Dáðadrengir

Skínandi sólstafir

féllu himninum frá

Sortaský huldu

heiðhvolfin blá

  

Á grænum grundum

dansaði sólargeisli sá

líkt og skafrenningur

köldum vetrardegi á

 

Þessi þungi þanki

svalan júní morgunn

Þessi kólgu bakki

napran ágúst dag

 

þessi miskunnarlausu örlög

með feigðar fréttum

nístu hjarta ræturnar

 

Þú svo ungur fallinn frá

ert nú kornungum

syni þínum hjá


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Þökk fyrir ljóðið, Magnús.

Það hreyfði við mér á þann veg að mér kom í hug ljóð dáðadrengsins Vilhjálms Vilhjálmssonar, SÖKNUÐUR:

Eitt sinn verða allir menn að deyja

Eftir bjartan daginn kemur nótt

Ég harma það, en samt ég verð að segja

Að sumarið líður alltof fljótt

Horfið er nú sumarið og sólin

Í sálu minni hefur gríma völd

Í æsku léttur ís og myrku jólin

Nú einn ég sit um vetrarkvöld

Guðmundur Örn Ragnarsson, 29.8.2024 kl. 20:25

2 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Magnús.

Þakka kvæði þetta sem minnir að hluta til á Sonatorrek Egils er hann orti um þá Gunnar og Böðvar, sonu sína, er drukknuðu í  ofviðri á sinni tíð og á sér minni í einu af stjörnumerkjunum 48 sem skreyta festinguna, Bikarinn,en Jóhann Sigurjónsson dregur upp samnefnt ljóð sitt þar sem myrkri er blandað öðru verra, en að baki latneska orðinu Crater sem merkir einmitt Bikar er vatnaskrimsli nokkurt.

Öllum er ætlaður bikarinn til botns að drekka og fáir guðunum svo ávarðir að mönnum sé hlíft við að lifa myrkri jarðar eða undirdjúpanna en sú er merking orðasambandsins Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.

Guðni Björgólfsson, 30.8.2024 kl. 03:45

3 identicon

Vel er hér ort.  Þakkir Magnús.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 30.8.2024 kl. 10:26

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég þakka höfðinglegar athugasemdir, Guðmundur Örn, Guðni og Símon Pétur.

Í gær fór ég á eina af þessum al-erfiðustu útförum, -til að kveðja ljúfling sem ég átti að vini. Ungur fjölskyldumaður í blóma lífsins burt kallaður frá konu og sonum, -fjölskylda sem hafði upplifað mikinn harm í upphafi sumars þegar yngsti sonurinn veiktist skyndilega og lést. Kveðjustundin í gær var einstaklega sár, -en falleg.

Líkingin Guðmundar Arnar við Vilhjálm Vilhjálmsson á kannski best við að því leiti að báðir voru burtkallaðir frá sínum nánustu á 33 aldursári, -af miskunnarlausum örlögum, -líking Guðna þá á þann hátt að það eina sem getur skýrt svo mikið miskunnarleysi er að þeir deyja ungir sem guðirnir elska.

Magnús Sigurðsson, 30.8.2024 kl. 13:26

5 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Fyrir 15 árum varð yngsti sonur minn bráðkvaddur. En þegar það gerðist var hann að spila geisladisk Vilhjálms Vilhjálmssonar, Söknuður:

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

Og heldur ósjálfbjarga, því er ver

Ef værir þú hjá mér, vildi' ég glaður

Verða betri en ég er

Við gætum sungið, gengið um

Gleymt okkur hjá blómunum

Er rökkvar, ráðið stjörnumál

Gengið saman hönd í hönd

Hæglát farið niðr'á strönd

Fundið stað, sameinað, beggja sál

Guðmundur Örn Ragnarsson, 30.8.2024 kl. 15:48

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eg votta þér samúð mína Guðmundur Örn.

Söknuður Vilhjálms Vilhjálmssonar er máttugt ljóð sem lýsir á einstakan hátt tilfinningunni þegar sorgin kveður dyra.

Enn og aftur; mér finnst þið höfðinglegir í athugasemdum, -og ekki síst þegar þegar þessi ljóð eru tiltekin í athugasemdum við fátækleg orð mín.

Magnús Sigurðsson, 30.8.2024 kl. 18:36

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Vel ort en þar sem ég þekki tilefnið þá skynja ég orð þín í hverri taug.

Og ég er greinilega ekki einn um það.

Kveðja úr blíðviðrinu í neðra.

Ómar Geirsson, 30.8.2024 kl. 19:47

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Ómar, -með kveðju í blíðuna í neðra úr blámóðunni í efra.

Magnús Sigurðsson, 30.8.2024 kl. 21:15

9 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Þökk fyrir samúðarkveðju þína til mín Magnús. Hún er mikils virði.

En með þessu ljóði þínu, hefur þú gengið djúpt inn í samfélag þjáningar og sorgar vinafólks þins. En sú ganga heldur áfram og sársaukinn er ekki á förum, hvorki frá fjölskyldunni né þér. Sýileg samúð þín mildar. Haltu áfram á þeirri vegferð.

Trúðu því að Guð er algóður og miskunnsamur. Hann elskar okkur og vill ekki að nokkur maður deyi. Við höfum sjálf mennirnir kallað yfir okkur dauðann.

Syndin er broddur dauðans. En Guð er mitt á meðal okkar og mun sigra þann dauða sem okkur er búinn af Djöflinum.

Guð sendi Jesú Krist til að taka á sig syndir okkar með dauða sínum á krossinum og veita hverjum þeim eilíft líf sem við hjálpræðinu vill taka í trú. Þessi trú huggar er er smyrsl á sárin.

Séra Hallgrímur var ekki é vafa:

Ég veit minn ljúfur lifir

lausnarinn himnum á,

hann ræður öllu yfir,

einn heitir Jesús sá.

Sigrarinn dauðans sanni

sjálfur á krossi dó

og mér svo aumum manni

eilíft líf víst til bjó.

Með sínum dauða hann deyddi

dauðann og sigur vann,

magt hans og afli eyddi,

ekkert mig skaða kann.

Þó leggist lík í jörðu

lifir mín sála frí,

hún mætir aldrei hörðu

himneskri sælu í.

Ég lifi í Jesú nafni,

í Jesú nafni eg dey,

þó heilsa og líf mér hafni

hræðist eg dauðann ei.

Dauði, eg óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristí krafti eg segi:

kom þú sæll þá þú vilt.

Amen

Guðmundur Örn Ragnarsson, 30.8.2024 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband