28.10.2024 | 13:33
Kórekur og bláklædda konan
Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur við vegagerðar framkvæmd, þar sem þá var kallað að Litlu-Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþingá, þar sem nú er Hlégarður. Um var að ræða líkamsleifar konu, tvær koparnælur, litla skrautnælu, auk klæðisbúta ásamt fleiru. Þessar minjar hafði mýrin varðveitt í meira en þúsund ár. Þáverandi Þjóðminjavörður gekk frá líkamsleifum konunnar í formalíni, sem ekki hefur verið sjálfgefin fyrirhyggja á þeim tíma. Mýrin hafði varðveitt líkamsleifarnar á þann hátt að mjúkvefir konunnar varðveittust þar til formalínið tók við varðveislu þeirra, það má því líkja þessari konu við nokkhverskonar múmíu. Sérstakt er að til séu líkamsleifar sem varðveittar hafa verið í formalíni á Þjóðminjasafni Íslands og hafi nú með nýjustu tækni veitt einstæða innsýn í líf konu sem bjó á Íslandi við landnám.
Það sem komið hefur í ljós með nútíma rannsóknum er að konan hefur látist um árið 900. Eins er rannsóknin talin leiða í ljós að hún sé fædd á vestanverðum Bretlandseyjum og hafi flust til Íslands 5-11 ára gömul, en dáið í kringum tvítugt. Klæðnaður og skart konunnar gefur til kynna að um efnameiri manneskju hafi verið að ræða. Eins þykir bútur úr bláu ullarsjali gefa ótvírætt til kinna að ullin hafi komið af íslensku sauðfé, því má leiða að því líkum að litun og vefnaður ullar hafi þegar verið orðin til í landinu á bernskuárum landnámsins.
Því hefur þráfaldlega verið haldið fram í skúmaskotum að ekki sé allt sem sýnist varðandi upphaf landnáms Íslands og leiddar hafa verið að því margvíslegar líkur að meiri fjöldi fólks hafi búið í landinu en sagan vill greina frá, fyrir eiginlegt landnám. Niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á bláklæddu konunni slá lítið á þær getgátur þó svo að þær sanni ekkert þar að lútandi heldur. Í mýrunum í Hjaltastaðaþinghánni er vafalaust margt fleira forvitnilegt að finna og sennilegast ekki öll kurl þaðan komin til grafar.
Margir hafa orðið til þess að benda á að sumar nafngiftir í þessari sveit séu sérkennilegar, t.d. heitir mýri í Hjaltastaðaþinghá blá og er þannig háttað víða á Austurlandi. Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur sýndi fram á í ársritinu Múlaþingi árið 2010 að minnsta kosti tvö örnefni í Hjaltastaðaþinghá væru af gelískum uppruna þ.e.a.s. frá heimahögum ungu konunnar sem heygð var í Ketilstaðamýrinni. Þar er annarsvegar um helsta einkenni sveitarinnar að ræða, Dyrfjöllin, og hinsvegar um fornar rústir Arnarbælis í landi Klúku, andspænis Jórvík sem stendur sunnan við Selfljótið.
Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið. Arnarbæli vill Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki frá örófi alda í Útmannasveit að á þessum stað hafi verið forn verslunarhöfn þó svo að nú sé ekki skipgengt lengur að Arnarbæli. Frumrannsókn fornleifa í Arnarbæli var gerð árið 2010 og leiddi hún í ljós að rústirnar þar eru umfangsmiklar.
Eitt nafn í Hjaltastaðaþinghá hefur valdið mér heilabrotum öðrum fremur, en það er nafnið Kóreksstaðir sem eru rétt fyrir innan Jórvík. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þetta Kóreks-nafn annarsstaðar. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en nýverið að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn, enn sem komið er. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður.
Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík. Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.
Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar tegja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."
Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.
Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið enn eitt örnefnið af gelískum uppruna, og þá farið að nálgast kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heilags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.
En að fullyrða það blákalt að með nýjustu tækni á gúggul sé hægt að bendla bláklæddu konuna í Ketilstaðamýrinni við afa Þorbjörns kóreks bónda á Kóreksstöðum sem líklega hafi átt rætur að rekja til Finnbars í Corcach Mór na Mumhan, er blátt áfram full langt gengið.
E.s. Þessi pistill var birtur hér á síðunni 8. ágúst 2015, sem nokkurskonar örnefnahugleiðing, en þá stóð yfir sýningin Bláklædda konan á Þjóðminjasafni Íslands. Hann er endurbirtur nú vegna andleysis og að ég nenni ekki að hræra í langloku.
Athugasemdir
Aldeilis fín lesning og fróðleg um flest. Hafðu þakkir fyrir, Magnús.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.10.2024 kl. 14:15
Þú nefnir örnefnahugleiðingu, en ég hafði gaman af þegar ég var unglingur og var endur-uppalinn hjá Ágústi Árnasyni, í Skógræktinni í Hvammi, Skorradal, að til voru kort í fórum skogræktarfræðinga, sem sýndu öll örnefni sveitarinnar, einnig þau sem enginn gamlingi mundi eftir, en þau voru öll vandlega skráð af ólögmætu hernámsliði Breta og BRandaríkjanna á tímum annarrar af þrem heimsstyrjöldum vestrænna lygara.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 28.10.2024 kl. 14:42
Séra Gunnþór Ingason, fyrrum sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, hefur í mörg á rannsakað tengingu Íslendinga og "Kelta". Hans niðurstaða var sú að landnám hafi hafist mikið fyrr en áður var talið og að hér á landi hafi verið þónokkur byggð þegar svokallaðir "landnámsmenn" komu frá Noregi. Það er mjög gaman að ræða þessa hluti við hann (ég á nú frekar erfitt með að muna allt sem hann hefur talað um). Ég held að þú myndir hafa mjög gaman af því að ræða við hann. Hann á ættir að rekja til Færeyja og hann er afskaplega fróður og víðlesinn.....
Jóhann Elíasson, 28.10.2024 kl. 16:52
Þetta er áhugaverður pistill.
Það er gaman að velta fyrir sér merkingu gamalla örnefna og mannanafna.
Aðeins um Kóreksstaði: Í Íslenskri orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon segir:
„Kórek(u)r … karlmannsnafn, viðurnefni, sbr. einnig ísl. bæjarheitið Kóreksstaðir. Uppruni og merking óviss. Nafnið virðist einnig koma fyrir í fno [forn norrænu]. E.t.v. upphaflega (fno) viðurnefni og eiginl. merk. „nautahirðir“ eða „hinn kúauðgi“.“ (bls. 495).
Sjá einnig í sömu bók um orðið „blá“.
Ég er ekki sérfróður um gelísku en það væri fróðlegt að fá nánari skýringu á þýðingunni á „Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi". Mumhan virðist vera það sem síðar er kalla Munster(fylki). Mór þýðir vissulega „stóra“ eða „mikla“ (na eignarfallsliður). Corcach getur þýtt votlendi (önnur orðabók þýðir það sem hafrar).
Vigfús Ingvar Ingvarsson (IP-tala skráð) 28.10.2024 kl. 17:18
Frumlandnám - síðlandnám - norrænt landnám - írskt landnám... öll þessi hugtök geta átt rétt á sér. Sagan er að ljúkast upp eftir því sem meira er rannsakað.
Ljóst er að norræna landnámið var landnám, land var numið, yfirtekið, tekið herskildi. Það varpar ekki rýrð á norræna landnámið að það var ekki frumlandnám. Fullyrða má að Papar hafi verið drepnir í stórum stíl.
Landámubók er eins og Biblían pólitískt rit sem gerir lítið úr því sem fyrir var. Þó hafa vísindin hans Kára og fornleifafræðin til samans staðfest næstum allt sem stendur í Landnámabók og öðrum fornritum hvað varðar aldur þessa norræna landnáms. Það segir sitt um sannleiksgildi fornsagnanna yfirleitt, sem telst mjög mikið. Þetta eru ekki skáldrit, heldur sagnfræði með ýkjubrag og goðsagnakeim.
Ég hef ekki kannað orðsifjarnar á bakvið Kóreksstaði. Vel má vera að þetta sé gelíska. Hljómar þannig.
Íslenzka menningin okkar er mjög góð og merkileg, því samruni varð friðsamlegur með tímanum og okkar fornrit eru einu fornritin sem lýsa norrænni fornmenningu vel.
Jafnvel þótt einhver partur sé fenginn frá Írum og Keltum, þá verður seint eða aldrei hægt að sanna að það sé meirihlutinn. Það er ekkert nema fyrirlitning á norrænum arfi og menningu.
Að meirihluta erum við norskir, Íslendingar, Írar næstmest erum við. Það segir Kári.
Rúnir og menjar á Norðurlöndum sanna að Ásatrú var trú Evrópu, á Norðurlöndum og um Germaníu.
Því er það algert rugl að segja að sú Ásatrú sem Snorri Sturluson skrifaði eigi ekki norrænar rætur.
Það er hinsvegar mikið verk óunnið að greina á milli þess írska, keltneska og norræna.
En írsku goðsagnirnar eru ekki eins og þær íslenzku.
Hvað gelísk tökuorð varðar er ég þó sammála. Engin skömm að viðurkenna að þau eru mörg til.
Bókin hans Þorvaldar Friðrikssonar, Keltar, er þó röng að langmestu leyti þegar hann fjallar um orðsifjar. Það gerir hann ekki fagmannlega, heldur af óskhyggju og óhóflegu Keltadekri.
Ingólfur Sigurðsson, 28.10.2024 kl. 18:05
Þessi pistill um Kórek og bláklæddu konuna rifjaðist upp þegar ég rakst á þessar fínu álfasögur úr Borgafirði, sem Sigurður Ó Pálsson sagði frá í sjónvarpsþætti 1988, og var hlaðið niður á youtube fyrir stuttu. Sigurður var einn af mínum uppáhalds pistlahöfundum á síðustu öld svo ég gat ekki stillt mig um að setja hann inn ómengaðan um daginn.
Já þau eru áhugaverð örnefnin sem lifa í gegnum aldirnar og margir fornleifafundir styðja örnefnin og þjóðsögurnar sem lifa. Má þar nefna nú nýverið bæ Bjólfs, sem fannst í Seyðisfirði, og var nákvæmlega staðsettur í tíma og veru þar sem þjóðsagan greindi.
Þegar þessar hugleiðingar mínar um Kórek og bláklæddu konuna urðu til þá var Hjaltastaðaþingháin efst á radarnum. Ég fór nánast alla sunnudagsbíltúra þangað - þangað til Matthildur mín sagði stopp. En þá voru komin nokkur ár og fékk ég hana ekki með mér aftur fyrr núna í sumar.
Þeir eru ábyggilega margir fræðimennirnir á landinu bláa sem gaman væri að tala við um landnámið fyrir landnám og ábyggilega margt sem þar fer út fyrir opinberu fræðin. Ekki man ég hvernig ég fékk þýðinguna "hið mikla mýrarkirkju veldi" út úr "Corcach Mór na Mumhan", sennilega hefur það með Finnbar of Cork að gera.
Og ekki hafði ég orðsifjarnar hans Ásgeirs Blöndal að styðjast við, en þær eru verulega áhuga verðar. Því eitt af því sem ég naut við þessa örnefnarannsókn í Hjaltastaðaþinghá 2015 var flugferð yfir sveitina með Stefáni vini mínum Scheving en hann ólst upp í Kóreksstaðagerði og voru sérstaklega minnisverðar kýrnar í mýrar-blánum á sumar beit þar þær nánast flutu um í sefinu með halann beint upp í loftið.
Já landnámið er margþætt og við getum í raun rakið blóðlínuna, -ekki bara til Noregs og Bretlandseyja, heldur alla leið til Svartahafs samkvæmt Snorra. Sumir hafa rakið blóðlínuna þaðan alla leið til Landsins helga. Það er fágætt að nokkur þjóð eigi eins miklar skráðar upplýsingar til um uppruna sinn og sú íslenska.
Magnús Sigurðsson, 28.10.2024 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.