Ó, lands vors guð

Það Ísland, sem við kölluðum ættland, er horfið í rót órofa alda. Og nú hefur það raungerst, sem Guðjón kallar stýrðu andstöðuna, -hún hefur komist klakklaust á varamannabekkinn.

Engin þarf lengur að tala fyrir því sem skiptir máli, -hvað þá úrsögn úr flokknum eða EES. Stólaskiptin eru orðin staðreynd og ég get sagt við Ingólf "I told you so".

“Formaðurinn getur þá dregið til baka úr þinginu bókun 35, sem engu skiptir, því þetta lið samþykkir hvort eð er allt á færibandi frá unioninu. Þannig getur flokkurinn haldið andlitinu vegna nafns síns og arfleifðar gagnvart kjósendum í næstu kosningum.”

Eftir þær kosningar sameinast svo hrunflokkarnir um tveggja flokka stjórn. Síðan verður skömmtuðum sætum við háborð glóbalsins útdeilt til valinna á kostnað fullveldis lítillar þjóðar.

 

Eftir of stóran skammt af engu

er nú setið við dánarbeð draums,

– drepnir tittlingar með brostnum vonum –

þeim er áræði æskunnar gaf vængi

líkt og sunnan þeyr.

 

Öll fyrrum framtíðar áform

eru nú andvana fædd

– hljóð í ódáins frelsi.

 

Dropinn sem holaði steininn

fer nú einn af öðrum í vaskinn

– úti við dumbshaf í helsi.

 

Eitt eilífðar smáblóm

– nú í glötun kastað –

tilbiður guð sinn og deyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varúðarorð þín eru bæði sterk og magnþrungin. 

Mér finnst sem maður rýni í sortann þar sem skósveinar og dúkkulísur ganga erinda erlends valds og höggva að rótum fullveldis lands okkar og þjóðar ... og það eina sem hægt er að vona er að létti til, jafnvel að það þyrfti til og yrði sem kraftaverk.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.10.2023 kl. 10:08

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er gaman að þú skulir minnast á mig og vitna í athugasemdir og svör. 

Ég verð nú annars að hrósa þér fyrir að stíga fram sem vel frambærilegt ljóðskáld, og gott ljóðskáld. Orðin eru mjög meitluð og beitt og þó yfirveguð. 

Þetta minnir á Stein Steinarr, hvað varðar bragarhátt, Tíminn og vatnið var einnig ortur á ljóðrænan hátt, mitt á milli atómkveðskapar og hins háttbundna.

Auk þess finnst mér margir pistlar þínir um málefni dagsins ljóðrænir, og þú hefur þessa skáldskapargáfu í þér, frá ættinni eins og sést á ljóðum afa þíns, ef ég man rétt að þú hafir líka birt.

Um örlög Sjálfstæðisflokksins mætti fjölyrða. Davosdúkkulísa sem formaður Sjálfstæðisflokksins, ég tek undir orð Páls Vilhjálmssonar, að það mun stórauka fylgi Miðflokksins, ef ekki gera hann stærri en Sjálfstæðisflokkinn.

En í pistli hans felst þó vonin um að æskan rísi upp, og það ætla ég að vona líka. Við fáum jú helsið í ýmsum umbúðum, sem sumar eru gamalkunnugar. 

"Nýr jakki, sami bolur", eða eitthvað slíkt átti Bó að hafa sagt. Okkur er lætt bakdyramegin inní ESB, það þýðir ekki. 70% þjóðarinnar vilja ekki Bjarna í ríkisstjórn, og ástandið er farið að minna á Búsáhaldabyltinguna. Verðbólga, kjararýrnun, ekki er Bjarni saklaus af þessu með peningaprentun og lokunum í kófinu, en hinir flokkarnir tóku þátt í þessu. Ekki þýðir að refsa sjálfstæðismönnum einum.

Í þessum pistli er fjallað um hrikalegt sjálfstæðisafsal.

Þetta er mjög góður pistill, hófsamur en tekur á vandamálum á sama tíma. Að þessu sinni er ég sammála vinstrafólkinu sem skrifar í DV, að þjóðin er blekkt sem aldrei fyrr.

Hvað sem úr þessu kemur, stjórnmálaveturinn er rétt svo að byrja og átökin innan stjórnarinnar og utan fara varla minnkandi við þetta.

Prýðilegur pistill, og nú get ég sagt það með sanni, þú ert skáld eins og afi þinn, ekki aðeins efnilegur.

Ingólfur Sigurðsson, 15.10.2023 kl. 10:28

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar Pétur Örn og Ingólfur.

Pétur Örn; orð þín eru rík af reynslu þess sem víða hefur ratað, flutt þekkinguna heim, -lifað seinni gullöldina íslensku þjóðarinnar bæði til sjávar og sveita.

Þegar ég tala um hrunflokkana sem taka munu við eftir næstu kosningar sé ég fyrir mér 2008 flokkana. Formaður annars þess flokks þá, -lét hin fleygu orð "þið eruð ekki þjóðin" vaða framan í almenning. Formaður hins flokksins bað Guð um að blessa Ísland.

Þessi bæn um blessun Íslands hefur oft verið viðhöfð hér á þessari síðu án þess að ég sé áhangandi "flokksins". En hvort sem þessi tveggja, þriggja, fjögra eða allra flokka stjórn verður eftir næstu kosningar, þá er ég loksins farin að skilja við hvaða fólk orðin eiga "þið eruð ekki þjóðin".

Hvað flokkar og formenn þeirra ætla sér í næstu kosningum er sjálfsagt samtal við kjósendur, en tæplega gömlu þjóðina. Sú þjóð dýralæknisins er ekki einu sinni til í sveitinni eftir stjórnarsetu hans sem innviðaráðherra. Við þurfum ekki að tala um hvert Kúlulánadrottningin beinir sínum orðum. Sú flissandi er þegar seld.

Þetta lið mun þétta varamannabekkina, sem hingað til, á kostnað þjóðarinnar. Færa sig fram á bekkinn og vonast svo eftir stöðu við hagsmunagæslu fyrir glóbalinn við að skipta um þjóð í landinu.

Ingólfur; orð þín í minn garð eru full stór því í þessu ljóði, sem fylgir pistlinum, er ýmislegt fengið að láni frá þjóðskáldum fullveldisins, -þeim jarðbundnu.

En mér þykir vænt um orð þín og að þú skulir minnast þess sem ég sagði við þig í athugasemd við einn af þínum ágætu pistlum í vikunni, -og ekki firrtast þó svo ég segi "I told you so" það er stórmannlegt af eins góðum penna og þú ert.

Magnús Sigurðsson, 15.10.2023 kl. 11:24

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Lýðveldið er vald þjóðarinnar yfir lýðnum, er túlkun eins kunningja míns.

Vel kveðið.

Guðjón E. Hreinberg, 15.10.2023 kl. 17:35

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Vek kveðið hjá kunningja þínum Guðjón, -og betur væri að þjóðin nýtti það vald til annars en tortíma arfleið sinni og framtíð.

Magnús Sigurðsson, 15.10.2023 kl. 18:24

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Vel kveðið hjá kunningja þínum Guðjón, -átti það að vera varðandi vald þjóðarinnar yfir lýðnum. Það sem við köllum lýðveldi. 

Magnús Sigurðsson, 15.10.2023 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband