Röðlasmiður

Flaskan fraus

og sumrinu lauk

svalir vorsins bíða

Verður veturinn

blíður oss?

IMG_9143

Það er nokkuð víst að fáir lesa bloggpistil þar sem er minnst á sálina, eða farið með bæn, -hvað þá ef bænin er í kvæði og pistillinn hefst í bundnu máli. Þessi ætti því að vera nokkuð pottþétt uppskrift, þar sem leitast er við að gera allt þetta í einu.

Nú er kominn vetur, ef talið er frá veturnóttum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sem hafði tvær árstíðir, -sumar og vetur. Að vísu heitir síðasti sumarmánuðurinn haust og hefst í grennd við haustjafndægur. Tímatöl ganga upp samkvæmt sólarhringrás, en þau gömlu voru oftar en ekki einnig grundvölluð á næturhimninum, -líkt og það íslenska sem var notað um aldir.

Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal. Það má t.d. sjá á því, að það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur. Það sama átti við næturhimininn, mánaðamót voru grennd við þar sem stjörnumerkin mætast.

Nútímavísindin hafa gert mannsævina línulega á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur hina eilífu eykt hringrásarinnar. – Og aðeins trúin, sem nútímavísindin efast hvað mest um, leyfir okkur enn þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlykur.

“Þú átt aðeins eitt líf” hefur verið gefið á línuna af nýaldar húmanisma efnishyggjunnar, -frá vöggu til grafar. Þetta hefur falið sálina og slitið tengingar við eilífðina og almættið. En hvort sem það er þetta eina líf, stafrænn tíminn, eða þá árstíðirnar, -þá tilheyrir allt hringrás eilífðarinnar.

Nútíminn getur þess sjaldnast, að ekki er hægt að tapa því sem maður er, -aðeins því sem maður hefur, -hvað þá að þú sért aðeins ríkur þegar þú átt eitthvað sem ekki fæst fyrir peninga. 

Til að enda þennan lítt-læsilega pistil má segja sem svo að hann sé lítið annað en brot óreiðuhugsana, rétt eins og bundið mál sem á það til að tínast í ljóðum, þ.e.a.s. þegar maður er orðin það ringlaður að koma ekki lengur frá sér í orði heilli hugsun, -nokkurskonar ótímabær elliglöp, eða sakramenti sérvitrings.

En ég ætla samt ekki að gleyma kvæðinu og bæninni, sem ég lofaði í upphafi, -til Röðlasmiðsins.

 

Þú sem röðli ræður

hverri dögun í heimi hér

ver á himni skæður

þegar ævi kvölda fer

 

Lýstu sorta með sólstöfum

þegar lækkar á lofti sól

slá roða af himni björtum

yfir haf, dal og hól

 

Geislaðu leiftrandi ljósum

í myrkrinu hérna norður frá

skartaðu blikandi stjörnum

svo megi í birtu sálin ná

 

Svo er sól á vetri hækkar

og ljósið bjarta færirðu mér

til sumars ætíð mig hlakkar

þar til ljós í röðli þínum ég er


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Það má lesa af pistlum þinum Magnús, að þú ert stöðugt upptekinn af undursamlegri sköpun Guðs, sól, himni og jörð.

Sólin er ljós af Ljósi heimsins, Guði, skapara alls. Og ef Þú trúir á Hann, ert þú nú þegar ljós í Ljósi Guðs, í Jesú Kristi. Þú ERT.

Jesús segir: Ég ER. (Jóh. 8:24).

Jesús segir ennfremur í 15. kafla Jóhannesarguðspjalls: Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.

William Shakespeare sagði réttilega: To be, or not to be, that is the question.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 25.10.2024 kl. 15:23

2 identicon

Þetta er hvorki meira né minna en snilldar kvæði, meistari Magnús!

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.10.2024 kl. 15:55

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já Magnús, þú ert bara allur í óreiðunni.

Tek samt undir með Símoni Pétri.

Það er bara svo.

Með kveðju úr stillunni í neðra.

Ómar Geirsson, 25.10.2024 kl. 17:30

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

það er ánægjulegt að sjá að einhverjir lesa þegar formálinn fer ekki í grafgötur með innihaldið og fá síðan svona líka ánægjulegar athugasemdir.

Mér kom til hugar Guðmundur Örn, -að hafa síðustu hendinguna "þar sem ljós í röðli þínum ég er" en fannst það full mikið sjálfshól að sumarlagi - hvað þá á veturnóttum, -en rétt á að stefna.

Símon Pétur, -þetta er eitt besta hól sem nokkur kveðskapur getur fengið. Takk fyrir höfðingi.

Magnús Sigurðsson, 25.10.2024 kl. 17:45

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég er djúpt snortinn Ómar.

Með kveðju í hlæjandi lognið.

Magnús Sigurðsson, 25.10.2024 kl. 17:47

6 identicon

Hér eru menn skáldlegir mjög.

Þakka skrifin, bænina, vonandi kemst Kristnin, fyrirgefningin, leitin að sannleikanum og lausn á öllum vandamálum aftur inn í skólana svo að við getum áfram notið ávaxta blessunarinnar, lausn vandamálana. 

Mörgu góðu hefur Kristni hugmynda heimurinn komið til leiðar, þó að við ýmsir höfum verið miklir dragbítar. 

Egilsstaðir, 27.10.2024   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 27.10.2024 kl. 20:15

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina Jónas, -tek undir hana.

Magnús Sigurðsson, 28.10.2024 kl. 05:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband