Skálholt – Turbulent Times

Út er komin bókin Turbulent Times -Skálholt and the Barbary Corsair Raids on Iceland 1627. Bókinni var fylgt úr hlaði af höfundum hennar Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols á óvenju veglegri Skálholtshátíð helgina 20. – 23. júlí s.l. í tilefni 60 ára afmælis dómkirkjunnar í Skálholti sem vígð var 21. júlí 1963.

Adam og Karl Smári eru sagnfræðingar sem eru á góðri leið með að gera Tyrkjaránið á Íslandi heimsfrægt. Út eru komnar 5 bækur frá þeim um það efni;

The Travels of Reverend Ólafur Egilsson – um ferðasögu Ólafs Egilssonar prests í Vestamannaeyjum sem komst lifandi heim úr Barbaríinu í Algeirsborg.

Northern Captives – um Tyrkjaránið í Grindavík og afdrif fólksins þaðan sem flutt var til Salé í Marokkó og selt á þrælamarkaði.

Stolen Lives – um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum.

Enslaved - um Tyrkjaránið á Austfjörðum.

Turbulent Times – um þátt biskupssetursins í Skálholti í varðveislu Tyrkjaránssögu.

Bækur þessar eru á ensku og þar er farið yfir sjálfa söguna auk bakgrunns Tyrkjaránsins á Íslandi, er þar ekki einungis byggt á íslenskum heimildum heldur einnig heimildum frá Norður Afríku og því stjórnmálaástandi í Evrópu sem varð til þess að hundruðum Íslendinga var rænt og þeir seldir á þrælamörkuðum.

Íslensku heimildirnar þykja einstaklega áhugaverðar í því ljósi að þær segja ekki einungis frá atburðinum sjálfum eftir á af yfirvöldum eða fræðimönnum, heldur eru til skrásettar samtímafrásagnir fólksins sem í þessum hörmungum lenti bæði í sendibréfum og vegna þess að sagan var skráð í Skálholti svo til um leið og hún gerðist eftir fólki sem varð vitni af atburðunum.

Þar af leiðandi eru þessar íslensku heimildir einstakar, jafnvel á heimsvísu, og vekja gríðarlega athygli varðandi þann hluta mankynsögunnar þegar sjóræningjar og atvinnulausir málaliðar fóru rænandi og ruplandi um Evrópu og seldu fólk í ánauð í múslímsku Barbaríinu. Nú er verið að gefa bækurnar út á m.a. Hollensku, Grísku, Frönsku og í Marokkó.

Heimildir eru til um að tólf skip hafi lagt í haf frá norðurströnd Afríku í þeim tilgangi að ræna eins miklu fólki af Íslandi og mögulegt væri sumarið 1627, -þræl skipulagðar aðgerðir. Einungis fjögur skip skiluðu sér samt alla leið til Íslands stranda svo vitað sé, eitt frá Marokkó og þrjú frá Alsír.

Skipstjórar og stór hluti áhafna þessara skipa voru Evrópumenn, Hollendingar, Þjóðverjar, Danir og jafnvel Norðmenn. Þetta voru menn sem höfðu misst vinnuna sem málaliðar í endalausum 30-90 ára stríðum Evrópu, gerðust trúskiptingar í N-Afríku sem kunnu að sigla um norðurhöf og útveguðu Barbaríinu þræla. Sæúlfar sem hikuðu ekki við að gera sér mannslíf að féþúfu.

Eitt skipanna kom til Grindavíkur fyrrihluta júní mánaðar þetta sumar og rændi þaðan fjölda fólks. Það skip fór síðan inn á Faxaflóann og hugðist gera strandhögg m.a. á Bessastöðum, en snéri frá við Löngusker og sigldi vestur með landinu áður en það snéri til Marokkó.

Tvö skip komu upp að Eystra-Horni við Hvalnes í Lóni. En náðu ekki að ræna fólki af Hvalnesbænum vegna þess að það var á seli í nálægum dal sem þeir fundu ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Þessi skip fóru síðan til Djúpavogs og rændu og drápu vel á annað hundrað manns við Berufjörð og víðar á Austfjörðum.

Tyrkjaránssaga Austfjarða er um margt einstök því söguþráðurinn í henni er þannig að engu líkara er en söguritarinn hafi verið á ferð með sjóræningjunum allan tíman sem þeir dvöldu við Berufjörð. En það kemur sennilega til af því að í Vestmannaeyjum voru fleiri en einn Austfirðingur settur í land í stað álitlegri þræla m.a. maður sem var fatlaður á hendi. Líklegt er að fólkið hafi sagt hvort öðru söguna í lestum skipanna og þannig hafi hún varðveist frá fyrstu hendi á austfjörðum og síðan verið skrásett eftir skólapiltum að austan í Skálholti veturinn eftir.

Þegar skipin yfirgáfu Austfirði, eftir að hafa gefist upp á að komast inn Reyðafjörð vegna sterks mótvinds, sigldu þau suður með landinu og sameinuðust einu sjóræningjaskipi í viðbót sem þá var að koma úr hafi. Þessi skip sigldu svo til Vestamannaeyja, þar rændu og drápu sjóræningjarnir vel á þriðja hundrað manns. Lýsingarnar úr Vestmannaeyjum eru hrikalegar.

Fólkið af Austfjörðum og Vestmannaeyjum var selt á þrælamarkaði í Algeirsborg og er þerri framkvæmd vel lýst í Ferðabók Ólafs Egilssonar sem varð vitni af því þegar kona hans og börn voru seld. Fæstir áttu afturkvæmt til Íslands og ekki er vitað til að nokkur Austfirðingur hafi komist alla leið til baka. Guðríður Símonardóttir, síðar kona sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar, var ein af þeim fáu sem komst aftur til Íslands.

Séra Kristján Björnsson vígslu biskup í Skálholti vill meina, í inngangsorðum bókarinnar um Skálholt, að sálmar Hallgríms Péturssonar verði ekki fullútskýrðir nema með hliðsjón af þessum atburðum Íslandssögunnar, og þá að kona Hallgríms varð Guðríður Símonardóttir, -þjóðsagan persónan Tyrkja Gudda.

Bókin um Skálholt, sem kom út nú í sumar, er um þær heimildir og bréf sem varðveittust um þessa atburði. Telja höfundar að það sé Oddi Einarssyni biskup að þakka hvað mikið er til um sögu fólksins, enda tengdist Oddur biskup sumu af fólkinu sem rænt var bæði fjölskylduböndum og eins er talið að margir hafi þeir verið vinir hans.

Fyrir rétt rúmu ári síðan átti ég því láni að fagna, vegna tilstillis Jóhanns Elíassonar bloggara, að verða þeim bókahöfundunum innanhandar á sögusviðiðnu hér fyrir austan, sem aðallega fólst í því að benda þeim á þjóðsagan safn Öldu Snæbjörnsdóttir, -Dvergaseinn, -sem geymir skýrslu austfirskra skólapilta í Skálholti ásamt fjölda munnmæla og þjóðsagna um Tyrkjaránið hér fyrir austan.

Þeir félagar sendu mér bókina um Skálholt áritaða í pósti og fór ég samstundis sambandslaus niður á Sólhólinn úti við ysta haf í síðustu viku með henni Matthildi minni til að lesa um Skálholt á ólgu tímum.

Bókin er meira en fullkomlega þess virði að stauta sig í gegnum hana á ensku enda rennur hún vel, því sem næst eins og spennusaga. Það er fyrir löngu kominn tími til að Tyrkjaráninu verði gert skil á íslensku á jafn veglegan og vandaðan hátt og þeir Adam og Karl Smári hafa gert á ensku.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Á meðan ég las bókina Skálholt í síðustu viku fórum við Matthildur mín á Hvalnes og fundum dalinn þar sem fólkið dvaldi í þegar sjóræningjarnir fundu það ekki. Þetta er einstakur huldudalur sem heitir Hvaldalur og liggur á bak við Eystra-Horn alla leið inn undir Lónsheiði. Þó það sé hvergi sagt í Tyrkjaránssögu að Hvaldalur sé dalurinn með selinu, þá leynir það sér ekki við skoðun.

Þó svo að keyrt sé í gegnum dalinn á þjóðvegi eitt þá sést hann ekki fyrr en gengið er upp á tvær hæðir. Þó svo að ég hafi í hundruð skipta keyrt þessa leið fram og til baka þá hafði mér ekki hugkvæmst að kanna þennan dal fyrr en ég fór að spá í hvar fólkið á Hvalnesi hafði bjargast undan Hundtyrkjanum.

Eystrahorn 2014

Eystra-Horn er sterkt kennileiti á austur Íslandi þegar komið er af hafi. Bærinn Hvalnes kúrir undir fjöllunum. Þegar keyrt er fyrir Hvalnesið hægra megin á myndinni er komið yfir í Hvaldal.

 

IMG_7414

Þjóðvegur eitt í Hvaldal, framundan eru Hvalnesskriður. Hvassklettar vinstra megin við veginn. þar fannst einn elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi.  Silfurpeningur sleginn í Róm 285 - 305 e. kr.. Sandurinn heitir Hlíðarsandur og var á öldum áður algrænn af melgresi, þar voru slegnir 50 hestar. En í Knútsbil 7. jan. 1886 fuku síðustu stráin á haf út. Nú er aðeins farið að votta aftur fyrir grænum lit í sandinum.

 

IMG_7304

Þegar litið er upp Hvaldal frá þjóðveginum við ströndina, þá skyggja Hvassklettar á útsýnið inn dalinn, auk þess sem hann beygir til austurs fyrir innan klettana.

 

IMG_7315

Það leynir sér ekki hvers vegna Hvassklettar bera það nafn. Þegar komið er upp á þá mætti ætla að sæist inn allan Hvaldalinn, en svo er ekki.

 

IMG_7350

Til að sjá inn allan dalinn þarf að fara nokkra leið þar til komið er á brún á framhlaupi sem ég held að heiti Hlaupgeiri. Þar má fyrst sjá inn allan dalinn. Þar eru örnefni eins og Seltindur, Selgil, Selbrekka og Selbotn, sem benda til að þar hafi verið haft við á seli áður fyrr.

 

IMG_7370

Hvaldalurinn er víða að verða grænn og gróinn. Sjá má melgresi bylgjast í blænum og grasbala inn á milli. Dalurinn er sem áður notaður til sumarbeitar fyrir sauðfé. Sennilega yrði túristavaðallinn fyrri til að eyða nýgræðingnum en sauðkindin, ef ferðamenn uppgötvuðu þennan fallega og friðsæla stað sem liggur að baki Eystra-Horni.

 

IMG_7398

Jafnvel þó ánni sé fylgt frá þjóðvegi sést ekki inn allan Hvaldalinn fyrr en komið er fyrir Hvasskletta og Hlaupgeira. Það er því ekki skrítið að Tyrkjunum hafi yfirsést hvar fólkið var á seli í Hvaldal, þó svo að þeir hafi komið í dalinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er alveg ótrúlega flott grein hjá þér Magnús og við lestur hennar geri ég mér fyrst grein fyrir því hvers konar "HVALREKI", það hefur verið fyrir þá Karl Smára og Adam Nichols. það hefur hefur verið að þú komst til verksins og Karl Smári hefur oft talað um það við mig hvers konar GUÐS blessun það hafi verið að þeir unnu með þér og þinn hlutur í "ENSLAVED" sé mun meiri en margir geri sér grein fyrir.  Ég er þér algjörlega sammála að það er nánast kraftaverki líkast hvað þeim hefur tekið að gera "Tyrkjaránunum" góð skil svo ekki sé minnst á að  bækurnar eru mjög læsilegar, gott flot í þeim og auðvelt að lifa sig inn í aðstæður.  Síðast en ekki síst er reynt eftir megni að fylgjast með afdrifum þeirra sem í þessu lentu, eins og hægt var og hef ég ekki séð það annars staðar gert......

Jóhann Elíasson, 7.8.2023 kl. 23:45

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir góð orð Jóhann.

Hvað sem hvalrekanum varðar þá var lítið á mér að græða annað en að ég benti á þjóðsagnasafn Öldu Snæbjörnsdóttir, -Dvergasteinn. Þar eru þjóðsögur og munnmæli frá Djúpavogi og nágrenni um Tyrkjaránið. Auk þess birtir hún i bókinni skýrslu austfirskra skólapilta í Skálholti, sem líklegast hefur verið skráð veturinn eftir Tyrkjaránið.

Kannski hafa Karl Smári og Adam ákveðið eftir að hafa gluggað í þá bók hvaða þjóðsögum væri byggjandi á og að nota skýrslu skólapilta sem sönnunargang því upphaflega held ég að staðið hafi til að nota útgáfu Björns á Skarðsá af Tyrkjaránsögu í bókina. Björn hefur bara ekki verið nógu staðkunnugur þegar hann ritaði sína útgáfu og fyrir það líður hún.

Mér tókst ekki að fá þá félaga til að flytja Hermannastekkana aftur yfir Berufjörð í bókinni. En einn aðal fræðimaður íslendinga í Tyrkjaránssögu flutti þá frá Búlandnesi yfir á Berunes, og gerði lítið úr munnmælum og þjóðsagnarugli í leiðinni. En eins og allir Djúpavogsbúar vita þá eru Hermannstekkar rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð, og hafa verið þar frá því um Tyrkjarán. Þeir bera nafn sitt af þeim atburði.

Þrátt fyrir þetta er það nú samt svo Jóhann, að þú átt miklar þakkir skildar frá mér fyrir að kynna mig fyrir þeim félögum, ég hefði annars ekki öðlast eins djúpan skilning á Tyrkjaránssögu.

Magnús Sigurðsson, 8.8.2023 kl. 06:43

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mér finnst þú nú gera ansi lítið úr þínum hlut við gerð bókarinnar "ENSLAVED", en það sem ég hef fyrir mér eru mörg viðtöl við Karl Smára (annan höfund bókarinnar) og hann hefur ekki sparað lofið vegna þinna starfa.  Þú minnist á minn þátt, sem ekki var mikill og þakka ég þér kærlega fyrir það.  Ég vissi það að þú værir akkúrat maðurinn sem þeir þyrftu á að halda, eftir að hafa fylgst með blogginu þínu og sem betur fer samþykktir þú að taka þetta verkefni að þér.  Það er sko alls ekki mér að þakka hversu vel ÞÚ vannst þetta e ég neita því ekki að ég er virkilega ánægður yfir því að hafa bent á þig.

En eitt vil ég benda á svona í lokin.  Ég tók mig til um daginn og las ALLAR fjórar bækurnar um "Tyrkjaránin" aftur og las í þessari röð: ENSLAVED, STOLEN LIVES, NORTHERN CAPTIVES OG THE TRAVELS OF REVEREND ÓLAFUR EGILSSON.  Mér fannst þessi röð koma "rétt" röð í frásögnina.......

Jóhann Elíasson, 8.8.2023 kl. 08:12

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

... og með þessari skurðaðgerð tókst hansakaupmönnum að fjarlægja stóran hluta stjórnkerfis landsins og stóra landeigendur og þannig að umskera allt stjórnkerfi landsins og kenna öðrum um. Snilldar aðgerð; og taktu eftir að Elitan hafði engan áhuga á að styrkja gerð þessara rannsókna (eða útgáfu þeirra) fyrr en þessi kenning hafði verið vandlega útskýrð í enska hluta Arkívisins.

Viti menn, nú er hægt að fara dýpra ofan í kenninguna og sanna hana.

Guðjón E. Hreinberg, 8.8.2023 kl. 11:35

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Gleymdi að rita: Þetta var fyrsta af þrem stærstu ránum Íslands, hið annað var Árni Magg og hið þriðja Genaþursinn.

Guðjón E. Hreinberg, 8.8.2023 kl. 11:38

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðjón, -og takk fyrir góða athugasemd.

Þetta er áhugavert samhengi sem þú setur þarna fram. Við þekkjum genaþursinn sem kom að því að ræna genamengi Íslendinga auðrónum til hagsældar og ´þá var kátt í höllinni með DJ og alles.

Árni Magg sá um þjóðararfinn og nú veit enginn hvaða hluti mankynsögunnar í honum fólst, meira og minna brunninn út í Kaupmannahöfn. En þetta sem slapp þykir athygliverð saga um allan heim enn í dag.

Mér hafði ekki hugkvæmst þetta með Hansakaupmenn og verð að rukka þig um skýringu, nema að þeir hafi haft danska kónginn í vasanum sem ekki er ólíklegt.

Nú má lesa lofgjörð á vísindavefnum um einokunarverslunina og þetta hafi verið seinni tíma þjóðernisrasismi í Hriflu Jónasi þegar orði var á hana hallað.

Magnús Sigurðsson, 8.8.2023 kl. 12:54

7 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk Magnús. Ég legg að jöfnu, Kalmarsambandið, Hansakaupmenn, Danska, Hollenska og Londóníska austur-indíafélögin - og síendurtekin kennitöluskipti þeirra. Til dæmis voru 80 prósent átaka í Bandarísku byltingunni, átök við málaliða þessarar mafíu en ekki við Gogga kóng.

Varðandi Árna Magg; borgarbruninn var þannig staðsettur að aldrei vær hætta á að hann næði handritasafninu, og sá hluti sem brann svo haganlega, var hluti sem geymdi rekjanlegar jarðeignaskráningar, ... úbbs.

Guðjón E. Hreinberg, 8.8.2023 kl. 16:56

8 Smámynd: Birgir Loftsson

Athyglisvert. Eru þessar bækur til í íslenskri þýðingu? Ég er að lesa aftur Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara. Hann var sjálfur þátttakandi og lýsir sínu hlutverki í Tyrkjaráninu, sem var ekki lítið. Sjá þriðja hluta, bls. 310-316.

Birgir Loftsson, 9.8.2023 kl. 20:23

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Birgir, -þessar bækur eru til á ensku á Íslandi og "fást sjálfsagt í öllum betri bókabúðum" eins og þar stendur.

Bækurnar hafa ekki verið þýddar yfir á íslensku. Ég hygg að þær séu til t.d. í Pennanum, eins getur þú haft samband við höfundinn Karl Smára Hreinsson, hann mun örugglega verða þér innan handar.

Þú kemur með aldeilis áhugaverðan vinkil á Tyrkjaránið, sem ég þekki ekki, það verður gaman að grúska í Jóni Ólafssyni Indíafara.

Þessi 17.öld hefur aldeilis verið öld umbrota. Bæði Guðjón og þú hafa komið með vinkla á Tyrkjaránið sem ég þekki ekki og hafði ekki látið mér hugkvæmast.

Takk fyrir upplýsingarnar og athugasemdina.

Magnús Sigurðsson, 9.8.2023 kl. 21:39

10 Smámynd: Birgir Loftsson

Góðan dag Magnús.  Ég reyndar skrifaði um þátt Jóns í Tyrkjaráninu hér á blogginu. Sjá slóðina:

https://biggilofts.blog.is/blog/biggilofts/entry/2263546/

Birgir Loftsson, 10.8.2023 kl. 10:37

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa ágætu ábendingu Birgir.

Ég er enginn sérfræðingur í Tyrkjaránssögu, mín sérviska er aðallega þjóðsögur héðan að austan.

Ég hef ekki lesið bók þeirra félaga Northern Captives um Tyrkjaránið í Grindavík.

En ef ég man rétt þá er í Tyrkjaránssögu Jónas Helgasonar minnst á sömu atburði á Bessastöðum og þú tilgreinir í þínum pistli, þó svo að ég muni ekki eftir hvort hann nafngreindi Jón Ólafsson Indíafara sérstaklega.

Það er víða margt sem má finna um Tyrkjaránið í efni sem er í raun um annað frá þessari öld, og má ábyggilega gera því mun betri skil á íslensku en hefur verið gert.

Sjálfum finnst mér Tyrkjaránssaga Jóns Helgasonar gefa nokkuð góða heildarmynd um umfang þessa atburðar og ráðlegg öllum að lesa hana sem vilja kynna sér söguna í fljóti bragði með lestri einnar bókar.

Magnús Sigurðsson, 10.8.2023 kl. 17:23

12 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Magnús. Það má heilan kafla undir Jón Ólafsson Indíafara og þátttöku hans í Tyrkjaráninu. Hann var í nokkuð mikilvægu hlutverki og hefði getað breyta gangi Íslands sögunnar.

Birgir Loftsson, 10.8.2023 kl. 18:30

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Birgir.

Athugasemd þín varð til þess að ég las kaflann Jónsmessa á Álftanesi í Tyrkjaránssögu Jóns Helgasonar.

Hann tilgreinir nákvæmlega sömu atburði og koma fram í þínum bloggpistli og nafngreinir Jón Ólafsson Indíafara ásamt fleirum.

Rétt eins og þú bendir á í pistlinum þá var hlutur Jóns Indíafara mikill í atburðarásinni á Bessastöðum.

Já það ætti að vera verðug verkefni ykkar sagnfræðinga að skrifa um atburði Íslandssögunnar á þann hátt á íslensku að áhugi almennings vakni.

Ég man eftir tveimur fræðimönnum í augnablikinu sem hefur tekist nokkuð vel upp með svoleiðis fílósóferingar; Bergsveini Birgissyni norrænufræðing og Bjarna Einarssyni fornleifafræðingur.

Magnús Sigurðsson, 11.8.2023 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband