Harðæri

Hann var gnafinn í vikunni sem leið, bálhvass, með snjó til fjalla, þó ekki hafi fest né fryst á láglendi. Máríerlurnar trítluðu blautar á kollinum hér um svalahandriðið, skáskjótandi sjónum sínum, árangurslaust upp í þakskeggið, -í von um að sjá flugur. Ég gaf þeim þeim múslí og þegar ég sá að þær röðuðu því í gogginn og flugu burt, ferð eftir ferð, þá þóttist ég vita að ungarnir væru enn lifandi í hreiðrinu.

Já, sumarhretið hefur vafalítið bæði farið illa með farfuglana og taugar túristanna, þó svo að við svona hreti megi búast á þessum árstíma á Íslandi rétt eins og dæmin sanna. Í fróðleiks bókinni Amma er kafli sem heitir Harðærislýsing úr Eyjafirði vorið 1869 þar sem birt eru dagbókarskrif Sveins Þórarinssonar þegar hann bjó á Akureyri, sem kannski er nú hvað þekktastur fyrir að vera faðir Jóns Sveinsonar höfundar barnabókanna um Nonna og Manna.

Amma segir að Sveinn hafi haldið dagbækur sem séu fróðlegar um margt, þó þær fjalli fyrst og fremst um einkahagi hans. Síðasta vorið sem Sveinn lifði - 1869, voru mikil harðindi, einkum norðanlands. Hretið í síðustu viku er léttvægt miða við lýsingar Sveins í dagbók sinni frá þessu vori. Veðurlýsingin í Ömmu byrjar 24. Maí og eru birtar dagbókarfærslur um mánaðra tíma. Síðasta dagbókarfærslan sem Sveinn er sagður hafa skrifað var 10. júlí 1869, en hann dó þann 16. sama mánaðar 48 ára gamall.

Ég ætla að setja hér inn 10 daga samfellda, eða svo, af þessum dagbókarfærslum eins og þær eru birtar í Ömmu, og byrja þá á sömu dagsetningu og hretið hófst í vikunni sem leið; en Amma er með margar nöturlegri veðurlýsingar í dagbókinni af þessum snemma-sumars harðindum 1869, en þær sem hér eru birtar.

3. júní. -Norðan kuldastormur með þokubelgingi, en af útstraumi færðist ísinn út fjörðinn nokkuð. Ég var heima, lagfærði smávegis og verkaði síld. Hungrið og heyleysið fréttist úr öllum áttum, og í dag var sagt, að 2 börn væru dáin af hungri í Ólafsfirði, og fönn svo mikil í Fjörðum og á útsveitum, að rétt aðeins væru auðir blettir á túnum, , , ,

4. júní. -Norðaustan frostgola, loft þokufullt og hríðarlegt. Ég gat lítið aðhafst vegna kulda, gekk út í bæ, keypti á apóteki 1 pund af chocolade og lakris og fíflarætur.

5. júní. -Norðaustan heljarkuldi með hríð svo hvítnaði undir sjó. Ég gat ekkert aðhafst nema sagað niður í eldinn þá seinustu spýtu, sem ég átti; og varð ég að liggja í rúmi vegna kulda, því alveg er ég eldiviðarlaus. Nokkrir, sem í gær reru til fiskjar, komu í dag með sára lítinn afla.

6. júní. -Logn og alheiðríkt; en mjög kalt . . . . Árni Sölvason kom austan úr Þistilfirði, hafði verið um borð í skipum þeim, sem liggja inniklemmd á Finnafirði og hingað eiga að fara; gátu ekki komist vegna hafíss við Langanes. Ýmsir hér í bænum sendu nú mann austur á Vopnafjörð eftir tóbaki, og lagði ég í þann sjóð 60 sk. fyrir ½ pundi af rjóli, því í gær skar ég hinn síðast tóbaksmola, sem ég átti. Hungur þrengir nú hart að mönnum, jafnvel æðri sem lægri.

7. júní. -Suðvestan vindur hlýr. Hafísinn rak að mestu hér af firðinum og glæddist nú von manna um skipskomu . . . . Ólafur á Espihól kom, ætlaði að fá sér bygg, en það fékkst ei heldur en annað, þar á móti náði hann í hið seinasta af einhverjum rúghnefa, sem steinolía hafði farið í og nokkrir hafa nú keypt af hungursneyð fyrir 1 rd. keppuna. Ég komst upp á að verka síld mína á besta hátt með því að reykja hana lítið, eftir að hún var lögð í pækil. Kýr fyrst látnar út í bænum, mín var inni í dag. Nú eru allir að setja niður kartöflur.

8. júní. -Norðvestan rosastormur og þokufar mikið í lofti.

9. júní. -Logn hlýindi skýjað loft framan af og sunnan vindur um kvöldið.

10. júní. -Sunnanstormur, en norðvestan í lofti, logn að sjá utarlega á firðinum . . . . Nú liggur almennt við manndauða af hungri, og eru ýmsir hér farnir að skera niður skepnur til bjargar. Vonlaust er um skipakomu að svo stöddu.

11. júní. -Norðan hvass heljar kuldastormur. Ísinn er rekinn inn á fjörð. Í morgun fékkst mikil spiksíld í lagnetjum. Ég lá lengst af degi í rúminu vegna kulda og hungurs.

12. júní. -Norðan heljar kuldi með hvassviðri og hríð; kýr stóðu aftur inni, mín nær málþola. Alsnjóaði. Alltaf harðnar og versnar ástandið. Ég særði út ½ pund af einiberjum til matar. Lá að mestu vegna kulda.

13. júní. -Norðan frostbruna stormur, hvass, svo ísinn rak inn á móts við Sigluvík . . . . Kuldinn óþolandi og hungur að harðna. Amtmaður og aðrir Möðruvellingar komu hér og fóru heim aftur. Er mælt, að amtmaður hafi fengið kornmat hjá Möller handa sér, og vitanlegt einnig að þeir Möller og Steincke hafa bæði fleiri kjöttunnur, brauð og mjöl, sem þeir liggja á og geyma, þó hungurdauði vofi yfir allt um kringum þá. Ég fékk tunnu af rudda hjá Friðb. Steinsyni handa kúnni.

Það kemur vel fram í þessum dagbókar skrifum Sveins Þórarinssonar hvað árferðið spilaði stórt hlutverk í afkomu fólks, þegar hafísinn kom í veg fyrir skipakomur að vori. Einnig kemur vel fram hvað almenningur gerði varðandi sitt matvælaöryggi; s.s. kýr á heimili, kindur, fiskur og settar niður kartöflur. Búast má við að ef landsins forni fjandi bættist við álíka sumarhret nú á dögum færi það líka illa með landsmenn.

Héðan af Héraði var ófært svo að segja til allra átta í tvo daga síðustu vikuna, nema upp í loftið. Túristarnir og flutningabílar komust þá hvorki lönd né strönd og þunnur orðin þrettándinn í búðarhillum, þó svo að einhverjir dagar væru enn í hungursneyð og ég gæti séð af múslí í máríerlurnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband