Sérstök sólarupprás

Kirkjubær

Hér á síðunni hefur áður verið sagt frá dularfullu sólarupprásinni hans séra Sigurjóns undir Dyrfjöllum. Af því að nú eru haustjafndægur er allt í lagi að minna á hana aftur. En í vikunni var 19. september og þá kemur sólin upp í dyrum Dyrfjalla séð frá í Kirkjubæ í Hróarstungu. Um þetta sjónarspil á séra Sigurjón að hafa haft þessi orð í stólræðu árið 1951 á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju.

“Undir Dyrfjöllum. Ég hef dvalið í 36 ár. Dyrfjöll eru meðal fegurstu fjalla á Íslandi. Þau eru með höfuð helgidóma íslensks hálendis. Sólin kemur upp í skarðinu, ár hvert, þann 25. marz kl 7 að morgni á rás sinni til hækkandi dags. Hún birtist einnig í skarðinu 9. september á för sinni á skammdegisskeið. Vart getur fegurri sjónar en þeirrar, er hún birtist í skarðinu og varpar ljóma yfir svipmikið hérað.”

Ég hafði á orði 18. september s.l., þegar við Matthildur mín vorum heimsókn hjá syni okkar og tengdadóttur til að hjala við litla ömmugullið hana Matthildi Helgu, að á morgum kæmi sólin upp í dyrum Dyrfjalla. Þá skipti engum togum að ákveðið var af unga fólkinu að þetta must see moment yrði að bera augum. Morgunninn eftir var brunað út í Kirkjubæ til að sjá sólarupprásina.

Tvisvar á ári má sjá sólina kom upp í dyrum Dyrfjalla, frá sáluhliðinu við Kirkjubæ. Þetta er nokkrum dögum fyrir haustjafndægur og nokkrum dögum eftir vorjafndægur. Tvisvar hef ég orðið vitni af þessu magnaða sjónarspili.

Það tekur sólina rúma mínútu að fara fyrir dyrnar og læt ég hér að neðan fylgja nokkrar myndir af þessu sjónarspili. Ekki er sjálfgefið að sjá þessa sjón, hvað þá á dagsetningunni sem tilgreind er til skammdegisskeiðs í ræðu séra Sigurjóns, en um það má lesa hér.

 

1

Skömmu fyrir sólarupprás logar allt að baki Dyrfjalla

 

2

sólin gægist upp í norðaustur horni dyranna

 

3

komin vel á veg

 

4

á miðri leið fyrir dyrnar

 

5

Vart getur fegurri sjónar en þegar sólin í skarðinu varpa geislum sínu yfir Hérað

 

6

Eftir að sólin hefur risið er einna líkast því að hún hafi farið í gegnum dyr fjallanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Guðs blessun.

Guðjón E. Hreinberg, 22.9.2024 kl. 14:31

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Must see --> Sjónarspil.

cool

Guðjón E. Hreinberg, 22.9.2024 kl. 14:32

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já Guðjón, -það er mikil Guðs blessun að fá að upplifa eilífðina svona í eitt augnablikHvað þá að fá að sjá svona must see sjónarspil tvisvar. 

Magnús Sigurðsson, 22.9.2024 kl. 14:45

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Maður fellur alveg í stafi þvílíkt sjónarspil.........

Jóhann Elíasson, 22.9.2024 kl. 15:15

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

 Það er ljúft að lesa þessa pistla sem eru lausir við dægurþrasið. 

 

Stonehenge kemur upp í hugann. Enn veldur það vísindamönnum ama að þeir skilja það ekki og þar hefur verið til grundvallar menning sem þeim er hulin. Þó er talið að stjörnuathugun, sólardýrkun og trúarbrögð hafi verið stunduð þar, og eins og það hafi verið byggt til þess. Reynt er að telja fólki trú um að einhver forn þrælatækni hafi verið til, og fólk látið bera þessi risagrýti með einhverjum aðferðum eins og að margir togi og björgin látin velta á smásteinum. Ekki hefur verið útskýrt hvernig risabjörgin voru flutt frá námum fjarri, jafnvel á skipum, fyrir 5000 árum og vel það!

Sagt er á netinu að byggingartíminn hafi verið 1500 ár að lágmarki og kannski allt að 6500 ár!

Risabjörgin vega að meðaltali um 65 tonn og eru fjölmörg, þau smæstu um 5 tonn!

Ein rétttrúnaðarlína er í vísindum og söguskoðun. Hún er á þá leið að afneita kenningum um forna, heiðna hámenningu, sem kannski var merkilegri en okkar menning, afneita kenningum um geimverur eða guði og gyðjur, afneita öllu nema efnishyggjukenningum - sem ganga þó bara alls ekki upp.

Blindir og heyrnarlausir fullyrða þessir vísindamenn eitthvað og reyna að útskýra þótt þær útskýringar séu miklar samsæriskenningar.

Þeir vita þó að björgin komu úr steinnámum sem sumar voru fjarri. Nýleg rannsókn sýndi fram á að altarissteinninn kom frá skozkri steinnámu meira en 450 mílur í burtu, og ráðgáta er hvernig hann komst þangað.

Samkvæmt kenningum þeirra voru þeir sem byggðu Stonehenge frumstæðir jurtasafnarar, og það stenzt nú bara alls ekki, því þeirra menning er yfirleitt ekki talin vera hámenning heldur einhverskonar lágmenning.

Bækur Einars Pálssonar um íslenzka menningu eru stórmerkilegar. Þar skrifar hann um það að landnámsmennirnir hafi ekki verið frumstæðir villimenn, heldur fræðimenn á ýmsum sviðum, stærðfræðingar, stjörnufræðingar, heimsspekingar, landfræðingar og margt fleira. Erfitt að hrekja það.

En það finnst mér ljóst að ekki voru allir heiðingjar sem reistu sín musteri úr steinum einsog á Bretlandi.

Dyrfjöll gætu vel hafa þjónað svipuðum tilgangi og Stonehenge á Bretlandi. Við vitum það ekki, en vitað er þó að heiðnir menn notuðu það sem til var í náttúrunni þannig, og völdu sér sína helgistaði út frá útreikningum annarsvegar og svo tímamælingum líka.

Það er líka merkileg staðreynd að kirkjur voru upphaflega byggðar þar sem voru heiðnir hörgar og hof, útum alla Evrópu og á Íslandi væntanlega líka.

Ýmsar bækur á ensku fjalla um þetta. Þar er því lýst hvernig kirkjan varðveitti í raun hinn heiðna arf í klaustrunum og með því að yfirtaka það sem var heiðið, og fela það undir kristilegum hugtökum og táknum, eða umbreytingu á siðum.

Jafnvel dýrðlingarnir voru eftiröpun á guðum og gyðjum.

Þetta er mjög heillandi lesning. Því miður vitum við nútímamenn ekkert í smáatriðum. Við bara gizkum á þetta.

 Mjög seiðandi og fallegar myndir, einstakt, takk fyrir, dásamlegt.

Ingólfur Sigurðsson, 22.9.2024 kl. 16:52

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er satt Jóhann, -gott ef ekki dyrastafi. Annars er sjón sögu ríkari og engar ljósmyndir sem ná að fanga sjónarspilið í Dyrfjöllum þessa stund.

Já þetta var seiðandi sjón Ingólfur, -og algerlega tímalaus þó svo að hún sé á mínútunni kl. 7 að morgni tvisvar á ári, og vari bara u.þ.b. mínútu í senn.

Maður kemst í snertingu við eilífðina ef maður nýtur þeirrar blessunar almættisins að sjá svona sólarupprás.

Magnús Sigurðsson, 22.9.2024 kl. 19:00

7 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Magnús! Þökk fyrir að opinbera fyrir okkur í myndum og máli, dýrð Guðs og kærleika, sem er sannarlega að finna sköpunarverki Hans.

Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. (Jóh. 8:12).

Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga. (Jóh. 10:9).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 23.9.2024 kl. 11:54

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Verði þér að góðu Guðmundur Örn, -það má þakka séra Sigurjóni fyrir að hafa lýst þessari sólarupprás almættisins í Dyrfjöllum á svo áhrifamikinn hátt að enn er tekið eftir meir en 70 árum senna,  þó svo að prentvillupúki hafi læðst í prédikunina hvað  dagsetninguna varðar á skammdegisskeið, þá gerir tímasetningin það nú mögulegt að ganga að þessu sjónarspili í heiðskýru.

Magnús Sigurðsson, 23.9.2024 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband