2.10.2023 | 06:08
Sel þetta ekki dýrara
Þó það sé kominn október veltist túrista vaðallinn um landið, sem aldrei fyrr, og ekki er ólíklegt að hann keyri vaktir. Svona miðað við að sjaldnast eru færri en tveir í bíl, og að sjá sængina í afturrúðunni. Túristarnir virðast tímatrektir, enda meðaltíminn sem þeir gefa sér á landinu bláa rúmlega þrír sólahringar þegar einhver tölfræði var opinberuð.
Því verður að nota tíman vel til að komast hringveginn, fara í Bláalónið og veltast dag um miðbæ Reykjavíkur á milli Hallgrímskirkju og Sólfarsins, auk alls hins. Litlu lukkudýrin við Austurvöll núa nú saman lófunum yfir árangrinum, þetta er orðinn meiri vaðall en fyrir kóvítið, þó fækki gistinóttunum á hótelum á milli ára.
Heyrst hefur að kínversk ökuskírteini séu fengin úr spákúlum og spilakössum, sem gefi bílaleigunum gífurlegan gróða, jafnvel svo mikinn að þær þurfi ekki nema örfáa milljarða af skattfé almennings til stíga kolefnisporin í gegnum orkuskiptin. Reyndar heldur gamall félagi minn að á rafmagnsbíla megi bæði keyra og svína, því fyrir þá hafi ekki verið greitt til að vera á vegunum.
Ég hef verið óvenju mikið á þjóðveginum núna í september þó svo að ekki hafi verið farið langt. Það virðist vera að mikið sé af fólki á ferðinni, sem ekki kann að lækka ljós þegar bílar mætast, gerir sér þar að auki varla grein fyrir hvar á veginum bíllinn er staddur og snar stoppar jafnvel á honum miðjum.
Í vikunni sem leið var ég á leið til vinnu snemma morguns skömmu eftir birtingu í þoku og súld. Þá mætti ég bíl sem kom rásandi á milli kanta út úr þokunni og Kínverji í hverri rúðu með pestar grímuna upp undir augum sem voru svo galopin að varla sást að skrattarnir væru skáeygir.
Þetta olli mér samt einungis heilabrotum, enda náði ég að víkja til hliðar í tíma. Seinna um morguninn á vinnustað í kaffitíma þegar hagvöxtur túrismans kom til tals, spurði ég hvort einhver vissi hvað þetta fólk væri að gera hérna Íslandi, og sagði frá pestargrímu parinu sem ég hafði mætt og ekki kynnu að keyra.
Þetta hafa verið túristar sögðu félagarnir íbyggnir; -ég sagði að mig hefði grunað það, en skildi samt ekki hvað þeir væru að gera hérna tímatrektir á öðru hundraðinu í þoku og fýlu svo þeir sæju varla veginn hvað þá glóru af landinu og þar að auki með grímur upp undir augum, annaðhvort fárveikir eða skelfingu losnir af pestarótta við innfædda.
Þá sagði sá yngsti okkar; "það eru bara alls ekki allir túristar komnir til Íslands til að skoða náttúruna eða kynnast því sem íslenskt er, margir eru komnir til að keyra bílaleigubíl í nokkra daga, því þar sem þeir eiga heima fá þeir ekki að keyra bíl."
Ég gæti trúað að það sé talsvert til í þessu hjá unga manninum, -sel þetta samt ekki dýrara en ég keypti. -Og nú mæra málsmetandi menn opinberlega evruna sem íslenskan gjaldmiðil, sennilega svo greiðlegar gangi að flytja mismuninn af vöxtum og vaðli aflands.
Athugasemdir
Frábær pistill Magnús. Hvað ætli stór hluti túristaflórunnar sé af þessu sauðahúsi, sem þú lýsir svo vel í þessum pistli?????
Jóhann Elíasson, 2.10.2023 kl. 11:02
Takk fyrir athugasemdina Jóhann.
Það er sjálfsagt ekki gott að segja hvað stór hluti ferðafólks er af þessu suðahúsi, en það koma í einhverri túristatölfræðinni fyrir skömmu að þó svo ferðamönnum fjölgi þá fækkar gistinóttum á hótelum á milli ára.
Það var frétt í gær á mbl af þjóðverja af svipuðu sauðahúsi, sem kom með torfærutrukk til landsins, ég skoðaði lauslega vídeóin sem fylgja fréttinni og þar verður varla annað séð en sá hafi eingöngu komið til að leika sér í torfæruakstri.
Það koma heilu flotarnir af þannig útbúnum bílum með Norrænu og ég hef oft verið að spá í hvaða gersemar þessir ofurtorfærutröll eru að skoða á íslandi, því mér finnst ég komast flest á gamla Grand Cherokee.
"Ég er hvort eð er ekkert að koma aftur til Íslands. Þjóðin er gjörsamlega dekruð af því að mjólka túrista. Verðin eru svívirðilega há og þjónustan slæm. Ísland mun farast vegna græðgi." skrifaði hann í svari við gagnrýni eins Íslendings og hélt áfram: „Íslendingar slátra hvölum. Það er gjörsamlega hið versta. Skammist ykkar, þið eruð smánarblettur á sköpunarverki Guðs."
Þetta með græðgina og þjónustu miðað við verð eru því miður orð að sönnu, og svolítið krúttlegt fyrir hinn almenna Íslending að fá svona beinskeytta gagnrýni frá athyglissjúkling sem kemur sérstaklega til landsins til að gera vídeó um svaðilfarir sínar á okkar landi.
Ég held því miður að það sé meira um það en við höldum að erlendir ferðamenn séu gagngert komnir til að þjóna eigin athyglissíki og misbjóða landinu án þess að skilja mikið eftir sig fyrir landsmenn.
það sem eftir verður fer að mestu í auðróna sem flytja það aflands, og svo erlent láglaunavinnuafl sem flytur sína aura úr landi eftir að elítan hefur hirt af þeim skatt til eigin nota.
Það er vegna erlends láglaunavinnuafls sem skattayfirvöld eru treg til að sleppa því að skattleggja tekjur sem ekki er hægt að lifa mannsæmandi lífi af í landinu. Þessi aðferðafræði bitnar hvað harðast á öldruðum og öryrkjum.
Þessu held ég að við landsmenn verðum að fara að gera okkur grein fyrir.
Magnús Sigurðsson, 2.10.2023 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.