Þrjár stuttar sumarhugleiðingar

Þeistareykir (7. júlí 2016)

Blíðum í blænum

líður sumarið hjá

Með laufvindum ljúfum

hvíslar vindurinn frá

Af þverrandi mætti

fyllist hjartað af þrá

 

- 0 - 0 - 0 -

 Glugginn (16. júlí 2020)

Í einsemd utan við gluggann

býr óhamingja sveitarinnar

En í minningu gleymdra sumra

blakta tannlaus bros

í eldhúsgardínunni

 

- 0 - 0 - 0 -

Á Egilsstaðanesi (9. júlí 2023)

Það er sumar við völd

– byggið bylgjast í blænum

– blíðan brosir við bænum

– laufið hvíslar að trjánum

Í kyrrð um kvöld

– fregn af söltum tárum

 

IMG_6595


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Hér er vel að verki staðið!

Guðni Björgólfsson, 12.7.2024 kl. 06:15

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góð orð Guðni, -það eru ekki margir sem virðast hafa smekk fyrir fáum orðum. Þess vegna er ánægjulegt þegar hrós er látið í ljós.

Ha de bra, -eins og Norsararnir myndu segja.

Magnús Sigurðsson, 12.7.2024 kl. 07:23

3 identicon

Þér er margt til lista lagt, það er greinilegt, meistari Magnús.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.7.2024 kl. 10:52

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Pétur Örn, -ekki amalegt að fá kmplíment frá alvöru ljóðskáldi.

Þetta færi sennilega ekki langt í að kallast ljóð, enda fáir braghættir við hafðir samkvæmt reglu. 

En orðin í hugleiðingunum eru fá og ef þau koma þeim hughrifum til skila, sem andartakið gaf, -svo aðrir fái meðtekið þá er vel farið.

Hafðu það gott, -Höfðingi.

Magnús Sigurðsson, 12.7.2024 kl. 12:39

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég get sagt þér það Magnús að ég held ekki síður uppá ljóðin mín sem eru kolröng bragfræðilega. Þeim tengjast oft góðar eða vondar minningar og sterkar, að þegar manni er of mikið niðri fyrir hirðir maður ekki um reglur.

Eitt sinn þegar Ingvar frændi var að kenna mér bragfræðireglur og konan hans kom inn og sagði að maturinn væri tilbúinn (um kvöldmatarleytið) og sá okkur grúfa okkur yfir bækurnar: "Hvað eru þið að lesa hér?"

Þá sagði hann:"Ég er að reyna að kenna honum bragfræði og hann er að kenna mér að yrkja!" Þá var ég bara táningur og þótti lofið gott, en var ekki viss um hvort hann var að hæðast að mér, en kannski var sannleikskorn í þessu, því jafnvel ljóðin mín sem vitlaust voru ort höfðu einhverja tjáningu í sér ljóðræna.

Sagt af mikilli hógværð, enda var hann skáld gott og gaf út 2 ljóðabækur, og fleiri átti hann til sem hefði verið hægt að gefa út.

En í þessum ljóðum nærðu vel sumarblænum til skila, maður finnur fyrir mjúklegri golunni, hlýrri.

Eftir að mér lærðist að fólk kann ekki að meta það sem vel er gert hef ég verið að yrkja ljóð sem eru rétt kveðskaparlega, en innihaldið þarf ekki að vera neitt. 

Fólk vill ekkert læra, bara mæra hvert annað, sérstaklega þegar það er á rangri leið.

En gott að finna fyrir sumargolunni í þessum ljóðum. Sá er skáld sem missir ekki andann úr sér. Þú hefur viðhaldið trúnni á þjóðleg gildi, álfa og vætti og það er gott. Mín efnishyggja er ekki afneitun á því óskiljanlega.

Sumar línur eru hér samkvæmt reglunum, aðrar ekki. Þú gætir þjálfað og meitlað þennan hæfileika ef þú vilt, en það er ekki nauðsynlegt. Menn nota þessa hæfileika líka villta og það er allt í lagi.

Ingvar frændi kallaði samt atómljóðin prósur. Prósa í eintölu, ef það var ljóðrænt mál í lausu máli, og prósur, ef það skiptist í erindi án reglnanna.

Ingólfur Sigurðsson, 12.7.2024 kl. 14:02

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa athugasemd Ingólfur, -gott að fá hana í sambandi við þessar sumar hugleiðingar frá manni sem hefur verið ófeimin við að birta sín ljóð á blogginu.

Ég les þau oft með athygli og hef tekið eftir að sum þeirra hafa haft forspárgildi. Þegar þú birtir gömul ljóð þá má oft sjá að það sem í þeim er er staðreynd í dag.

Það er ekki sjálfgefið að hafa kjark til að birta ljóð frekar en opinbera sína sál, þess vegna dáist ég af þeim sem því þora.

Pétur Örn er mitt uppáhalds ljóðskáld, hann er ekki hefðbundinn. Ljóðabókin sem hann gaf út ber þess glögg merki. Þar eru ljóð sem opinbera tímalausan tíðaranda og segja sögur okkar kynslóðar á einstakan hátt.

Ég hef lesið ljóðabókina hans nokkrum sinnu í heild. Ég er haldinn þeirri meinloku að geta ekki munað ljóð. En ég man alltaf hughrifin sem ljóð á við Páskadagur 2013 skilja eftir og fletti þess vegna oft upp í bókinni líka.

Pétur Örn er höfðingi, það var ekki við annað komandi en hann gæfi mér bókina þegar ég vildi kaupa hana. Hún er það falleg á allan hátt að ég tími ekki að beygla hana þannig að það er svolítið skrýtið að sjá mig gægjast í hana.

Mér finnst þú reyndar alveg einstakur í bloggunum þínum þegar þú talar um ömmu þina, afa og Ingvar frænda þinn. Ég ætla því að leifa mér að birta smá brot úr ljóði Péturs Arnar um dulspeki ömmu sinnar, sem sínir vel hvað dýrmætt það er að varðveita minninguna í ljóði.

Þegar amma datt í dulspeki

var það alltaf að afloknu löngu

dagsverki hennar.

Seint að kvöldi þvoði hún hárið,

þurrkaði, kembdi og fléttaði

í fagran hvirfilkrans.

Þá sat amma á koffortinu

sem geymdi allar uppskriftirnar

að löngum dagsverkum hennar.

Svo nuddaði amma hægt og lengi

gagnaugun og þá sá ég skýrt

að amma var að verða heilög.

Þetta eru tvö fyrstu erindin af fimm um Dulspeki ömmu. Fyrir mér kemur fram í ljóðinu sterk minning um ömmur okkar kynslóðar.

Þetta er orðið allt of löng athugasemd, -enda var þín hugvekjandi.

Takk fyrir Ingólfur og bestu sumarkveðjur.

Magnús Sigurðsson, 12.7.2024 kl. 17:03

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Fín ljóð með haiku brag. Mér finnst það síðasta best.

Wilhelm Emilsson, 13.7.2024 kl. 20:43

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Wilhelm, -mér þykir vænt um þessa umsögn.

Hafðu það gott, bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2024 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband