8.10.2024 | 01:22
When I'm Sixty-Four
Móða liggur yfir landi
-dularfullir klettar
-veðurbarðir girðingastaurar
– og slakur gaddavír –
spegla sig í lygnri tjörn
Um bjarta sumarnótt
– yfir húmbláum fjöllum –
bjarmaði eitt sinn
af bleikum morgni
fjarlægrar fægðrar
Móðan stígur nú upp til stjarnanna
lík óræðum anda úr 1001 nótt
-upp í ævintýralega birtuna
við eftirvæntingu
barna-barnanna
Nú, þá og þegar
– ég er sextíu og fjögra –
spyr ég afturábak
-út í andaktina
og inn í haustið
Hvert fer draumurinn
– lífið sem ég þrái –
Athugasemdir
Góðan daginn Magnús.
Römm er sú taug sem kennd er við andann og skáld.
Hvert fer draumurinn, lífið sem ég þrái?
Er svarið í sjálfu sér ekki að finna fyrr í textanum?
En þetta er nú meiri hraglandinn í veðrinu, ef það á að vera kvóti á einhverju þá er það á þessum lægðardrögum sem læðast út frá Norðursjó og Skandinavíu, allavega minna þau á hófsemdina og að hætta ber þegar það er komið nóg.
En sjálfsagt er það gigtin sem stjórnar kveininu.
Góðar kveðjur í efra úr neðra.
Ómar Geirsson, 8.10.2024 kl. 07:14
Sæll Ómar, -og takk fyrir athugasemdina.
Það segir sig sjálft hvernig eilífðar draumurinn gengur fyrir sig, þó svo að það geti tekið stærsta hluta ævinnar að uppgötva. Svo þegar líður á þá hættur maður að verða eins og strekktur gaddavír, enda fæturnir þá orðnir eins og veðurbarðir girðingastaurar og lítils annars en spegla þá í lygnri tjörn. Það verða varla sett met í spretthlaupi úr þessu.
Já veðrið er ekki beint til að mæra það þó svo að ekki séu haustin orðin eins kulsæl og á gullaldarárunum um 1980. Kaldasta sumar á öldinni með borgarísjökum á Húnaflóa og ísbirni á ströndum um há-skaðræðistímann og enginn segir orð um ástandið nema gamall veðurnörd hérna á blogginu.
Mér kæmi ekki á óvart að gamli Páll Bergþórsson hafi haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um 30-35 ára hringina og við gætum varið að búast við hafísárum ofan í alla hamfarahlýnunina.
Hverju skildi þá verða kolefnisjafnað í öllu carpfixinu?
Bestu kveðjur úr efra í neðra.
Magnús Sigurðsson, 8.10.2024 kl. 13:07
Mínar bestu hamingjuóskir til þín, meistari Magnús
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 13:08
"When Im sixty-four" þegar ég heyrði þetta fýrst þá var þetta í órafjarlægð, nú er þetta bara handan við hornið.
Bjarni (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 13:08
Takk fyrir hamingjuóskirnar Símon Pétur, -þær vel þegnar á slíkum drottins dýrðar degi.
Já Bjarni,-þessi dagur var ómögulegur þegar maður heyrði lagið fyrst fyrir hátt í 60 árum, en samt svo skrýtið að einhvern veginn finnst mér að maður hafi alltaf skilið textann.
Magnús Sigurðsson, 8.10.2024 kl. 15:33
Blessaður Magnús, héðan úr þó hægu náttmyrkri.
Skítt með hringrásir, gróður þetta og hitt, hvað þá að menn eins og við sem rekjum minningar okkar árla uppúr miðri síðustu öld, kvóta bið ég samt á lægðagang frá vinaþjóðum okkar í suðaustri, þeir geta alveg passað uppá sína rigningu, þurfa ekki að senda hana sem hraglanda til okkar sem þó flúðum þetta rigningarhaustveður í den, eða þannig.
Símon Pétur, í aðeins styttra máli er með þetta.
Virðinguna fyrir skáldtauginni.
Megi samt rigna og élja, slydda eða snjóslydda, minna en meira hjá ykkur í efra.
Í þó stundarblíðunni í neðra.
Með kveðju.
Ómar Geirsson, 8.10.2024 kl. 20:58
Það er nú svona og svona Ómar, -þetta með veðrið.
Mig minnir að það hafi verið sjónvarpað frá stanslausu sólskini á Ólumpíuleikunum í Moskvu 1980 þrátt fyrir einstakt rigningarsumar í Sovét. Þeir skutu víst niður skýin í áður en þau komu til Moskvu með holdvotum afleiðingum fyrir nágrannasveitirnar.
Þessi vísindi eiga Sovétmenn að hafa náð að fíntylla í Mongólíu þegar þeir redduðu þurrkum þar nokkrum sumrum áður með svipuðum aðferðum nema þá skutu þeir niður skýin í of mikilli hæð með þeim afleiðingum að naut Mongólíumanna á steppunum að þau annaðhvort steinrotuðust af risahöglum eða frusu í hel um há sumar.
Það var víst eitthvað svipuð verkfræði sem á að hafa verið viðhöfð í Katar s.l. vor þegar eyðimerkur ríkið yfirflaut í vatni. Það getur verið varasamt að fikta í veðrinu, best að láta almættið um þau kvóta vísindi. En auðvitað er þetta sem upp er talið hér að ofan allt saman falsfréttir og upplýsingaóreyða, medían flytur ekki þannig fréttur frá Langtíburtukistan.
Hér í efra hefur verið sól yfir há daginn dag eftir dag, sú gula þræðir sig hreinlega á milli skýanna. Kannski eru klárir veðurverkfræðingar komnir á einhverjar af óteljandi stofunum hérna án þess að ég viti af því, en ég ætla nú samt að veðja á náð almættisins.
Með sólarkveðjum úr morgunnmyrkrinu í efra.
Magnús Sigurðsson, 9.10.2024 kl. 06:13
Sæll Magnús.
Gaman að lesa athugasemdir ykkar Ómars Geirssonar.
Þar liggur nánast undir Elenor Rigby sem samið er á svipuðum tíma en öllu nærri spurningin góða um hverjum klukkan ymur.
Í tilefni orða Ómars er freistandi að minnast þessara stefja Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta frá 1939:
Römm er sú taug
Mér er sem ég sjái í anda
sigla far á milli landa,
mínir vildarvinir standa
vörinni í og bíða mín,
sólin hátt í heiði skín.
Sá er ekki í villu og vanda
sem veginn ratar heim til sín.
Síðan held ég heim í dalinn
heiða, bjarta fjallasalinn.
Þar sem oss var vagga valin,
vinur kær á feðraleið,
undur lífsins mikla meið.
Þar við fengum föng í malinn
fyrir lífsins þjálfaskeið.
Guðni Björgólfsson, 9.10.2024 kl. 10:14
Þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina Guðni, -og ekki síst fyrir ljóðið hans Kristjáns Eldjárns, ekki er ósennilegt að þar hafi hann haft Svarfvaðadalinn í huga.
Ef ég man rétt þá var Elenor Rygby öllu einmanalegra en When I am sixty-four. Já það má lengi velta fyrir sér veðrinu og þarf engar hamfarir til þess, hvorki í efra né neðra.
Magnús Sigurðsson, 9.10.2024 kl. 13:09
Þú ert skáld Magnús og ég sem hef verið að bögglast við þetta líka kannast við myndlíkingar og annað þarna sem gera þetta að ágætum kveðskap.
Skemmtilegt hvernig þú endar þetta - með tilvitnun í Sálina hans Jóns míns:"Hvar er draumurinn, lífið sem ég þrái?"
Maður þarf ekki að kvarta undan veðrinu. Það er misjafnt eins og alltaf.
Hægt er að sjá grilla í þjóðfélagsgagnrýnina undir niðri.
"af bleikum morgni fjarlægrar frægðar",
þarna sér maður hint um sjálfstæðisdrauma sem margir áttu sér, en ungar kynslóðir telja eitthvað úrelt og óskiljanlegt. Það væri heiðarlegra af Bjarna og Svandísi og Sigurði Inga að viðurkenna að það er búið að losa sig við slíkt og selja auðjöfrum útlendum.
Já þetta ljóð er margslungnara en margir halda.
Og maður sér í náttúrumyndunum ýmislegt fleira. Já, mér finnst sem hæfileikar afa þíns séu vel að koma í ljós.
Gaddavírinn sem speglar sig í lygnu tjörninni getur verið svo margt. Þegar kemur stormur eins og í Bandaríkjunum núna verður sá gaddavír ekki skaðlaus endilega.
En eftirvæntingin barnabarnanna,
gott er að eiga hana þó maður eldist, að halda í bernskuna í sálinni.
Já ég met þetta ljóð eins og það kemur fyrir og finnst sem höfundurinn sé að verða býsna góður. Hin ljóðræna túlkun er til staðar. Reynt var að skóla hana úr mér.
Ingólfur Sigurðsson, 9.10.2024 kl. 15:46
Takk fyrir lofsamlega kríttíkina Ingólfur, -þú náðir þessu vel, -auk endalokanna frá Sálinni hans Jóns míns.
Já, bjarminn af bleikum morgni fjarlægrar frægðar fer bæði fram og aftur tímann. Spannar hinar miklu væntingar hins unga manns. -Byggðar á sjálfstæði glæstrar fortíðar. -Þar til þær þær eru komnar á hina einu og sönnu frægðardaga hins sextíu og fjögurra ára gamla afa.
Og þá glittir í viðlag blessaðra barna-barnanna þegar þau svo verða komin til vits og ára;
Þú ert bara að gabba okkur,
þú varst aldrei sjómaður,
í mesta lagi flugmaður
og hættu svo að ljúga.
Segðu frekar eins og er,
þegar þú varst tekinn ber
og amma greyið kasólétt
heyrði þessa frétt.
Magnús Sigurðsson, 9.10.2024 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.