Tveir plús tveir

Þegar okkur finnst allt vera orðið breytt frá því áður var, jafnvel fjárhags áhyggjur þjaka, draumar dánir og töfraveröld horfin hugskotssjónum. Þá getur verið gott að leggjast í grasið með strá á milli tannanna til að tyggja um leið og hlustað er á fugla himinsins, fylgst er með skýjunum á ferð þeirra yfir himininn og minnast þess að ský gerir ekki mistök.

Áður en þú veist af munu margveldi alheimsins ná til innstu hugskots horna og það rennur upp fyrir þér að tveir plús tveir er það sem þér sýnist, -eru bara bókhaldsatriði sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi.

Útkoman fjórir er samkomulagsatrið manna á meðal. Rétt eins og tíminn, sem er viðurkennd sjónhverfingu um það að gærdagurinn hafi liðið áður en morgunndagurinn hefst. Þó svo að morgunndagurinn stjórnist af gærdeginum og í gær yrðu draumarnir til um morgunndaginn.

Það er ekkert í núinu sem gefur tilefni til þess að hafa áhyggjur, annað en hugmyndir okkar um að þeir sem lifa liðinn tíma séu með elliglöp, þeir sem lifa í óþekktri framtíð séu geðbilaðir og að þeir sem ganga út frá að tveir plús tveir séu fjórir endi ævina gjaldþrota.

Þegar upp er staðið er það trú, von og kærleikur sem skiptir máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er engu við að bæta, nema:

Amen.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.8.2023 kl. 11:51

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Fallegur boðskapur sem fólk þarf á að halda. Þarna kemur kærleiksboðskapur Krists og sameinast örlagatrú Ásatrúarinnar um að allt þurfi að halda áfram hvað sem stærri eða smærri ragnarökum líður. Þar kemur upp spurningin hvort dauði Baldurs sé daglegur atburður - og endurupprisa hans, ef hann er sólarguðinn, eins og menn trúðu sunnar í löndum. 

Ég skil Guðjón vin okkar. Bænin og iðrunin, þetta er allt nauðsynlegt til að halda jafnvægi sínu. 

Ingólfur Sigurðsson, 19.8.2023 kl. 13:25

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir góð orð Pétur Örn og Ingólfur.

Það mætti ætla að maður sé orðinn bljúgur á því að bögglast um í berjamó þessa dagana og hafi því ekkert bitastæðara til að blogga um.

Þessi hugleiðing er reyndar frá sumrinu 2015 og fann ég hana í tölvunni í morgunn. Sumarið 2015 var kalt og mér erfitt. Hafði árið áður lokið þriggja ára útlegð í Noregi.

Þetta sumar var ég að rísa upp úr slæmu hjartaáfalli og varla hálfur maður. En eins og Ingólfur bendir á þá dugir ekkert annað en að halda áfram annars verður útkoman bara fjórir fyrir aldur fram. 

Magnús Sigurðsson, 19.8.2023 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband