Blóðberg og blóðbönd

Þessu litla bleika blómi íslenskarar náttúru hefur áður verið gerð skil á þessari síðu. Bæði vegna þess hvað blómið á stóra sögu í náttúrulækningum fyrri alda á Íslandi og vegna þess hvað það er áberandi þessa dagana þá má alveg minnast á það aftur, -þó ekki væri nema vegna blessaðra barnanna.

Blóðberg

Í sögu grasalækninga er blóðbergið mjög áberandi jurt og í dag er hún viðurkennd sem áhrifarík lækningajurt, bæði til innvortis notkunar fyrir öndunarfæri og meltingarveg og ekki síður til notkunar útvortis sem verkjastillandi á vöðva og gigtarverki. Áhrif hennar gegn bakteríu- og sveppasýkingum og styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið eru ekki síður þekkt svo og bólgueyðandi og græðandi áhrif á útbrot og sár sem gróa seint og illa. (sjá meira)

Ég hef verið í sumarfríi síðustu viku og þessa. Það byrjaði á því að ég þurfti að leita á náðir blóðbergsins. Fyrstu dagarnir fóru í að fara snemma út á morgnanna og tína blóðberg í pott þar sem ég sauð það saman við fjallgrös og hunang. Andaði að mér gufunni úr suðunni og drakk síðan seyðið sem te. Þetta gerði ég 2-3 sinnum á dag.

Málið var að ég hafði fengið óstöðvandi hósta, sama eðlis og í vetur sem endaði þá með því að ég leitaði læknis sem greindi mig með berkjubólgu og vatn í lunga. Berkjubólgu sagði læknirinn að tæki 10 daga til 3 vikur að losna við og ekkert einfalt ráð væri til, -s.s. sýklalyf vegna þess að hún stafaði í mínu tilviki ekki af bakteríusýkingu. Ég yrði því bara að láta mig hafa það, en hún ávísaði samt á lyf í apótekinu og sagði að ég yrði að lesa mig vel til um aukaverkanir.

Þess er skemmst að geta að eftir að hafa tekið lyfið tvisvar voru einkenni verstu aukaverkunarinnar auðsjáanleg. Ég fór því í blóðbergs baukinn minn og notaði aðferðina sem ég lýsti hér að ofan og var laus við berkjubólguna og vatnið úr lunga á 10 dögum. Það fékk ég svo staðfest í heimsókn til læknisins og hún spurði hvort lyfið hefði virkað svona vel. Ég sagði henni eins og var, -þá sagði hún; það var rétt hjá þér hætta að taka lyfið strax og gott hjá þér að nota þetta gamla læknisráð.

IMG_8263

Þrír ættliðir líta eftir blóðbergi, -mæðgur og Óri

Sumarfríið byrjaði sem sagt  á óstöðvandi hóstagelti. En núna losnaði ég við að fá vatn í lungu, enda byrjaði ég á blóðbergs meðferðinni strax. Ég hef ekki þurft að halda mig heima og svo sem farið allra minna ferða. það má því segja að allt komi til þess sem heima situr. Því hjá okkur Matthildi minni hafa verið kærir gestir flesta daga, börn, barnabörn, frændfólk á ferðalagi og til að vitja átthaganna, -sem sagt sannkölluð sumarsæla. 

Tækifærið hefur verið notað til að fara í firðina neðra og um bakka Fljótsins í efra. Austustu firði og víkur landsins skoðaðir með frændfólki í einmuna veðurblíðu. Farið með barnabörnunum út í Tjaldastaði í útilegu þar sem Ævi hjálpaði afa að tína blóðberg og Óri æfði sig í að hósta eins og afi. Hjá Ævi hefur það tilheyrt sumrinu, síðan hún fyrst man, að tína blóðberg, sem við sötrum te af að kvöldi og þurrkum afganginn til vetrarins.

Ævi spyr ennþá snemma að vori, -afi förum við ekki út í Tjaldastaði í sumar? -og á við að fara með tjald og nesti út í gamlar steypumalarnámur við Lagarfljótið þar sem blóðbergið litar steypumölina bleika úr hinni fornu horfnu Jöklu. Þar er tjaldað og sumarblíðunnar notið við vellandi spóa og forvitna kjóa, enda alltaf einhversstaðar skjól í gömlu grúsunum á Tjaldastöðum. Um daginn bættist forvitinn selur í flóruna og auðvitað var Ævi fyrst til taka eftir honum.

IMG_8285

Ævi og Óri á Tjaldastöðum

Síðan sumarfríið byrjaði hefur verið farið á Boggann til að vera við Dyrfjallahlaup þegar börnin komu í mark. Farið á Dalatanga með systur og hennar fólki sem dvaldi hér fyrir austan í þrjár vikur. En systir varð sextug á árinu og var með ljósmyndasýningu um upplifun sína af Skorrastað í Norðfirði, -og mágur kom með uppistöðuna úr æsku bandinu, -Kvöldverður á Nesi. Bandið kallaðist Völusteinar í þetta sinn og spilaði við opnun sýningarinnar í Þórsmörk ásamt tveimur hljómleikum sem fóru fram sitt hvort kvöldið í Egilsbúð í Neskaupstað og Tehúsinu á Egilsstöðum, þar sem söngkonan Vala gerði m.a. Heyr mína bæn einstök skil fyrir fullum sal.

Systir Matthildar og mágur komu svo í austfjarðablíðuna um síðustu helgi með hjólhýsið sitt og var tækifærið notað til að heimsækja Norðfjörð og Vöðlavík sitthvorn daginn. Við komum á Skorrastað til að kveðja systur og hennar fólk áður en þau fóru suður. Þar hittum við Jóhönnu á Skorrastað tengdamóðir systur, sem fædd er 1930, alltaf jafn ung í anda eins og fólkið af 30 kynslóðinni.

Mágur Matthildar, sem er Húsvíkingur, spurði Jóhönnu að því hvort hún kannaðist nokkuð við ömmu hans sem hefði verið ljósmóðir um árabil á Norðfirði um miðja síðustu öld. Jú heldur betur, hún hafði tekið á móti tveimur af hennar börnum auk þess sem það kom í ljós að hún hafði tekið á móti tengdadóttir hennar sem stödd var á Skorrastað um leið og við.

Daginn eftir var farið í Vöðlavík og horft á Gerpi austasta fjall á Íslandi í heiðskýru, logni og yfir 20°C. Við Matthildur mín jöguðumst um hvort við hefðu keyrt yfir lækinn út á sandinn yst í Vaðlavíkinni til að drekka kaffi við öldunið undir melgresishól í þau skipti sem við höfðum komið þar áður, en það taldi Matthildur elliglöp í mér, við hefðum stokkið yfir lækinn í öll skiptin.

IMG_8449

 Þó hún sé víða grýtt leiðin okkar Matthildar minnar þá verður hún bara fallegri með árunum

Mágur hennar var bílstjórinn og stoppaði því hennar megin við lækinn þar sem við drukkum kaffi á grasbala í blíðunni, en svo fór hann niður í fjöru. Ég spurði hann þegar hann kom til baka hvort hann hefði fundið brú yfir lækinn, nei ég stökk, sagði hann rétt að verða sjötugur.

Þannig að ég gafst upp á að tuða um að mér yrði skutlað yfir lækinn og fann þess í stað hvar styst var á milli bakka og sýndist mér sjá að ekkert mál væri að stökkva. Tók tilhlaup en steig of langt, alla leið ofan í lækinn, náði ekki spyrnu og endaði stökkið úti í miðjum læk. Mátti þakka fyrir að hafa ekki steypst á hausinn í leiðinni.

Í bakaleiðinni úr Vaðlavík komum við svo við á Reyðafirði til að heilsa upp á yngsta sólargeislann okkar, hana Matthildi Helgu, sem fæddist í síðasta mánuði. Svona er nú að vera orðinn gamall og fótafúinn í sumarfríi, við ilm af blóðbergi umvafin blóðböndum á austfirskum sólskinsdögum, -og fyrir löngu laus við ákafasta hóstann.

IMG_8298

ps. Hér má sjá myndir frá sumrinu 2024.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Yndislestur, takk fyrir mig.

Kveðja úr neðra.

PS. Þú hefur örugglega keyrt yfir lækinn, slíkt var siður allra sem keyrðu um á torfærujeppum, jafnt amerískum, breskum eða japönskum, sandurinn eiginlega bað um slík ferðalög.

Ómar Geirsson, 20.7.2024 kl. 08:30

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta grunaði mig Ómar, -en það er nú svona og svona með minnið, auðvitað var kappalegra að stökkva.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 21.7.2024 kl. 19:51

3 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Bestu þökk fyrir þennan ágæta og ánægjulega pistil.

Í Opinberun Jóhannesar, síðustu bók Biblíunnar og jafnframt í síðasta kafla hennar í fyrstu tveimur versunum er það sérstaklega tiltekið um lífsins tré að blöð þess séu til lækningar þjóðunum.

Ef til vill nálgast sú stund að upplifa einmitt það.

Guðni Björgólfsson, 22.7.2024 kl. 23:26

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina Guðni, -og verði þér að góðu.

Varðandi blöð lífsins trés þá er það skilda okkar eldri að vekja áhuga ungviðisins á því hvað náttúran hefur að bjóða við bæjardyrnar.

Það gerðu foreldrar mínir með því að fara með börnin sín bæði í berjamó og á grasafjall, auk þess að rækta kartöflur og rófur.

Og ekki skemmir fyrir að bók bókanna bendir á það sama.

Með kveðju af Héraði.

Magnús Sigurðsson, 24.7.2024 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband