2.11.2024 | 16:51
Velkomin heim
Man einhver lengur hvernig var að koma erlendis frá í flugstöð Leifs Eiríkssonar á 10. áratug síðustu aldar? Já einmitt; góðan daginn þegar komið var frá Ameríku, og góða kvöldið þegar komið var frá Evrópu. -Og ef maður tók undir á lýtalausri íslensku, þá; -velkomin heim. Þetta var fyrir tíma Schengen og maður naut þess að vera ríkisborgari á Íslandi, -ættlandi Leifs Eiríkssonar, þeir sem annaðhvort skildu ekki kveðjuna eða voru flóttlegir voru teknir til nánari athugunar af tollvörðum.
Þessi tíð er löngu liðin, aldafjórðungur er síðan Schengen tók yfir flugstöð Leifs Eiríkssonar. Árið 2012 var þannig komið að maður komst varla frá landinu öðruvísi en á sokkunum með buxurnar á hælunum, og þegar maður kom til KEF þá var rétt betra að halda kúlinu ef minnsti grunur lék á að maður væri mörlandi, en útlendingar þrömmuðu í gegn. Því tekin hafði verið upp sú aðferðafræði að sorterað út úr landinu en ekki inn í það, -allt í boði Schengen nema kostnaðurinn.
Textan hér að neðan færði ég í bók daganna árið 2012.
"Það fer ekki hjá því að það örli aðeins á kvíða við þá röskun sem verður á grjótburðinum í fjósvegginn við það að fyrir höndum er flugferð yfir himin og haf. Síðast þegar ég fór þessa leið mátti ég gjöra svo vel að stíga til hliðar á Evenesflyplass á skokkaleistunum, með vasana ranghverfa og buxurnar á hælunum vegna skerandi óhljóða frá leitahliðinu. Eftir að hafa verið þuklaður hátt og lágt af kallmanni fékk ég að halda áfram för, en það sama gerðist svo í Gardemoen. Þegar ég kom til Keflavíkur reiknaði ég með að þetta yrði eins og í gamla daga að tollararnir byðu glaðlega góðan daginn og ef maður svaraði rétt á íslensku þá yrði málinu lokið með "velkominn heim".
En það var nú aldeilis ekki, þarna stóðu þær tvær svartklæddar í tollinum, önnur gekk í veg fyrir mig og spurði um vegabréf á ensku. Eins og illa gerður hlutur í grárri lopapeysu svaraði ég á ástkæra og ylhýra, "svo þú ert íslendingur" sagði daman þegar hún hafði skoðað vegabréfið, "þú mátt fara í gegn". En þá brá svo við að hin daman gekk einnig í veg fyrir mig og skipaði mér á ensku að koma afsíðis þar sem taskan mín var sett í skanna, "hvað er þetta" spurði hún á ensku og aftur greip lopapeysan til þess að svara skilmerkilega á ástkæra og ylhýra. "Svo þú talar bara íslensku" sagði svartklædda daman "þú mátt fara í gegn".
Þegar ég kom í gegnum tollinn heyrði ég háreysti sem mér fannst ég kannast eitthvað við, og jú þarna var náungi sem ég hafði séð nokkrum mánuðum áður við vopnaleitarhliðið í Keflavík. Hann hafði tilkynnt þar að það kæmi ekki til greina að hann tæki af sér skó og buxnabelti, hvað þá að hann tæmdi vasana að óþörfu. Þegar það átti svo að leita á honum lét hann þá vita með gargandi snilld að þessu skyldu þeir sleppa því hann væri nefnilega ekki glæpamaður. Fjöldi manns mátti bíða á sokkaleistunum með buxurnar á hælunum meðan serímónían fór fram.
Ég er ekki frá því að það hafi flogið í gegnum hugann á fleirum en mér, þegar svona góður tími gafst til að doka við og líta yfir sviðið, að þessi maður væri sá eini með fulle femm á öllu svæðinu. En hann er, það sem sennilega er kallað á fagmáli, misþroska. Þannig að hjá honum hefur varðveist viska barnsins allt til fullorðins ára." (Þessi texti er úr pistlinum Rosalega er orðið dýrt að vera í vinnu sem má lesa hér)
Nú eru komin meira en 10 ár síðan ég hef farið um KEF, hef einfaldlega ekki haft lyst. Ákvað þegar ég kom endanlega heim frá Noregi, að láta það sem ég á ólifað sem minnst lítillækka mig á Schengen svæðinu.
Annars átti þessi pistill upphaflega að vera um Halla Reynis og upplifun mína af tónlist hans, en Halli Reynis verður að bíða betri tíma, því þegar ég lenti á þessu lagi Velkomin heim þá rifjaðist það upp hvernig var að koma í flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir Schengen.
Athugasemdir
Blessaður Magnús.
Snilldarfærsla um Halla Reynis.
Ég lét laga hans hljóma mér til yndisauka.
Frostkveðjur út stillunni í neðra.
Ómar Geirsson, 2.11.2024 kl. 17:31
Sæll Ómar, -ég verð að segja söguna sem ég ætlaði að segja af Halla Reynis við tækifæri.
Það fór út um þúfur í þetta sinn, við þennan snilldar flutning og texta, -Velkomin heim.
Datt hreinlega 25-30 ár aftur í tímann, -en það er af nógu að taka þegar tónlyst Halla Reynis er annars vegar.
Vetrarkveðja úr efra.
Magnús Sigurðsson, 2.11.2024 kl. 20:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.