1.4.2024 | 05:08
Þegar Íslendingar voru börn náttúrunnar
Eyjan hvíta átt hefur sonu fremri vonum; kvað Jónas Hallgrímsson fyrir margt löngu. Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni; sagði prófessor Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup Íslensku þjóðkirkjunnar, í ræðu 1. desember 1957 í kapellu Háskóla Íslands á fullveldisdegi.
Kom þar m.a. fram hjá Sigurbirni að, -Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: Vér eigum menn. Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku.
Arnar Þór Jónson bloggari og forsetaframbjóðandi rifjaði upp þessi orð úr ræðu Sigurbjörns Einarssonar hér á blogginu um daginn. Frá þeim tíma þegar Ísland átti fólk sem lifði af náttúru landsins og vissi hvað fullveldi er mikils virði.
Við, sem erum fædd eftir miðja 20. öldina, munum konur og karla, -sem hægt er að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina. Fólkið sem kom Íslandi inn í nútímann með fullveldið eitt að vopni.
Fullveldis fólkið kom þjóðinni út úr hálfhrundum moldarkofum. Ræktaði landið inn til dala og sótti sjóinn frá ystu annesjum, -hélt landinu í byggð, og skilaði betra búi með meiru valfrelsi til næstu kynslóða. Vissulega var lífsbaráttan hörð, en samheldnin var líka mikil í landi sem átti ekki það sem í dag eru kallaðir, -innviðir.
Þess vegna var kannski ekki skrýtið að fólk flytti sig innan úr dölunum og af útnesjunum í þéttbýli fjarðanna, þar sem þorpin voru, -eftir að vélarafl bátanna jókst og bílar komu til flutninga fyrir sveitirnar. Áður voru byggðir á stöðum sem ótrúlegt má teljast í dag.
Ummerkja þessarar byggða og brot menja heilu þorpanna má enn sjá víða um land s.s. á vegasambandslausu Siglunesi við austan verðan Siglufjörð, Hafnarnesi nú við hringveginn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, staðir þar sem bjuggu tugir fólks og iðuðuð af mannlífi við leik og störf í nálægð gjöfullar náttúru.
Þegar ég hef keyrt Berufjarðarströndina nú í vetur þá hefur mér verið hugsað til þessa 20. aldar fólks. Nú þegar logar ekki eitt einasta ljós við þrjú íbúðarhús. Þar sem fyrir nokkru voru tvö sauðfjárbú vel í sveit sett, á annesi með innviði, á við þjóðveg eitt við bæjardyrnar. Á þeim þjóðvegi eru nú nær eingöngu erlendir túristar.
Árið 1961 fluttu foreldrar Matthildar minnar börn og bú af þessari strönd, á bát yfir Berufjörð, frá Núpshjáleigu suður á Djúpavog, til að búa í þorpi og sækja áfram björg í sjó. Þegar ég heyrði þessum flutningi lýst og lífinu fyrr um á Berufjarðarströndinni var það líkt ævintýri úr örðum heimi. Núpshjáleiga hefur verið í eyði síðan og nú í vetur loga ekki ljós á bæjum í nágreninu.
Ég segi stundum við börnin mín, að ef það sé eitthvað sem ég vilji ráðleggja þeim að sjá á lífsleiðinni í tíma, þá séu það Hornstrandir. Það er t.d. orðið of seint fyrir mig fótafúinn og hjartalúinn að rölta þar um eyðibyggðir, og þannig geti allt eins farið fyrir þeim þegar hratt líður stund. Auk þess sem auðn landsins sé óðum að komast í eigu erlendra auðróna.
Við Matthildur mín fórum ekki þjóðveg eitt um Berufjarðarströndina suður á Djúpavog núna um þessa páska til að hitta börn og barnabörn. Þess í stað stálumst við til í norðaustan hríð að horfa saman á sjónvarpið þeirra Ævi og Óra. Fundum á youtube Börn náttúrunnar og mynd Ósvaldar Knudsen frá 1956 um Hornstrandir, þar sem Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti lýðveldisins sá um frásöguna.
Í lok myndarinnar lætur Kristján þess getið, að líkindum verði þess langt að bíða að nýjar kynslóðir nemi land í hinum fornu byggðum. Matthildur, sem ekki hefur haft mikla trú á mér til ferðalaga síðustu árin, spurði eftir áhorfið á Börnum náttúrunnar hvort við ættum ekki að fara á Hornstrandir í sumar. Eitt augnablik lá við að ég leyfði mér að trúa á drauminn.
Í hlutfalli við aukið ferðafrelsi höfum við Íslendingar fjarlægst náttúru og sögu landsins, -og tapað fullveldinu. Núna rétt fyrir páskana fórum við Matthildur þó örstutta ferð í Bónus. Þar var talað tungum innan um world class sjálfafgreiðslukassana, og torkennilega skáeygt fólk leit okkur hornauga.
Það er orðið of seint að snúa til baka þar sem leikur og starf fóru saman í íslenskri náttúru. Og sú spurningin verður sífellt áleitnari hvort Íslendingar komi til með að lifa það af að búa við þjóðveg eitt í þessu landi.
Athugasemdir
Marga góða pistla hef ég lesið eftir þig en þessi verður í hópi þerra eftirminnilegri.....
Jóhann Elíasson, 1.4.2024 kl. 12:43
Þakka þér fyrir þessi orð Jóhann, -mér finnst stundum eins og ég sé alltaf að skrifa sama pistilinn og að hann verði aldrei of oft skrifaður.
Magnús Sigurðsson, 1.4.2024 kl. 13:40
Eins og þú segir Magnús, þá voru forfeður okkar frá því fyrir aldamótin 1900, börn náttúru Íslands. Þeir komu Íslandi inn í nútímann, foreldrar foreldra þinna, og minna, fullveldis fólkið, eins og þú kallar það.
Þetta fólk átt betri innviði en við eigum í dag, en það voru húslestrarnir. Guðs orð og sálmasöngur var þeirra daglega brauð, og gaf þeim kraftinn í baráttunni við náttúruöflin.
Þau lífsgæði sem við njótum í dag er af sáningu þessa fólks. Með ástundun bæna í Guðs ótta. Barnabörnin okkar, hins vegar eru ekki að uppskera blessanir í sama mæli og við gerðum.
Ber okkar kynslóð ekki ábyrgð á því hvernig nú er komið fyrir þjóðfélaginu? Á Eyjan hvíta ekki lengur sonu eftir vonum?
Guðmundur Örn Ragnarsson, 1.4.2024 kl. 18:36
Þakka þér fyrir athugasemdina Guðmundur Örn, -við erum á sömu blaðsíðu hvað fullveldisfólkið varðar.
Jú, okkur ber að líta í eigin barm, ég hef verið að reyna að vekja athygli á því hér á síðunni undir rós, við frekar hógværar undirtektir, -skiljanlega.
Eyjan hvíta á enn menn, -ungar dætur og syni, hlutverkið sem fyrri kynslóðir fengu af sambýlinu við almættið og náttúru landsins hefur verið fyrir þeim falið.
Þess í stað er boðið upp á sjálfsdýrkun. Þá gerist það sem síst skildi, að þau sem enn eru menn verða hlédræg.
Magnús Sigurðsson, 1.4.2024 kl. 19:20
Þegar mér var falið að gera fyrsta stóra sjónarpsþáttinn í þáttaröðinni Heimsókn í lit hafði ég nýlega flogið lágt um Hornstrandir að vorlagi þegar enn voru þar hálfbráðnaðir skafla í öllumm víkum á sama tíma og alls staðar annars staðar við sjávarsíðuna á Íslandi var farið að grænka.
Þetta var svo grípandi, að niðurstaðan var heimsókn í Eyðibyggð þar sem í klukkustundar þætti sæist aldrei neinn á ferli heldur greint frá mannlífi og sögnum án birtingar neins á sögu Hornstrendingabókar.
Í þættinum er greint frá frá tveimur morðum með því að beita aðeins myndavél og hljóðupptöku án neins lifandi manns.
Gunnar Þórðarson frumsamdi og sá um alla tónlistina í þessum þætti, og var það frumraun okkar beggja í slíkri kvikmyndagerð.
Ómar Ragnarsson, 1.4.2024 kl. 21:00
Þakka þér fyrir athugasemdina Ómar, -þú átt mikinn heiður skilin fyrir að kynna náttúruna Íslands og Íslendinga fyrir Íslendingum með þínum hætti.
Ég þarf endilega að horfa á Heimsókn í eyðibyggð. Það er stutt síðan ég horfði á þáttinn um Guðmundastaði í Vopnafirði tæp tvö ár eða svo, eftir að hafa komið að rústum Guðmundarstaða. Þeir eru nú í eigu Ratcliffs eins og mikið af Vopnafirði.
Myndin um Guðmundarstaði fannst mér stórmerkileg, reyndar hafði ég heyrt talsvert um hana á sínum tíma þar, sem móðir eins vinnufélagi míns til margra ára, -ólst upp hjá fólkinu á Guðmundarstöðum.
Eftir að hafa horft á myndina tel ég mig viti betur hvernig Íslendingar verða það sem kallað er sjálfmenntaðir; bæði skáld og sviðsmanneskjur, og ófeimin við að kannast við að vera börn náttúrunnar.
Þú nefnir veðurfarið og einsemdina sem orsakavald á hruni byggðar á Hornströndum. Myndin hér efst í pistlinum er af brimlendingu áttærings í Víkurfjöru í Mýrdalshreppi.
Séra Jón Steingrímsson eldklerkur ritaði kennsluefni um brimlendingar á árabátum, en hann sótti sjóinn úr Reynisfjöru. Hann lýsir því vel hvað samspilið með náttúruöflunum varð að vera algert svo lending mætti takast áfallalaust.
Nú eru báðar þessar fjörur í alfaraleið, og þar sem grænkar hvað fyrst að vori á Íslandi, -byggð er því kannski ekki að bresta. Svipað á við Berufjarðarströndina sem ég minnist á hér í pistlinum að ofan.
En það er athygli vert að samkvæmt þjóðskrá þá eru erlendir ríkisborgarar 63% íbúa Mýrdalshrepps. Íbúar með Íslenskt ríkisfang eru um 370 við mestu náttúruperlur Íslands.
Ég vil nota tækifærið og þakka þér fyrir alla þættina sem þú hefur gert íslenskri náttúru og okkur Íslendingum til heiðurs. Þeir eru ómetanlegir.
Magnús Sigurðsson, 2.4.2024 kl. 05:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.