13.10.2024 | 05:21
Brýrnar breyttu öllu
Með söknuði kvaddi ég Ísland, sem ég fæ aldrei framar að sjá. Ég verð að viðurkenna, að á þessum fáu vikum, sem ég var þar, varð land og þjóð mér innilega kært.
Ísland er algjör andstæða hinna suðrænu landa. En hin dásamlega tign fjallanna og hin þögla náttúrufegurð hlýtur ósjálfrátt að hrífa huga manns.
Aðdáunarverð er sú þjóð, sem hefur barist við slíka örðugleika og sýnt kjark sem Íslendingar. Þeir geima enn helgar minningar fortíðarinnar af slíkri tryggð, að bröltið og bramlið í Evrópu hefur ekki spillt þeim.
Og í baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði hafa fáar þjóðir sýnt jafn mikla þrautseigju og þolgæði. Þjóðmenning þeirra byggist á erfðavenjum og þeir hafa ekki látið glepjast af gyllingu yfirborðsmennsku nútímans.
Og þó nokkrir Íslendingar komist í kynni við hámenninguna, þá býr þeim jafnan heimþrá í brjósti. Og það er eitthvað stórfellt og göfugt við þessa ást til hins fornfræga Sögulands. (Ísl sagnaþættir III bls bls 142)
Þetta skrifaði Alexander Baumgartner í ferðasögu sinni árið 1883, þegar hann fór með strandferðaskipi norður um land til Austfjarða. Hann hafði ákveðið að ferðast um landið á sjó með ströndum frekar en á landi. Strandferðaskipið, sem hann kallar "Thyra", stoppaði í fjölda hafna á leiðinni frá Reykjavík til Eskifjarðar og gerir hann þar upplifun sinni skil í ferðasögu sinni.
Það kemur fram m.a. að Alexander telur sig heppinn að hafa tekið þessa ákvörðun frekar en að ferðast landveg með kunningja sínum sem ætlaði sömu leið á hestum ásamt fleyrum, en kom fárveikur og búin á því um borð á Sauðárkróki. En meira af frásögnum Alexanders Baumgartner síðar.
Já ég er dottin í sagnaþætti, en það eru bókmenntir, sem gefa oft glöggar upplýsingar um líf venjulegs fólks í landinu, oftast skrifaðir af sérvitringum sem vildu ekki að saga þess hluta landsmanna, sem kallast almenningur, glataðist. Svona nokkurskonar og draugasögur í björtum þjóðsagnastíl.
Það er ekkert nýtt hér á síðunni að vitnað sé í svona sögusagnir en í þessum pistli ætla ég að tína til hvað svona sagnaþættir segja óbeint um brýrnar yfir boðaföllin og jökulvötnin, enda er helsta deilumálið nú á dögum hversu dýrar brýrnar megi verða þegar kemur að listfenginni hönnun og hversu mikið sé réttlætanlegt að rukka vegfarendur fyrir að fara um slíka skúlptúra.
Landið var svo til án brúa á dögum Alexanders þó hafði lengi verið brú yfir Jökulsá á Dal, hina horfnu fornu Jöklu sem einnig er kölluð Jökulsá á Brú. Það stendur hins vegar ekki til að minnast á hana hér né gera þeim brúm eiginleg skil sem minnst er á, heldur segja sögur sérvitringana úr sagnaþáttunum.
Það birtust hér á síðunni stuttar frásagnir úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar fyrir nokkur árum og þar var ein um hvernig var umhorfs við Ölfusá þar sem brúin er núna og gefur sú frásögn glögga lýsingu á því hvernig Ölfusárbrú, sem byggð var 1891 - stuttu fyrir Íslandsför Alexanders, breytti öllu.
Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.
Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning.
(Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn. - Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun R. Christiansen.)
Í bókinni Að Vestan II-Þjóðsögur og sagnir - eru sögur sem varðveittust í vesturheimi, innheldur II bindið sagnaþætti Sigmundar M Long. Þegar ég las þessa sagnaþætti þá áttaði ég mig á því að Sigmundur ólst upp á þeim stöðum sem ég fer um dags daglega og þar mátti sjá hvernig líf fólks var háttað áður en Lagarfljótsbrúin kom til árið 1905. Sagan af Ingibjörgu Jósefsdóttir gaf góða innsýn í hvernig var að fara um fyrir einni og hálfri öld áður en Lagarfljóts- og Eyvindarárbrýrnar vor byggðar, brýr sem ég fer um hugsunarlaust nánast daglega, -stundum oft á dag.
Lagarfljótsbrúin var lengsta brú landsins allt til ársins 1973, fyrsta brúin yfir Eyvindará er talin hafa verið byggð 1879. Lagafljótið skiptir Fljótsdalshéraði að endilöngu og allt til loka 20. aldar var N-Múlasýsla fyrir norðan Fljót og S-Múlasýsla fyrir austan Fljót. Það var svo ekki fyrr en á 21.öldinni sem bæirnir Egilsstaðir og Fellabær, -sitt hvoru megin við brúarendann, urðu sameiginlegt sveitarfélag. Fyrir utan Eyvindará var Eiðaþinghá og þaðan lá leiðin niður á firði, um Fjarðarheiði á Seyðisfjörð, upp Eyvindardal um Eskifjarðaheiði á Eskifjörð og um Slenju yfir Mjófjarðarheiði á Mjóafjörð.
Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi (fyrir norðan Fljót) sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims.
Önnur saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.
Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.
Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförunum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.
Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.
Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.
Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Ási í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.
Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.
Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.
Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.
Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.
Á þessum tíma var hvorki brú yfir Eyvindará né Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar og nær að suður enda flugvallarins. Lögferju var lengst af sinnt frá Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.
Upp síðkastið hef ég verið að lesa Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar sem hafa að geima fágætar sagnir af Melrakkasléttu og úr Öxarfirði. Benjamín sagðist finnast lítið hafa varðveist af sögnum úr N-Þingeyjasýslu og ákvað að safna saman þeim sögnum sem hann þekkti og gefa út í kiljum.
Mér áskotnuðust þessir sagnaþættir í búð Rauðakrossins þar sem hægt er að fá fágætar bækur úr dánarbúum, sem erfingjarnir kæra sig ekki um, á vægu verði. Þegar ég skar mig í gegnum þessi hefti, síðu fyrir síðu, las ég frásögn Benjamíns af því þegar brúin yfir Jökulsá á Fjöllum var byggð niður í Öxarfirði árin 1904-1905.
"En afdrifaríkast af öllu voru þó áhrifin, sem allt þetta hafði á hið kyrrláta sveitalíf í nágrenninu. Öldum saman hafði þarna ríkt kyrrð og friður, og sambandið við umheiminn verið lítið sem ekkert.
Allt var bundið gömlum vana og fornri hefð. En nú breyttist þetta í einni svipan. Jafnvel gamlir og grónir bændur stukku frá orfum sínum í bestu rekju eða frá heyjum í ágætum þurrki, ef þeir áttu kost á því að flytja nokkra poka af sementi að brúnni eða þá selja brúarmönnum nokkrar flatkökur og eina smjörköku.
Þarna voru krónur í boði, og það var aðalatriðið. En ekki þurfti ætið peninga til. Ef höfðingja bar að garði, þá voru ýmsir fúsir til þess að ríða út með þeim um hásláttinn, eða fara með þeim á blindfyllirí." (Sagnaþættir Benjamíns Sigvaldasonar III bindi bls 186)
Ég ætla að láta Alexander Baumgartner, sem inngangsorð pistilsins eru fengin frá, -eiga loka orðin í þessum pistli þegar hann lýsir samgöngumáta íslendinga áður en brýnnar breyttu öllu.
"Eftir veginum kom hópur ríðandi kvenna og manna. Þegar kvenfólk ferðast fer það alltaf í bestu fötin sín. Reiðpilsin þeirra eru síð og þær sitja í söðlinum tígurlegar eins og valkyrjur. Þegar maður horfir á slíkan hóp og hinn einkennilega klæðnað, gæti maður trúað að maður væri kominn suður í einhvern friðsælan Alpadal.
Svo gengur stöðugt sæll og sæl og fólkið kyssist mörgum kossum. Konunum er boðið inn að þiggja kaffi. En karlmennirnir, sem eru ekki líkt því eins vel klæddir, þurfa að hugsa um hestana, og svo skreppa þeir inn í búð til að fá sér brennivín og taka úr sér hrollinn." (Landinn kemur í kaupstað-Ísl sagnaþættir III bls 135)
"Á eftir fórum við á hestbak það er óumflýjanlegt á Íslandi. Fái Ísland einhvertíma sæmilega vegi og brýr, eða járnbraut, þá verður það eins og önnur lönd. En nú er það mjög frábrugðið, því það verður ekki komist af án hesta.
Alt verður að fara á hestum: til skírnar og jarðarfarar, í skóla og á engjarnar, til kirkju og alþingis, í kaupstaðinn og læknisvitjun. Frá blautu barnsbeini er hesturinn félagi allra manna og kvenna og fólkið lifir þannig frjálsu útilífi, sem ekki þekkist í hámenningunni.
Á þennan hátt verða menn hraustir og fyrirmannlegir. Hver maður er sinn eigin herra, smiður, lögfræðingur og jafnvel læknir. En ef þeir hætta að nota hestana, þá breytist þetta allt saman." (Ísl sagnaþættir III bls bls 140)
Meginflokkur: Landsins-saga | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Facebook
Athugasemdir
Bestu þakkir fyrir þessa stórkostlegu grein Magnús. Mér hraus nú hugur við lesturinn þegar ég fór að hugsa til þess hve mikil vinna hefur legið í að tína saman þessa grein og gera þetta jafn læsilegt og þú gerir þarna. Svona er ekki öllum gefið og vil ég óska þér til hamingju með útkomuna. Það verður gaman að lesa framhald af þessum upprifjunum frá þér.....
Jóhann Elíasson, 13.10.2024 kl. 09:11
Leika landmunir (landm=heimþrá)
lýða sonum,
hveim er fúss er fara.
Römm er sú taug,
er rekka dregur
föður-túna til.
Þetta er þýðing Sveinbjarnar Egilssonar, rektors Lærðaskólans, á útlegðarljóði rómverska skáldsins Óvíðs:
Nescio qua natale solum dulcedine captos / ducit, et inmemores non sinit esse sui .
Í óbundnu máli:
„Föðurland þeirra heldur þeim föngnum og leyfir þeim ekki að gleyma því.“
Heims um ból, jólasálmurinn, er frumortur af Sveinbirni og þýðing þessi er sem frumort væri.
Beztu þökk fyrir þennan einstæða pistil þinn, Magnús.
Guðni Björgólfsson, 13.10.2024 kl. 11:23
Hafðu miklar þakkir fyrir þessa góðu samantekt, meistari Magnús.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 13.10.2024 kl. 12:59
Fín skrif - en við vitum að allir þjóðsaganaþættir voru fjármagnaðir af -elítunni- svo almúginn væri sáttur við stjórnvöld og kirkju :D - - maður verður að skjóta einni samsæriskenningu með.
Guðjón E. Hreinberg, 13.10.2024 kl. 13:33
Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar, -ég satt að segja bjóst ekki við þeim við þennan samtíning úr horfnu þjóðlífi.
Þeir sem söfnuðu þjóðsögum og höfðu nennu til að taka saman sögu almúgans í sagnaþáttum máttu flestir hafa fyrir því að koma efninu á framfæri, -ekki höfðu þeir samfélagsmiðla.
Saganaþættir Benjamíns Sigvaldasonar eru ekki í merkilegu broti og safnið sem ég komst yfir hafði ekki einu sinni verið skorið upp, en sögurnar af lífi fólksins, sem hann vildi ekki að töpuðust, eru þeim mun merkilegri.
Sigfús Sigfússon frá Eyvindará, minn uppáhalds þjóðsagnaritari, kom ekki nema broti af sínu safni út á sinni ævi, og ekki er svo langt síðan að ég sá akademíuna tala niður til söfnunaráráttu hans.
Magnús Sigurðsson, 13.10.2024 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.