmönnum að ganga um gólf sem hann þekkti ekki minnsta hót.

Þrjár vikur í byrjun sumars var ég sendur í fasistafabrikku fabrikkanna þar sem hjálmar, fallavarnir, eyrnatappar, öryggisgleraugu, aðgangspassar, rauðar og gular línur eru staðalbúnaður, -ásamt tveimur ungum vinnufélögum til að endurnýja gólf í eldhúsi sem eldar fyrir 7-800 manns. Þetta var þegar blíðan var hvað mest hérna austanlands og nýtt hlýindamet var sett á landinu bláa í júní.

Ég benti vanvitunum í fasista fabrikkunni á að þarna ætti framkvæma það sama og Albert Einstein hefði sagt að væri bilun, þ.e.a. gera sömu afglöpin aftur og búast við öðrum árangri en í þeim þrem skiptum sem þetta hefði áður verið reynt. Og vonaðist þannig til að verða vísað hjálmlausum út í sólina. En allt kom fyrir ekki við skyldum halda áfram með mistökin og horfa á einstaka sumardaga líða hjá fyrir utan gluggann.

Þarna þurfti logaleyfi til að skera nagla úr gólfi með slípirokk, merkjasprey leifi og nefndu það, allar áttu leyfisveitingarnar að taka sinn tíma eftir að lögð hefði verið inn gögn með umsókn. Fljótlega þurfti mann til að kjarnabora gat í snatri svo ég fór í lobbý fabrikkunnar og bað Securitas um gestapassa. Mér var bent á að senda tölvupóst með beiðninni, en ég sagðist ekki vera í þeirri deild ætti ekki einu sinni snjallsíma.

Þarna var aldeilis komið tækifæri til að siða til vitleysing. Securitas sagði mér að það tæki verktaka tvo sólahringa að fá starfsmann samþykktan inn í fasista fabirkkuna og þó svo að menn væru að reyna að fara fram hjá þeim reglum með gestapössum þá væri það ekki í boði.

Ég sagði að það væri allt í lagi þá fengi hann að éta samlokur þeim tveimur dögum lengur sem eldhúsið væri lokað umsóknarinnar vegna. – “Þa ba bara verið með hótanir hérna” – nei ég sagði að þetta væri ekki hótun heldur staðreynd. Starfsmaðurinn fékk gestapassa til að bora gatið nokkrum mínútum seinna.

Nú þegar gul vesti, appelsínugulir plasthjálmar, öryggisgleraugu og heyrnahlífar eru orðinn alþjóðlegur þjóðbúningur - tölvupóstar og fjarfundir í snjallsímum eru stöðluð mannleg samskipti, er varla nema von að stutt sé í að hungurvofan gægist út um hverja gátt.

Þegar blíðu dagar sumarsins eru notað til að steypa inni í eldhúsi sem bakar endalaus vandræði fyrir starfsfólkið sem þar vinnur, vegna afglapa þeirra sem aldrei vinna þar, þá koma heilræði Alberts Einsteins ítrekað upp í hugann.

Og varla er nema von að innfluttir krosslímdir gifshjallar séu orðnir myglaðri en moldarkofarnir voru sem þjóðin skreið út úr í árdaga síðustu aldar til að steypa hús hver fyrir sig.

Fasista fabrikkan er fyrir löngu komin á rautt þó svo hún flaggi röndóttum glóbalnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús æfinlega; sem og aðrir þínir gestir !

Þakka þjer fyrir; lýsingu hins kaldranalega veruleika, reglugerða snatanna (að sunnan).

Meira að segja; Austur- Þýzkaland (1949 - 1989) náði aldrei að fullkomna sína heimsfrægu skriffinzku, á sínum stutta ferli.

Auk íslenzkra moldarkofa fyrri alda; hafa mis- velsmíðaðar kirkjur, sem og kastalar og hallir:: eins og austur í Evrópu, sem og í Asíu og víðar staðizt tímans tennur / hundraða, og þúsunda ára gamlar byggingar, ennþá með öllu myglu- fríar eða annarra hvimleiðra annmarka.

Langskólagengnir blýanta nagarar; hjerlendir mættu alveg velta fyrir sjer, hvernig á því gæti staðið, m.a.

Með beztu kveðjum; sem fyrr, af Suðurlandi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.7.2023 kl. 22:25

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sendirðu færsluna rafrænt í hatursmálaráðuneytið til að fá vottun þess að hún stæðist hægriöfgareglugerð?

Guðjón E. Hreinberg, 8.7.2023 kl. 00:43

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Óskar Helgi, -og þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina. 

Ég ræddi fyrir nokkrum árum við konu sem hafði alist upp í Austur-Þýskalandi, en var þá flutt til Noregs. Hún sagðist ekki finna mun á Vestrinu og því Þýskalandi fyrir austan tjald sem hún ólst upp við.

Langskólagengnir blýanta nagarar mættu alveg velta fyrir sér hvernig fólk komst í gegnum daginn án þeirra leiðsagnar, og hætta að hafa vit fyrir fólki á því sem þeir hafa ekkert vit á, út úr því kemur ekkert nema endalaust excel-skjal af vitleysu í snjallsímum.

Nú er það orðið svo að þeir, sem hvorki hafa byggt né rifið hús, taka allar ákvarðanir í byggingaiðnaði og fá fáviskuna viðurkennda rafrænt hjá álíka bjálfum og þeim sjálfum. Síðan er öðrum látið eftir að vinna úr vitleysuna á eigin ábyrgð með rafrænni undirskrift.  

Já kaldranalegur er Satasískur veruleiki reglugerða snatanna í sumarblíðunni, svona rétt eins og þurra-suddinn í sjö gráðu austfjarðaþokunni.

Með kveðju af  Héraði. 

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 06:02

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þú sleppur með þessa frábæru grein Magnús, ÁÐUR EN "HATURSORÐRÆÐUFRUMVARPIÐ FELLUR Á OKKUR cool.  Það mættu fleiri ÞORA að koma með svona góðar "ÁDREPUR" á kerfið.........

Jóhann Elíasson, 8.7.2023 kl. 06:03

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðan daginn Guðjón, -og þakka þér fyrir verðuga fyrirspurn.

Ég fór fyrir nokkrum árum á skrifstofu byggingafulltrúa embættisins í mínum heimabæ, ásamt einum eiganda fyrirtækisins sem ég vinn hjá til að reyna að ná áttum í rafræna undirskrifta kerfinu, -hvað ábyrgðaryfirlýsingar byggingameistara varðaða.

Þar kenndi margra grasa og feminiskra frasa. Eins frægt ætti að vera orðið þar sem fraukur ríða röftum. Ég benti m.a. á flipann "virkni kerfa", þar væri eðlilegt að stæði "ábyrgðaryfirlýsing byggingameistara".

Þetta virtist hljóta dræmar undirtektir en þegar við yfirgáfum skrifstofu byggingafulltrúa embættisins eftir hálfs dags þvæling um kerfið í skafrenningu og blindu, þá hnippti fraukan í mig og spurði; "hvað kallið þið þetta aftur sem er virkni kerfa".

Nei, ég reyndi ekki að sækja um rafrænt til að fá að ábyrgjast fasista fabrikku færsluna, ég reikna ekki með að það sé talað tungumál í snjallvæddu hatursmálaráðaneytinu, -enn síður að það ráðuneyti hafi skilning á færslunni.

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 06:25

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðan daginn Jóhann, -já við skulum rétt vona það að fleiri þori að lýsa dags daglegum veruleika.

En eins og ég sagði við Guðjón hér að ofan þá hef ég ekki nokkrar áhyggjur af því að hatursorðræðu ráðuneytið skilji fasista fabrikkuna, -svo fastir eru flissandi fábjánar netinu.

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 06:32

7 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ávallt þegar þú ferð í bjúrókratísk ferðalög, áttu að hafa pappírsmöppu meðferðis og hafa í henni tvær útprentaðar reglugerðir, og opna hana á borðinu, spyrja einnar fyrirfram samdrar spurningar (sem búin til er eftir lestur vefsíðu viðkomandi stórfyrirtækis/ríkisstofnunar) og skrifa svarið í glósubók sem er í möppunni.

Mikilvægt er að lesa eina til þrjár stofnana-vefsíður og pikka upp tvö til þrjú lykilorð eða frasa úr stofnanamáli, og læra utanað, og setja inn í málfar sitt.

Þetta tvennt slæer öll vopn úr höndum stofnanamarxista og opnar þér allar gáttir.  Ávallt að temja sér sömu háttvísi og værir  þú í samrærðum við bryta lávarðs á herrasetri.

Sömu aðferð má temja sér í ritmáli/tölvuskeytum. Síðan ég þróaði þessa aðferð, hef ég losnað að öllu leyti við stofnanakvíða, og umtalsverðan skjala[valds]kvíða.

Nota bene: Þetta er kennt í Tölf þrautum Ástríks.

Guðjón E. Hreinberg, 8.7.2023 kl. 08:19

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ástríkur kunni þetta faglega Guðjón, -en mér reyndist oftast best að minnast á hvort fólk ætli að að taka áhættuna af því að éta skít.

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 08:34

9 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

laughingcoolsealed

Guðjón E. Hreinberg, 8.7.2023 kl. 10:47

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður og góðir.

Kveðja að neðan.

PS. Passaðu samt uppá hjartað Magnús, þú verður kannski fenginn á gamals aldri til að kenna verksvit og verkkunnáttu í Skóla lífsins, svona þegar krosslímdir gifshjallar detta út tísku vegna kostnaðar samfélagsins við að afmygla þá.  Og menn spyrja; Hvernig á aftur að byggja mannheld hús.  Maður veit aldrei.

Ómar Geirsson, 8.7.2023 kl. 11:10

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góðan daginn Ómar, -þó svalur sé.

Maður veit aldrei þó svo fasista fabrikkan virðist vera komin til að vera.

Sem betur fer vinn ég með ungum mönnum þessa dagana, sem er heiður fyrir gamlan jálk.

þeir eru upplýstir um það daglega hvað eru afglöp og hvað ekki, vonandi lifa þeir fasismann.

Góðar kveðjur í neðra.

ps. vonandi léttir til í neðra, hann er að hjarna við í þurrasuddanum  hérna í efra.

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 11:57

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nafni minn kunni að koma orðum að kerfinu og vissi að það þurfti að tala við það milliliðalaust en ekki í gegnum nein textaskilaboð.

https://www.youtube.com/watch?v=ZDWf5mOq9mM

Magnús Sigurðsson, 8.7.2023 kl. 12:00

13 identicon

Sæll Magnús.

Eftir að hafa lesið þennan frumskóg leyfisveitinga varð mér hugsað
til matvælaráðherra og þess leyfis sem afturkallað var vegna hvalveiða.

Mér er næst að halda að menn hafi almennt misskilið hæstvirtan ráðherra.

Ráðherra er þaulkunnugur  íslenskum stjórnmálum a.m.k í 3 kynslóðir
ef ekki allt til Sturlunga.

Kann að vera að það augljósa hafi með öllu siglt framhjá?

Einhver kynni að segja að í stað þeirra raka sem fram hafa komið
hafi ráðherra allt eins getað sagt: Þetta stjórnarsamstarf er ekki
á vetur setjandi. Slítum því! Segja menn ekki Amen við því?

Óli Björn Kárason segir ekki Hallelúja en segir hann Amen?

Ef þetta er rétt lesið hjá mér þá er einboðið að slíta
samstarfi við VG og fá Miðflokkinn inn.

Húsari. (IP-tala skráð) 9.7.2023 kl. 12:34

14 identicon

Sælir; sem fyrr !

Með því; að Miðflokkurinn gengi til liðs við úrkynjaða hagsmunagæzlu- menn Engeyinga- og Samherja Mafíunnar, tækist honum að varpa fyrir róða þeim snefil tiltrúar, sem hann þó virðist hafa, hjá all nokkrum borgara þessa lands, ennþá.

Miðflokkurinn; ásamt Flokki Fólksins og Heimssýn:: já segi og skrifa Heimssýn gætu kollvarpað ófjeta væðingu okurs og græðgi, sem er að keyra hjer allt til Andskotans, Húsari góður.

Væri; einhvern snefil siðvæddrar hugsunar að finna, hjá þorra landsmanna, væri:: FYRIR LANGA LÖNGU búið að dæma : Bjarna Benediktsson - Katrínu Jakobsdóttur og Sigurð Inga Jóhannsson, ásamt all- nokkrum fylgiröddum þeirra / innan þings sem utan þess, til æfilngrar útlegðar af landinu.

Húsari vísi !

Aldrei; skyldi gleyma Orkupakka III (í September 2019) - Borgunarmálinu - Ásmundarsalarmálinu - Lindarhvols nje Íslandsbanka, svo aðeins  fáeinir liðir sjeu taldir.

Í hitteðfyrra; (snemma vorsins) hringdi jeg í Harald Ólafsson veðurfræðing og einn helzta leiðara og frammámann Heimssýnar, til þess að ámálga við hann mögulegt þingframboð hreyfingarinnar, í September kosningunum 2021, taldi Haraldur það sinn a.m.k. öll tormerki á þeim möguleika - hvað: sem honum kynni nú að sýnazt þar um, nú til dags.

Sjáum til Húsari; hverju fram kann að vinda, um hríð.

Með ekki síðri kveðjum; hinum fyrri, af Suðurlandi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.7.2023 kl. 14:29

15 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir hugleiðingarnar Húsari og Óskar.

Ég vil bara um þetta segja að flokkspólitíkin er ónýt, -og það er svakalegur siðferðisbrestur í samfélaginu öllu. Skiptir engu máli hvað er kosið á meðan almennt er litið á féþúfurnar til að falla fyrir þeim.

Þjóðfélagið er orðið yfirfullt að skaðmenntuðum vanvitum, sem hafa ekki við að fá frábærar fjárplógs hugmyndir, sem engin mannlegur máttur er til í landinu að framkvæma en eru góðar til síns brúks við að tæma sjóði fólksins.

Síðast í gær birtist fyrrverandi ráðherra í drottningaviðtali á okkar akfeita framfæri, langþrútinn og þokukenndur til augnanna, kolmórauður eins og hver annar Tene fari og sagðist vera ráðgjafi fransks fyrirtækis við að reisa tvöfalda Kárahnjúka á Grænlandi.

Við þurfum að líta í eign barm og til fugla himinsins, -sem;

á trjátoppana

tylltu sér

þöndu brjóst

og sperrtu stél

og sungu;

Heiðraði ráðherra í hamrinum þínum

hola massífa úr fljótandi steypu

ég kem ekki á fund þinn

til að fá hjá þér neina fyrirgreiðslu

enda yrði slíkt sneypu för

heldur gefa þér gott ráð ráðherra

skríddu ofaní öskutunnuna,

aftur á bak með lafandi tungu. 

Magnús Sigurðsson, 9.7.2023 kl. 17:27

16 identicon

Sælir Magnús og Óskar Helgi.

Þakka velmeintar og athyglisverðar athugasemdir.

Fyrir mér vakir það eitt að mæla skapanna málum eins og stendur
í Gíslasögu Súrssonar, að segja þau orð sem fá breytt þeirri lóðréttu
stefnu fjandans til sem við erum á nú.

Engin von er til að flokkarnir breyti núverandi kosningaskipan og
því ekki við annað að styðjast en það sem fyrir hendi er.

Með því að segja megi að liggi þegar fyrir óskir um breytingar,
að gjarna megi stokka spilin upp á nýtt þá ættu menn að grípa það
tækifæri í stað þess að standa álengdar og aðhafast ekkert.

Húsari. (IP-tala skráð) 9.7.2023 kl. 21:10

17 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mikið rétt Húsari, -og láta liðið heyra augliti til auglitis fyrir hverja það vinnur.

það sem ég er að fara með siðferðisbrestinum, er að fégræðgin er í hávegum höfð í samfélaginu. Hún var svona meira þeim til háðungar sem hana vegsömuðu hér fyrr á árum.

Hlutur skipstjórans var tveir hásetahlutir, laun þingmanna voru á pari við kennara, opinberir forstjórar s.s bankastjórar gengu að þokkalegum launum og öruggum eftirlaunum osfv.

Eins og staðan er í dag þarf ofurlaunamunurinn ofan í öskutunnuna ásamt græðginni, því henni fylgir engin ábyrgð eins og dæmin sanna.

Magnús Sigurðsson, 9.7.2023 kl. 21:41

18 identicon

Hafðu þakkir fyrir, meistari Magnús, þennan gagnorða og skelegga pistil, sem og aðra þína og þarfar áminningar.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.7.2023 kl. 06:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband