28.7.2024 | 05:00
Handbremsubeygja
Þau okkar sem eru orðnir eldri en tvævetra þekkja fleira en blæðandi þjóðveg. Muna jafnvel þegar vegrykið elti bílinn hringinn í kringum landið og lausamöl spýttist í alla áttir. Þá þurfti að halda fullri athygli á stýrinu svo ekki færi illa á blindhæðum eða skrænsað yrði í beygjum og dekk hvellspryngju í holum. Oft hélt pústurrörið bílstjóranum vel vakandi, vegna þess að það var annaðhvort á leiðinni undan bílnum eða farið út í móa með hjólkoppunum.
Það getur verið dýrt nú eins og þá að vera fátækur, en þá voru verkstæði við þjóðveginn og jafnvel hægt að fá gert við dekk til sveita án virðisaukaskatts. Mér varð það á að spara sumardekkjakaup í vor, ímyndaði mér að ég kæmist upp með að keyra á gömlu túttunum um blæðandi þjóðveginn þetta sumarið. Um síðustu helgi fórum við Matthildur mín í Sólhólinn úti við ysta haf. Hún átti afmæli á sunnudeginum, var ég í baxi með að finna afmælisgjöf við hæfi og ekki búin að koma neitt til hugar á laugardagskvöldi.
Afmælisgjafirnar, sem ég hef gefið henni Matthildi minni í gegnum tíðina, hafa s.s. aldrei verið merkilegar en einhvern veginn hefur samt alltaf ræst úr, oft með því einu að fara gamla malarslóða og rifja upp með henni gamla daga t.d með því að feta slóðina yfir Lónsheiði á gamla Grand, eða fara gömlu fjallgarða leiðina í Möðrudal með viðkomu í Sænautaseli og bjóða upp á lummu-kaffi. Stafafellsfjöll í Lóni redduðu málinu eitt árið eða bara um fjölskylduslóðann á Öxi.
Eftir óvenju góðan nætursvefn aðfaranótt sunnudags var ég búin að steingleyma hvaða dagur var en spurði Matthildi mína hvort það væri ekki örugglega sunnudagur, -jú það passaði. Eigum við þá ekki að fara á Djúpavog í dag og kíkja barnabörnin stakk ég upp á. Jú það fannst henni alveg ljómandi. Á Djúpavogi var tekið á móti henni með fagnaðarlátum, faðmlögum og árnaðaróskum. Varð ég þá ekki lítið skrýtinn og skömmustulegur. Ákvað að láta mig hverfa, -þó ekki niður úr gólfinu, -fór þess í stað niður á bryggju og þvoði bílinn.
Við þvottinn sá ég að steinn stóð í dekki vandlega límdur í tjöru. Ég tók steininn úr og sparkaði svo í öll dekkin að gömlum og góðum sið, og fann þá að misjafnt var í þeim loftið. Eftir að hafa pumpað í dekkin keyrði ég hugsandi lengri leiðina til baka og velti fyrir mér hvernig væri best að redda restinni af afmælisdeginum þetta árið. Þá heyrðist ógurlegt hviss og síðan kom hökt, svo ég varð að stoppa til skipta um dekk.
Þegar ég tók dekkið undan sá ég að það var orðið svo næfurþunnt að steinn hafði stungist í gegn. Skoðaði þá hitt framdekkið og þar var sama sagan. Þannig að nú fór málið fyrst að vandast. Við vega- og dekkjalaus á Djúpavogi á sunnudegi, -þar að auki á afmælissunnudegi. Ég byrjaði að hringja eins og vitfirringur en fékk auðvitað ekkert svar, fyrr en ég hringdi í vin sem ég vissi að átti dekk uppi á Egilsstöðum.
Síðan fengum við lánaðan bíl og brunuðum með felgur með sprungnum og ósprungnum dekkjum yfir Öxi í Egilsstaði. Korter yfir átta á mánudagsmorguninn voru komin heilleg dekk á felgurnar svo við brunuðum aftur yfir Öxi. En auðvitað var þessi rúntur frekar léleg afmælisgjöf.
Vegna þess hversu úttaugaður ég var orðin fórum við og hvíldum okkur á Sólhólnum en ég hafði mig samt í að bjóða Matthildi minni upp á fisk og franskar í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík í tilefni dagsins áður kvöldið eftir.
Haukstjörn, kúrekakletturinn gægist upp fyrir hæðina
Það var ekki fyrr en þann þriðja í afmæli að við loksins komumst í að halda upp á daginn þar áður. Við höfðum ákveðið að skoða Haukstjörn en hún er sunnan við Þvottá upp á hjalla við þjóðveginn. Þangað hafði ég aldrei komið og eins hélt Matthildur. Þegar við komum þangað fór heldur betur að rofa til, Matthildur mín mundi skyndilega eftir 42 ára gömlum göngutúr á bökkum Haukstjarnar um bjarta júlí nótt.
Til að rifja atburðinn betur upp fórum við niður fyrir Kúrekaklettinn sem er við norðaustur bakka Haukstjarnar og vorum þá komin á mosavaxinn gamla þjóðveginn sem bugðaðist í beygjum yfir hæðir og kringum hrauka fram hjá kletti sem aldrei hefur verið kallaður annað en kúrekakletturinn í okkar eyru, en heitir víst Blábjargastapi.
Um þetta ævintýra land lá fyrst þjóðvegurinn suður í Þvottár- og Hvalnesskriður, eftir að þjóðvegurinn um Lónsheiði var lagður af. Líklega hefur afbýlið Kambar frá Þvottá staðið nær ströndinni skammt frá þessum klettarana. Afbýli sem hét Fauskasel var í dalverpi við Mælifell, sunnar og nær Þottárskriðum
Það var Síðu-Hallur, sem var frægastur fyrir að hafa búið á Þvottá, jörðin var í landnámi Þorsteins trumbubeins og hét þá Á. Þegar Þangbrandur prestur kom til Íslands til að kristna landsmenn þá kom hann fyrst að Á og skírði Síðu-Hall og hans fólk í ánni við bæinn, eftir það hefur áin og jörðin heitið Þvottá og var syðsti bær í hinu forna Múlaþingi, og syðsti bær Suður-Múlasýslu, og er nú syðsta byggða ból í sveitarfélaginu Múlaþingi.
Styrmishöfn, skammt austan við höfnina er klettastapi sem kallaður er biskupshöfði. Þar á Guðmundur biskup góði að hafa komið úr hafi og stigið á land til að spyrjast fyrir hvar hann væri staddur auk þess að taka vatn. Síðast var róið frá Styrmishöfn 1949 á sexæringi Guðmundar Eyjólfssonar frá Þvottá og fengust 130 fiskar
Við þræddum síðan slóðina frá Kúrekaklettinum sunnan við Þvottá austur í Styrmishöfn, útróðrarhöfn Álftfirðinga í gegnu aldirnar. Nafn hafnarinnar er frá því á söguöld og er kennt við Styrmi sem bjó í Fauskaseli sunnan við Þvottá nær Þvottárskriðum. Við lendingu í höfninni fórst Styrmir og fékk hún nafn af honum. Aðeins er vitað um eitt annað slys þar, sem varð um 1700, en þá fórst Ófeigur, báðir bjuggu þeir Ófeigur og Styrmir í Fauskaseli. Við höfðum áður komið í Styrmishöfn á rauðri Lada Sport fyrir rúmum 30 árum með Jóni faðir Matthildar en hann var sjómaður og áhugasamur um að sjá þessa höfn.
Þau eru mörg blábjörgin í fjörum Þvottár. Mælifell í fjarlægð með sínum Þvottárskriðum. Þegar fjarar er hægt að komast undir sjávarmál og ganga um ævintýraveröld, en það er eins gott að vera búin á ákveða hvar á að komast á þurrt áður en flæðir aftur
Síðan þræddum við gamla þjóðveginn suður í Stapavík, sem er undir þvottárskriðum, og litum á leiðinni niður í litríkar fjörur. Það var einmitt þar sem göngutúrinn hennar Matthildar minnar hófst fyrir 42 árum. Þær höfðu farið á ball fjórar Djúpavogsdætur til Hornafjarðar á fólksvagni. Brunuðu meira en hundrað kílómetra eftir malarslóðanum með rykmökkinn í eftirdragi og grjóthríðina allt í kringum rauða bjölluna.
Stapavík; þar sem farið er upp í Þvottárskriður að austan. Þar hefur Vegagerðin gert vinsælan áningastað fyrir ferðamanna. Ströndin liggur til suðurs undir Þvottárskriðum í Mælifelli, sunnar eru Hvalnesskriður í Krossanesfjalli. Um Krossanessið sem gengur í sjó fram undir Hvalnesskriðum liggja landamerki Þvottár og Hvalness í Lóni
Seinni hluta nætur í bakaleiðinni, þegar þær komu niður úr Þvottárskriðunum, varaði Matthildur þá sem keyrði við því að beygja væri á veginum framundan. Það þyrfti að hægja á bílnum í lausamölinni. Það skipti engum togum að bílstjórinn togaði í handbremsuna við það tók bjallan handbremsu beygju þvert á veginum og rúllaði tvær og hálfa veltu áður en hún stoppaði á toppnum á malarpúða utan við veg.
Séð niður í Stapavík þegar komið er úr Þvottárskriðum, greina má gamla þjóðveginn hlykkjast um hrauka fyrir ofan klettótta ströndina í áttina að Þvottá sem er um 5 km norðar í Álftafirði
Þegar um fór að hægast lá Matthildur neðst á toppnum með vinkonu ofan á sér og hélt að þær væru allar dánar í bílnum. En svo hreyfðist einn fótur í kösinni og hún sá að þetta var hennar fótur. Þær komust svo tvær út úr flakinu og gátu dregið hinar tvær út, þar sem þær skildu við þær liggjandi púðanum og hófu síðan þrautargönguna í Þvottá.
Matthildur að líta eftir glerbrotum þar sem rauð Volgswagen bjalla lá á toppnum fyrir 42 árum síðan. Nú er búið að setja bundið slitlag í handbremsubeygjuna sjálfa enda er þessi hluti gamla þjóðvegarins notaður sem aðkeyrsla að áningastað Vegagerðarinnar við Stapavík
Matthildur hafði aldrei alveg vitað hvaða leið þær gengu því þær styttu sér leið með því að fara ekki allan þjóðveginn. En núna 42 árum seinna komst hún að því að þær hefðu farið upp á hæðina við Haukstjörn og síðan niður að Þvottá, þar sem þær gerðu rúmrusk.
Þegar var búið að flytja þær Djúpavogsdætur á Djúpavog kom í ljós að meiðsli voru til allrar guðs lukku með minnsta móti, miðað við aðstæður. Ein hafði þó fengið hnykk á hálsinn og þurfti að hafa kraga um tíma, í Matthildi þurfti að sauma nokkur spor.
Þær vinkonurnar tvær, sem gengu í Þvottá, fóru síðan á sjó um hádegi eftir næturgöngutúrinn og saumaskap morgunsins. Þær voru munstraðar sem kokkar á Krossanesinu frá Djúpavogi sem landaði afla sínum í hinum ýmsu höfnu austanlands þetta sumar, allt frá Borgarfirði-eystra til Hafnar í Hornafirði.
Já svona var nú glíman við handbremsubeygjurnar á þjóðveginum í denn, -þegar amma var ung.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:55 | Facebook
Athugasemdir
Takk.
Fyrir að deila reynslu, sögu, myndum og minningum.
Allt í eina og sama pistlinum.
Ætla að sleppa að tjá mig um þessa bévítuðu aulaprik sem hafa breytt þjóðvegum landsbyggðarinnar í hálf til alófæra tjörudrullu, þau verða örugglega látin þrífa tjörubíla í einhver árhundruð þegar þar að kemur, deili hins vegar áhyggjum af slitnum dekkjum síðasta sumarið sem þau eru í notkun.
Síðasta fjölskylduferðin áður en drengirnir verða tvítugir og halda báðir endanlega að heiman, verður farin núna á eftir í Stóru Tunguna innst í Bárðadal sunnan meginn. Haldið á slóðir upprunans svo drengirnir geirnegli í minni og deili áfram til sinna þegar þar að kemur. Vona aðeins að vegagerðin hafi heflað nýlega annars verður þetta skemmtileg upprifjun af vegum fortíðar. Og að dekkin haldi.
Landið er fagurt og frítt, alveg eins og svona pistlar.
Enn og aftur, takk fyrir mig.
Kveðja úr blíðunni í neðra.
Ómar Geirsson, 28.7.2024 kl. 07:47
Þakka þér fyrir Ómar, -góð orð og athugasemdina.
Mér lýst vel á fyrirhugaða ferð í Bárðardalinn, en vonandi verður hún ekki síðasta fjölskylduferðin með drengina, og drengirnir eigi eftir að eiga leið heim með sínar fjölskyldur. Þá fara nú fyrst ferðirnar út í náttúru landsins eð blómstra fyrir okkur gömlu jálkana.
Það hefur lengi staðið til hjá mér að fara í Bárðardalinn upp að Svartárkoti og niður með Skjálfandafljóti að ósi í Skjálfandaflóanum. En sennilega á ég það ekki eftir, -allavega ekki þetta sumarið.
Ég segi oft við börnin mín að þau skulu skoða landið á meðan færi gefst, það sé svo fljótt að verða of seint. Eins og t.d. Hornstrandir og þar sem þarf að nota fætur og gista við svala.
Góða ferð í upprunann, ég er nokkuð viss um að drengirnir eiga eftir að búa vel að þessari ferð þó svo að farið verði út af blæðandi tjörunni yfir á holótta mölina.
Með kveðju úr blíðum blæ í efra.
Magnús Sigurðsson, 28.7.2024 kl. 08:35
Verð að segja að þessi setning er algjör snilld, fær 4,75 af fimm mögulegum
"Oft hélt pústurrörið bílstjóranum vel vakandi, vegna þess að það var annað hvort á leiðinni undan bílnum eða farið útí móa með hjólkoppunum"
Bjarni (IP-tala skráð) 28.7.2024 kl. 23:44
Sæll Bjarni, -þessi setning er lýsir inn í tíðarandann þá á dögum, þegar hlaupa fór strax á snærið hjá hjólkoppasöfnurum rétt fyrir ofan Reykjavík, ekki svo ýkja langt síðan.
Ég hefði líka getað reynt að lýsa því hversu mikils virði var að vera vakandi og með athyglina á veginum, með því að segja að ekki hefði þýtt þá að hafa headphone á eyrunum með suðið í síbyljunni og augun á snjallsímanu í kjöltunni.
Það var nú einu sinni svo að allt fram undir 1990 gat maður ekki búist við því að týna ekki hjólkoppum og jafnvel pústkerfinu undan bílnum á leiðinni frá Reykjavík austur á land.
Einn kunningi minn í Reykjavík sagðist ekki hafa treyst sér lengra en á Kirkjubæjarklaustur þegar hann hugðist hringinn og þess vegna heimsótti hann mig aldrei á Djúpavog.
Þrátt fyrir að ég segði honum að hann hefði þegar upplifað það versta við þjóðveginn á Klaustri og hann versnaði ekki svo neinu næmi það sem eftir væri alla leið til Akureyrar.
Annars lýsti Brimkló þessari grýttu braut ágætlega á sínum tíma.
https://www.youtube.com/watch?v=9wuXNGEeMNo
Magnús Sigurðsson, 29.7.2024 kl. 06:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.