Föðurlandið

Það hefur verið kalt og dimmt á Austurlandi í meira en viku. Þessu tíðarfari hefur fylgt norðan gjóla með þurrasudda og rigningarskúrum á stöku stað. Öðruvísi mér áður brá, enda er ég kominn í ullarsokkana, lopapeysuna og færeysku prjónabrókina um mitt sumar.

Gamla góða föðurlandið hefur ekki verið fáanlegt lengi á landinu bláa og verður sjálfsagt ekki úr þessu, miðað við múgsefjun landans gegn íslensku sauðfé sem nú er í móð að kalla ágangsfé í eigin landi. Sauðkindin er nú verr séð en landsins forni fjandi af góða fólkinu og Tene förum sem stíga kolefnissporin af og til á landinu bláa með því að stinga niður sprotum í klakann.

Ágangsfé ! ! -verður þessi hjálparhella þjóðarinnar í gegnum aldirnar sjálfsagt úthrópuð þangað til henni verða búin svipuð heimkynni og giltu í kjúklingabúi. Nema rollunum verði fleytt út á fjörð í flotkví ásamt löxunum. Góða fólkið og erlendir auðrónar eiga jú landið, heiðarnar, firðina og miðin, ásamt norður atlantshafs laxastofninum í ánum.

Landið þarf náttúrulega að friða svo hægt sé að stunda hamfaraórækt og sportveiði með sleppingum. Nokkurskonar umhverfisvænt dýraníð úr carbfixuðu kolefnispori einkaþotunnar. Og þá gengur náttúrulega ekki að sauðkindin éti græðlingana rétt eins og þegar hún nagaði gat á jarðskorpuna um árið. Áður en góða fólkið kom til bjargar með því að ná eignarhaldi á bújörðum og fyllti landið af gosþyrstu túristum.

Annars voru fréttir af því um síðustu helgi að strandveiðimenn hefðu hent 63 þorskhausum við dyr alþingis og fengið Kára klára til að tala yfir hausamótunum á þeim. Aldrei að vita nema þeir hafi skilið þann klára, og að árangur þorskhausa mótsins endi á pari við kóvítis boðskapinn, -ef ekki, -þá verður þorskhausunum komið fyrir í kvóta úti í Grímsey.

Þetta veðurfar, hér á Héraði, hefði einhvertíma verið notað í eitthvað þarflegra en þvælu, t.d. girðingavinnu. En nú kannast ekki nokkur heilvita sála hvorki við sauðkindina né þorskinn, hvað þá að þessi kvikindi hafi verið til gagns. Þetta mátti reyndar allt saman sjá fyrir fyrir löngu síðan. Allt frá því að verstu skammaryrði var að vera sauður með þorskhaus.

Þessi óvild stafar sennilega af því að fávisku fabrikkur ríkisins hafa aldrei getað haldið lífi suðkind né veitt þorsk, en hafa einstakt lag á excel, innflutningi og einokun. Því eru sauðkindin og þorskurinn fyrir löngu orðin hornreka í föðurlandinu, -og í öllum bókmenntum landsins bláa ásamt litlu gulu hænunni, -svona eitthvað svipað og stjörnum prýddur asninn sunnar í álfunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Í þessari grein stingur þú alveg frábærlega á alþjóðavæðingunni sem nú er að ganga frá Íslenskri þjóð og fleirum.  En því miður eru raddir "örfárra" manna frekar hjáróma þegar ráðamenn þjóðarinnar eru á fullu við að "vinna að" því að koma landi og þjóð undir erlenda stjórn og áhrif...... 

Jóhann Elíasson, 19.7.2023 kl. 10:01

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þetta er því miður bara sannleikur enda ekki nema von þar sem meirihluti

alþingis og rikisstjórnar hefur aldrei unnið eitt einasta handtak en telja

það vera vinnu að hafa lært á word og excel.

Ferilskrá flestra er beint úr háskólum og í pólitík eða úr einhverri

góðri skrifstofu inni-vinnu. 

Það er ekki nema von að illa fari.

Tek undir allt með Jóhanni.

Sigurður Kristján Hjaltested, 19.7.2023 kl. 10:44

3 identicon

Snilldarpistill!

Og tek undir aths. Jóhanns og Sigurðar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.7.2023 kl. 12:28

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir samhuginn með föðurlandinu félagar, -og litlu gulu hænunni.

Nei ég á ekki von á að hjáróma pistill um föðurlandið hreifi við mörgum, -og ef svo kynni að vera þá finnist flestum þeim farsælla að þegja.

Magnús Sigurðsson, 19.7.2023 kl. 19:05

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Hvaða búkona átti (í kringum fimmtánhundruð) níuhundruð Íslenskar bújarðir og að meðaltali sex til níu haffær skip sem hingað sigldu með vörur; og hverjir eru afkomendar hennar a) meðal Elítunnar og b) meðal Almennings?

Bextu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 19.7.2023 kl. 20:50

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nú væri gott að þú fræddir mig um það Guðjón, -hef ekki minnsta grun.

Magnús Sigurðsson, 19.7.2023 kl. 21:21

7 identicon

Sæll Magnús.

Hamast nú Guðjón að oss alls vesölum!

Hér gæti hann átt við sjá konu sem Kristján 1 reit um til Frakkakonungs
en varð þó þekktari um tíma fyrir bersöglismál en jarðagóssið en reyndist
síðar illmælgi eitt og gert henni til ófrægingar.

Við ættfærslur hef ég aldrei fengist og fer ekki til þess nú!

Húsari. (IP-tala skráð) 20.7.2023 kl. 22:12

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari ef Guðjón á við þá konu sem  á að hafa sagt "eigi skal gráta Björn bónda" þá veit ég svo sem ekki mikið um ættfærsluna annað en það að á meðal almennings er t.d. ég afkomandi þeirrar konu samkvæmt Íslendingabók þess klára.

Magnús Sigurðsson, 21.7.2023 kl. 05:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband