Lífið í landinu

Nú er unnið að því að kortleggja sprungur við Grindavík, sem er talin óbyggileg þeirra og neðanjarðarhvelfinga vegna, ásamt hættu á eldsumbrotum. Ógnir náttúrunnar er ekkert nýtt á landinu bláa og hefur mátt búa við óblíða náttúru frá því land byggðist, eins og Íslandssagan greinir víða frá, og til er aragrúi sagna sem varla er hægt að flokka sem þjóðsögur þó svo að þær hafi ekki verið skráðar í fréttaannála.

Í bók Tryggva Emilssonar fátækt fólk segir Tryggvi sögur eftir föður sínum sem var á vetrarvertíðum á Reykjanesi og sem vinnumaður í Straumi við Hafnafjörð skömmu fyrir 1890. Hann segir hve algengt það var að kindur tíndust í hruninu eftir að hafa fallið sprungur og gjótur og hvernig hann kom að björgun þeirra.

Í bókinni Fátækt fólk segir Tryggvi svo frá eftir föður sínum um mannshvarfi í hruninu.

Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásuði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og var venja á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni.

Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri er faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi.

Fljótlega hefir hún séð hvernig komið var, að engin leið var til uppgöngu þar sem hraunveggirnir voru allir innundir sig og hvelfdust yfir gjótuna sem var um tvær mannhæðir frá botni á barm og gersamlega ókleif.

Hún reyndi eftir fremsta megni að róa hugsunina og hélt áfram að prjóna, að kalla á hjálp var tilgangslaust. Þarna var enginn maður á ferð en hún vissi að sín yrði saknað og leitað, og það var sú von sem hún hélt dauðahaldi.

Og hennar var leitað dag eftir dag en hún fannst ekki. Eftir þrjú dægur þóttist hún heyra mannamál skammt frá gjótunni og þá hrópaði hún af öllum mætti, en hún gat allt eins muldrað í barm sér, hljóðið kastaðaist á milli veggjanna og kafnaði undir hraunhvelfingunni sem var eins og þak yfir gjótunni.

Enn liðu þrjú dægur og konan var að glata síðasta vonarneistanum. Leisturinn var löngu fullprjónaður og bandið gengið til þurrðar og hungrið og kuldinn svurfu að. Hún sat upp við hraunvegginn við hliðina á dauðrotnuðu kindarhræi sem hvorki hrafn né tófa höfðu nagað og beið dauðans en hélt þó fullum sönsum og baðst fyrir öllum stundum.

Þrír sólarhringar voru lengi að líða, nóttin og myrkrið fylltu gjótuna af nístandi nálum sem gengu í gegnum merg og bein og dagurinn sem þrengdi sér ofan um opið og varð að grárri ógnandi loppu, líka hann. Hún horfði tárvotum augum til þess himins sem skartaði gullroðnum skýjum og þráin til lífsins varð að hrópandi bæn.

Svo féll hún í svefn, það var á fjórða degi, og þá skeði kraftaverkið, hún vaknaði á barmi gjótunnar og komst til bæja.

Faðir minn sagði mér þessa sögu af hraunströndinni og það með að álit manna var að konan hefði komist það sem svefnengill sem henni var um megn í vöku. Og raunar eru til um það sagnir að svefngöngumenn brúa ófærur.

Þeir sem hafa einhvern áhuga á að fræðast um úr hvaða jarðvegi íslensk þjóð er sprottin ættu að lesa bækur Tryggva Emilssonar; Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan. Jafnvel þó svo að mörgum hafi fundist gleymskan geyma efni þeirra best þegar þær komu út á sínum tíma.

Í bókinni Jón Indíafari reisubók, sem skráð er af Jóni Ólafssyni um dvöl hans í danska hernum 1615-1626, segir frá ferðalögum sem náðu allt frá Grænlandi til Indlands og Þar til hann kom aftur til Íslands. Í fyrsta kafla segir hins vegar frá ferðalagi konu með ungabarn á æskuslóðum Jóns úr Álftafirði við Ísafjarðadjúp yfir í Önundarfjörð.

Frásögnin er svona.

Á mínu 11 ári bar svo við að ein gift kona, Bóthildur að nafni hafði ferðast úr Álftafirði og vestur yfir heiði í Önundarfjörð með veturgamalt eður tvævett sveinbarn, sá eð Ketill hét. Og þegar móðirin vildi hafa hingað aftur ferðazt með sinni ungri barnkind til sinnar sveitar, þá vissi það engin í Álftafirði.

Þetta skeði um Maríumessu fyrri. Og nær hún kom hér yfir heiðarskarðið, skellti yfir myrkvaþoku, svo hún gekk og villtist of mikið til hægri handar, allt þangað sem Valagil heita, hvar að eru miklir forvaðar, og með því að hún var bæði veik og mædd orðin, nam hún þar staðar fyrir Guðs anda ávísun hið næst sem mátti þessum forvöðum, og af löngum burði sinnar barnskepnu hafði henni í brjóst runnið og svo aldeilis út af sofnað í Herrans vald.

Nú vissi enginn maður, hvorki í Önundarfjarðar né Álftafjarðarhrepps, af þessu tilfelli. Skömmu síðar í vikunni heyrðist barnsópið ofan til byggða, og ætluðu þeir menn, sem næstir bjuggu, að einhver sérdeilis dýrahljóð vera mundu. Þetta bar við snemma í augusto.

Í þann tíma bjó, síra Jón Grímsson í Svarfhól í Álftafirði, sá eð var sóknarprestur Ögurs og Eyrar, og nær hann fékk þetta að spyrja, sendi hann með skrifaðan seðil út eftir sveitinni heim á hvern bæ til sérhvers búandi manns og bónda, sem það innihald hafði, að hver þeirra kæmi með vopn í hendi heim á hans garð með bráðasta hætti, þá strax samdægris, og þar samantæki í sinni nálægð og með sínu ráði, hvernin þeir sér hegða skyldu í greindu efni, og gjörðist sú ályktan, að menn skyldu uppleita með alvarlegasta hætti, hvaðan þessi ýlfran væri og eymdarhljóð eður af hverri skepnu. Gengu þeir svo af stað af prestsins garði.

Þá gengu allir skattbændur með þrískúfaðan atgeira, sem hingað á umliðnu ári fyrir þetta fluttust til kaups eftir K.M. bifalningu. Og nær þeir komu á þann stað, sem konan lá önduð fyrir löngu, og fundu barnið hjá henni enn þá lifandi og konuna óskaddaða, því barnið hafði hennar líkama varið í mörg dægur, þá hnykkti hverjum þeirra hér við og þótti hryggileg aðkoma, en þeim manni eyi sízt, sem bóndi og ektamaður var nefndrar konu, sá eð Jón Eyvindsson var að nafni.

Var hennar lík svo flutt til byggða og þaðan með erlegum tilbúningi og meðferð til Eyrarkirkju, að hún greftraðist. En þessi þeirra sonur uppólst hjá sínum föður, þangað til hann var komin úr ómegð, og var síðan vinnuþjón síra Thumasar Þórðarsonar og andaðist vel tvítugur að aldri á Snæfjöllum.

Þessa ferðalags er hvergi getið í annálum né öðrum heimildum og er jafnvel látið að því liggja í skýringum bókarinnar að um skrök- eða þjóðsögu sé að ræða. Hverju svo sem Jóni hefði átt að ganga til með því, en þessi atburður hefur greinilega haft mikil áhrif á hann í bernsku úr því að hann segir frá honum í fyrsta kafla bókar um annars óskylt efni, -heimsreisu.

Það má kannski segja sem svo að fyrri kynslóðum hafi þótt best að gleyma óblíðri náttúru landsins eins og hverju öðru hundsbiti og það hafi verið lykill að því að byggja þetta land. Bara á minni ævi hefur orðið mikil breyting á hvernig fólk er tilbúið til að úttala sig um ófarir sínar. Á þeim grunni má nú segja að sé runnin upp öld upplýsinga, sérfræði og sviðsmynda sem fæða af sér appelsínugular viðvaranir og lokanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eins og eikkur sagði; enginn veit hvað Efnið er.

Guðjón E. Hreinberg, 24.1.2024 kl. 16:35

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Guðjón, -og takk fyrir innlitið þó svo að ég sé ekki að átta mig á athugasemdinni.

En svona til að segja eitthvað; -á milli fjallanna þar á ég heima. 

Guðs blessun, -eða þannig.

Magnús Sigurðsson, 24.1.2024 kl. 21:16

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Mér fannst allar tilvitnanir safnast saman í athugasemdinni, hver veit hvernig konan endaði uppi á barminum. Í vetur hef ég litið öðru hvoru á hillu í tiltekinni verslun á svæðinu, í leit að uppáhalds vettlingunum mínum (sem ég slít á u.þ.b. sex mánuðum að jafnaði), en ekkert par til. Starfsmaður sem veit af spæjun minni sagði mér í dag að hann hefði gramsað öðru hvoru, en í dag átti ég leið í verslun þessa og eina parið sem til var, eins og reis upp úr hrúgunni handa mér ...

... ég sýndi það verslunarstýrunni, og hún ákvað að tryggja að þetta gerðist ekkia aftur.

Eins er með lífið í landinu; ég gæti bætt við mörgum sögum þess eðlis hversu mikið kraftaverk það er - og hef gert - en ég skil ekki hvers vegna þessi litli flöktandi kertalogi hefur verið að því er virðist verndaður ... þær tólf aldir sem hann endalaust reynir að kæfa sjálfan sig.

:) stutta athugsemdin var betri :D

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 25.1.2024 kl. 23:47

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

´Eg las bók Tryggva Elíssonar,eða réttara sagt sonur minn setti hana á "Storytel" síma míns. Ekki datt mér í hug að kvörtun mín yfir að geta ekki haldið á bók og lesið fyrir svefn,leiddi til að ég kynntist þessu tækniundri. Satt að segja varð mér samt ekki rótt yfir efni þess,minnti  m.a.á fráfærur og 7 ára dreng sem var vistaður á bæ til að vaka yfir ánum,matarlaus svangur og kaldur.Hljómfagur rómur lesarans hæfði einstökum stíl bókarinnar;hún skyldi eftir hundasúru beiskju án frekari skýringa! Mb kveðju.

Helga Kristjánsdóttir, 26.1.2024 kl. 00:52

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir skýringuna Guðjón, -og get ég tekið tekið undir með þér að bænin kemur manni aftur upp á barminn. Þú segir að stutta skýringin hafi verið betri, en ég segi að sú lengri sé hugrakkari. Enda hefur þú verið óragaur að útlista hana á þinni bloggsíðu, -megir þú hafa guðs blessun fyrir hana.

Þakka þér fyrir innlitið og söguna Helga, -ég sagði aldrei að bækur Tryggva Emilssonar væru ekki beiskar, enda íslensk þjóð alin bæði á beisku og súru í gegnum aldirnar.

Það sem ég átti við með því að þeir sem áhuga hefðu á að fræðast um úr hvaða jarðvegi íslensk þjóð er sprottin ættu að lesa bækur Tryggva Emilssonar; Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, -er, að þar er um að ræða sjálfsævisögu manns sem ólst upp við vinnuhörku í torfbæ, þurfti að berjast fyrir brauðinu og endaði ævina í raðhúsalengju í Reykjavík.

Þetta varð hlutskipti margs þess 20. aldar fólks sem komu okkur út úr hálfhrundum moldarkofunum inn í nútímann. Þar sem okkur þykja varnargarðar og áfallahjálp sjálfsögð mannréttindi. Jafnvel án þess að að hreifa legg né lið, hvað þá leggjast á hnén með bæn, í mesta lagi að setja lítið like á réttan stað í snjallsímann.

Magnús Sigurðsson, 26.1.2024 kl. 06:22

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

"Guð hjálpi mér" Þú sagðir það ekki! En í formála minnir þú einmitt á að ógnir af völdum náttúrunnar eru ekki nýjar af nálinni; Það hreifir við manni um leið stæri ég mig af þrautsegju forfeðra okkar og mæðra og hugvits við aðstæður sem búum betur að í dag. Vil meina að hæfileikinn erfist og finni ráð við nýjum ógnunum. Takk og bless. 

Helga Kristjánsdóttir, 26.1.2024 kl. 15:52

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina Helga, -við erum "stærri" vegna þrautseigju forfeðranna, -það er góð skýring.

Það stóð ekki til að stuða þig, og ef ég hef gert svo þá bið ég þig afsökunar.

Ég var einungis að undirstrika hve bækur Tryggva segja stóra sögu um ævikjör þjóðarinnar fyrir ekki svo löngu síðan.

Sögu sem er bæði beisk og súr, eins og þú bendir á, en okkur fjarlæg í dag, -sem betur fer.

Með bestu kveðju.

Magnús Sigurðsson, 26.1.2024 kl. 17:53

8 identicon

Sæll Magnús æfinlega; líka sem og aðrir þinna gesta !

Þakka þjer fyrir; áhugaverðar og skilvísar frásögur þeirra

beggja merkismanna:: Tryggva Emilssonar og Jóns Indíafara

Ólafssonar - þó, svo frá gjörólíkum tímaskeiðum sjeu.

Jóns Indíafara frásögnin rifjar upp; skemmtilegan lestur

Flosa heitins Ólafssonar leikara í Ríkisútvarpinu Haustið

1980 úr Reisubókinni, hver var hinn áheyrilegasti.

Vart þarf að taka fram; að þeir Tryggvi og Jón eru lítt

kunnir yngri kynslóðum þessa lands, hvar fjölmenningar

bábiljan og alls konar margþætt úrkynjun er frekar í

hávegum höfð, hinna seinni kynslóða, og hversu úrættis

tíðarandinn er orðinn, nú til dags.

Með beztu kveðjum; sem endranær af Suðurlandi /

í Austfirðinga fjórðung. 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.1.2024 kl. 20:04

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Óskar Helgi.

Já ég get rétt trúað að Flosi hafi kunnað að gera Jóni Indíafara lifandi skil með lestri sínum.

Annars er málfarið í frásögn Jóns freka tyrfið enda skrifaði hann Reisubókina fyrir hart nær 400 árum. Málfarið er látið halda sér og þess getið að setningaskipanin sem Jóna notaði sé í nokkuð í ætt við latínu.

Já ég get einnig trúað því að ungt fólk sé frekar áhugalaust um úr hvaða jarðvegi íslensk þjóð er sprottin, enda hvernig á annað að vera eins og staðan er í dag.

Sjálfur var ég ekki of vel áttaður á hvað aldamótakynslóð 20. aldarinnar hafði afrekað miklu.

Afi minn og nafni var samt samtíðarmaður Tryggva og hafði búið við svipuð húsakynni auk þess að eiga erfiða æsku, sem ég komst að eftir hans daga.

En þó svo að við værum miklir mátar þá barmaði hann sér aldrei í mín eyru né miklaði sig og sína kynslóð fyrir það að koma okkur inn í nútímann.

Þannig við að lesa bækur Tryggva þá komst maður á sjónarhól sem 20.aldar fólkið var ekki mikið að flíka.

Með kveðju á Suðurlandið af Héraði.

Magnús Sigurðsson, 26.1.2024 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband