Á meðan sakleysingjarnir sofa

-liggja víxlararnir andvaka yfir því hvernig megi færa hagvöxtinn úr verðbólgnum gróða svo hægt sé að hirða allan mismun.

Og nú er að fjara undan, -ferðamönnunum fækkar, loðnan brást og ríkiskassinn er tómur. Búið að skrúfa vextina upp úr þakinu eftir að blaðran var blásin af Why Iceland viðundrinu sem sett var í Seðlabankann fyrir fimm árum síðan til að bústa eignasafn gamma sem þeir fengu á verði frá ríkinu sem engin má vita. Eignir fólks sem gert var að öreigum í hinu svokallaða hruni.

Já og vel á minnst, -verðbólgu gróðinn hættir bráðlega að tikka í kassann, sá sem Landsbankinn fékk út úr okurvöxtunum til að kaupa TM af Kviku svo náhirðin gæti leyst til sín kvikan gammagróðann til að kaupa restina af Íslandsbanka. Og mbl vitnar nú í Viðskiptaráð, dag eftir dag, um slakan árangur ungmenna sem búið er að Písa til andskotans með innflutningi á ódýru vinnuafli við að hirða mismun. Verðhjöðnun er það versta sem víxlararnir vita því þá er engin mismunur fyrir þá sem ekkert geta.

Aðferðafræðin; hvað mikið er hægt að græða í stað þess hvað þarf til að reka sómasamlegt samfélag er nú komin á endastöð. Húsnæðiskostnaður, gistináttagjald, skattar og lifibrauð er allt komið upp í rjáfur og þar bítur hver púkinn í annars skott á fjósbitanum til að detta ekki ofan í froðuna á hlandforinni og þurfa þá að skíta út hendurnar við að bjarga sér og sínum. -Og hvað gera bláu dúkkulísurnar og kellingarnar í framsókn þá?

Nú er ekki um annað að ræða en byrja upp á nýtt fyrir þau hagfræðiséníin á þeim bæ. Setja unga fólkið og þjóðina, -sem var skipt um í landinu eftir hið svokallað hrun og hefur dregið gullvagninn í okurþjóðfélagi náhirðarinnar, -út á Guð og gaddinn. Sennilega komast vinnandi hendur úr landi í tíma með SAS eins og síðast. En það styttist óðum í að ekki verði hægt að fara eða koma frá og til Tene með Icelandair og Play. -Eru Guðni, Þórólfur og Valgerður á landinu?

Eftir munu sitja á klakanum steingeldir gamlingjar yfir galtómum lífeyrissjóðum og stútfullum skrifstofum af skaðmenntuðum dúkkulísum og flissandi fábjánum úr fáviskufabrikkum ríkisins og taka nýjan snúning með helferðarhyskinu undir forystu þeirrar dúkkulísunnar sem datt í lukkupottinn þegar gammagróðinn rann í gegnum kviku, -nokkurskonar frelsishetjur vinnandi stétta, rétt eins og þegar tími húsbréfa Jóhönnu og Evrópusambands Gunnarsstaða-móra kom á landinu bláa.

Guð blessi Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Engvu vid thetta ad baeta.

Amen.

Sigurður Kristján Hjaltested, 26.7.2024 kl. 05:35

2 identicon

Tek undir umsögn Sigurðar

og lokaorð:  Amen.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.7.2024 kl. 14:16

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þakka þér fyrir góðan pistil Magnús, það gerir þetta enginn betur en þú, að lýsa óförum fólksins og hvernig stjórnmálin virka.

Ég tel hægt að bæta við. Maður spyr sig fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar: Hvað getur fólkið unga sokkið djúpt sem á að erfa landið? Hversu mjög getur fólkið sem ætti að vera vonin fjarlægzt hugsjónirnar sem gerðu okkur sjálfstæð, og söfnuðu þó þeim auði sem Bjarni Benediktsson og hans dúkkulísur róma í ræðum en hirða í erlenda banka á meðan?

Ég hef verið að skrifa pistla um afrekin sem fyrri kynslóðir unnu því ég HEF TRÚ á Íslenzku þjóðinni þrátt fyrir allt! 

Vandinn felst í að ungar kynslóðir og eldri kjósa flokka og pólitíkusa sem vinna gegn landi og þjóð! Hvað á almenningur að gera og þessi 10-20% landsmanna sem skilja vandann? Það þarf alltaf að búa til nýja flokka og gefa þeim yfir 50% fylgi við svona aðstæður, þegar náhirðin sem stjórnar kann það eitt að arðræna. Þannig eru völdin tekin af arðræningjunum.

Jón Magnússon skrifar um skólakerfið í nýjum pistli. Nú er farið að viðurkenna það opinberlega að það er ónýtt á Íslandi þetta skólakerfi. Skóli án aðgreiningar, allar þessar tízkubreytingar hafa lagt það í rúst.

Börnin koma útúr skólunum sem róbótar, Elítuþrælar sem kjósa ranga flokka og skilja ekki veröldina, bulla og eru með hatur útí þá sem reyna að bjarga einhverju.

En þessu er hægt að breyta. Verst er að fólki fækkar. Þessi ríkisstjórn Bjarna og Kötu skilar af sér tapi á öllum sviðum.

Frábær pistill.

Ingólfur Sigurðsson, 26.7.2024 kl. 15:38

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Hef svo sem lesið margt af þessu áður, hef líka skrifað eitthvað svipað en nenni því sjaldnar, þetta eitthvað sem blasir við, en virðist aðeins blasa við okkur sem eldri erum, og þá frekar fáum af okkur.

En ég hjó eftir einni setningu, og hún hreif mig.  Og eins og hvert annað barn, þá þarf ég að segja frá gleði minni og upplifun.

" .. hvað mikið er hægt að græða í stað þess hvað þarf til að reka sómasamlegt samfélag er nú komin á endastöð".

Já Magnús, það er mælikvarði á gáfur fjölmiðlafólks, stjórnmálaskýranda, eða hvað sem þetta lið heitir, að það spyr ekki þessarar augljósu spurningar.

Þetta er samt grunnspurning lífsins, hvað þarf til að reka sómasamlegt samfélag áður en fjárúlfar grilla á kvöldin og ræna okkur á nóttinni??

Tek undir lokaorð Ingólfs, þeim mæta dreng sem ennþá nennir að tjá sig með rökum og skoðunum.

Frábær pistil Magnús.

Og ekki orð um það meir.

Reyndar það rignir í neðra, en kveðjan engu að síður.

Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 17:07

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sælir félagar, -og takk fyrir innlitin, amenin og athugasemdirnar.

Það er svosem ekkert nýtt þannig séð í þessum pistli og spurning hvort rétt sé að spila sömu rulluna aftur og aftur. Hvers vegna svo fáir virðast sjá það sem blasir við okkur gömlu jálkunum er til auðskilið svar við, -það sjá þetta allir.

Sumir vona samt það besta því vonin er skyld bæninni. Einhverjir leggja ekki í að tjá sig og geta haft sínar ástæður fyrir því, og er þá sú veigamesta yfirleitt sú að fólk hefur lifibrauð af óskapnaðinum.

Og svo er það kannski ein veigamesta skýringin að fjölmiðlarnir og þjóðfélagsumræðan hjálpar ekkert til enda hafa þeir verið keyptir sem aldrei fyrr, -og keyptir stjórnmálamenn láta almenning borga brúsann.

Og hvers vegna þykist ég vita að þetta sé svarið? -ég er óragur við að ræða þetta hvar sem ég kem og veit því hvað brennur á fólki, hef farið með þennan pistil mun oftar munnlega en skriflega.

En mér lýst ekki á blikuna núna, þykist vita að þetta fari versanandi og ávinningurinn sem aldarmóta fólk 20. aldarinnar skapaði okkur, -kynslóðunum sem á eftir komum er að tapast.

Sá ávinningur náðist fyrst og fremst með því að reka sómasamlegt samfélag umfram það að græða. Og þá fjölgaði fólkinu, sjálfur er ég af stóra 60 árganginum, þegar ein fyrirvinna dugði til að brauðfæða stórar barnafjölskyldur og þakið yfir höfuðið var skuldlítið, -æskan ævintýri.

Það þótti ljótt að vera gróðapungur í mínu ungdæmi. Það miklaðist engin af auðæfum. Jóakim Önd var aðhlátursefni og dæmi um mislukkaðan ræfil sem upplifði einmanaleika og ógæfu þrátt fyrir allan auðinn.

Núna er Jóakim hampað hvort sem hann gegnir nöfnunum Elon, Donald eða Ratcliff og við sækjum í upplýsingarnar og afþreyinguna þeirra þó svo að hún sé auðsýnilegur áróður fyrir fjárplógsstarfsemi og kúgun.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en það getur vel verið að ég eigi eftir að skrifa þennan pistil eitthvað oftar og á ábyggilega eftir að ræða þetta áfram við ættingja og vini.

Með bestu kveðjum til ykkar félagar úr dumbungnum á Héraði.

Magnús Sigurðsson, 26.7.2024 kl. 19:43

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Amen sagði hið góða Skáld lífsins.

Vitandi að stundum segja fá orð meir en mörg.  Jæja, ég kannski læri það að lokum, held samt ekki.

En Amen segi ég við nennu þinni Magnús að nenna að segja þetta aftur og aftur, við vini og kunningja, ættingja og okkur hin sem ennþá nenna að lesa hið skrifaða orð.

Þessi nenna þín á annað Amen skilið.

Amen.

Kveðja að neðan þar sem það styttir upp, og óstyttir þess á milli.  Kannski eins og lífið, en þar skorti mig orð til að lýsa, er ekki skáld, hvað þá Skáld.  Í dumbungnum leynist samt gróandinn.

Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 20:12

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er skáldana að koma miklu til skila í fáum orðum og þau endurtaka sig einungis með enn færri orðum, -þannig verður málið er kristal tært.

Svona er ekki okkar gáfa Ómar, þess vegna segjum við sömu söguna oft í mörgum orðum og endurtökum hana með enn fleiri orðum í mörgu köflum. Dropinn holar steininn ef ég man þig rétt.

Við gömlu jálkarnir megum ekki gefast upp, barnanna vegna, því eins og Ingólfur segir þessu er hægt að breyta. Verst er að fólki fækkar.

Með bestu kveðju úr dumbungs næðingnum í efra.

Magnús Sigurðsson, 26.7.2024 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband