Þegar þjóðaskáldin rumska

Bubbi Morthens er með grein í Morgunnblaðinu í dag, undir fyrirsögninni “Hernaðurinn gegn tungumálinu”. Þar leggur hann íslenskunni lið, enda segir hann að hún eigi það inni hjá sér. Auðvelt er að vera samála Bubba enda er hann eitt af þjóðskáldunum sem hefur hvað oftast hitt í hjartastað með hreinni og tærri íslensku, -ekki ósvipað og Kim Larsen hefur heillað Dani á dönsku.

Ísland er ekki lengur það sem það var þegar ég var ungur. Það er varla til sá blettur lengur á landi voru þar sem ekki má sjá fótspor og rusl. Höfuðborgin Reykjavík er þakin skiltum á ensku. Allir veitingastaðir eru með ensku sem fyrsta mál, matseðlar þar með taldir, og það sem meira er: það tal­ar enginn íslensku á þessum stöðum sumir segja vegna þess að Íslendingar fáist ekki í störfin.

Á þessum orðum hefst Morgunnblaðsgrein Bubba. Hann telur ferðamannavaðalinn eiga sök á hvað íslenskan á orðið undir högg að sækja í eigin landi, -og ekki síður fásinni landans í meðvirkni sinni með græðginni.

"Mér finnst það skipta gríðarlegu máli að við þegjum ekki og séum ekki meðvirk með þessum geysilega hagnaði og velvild íslenska ferðaiðnaðarins – og það á um leið við allar hliðargötur sem liggja út af ferðaiðnaðinum – sem nýtur góðs af þessu."

Bubbi er líka með ákveðna hernaðartaktík til varnar íslenskunni og vill að yfirvöld taki hana upp á sýna arma: "Það yrði einhvers konar herferð með listamönnum, rithöfundum og skáldum," segir Bubbi.

Ég tek undir hvert orð Bubba. Þó það sé of seint að endurheimta landið og þjóðina sem í því bjó þegar við Bubbi vorum ungir, er eina ráðið til þess að þjóðin sé íslensk sem á Íslandi býr, -að viðahalda tungumálinu, skilningi á sögunni og íslenskum gildum, -öðrum en græðginni sem hefur verið í hávegum höfð alla þessa öld.

Vonandi að þjóðskáld, yfirvöld og vættir landsins leggi íslenskunni lið með Bubba.


mbl.is „Við getum snúið vörn í sókn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það eina sem þarf, er að leggja niður Arnastofnun og særa þann Dímon þangað sem hann spratt frá.

Guðjón E. Hreinberg, 17.8.2023 kl. 21:40

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Bubbi er góður tónlistarmaður, og meistari er hann eins og Megas, ögn minni spámaður þó. Sér hann hér ævistarf sitt að engu unnið er hann sér fram á að komandi kynslóðir munu mæla á ensku, kínversku eða spænsku, eða venesúelsku. 

Ekki finnst mér hann þó trúverðugur í þessu hlutverki, hann sem hefur stutt Samfylkinguna, sem dýrkar ESB og allt sem erlent er, nema í hátíðaræðum. Bubbi hefur alltaf kunnað að eigna sér heiðurinn af því sem aðrir gera og þykist mestur og beztur og málsvari þess sem almenningsálitið vill. 

Nú þegar þjóðernisbylgja rís vill hann þvo hendur sínar af öfgavinstrinu, um stundarsakir.

Bubbi má eiga það að ég hélt uppá hann á unglingsárunum. Ljóðrænar Egóplöturnar kynntu mann fyrir vandaðri ljóðlist í rokktónlist á íslenzku. 

En hér þarf meira en kraftaverk og Bubba Morthens þegar allt stefnir í að innfæddir deyi út og innflutningur aukist taumlaust af öllum þeim sem geta kvartað undan harðari löggjöf í útlöndum í þessum málaflokki. 

 

Fyrst og fremst ættu þessir sem nú hræðast dauða íslenzkunnar og menningarinnar að leggjast lið flokkum eins og Íslenzku þjóðfylkingunni, Miðflokknum og Frelsisflokknum og iðrast þess að hafa kallað þá skammarheitum.

 

Það þarf að iðrast í verki, og snúa við stefnunni. Annars prýðilegur pistill. Já, góð byrjun á alvöru byltingu í þessum málaflokki að Bubbi Morthens leggi þessu lið.

Ingólfur Sigurðsson, 18.8.2023 kl. 00:00

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sælir félagar, -og takk fyrir innlitin og athugasemdirnar.

Satt að segja þá átti ég ekki von á að það opinberaði nokkur nafn sitt við þennan bloggpistil, þvílíkur er rétttrúnaður upplýsingaþjóðfélagsins orðinn, -að athugasemd eða like á röngum stað er geymt en ekki gleymt.

Já Guðjón, þegar íslenskan er komin inn á stofnun og troðið upp í þá fáu sem hana enn tala samloku með "Smoked salmon & egg salad" í boði Landspítali, þá er komin tími til að skera niður, -jafnvel ermetreusana sem tala út og suður í anda rétttrúnaðar ríkisreknu upplýsingaóreiðunnar.

Það er auðvelt að taka undir með þér Ingólfur, -hvað Bubba varðar, en gleymum ekki því að Bubbi Morthens er það þjóðskáld sem hefur skipt hvað oftast um skoðun, og batnandi mönnum er jú best að lifa. Og það verður aldrei af Bubba tekið að hann hefur náð til þjóðarinnar og rétt eins og hinn danski Kim Larsen, vakið athygli út fyrir landsteina á því hvers virði þjóðtunga og þjóðmenning er.

Ef einhverjir geta vakið landann og snúið við þeirri óheillaþróun sem íslensk þjóð er nú á, -fengið fólk til að tjá sig með öðru en með facebook like þá eru það þjóðskáldin og landvættirnir. Hvað litlu lukkudýrin hjá því opinbera gera skiptir minna máli, svo framarlega sem þau hafa vit á að halda kjafti á réttum stöðum.

Takk fyrir athugasemdirnar, -eins og ég sagði, þá átti ég ekkert frekar von á þeim, en þið eruð reyndar báðir tveir landvættir, -ef ekki þjóðskáld.

Magnús Sigurðsson, 18.8.2023 kl. 05:51

4 identicon

Góður pistill,

góðar athugasemdir,

einkum sú þriðja

þar sem þú hnykkir á meginmáli, Magnús.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 18.8.2023 kl. 10:19

5 identicon

Sæll Magnús,

Mér hefur ávallt fundist Bubbi Morthens
listamaður af Guðs náð; augljóst hvernig texti og laglína
mynda töfrandi, órofa og óaðskiljanlega heild; innilástur og hvatningu
næstu þúsaldir.

Húsari. (IP-tala skráð) 18.8.2023 kl. 10:28

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlit og athugasemdir, -Símon Pétur og Húsari.

Já, ég held að við sem verja viljum íslenska tungu verðum að syngja þennan söng með Bubba af hjartans list.

Hvað sem öðru líður, er það mikilsvert þegar þeir sem ná hvað best til fólks á þjóðtungunni gefa út yfirlýsingu sem þessa, og vonandi að hún eigi eftir að draga dilk á eftir sér.

Magnús Sigurðsson, 18.8.2023 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband