28.9.2024 | 05:14
Eftirlits-þjóðfélagið og torkennileg skítseyði
Nú er migið á báða lófa og fiskað í gruggugum ólgusjó. Verkalýðsforustan og stjórnmálamenn, auk alls málsmetandi fólks ofbýður mansalsiðnaðurinn og þjóðinni er jafnvel nóg boðið.
En er það nú alveg svo? -vill einhver viðurkenna að þetta sé samfélagslegs eðlis? -þjóðinni sé nákvæmlega sama á meðan hún á fyrir okurvöxtunum, fær greiningar um kulnun á kaupi og fer í sína Tene túra?
Það virðist hið besta mál að flutt sé inn erlent vinnuafl á mansalslaunum svo lengi sem einhver hirðir ekki alveg allan mismuninn, alla vega ekki það sem á að fara í eftirlitið. Enda gengur þetta þjóðfélag víst ekki upp öðruvísi í praxís, -ekki frekar en Sameinuðu Arabísku furstadæmin.
Samfélag sem er hætt að nenna að þrifa skítinn eftir sjálft sig og það heima hjá sér, -fær til þess erlent vinnuafl. Þjóðfélag sem telur sig upptekið við allt annað og uppbyggilegra, -ef ekki reglugerða eftirlit, þá á Tene eða í hvíldar kulnun.
Já ég er gnafinn og gneiptur þessa dagana. Í vikunni sá ég af ungum vinnufélaga til Noregs. Gullmoli sem kom 17 ára til að verða steypukall eins og afi sinn, mér var falin umsjáin af vinnuveitandanum. Við vorum búnir að vera vinnufélagar í fimm ár.
Svo verð ég að segja það alveg eins og er að ég stalst til að horfa á marg-mærðan mansalsþátt Kveiks í tölvunni, -eftir allt umtalið. En á fréttir í sjónvarpi hef ég ekki haft geð í mér til að horfa á í ártugi, nánast ekki síðan þjóðarsáttin kvað uppmælingaaðalinn í kútinn.
Já það er ánægt slektið yfir verðbólgnum virðisaukanum af flækingunum, sem skilar sér alla leið í ríkissjóð, þó svo að það kunni að hneykslast á réttum stöðum, -og tala um að lausnin sé meiri peninga í vel launað eftirlitið.
Vinnufélagarnir eru á því að gullmolinn skili sér heim aftur þegar fram líða stundir, -reynslunni ríkari. Ég var búin að segja yfirmönnum að ungir menn væru mestu verðmæti fyrirtækis. En allt kom fyrir ekki, þeir sögðu kærustuna ráða för.
Ég þekki Norðmenn af því að kunna betur að meta steypukalla en kulnandi þjóðin á klakanum, og er því ekkert sérstaklega bjartsýnni á að afburða steypukall snúi heim frekar en þúsundir iðnaðarmanna sem yfirgáfu landið bláa í hinu svo kallaða hruni.
Nú verð ég gamli steypukallinn að treysta á Rúmenana, en þeim langar til að eiga heima heima hjá sér án þess að hafa efni á því frekar en steypukallar og skúringakonur almennt.
Já ég kvaddi ungan vinnufélaga minn í vikunni, daginn sem hann tók bátinn, og sagði honum að hann yrði ekki í vandræðum með að fá að vinna við steypu í Noregi.
Þar þyrfti hann ekki annað en sýna sig. Ég gæti svo sagt honum það að skilanaði, -af fenginni fimm ára reynslu, að hann væri með þeim albestu vinnufélögum sem ég hefði unnið með í steypunni.
Meginflokkur: Hús og híbýli | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt 14.10.2024 kl. 17:34 | Facebook
Athugasemdir
Þar með gat hrósið ekki orðið dýrara, sbr dýrt ort.
Man frá mínum ungdómsárum að þegar menn hoknir af reynslu og þekkingu splæstu á mann hrósi, þá lengist maður um nokkra millimetra því bakið varð miklu sperrtara á eftir.
Já Magnús, það er illa komið fyrir þjóð sem lítur niður á þá sem vinna verkin og þrífa skítin.
Nákvæmlega eins og Kveikur afhjúpaði en allir vissu, sérstaklega þeir sem fengu greitt fyrir reglugerðir og eftirlit.
Og gráta núna krókódílatárum. Svei attan.
En það er sól hérna niðri, þakka ber fyrir góðviðrið og hafa kuldaúlpuna tilbúna til að mæta hinum.
Kveðjur í efra.
Ómar Geirsson, 28.9.2024 kl. 10:37
Sjálfir getum við ekki þvegið af okkur þann skít sem við erum útataðir í og kallast synd. Hún mun draga okkur til dauða ef hreinsun fer ekki fram.
Það er einn Gyðingur sem lítillæti sig þegar hann tók að sér hreinsunarverkið. Hann heitir Jesús Kristur. Hann gaf sjálfan sig í dauðann vegna hreinsunarinnar.
Fyrst Hann bauð sig fram hef ég ákveðið að þiggja að Hann vinni að hreinsun minni, enda get ég ekki unnið verkið sjálfur. Hvers vegna gerið þið það ekki líka?
En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar Guðs, hreinsar oss af allri synd. (1. Jóh. 1:7).
Guðmundur Örn Ragnarsson, 28.9.2024 kl. 11:37
Blessaður Ómar, -snarpir pistlarnir þínir þessa dagana.
Það ber að gera vel við unga fólkið, það er framtíðin eins og fáir vita betur en jálkar á okkar aldri.
Því miður hefur það verið landlægt á Íslandi að hafa unga fólkið að féþúfu svo langt sem augað eygir.
Vistarbandið, fardagar á bújörðum, niðursetningar og nú verðtryggðir okurvextir, -svo eitthvað sé nefnt.
Enda lætur ungt fólk með verksvit og viljugar hendur sig hverfa af landinu bláa, -nú sem fyrr.
þakka góða kveðjuna úr sólinni í neðra, -en nú hefur dregið upp bliku hér í efra.
Magnús Sigurðsson, 28.9.2024 kl. 12:50
Blessaður Guðmundur Örn, -já hvers vegna gerum við það ekki líka?
Ég hef oftar en einu sinni hugleitt það hvort maður eins og ég sé eitthvað hreinni og beinni en slektið.
Mín starfsævi væri líklega kulnuð ef ekki kæmu til hendur að utan, og ef ég gæfi mig ekki að þeim höndum væri iðnaðurinn í meiri vanda með að sýnast gildandi.
Já ég geri mér vel grein fyrir að ég er partur af því samfélagi sem getur ekki þvegið af sér skítinn.
Og segi því rétt eins og einn góður hér á blogginu, að það er ekki um annað að gera en nota lyklana fjóra; -bæn, iðrun, vitnisburð og fyrirgefningu.
Takk fyrir textann úr testamentinu.
Magnús Sigurðsson, 28.9.2024 kl. 13:03
Einmitt og akkúrat.
Ég lærði fyrir löngu síðan að lesa ekki ungu fólki til, heldur hlusta á það og taka við skoðunum þess og viðhorfum. Maður komst þá að því hvað þau hugsuðu og hvernig þau unnu úr, og fékk frekar leyfi til að gefa þeim eitthvað uppbyggilegt viðsvar (feedback).
Þegar þau fá tækifæri til að rækta sinn eigin góða úlf, afskiptalaust en með styrkingu þegar þeim tekst vel upp, þá kulnar vondi úlfurinn, og maður sér framtíðina gægjast fram sem þau munu skapa.
Lærði þetta reyndar í hundaþjálfuninni, og fattaði þá betur -elítuna- sem ég hef svo gaman af að míga utaní.
Guðjón E. Hreinberg, 28.9.2024 kl. 14:04
Blessaður Guðjón, -einmitt og akkúrat.
Það er ánægjulegt að fá að vinna með ungu fólki, því hef ég fengið að kynnast í gegnum tíðina.
Það er oft talað um steypuæsing sem er í raun algleymi því steypa er alltaf á leiðinni með að harðna sem óskapnaður nema menn séu samtaka. Það ætti fólk að hafa í huga þegar það gengur um gólf.
Þess vegna er söknuður fyrir samfélagið af þeim sem eru tilbúnir að skíta sig út við gjörningalistina, -rétt eins og af verkfærum skúringakonum. En af hvoru tveggja hefur mansalsiðnaðurinn talið sjálfsagt að hirða mismun.
Já ég trúi að þú hafir fattað ýmislegt um slektið við hundaþjálfun. Því eitt eiga dýrin fram yfir okkur, -skilyrðislausan kærleika.
Magnús Sigurðsson, 28.9.2024 kl. 17:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.