13.11.2024 | 19:00
Móðsognir er mestur
Fenja, Menja og Moðsognir eru af ættum dverga og jötna. Þær Fenja og menja voru jötunmeyjar sem möluðu gullið fyrir Fróða í kvörninni Gróttu. Fróði Friðleifsson keypti jötnameyjarnar af Fjölni konungi og lét þær mala gull, frið og sælu.
Fróði gaf ambáttunum ekki lengri hvíld eða svefn en gaukurinn þagði eða hljóð mátti kveða. Jötnameyjarnar kváðu því her að Fróða og var hann drepinn af sækonungnum Mýsingi. Þá lagðist af Fróðafriður.
Já, ég hef verið að glugga í skáldskaparmál, og þar má margt fróðlegt finna sem hefur forspárgildi og getur allt eins átt við daginn í dag. Eins hef ég verið að lesa Völuspá og Gylfaginningu til að komast til einhvers botns í dvergatalinu.
Fræðimenn telja að dvergatalinu hafi verið bætt inn í Völuspá. Því má skilja að það sé einhverskonar bastarður sem ekki eigi beint heima í spánni. En auðvitað getur það verið með þetta eins og gullfiskinn umlukin í vatni, að hann gerir sér ekki grein fyrir því í vatninu lifir hann og hrærist.
Það er fróðlegt að lesa Gylfaginningu ef maður vill vita eitthvað um dvergana vegna þess að þar má finna dvergatal þó nöfnin séu ekki alveg þau sömu og Völuspáin þar ekki alveg eins orðuð.
Báðar; Völuspá og Gylfaginning byrja á að geta fyrst Móðsognis og að hann sé mestur dverga, honum á eftir kemur Durinn. Móðsognir er sá sem móðinn sýgur (orkunni rænir og kjarkinn drepur) það má t.d. sjá í skriffinnsku regluverks dagsins í dag.
þeir mannlíkun
mörg af gerðu
dvergar í jörðu
sem Durinn sagði
Hver er þá þessi Durinn?
Mér ei dúrinn meira hrökk
myrkra flúðu skræður
Hverjum kann ég þegna þökk
þeim sem drauminn ræður (kvað Bólu Hjálmar)
Gylfaginning getur þess að þeir dvergarnir; Austri, Vestri, Suðri og Norðri, -haldi uppi himninum. Og goðin hafi lagt dvergunum til hamar og töng og steðja og þaðan tól öll önnur. Því næst lögðu goðin til hráefnið. Um leið og þau minntust þess ævinlega að dvergarnir hefðu kviknað í moldinni sem maðkar úr holdi jötunsins Ýmis.
Hvað er með ásum?
Hvað er með álfum?
Ymur allur Jötunheimur
æsir eru á þingi
Stynja dvergar
Fyrir steindyrum
veggbergs vísir
Vituð ér enn eða hvað?
Gylfaginning segir til um hvert sé best fyrir mannfólkið að flýja í Ragnarökum. Margar eru þá vistir góðar og margar illar. Best er þá að vera á Gimlé á himni. Og allgott er góðs drykkjar þeim er það þykir gaman, í sal þeim er Brimir heitir. Hann stendur á Ókólni. Sá er góður salur er stendur í Niðafjöllum, gjör af rauða gulli. Sá heitir Sindri. Í þessum sölum skulu byggja góðir menn og siðlátir.
Sindri er sagður dvergur og salurinn Sindri þá væntanlega heitinn eftir honum. Hann er í Niðafjöllum, sem kennd eru við myrkur, kannski nokkurskonar neðanjarðar bunker. Brimir er eitt af nöfnum Ýmis, en úr blóði hans gerðu goðin hafið, og Ókólni er þar sem ekki frýs. Við strendur brimar, svo kannski eru sólarstrendur þangað sem best er að flýja við Ragnarökkur, -t.d. Tene. Ég læt samt lesandanum eftir að geta sér við hvað er átt með Gimlé.
Ps. Þeim sem reynist örðugt að átta sig á dvergum í spánni hennar Völu geta kannski náð einhverjum áttum með því að horfa á Simpsons.
Athugasemdir
Hér er okkar sameiginlega áhugamál, norræn goðafræði. Guðjón sér frekar nútímann í Medúsu og grísku goðafræðinni, en þetta eru allskonar speglanir.
Ég hef mikið velt fyrir mér dvergum og álfum og öðrum fyrirbærum í Snorra Eddu.
Þegar ég er í þessum pælingum reyni ég fyrst að skilja grunnhugtökin, orðin, þau eru undirstaðan fyrir það sem síðar kemur.
Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal er ágætur staður til að reyna að botna í orðunum.
Það hefur að vísu verið mín skynjun að álfar og dvergar þurfi ekki að vera smáar verur. Til þeirra er vísað í fornum heimildum eins og jafningja guða og trölla, einskonar yfirnáttúrulegar verur. Held að ég hafi lesið það í Þjóðsögum Jóns Árnasonar á mínu æskuheimili að fræðimenn telja að tröll hafi ekki orðið risastór fyrr en síðar, með munnmælum og þjóðsögum, þegar þetta gekk mann fram af manni og afbakaðist.
Eins er það með dvergana og álfana, ýmsar upprunalegustu lýsingarnar á þeim lýsa þeim sem samherjum eða mótherjum guða og manna, en ekki endilega smáverum.
Bandaríska menningin gerir út á þessa litlu karla í görðunum með skeggið og rauðu hattana. Það er kannski villandi.
Blöndal segir um dverg: "Vættur sem einkum bjó í steinum eða klettum."
Turkka, turka, vesæll krypplingur, finnska.
Fornenska: Zweorg, dvergur.
Fornindverska: Dhvará: Sá sem fellir, dhvarás: Skaðvæn vættur. Dhvárati: Skaðar.
Drva, fornperneska: Einhverskonar líkamslýti.
Dweraz: Dvergur, forgermanska.
Dhwergwhos: Frumindóevrópska, merking óljós, kannski eitthvað smátt, ekki vitað. Engin skyld dæmi utan germanskra málsvæða, "sýnist ekki eiga samsvörun í öðrum indóevrópskum málum", samkvæmt Ásgeiri Blöndal.
Sumar af þessum skýringum eru ekki frá Blöndal. Orðsifjar eru víðar útskýrðar.
Samkvæmt orðsifjum á enska orðinu var orðið dvergur einnig notað um lágvaxnar plöntur og ekki aðeins dýr.
Ég hef mínar eigin orðsifjar sem mér finnst skýra þetta betur.
Fornenska orðið finnst mér upprunalegast.
Zweorg. Tvísamsett orð. Zwe og svo org.
Org kemur úr grísku og merkir verkamaður eða framkvæmandi, eins og mannsnafnið Georg þýðir bóndi eða jarðvinnumaður.
Skylt því að verka og verk á íslenzku.
Magnús, þú ert hér á merkilegum slóðum.
Það hefur oft hvarflað að mér að við menn séum ekki menn, eða ekki lengur menn, heldur djöflar eða dvergar eða óæðri verur en svo að við megum nota orðið menn um okkur mð réttu.
Allavega er maður eitthvað göfugt, ef miðað er við það að halur merkir frjáls maður. Mannkynið er ekki frjálst lengur og kannski var það aldrei frjálst. Því má vera að rangt sé að við köllum okkur menn.
Geimverur ýmsar nota orð um okkur mannfólkið sem þýða "ílát", eða sem þýða "verkamenn", "drónar", "þrælar", "uppfylltaf verur af skoðunum", eitthvað slíkt.
Þeir sem hafa kafað djúpt í frásagnir af samskiptum manna og geimvera geta þess. Ég hef lesið allskonar vitleysu og merkilegar bækur í bland.
"Glöggt er gests augað", segir málshátturinn.
Biblían er gerð úr babýlonskum og fönískum fornbókmenntum og súmerskum, og nokkrum fleiri.
Upphaflega er þar fjallað um guði í fleirtölu.
Allavega, sköpun mannsins er lýst á þann veg að mennirnir hafi verið skapaðir af Guði eða guðunum til að vinna í námum, sem þrælar.
Zweo- forskeytið gæti verið skylt orðinu dys.
"Óregluleg hrúga, eitthvað samanþyrlað, samanfokið, af indóevrópsku rótinni dheus, dheues, blása, þyrla".
S-ið í dys gæti verið vegna þess að orðið hafi verið notað í merkingunni að blása eða þyrla, dysa hafi merkt það til forna.
Þess er getið í Biblíunni og víðar að Guð hafi "blásið" lífsandanum í manninn.
Hér er komin góð merking í orðið dvergur. Það er vera sem blásinn var lífsandi í, vera sem er takmörkuð, sér ekki út fyrir mörk sín, skilur ekki annað en eitthvað þröngt, en er þræll alla sína ævi.
Þetta á fullkomlega við um okkur svonefnt mannfólk og kvenfólk.
Ég er þér sammála um að dvergatalið er merkilegt og mikilvægt eins og annar texti í þessu merkilega og heilaga kvæði, Völuspá.
Þetta er svo þungt og viðamikið efni að ekki er hægt að komast að niðurstöðu hér, en maður getur reynt að pæla aðeins í því sem augljósast er.
Vil einnig aðeins fjalla um orðið Móðsognir, eða Mótsognir, eins og sumir skrifa það.
Blöndal skrifar:
"Sá sem sýgur kjark í sig eða úr öðrum eða sá sem nærzt hefur á moldarjarðvegi".
Móð getur þýtt slý, slím, eða hugrekki. Móða getur þýtt leðja.
Mótsognir gæti verið skylt orðinu mótsagnir, "Þrasir" er orð á goðaveru einnig.
Eins og ég segi, hér kem ég aðeins með tæki til að pæla meira og dýpra, nokkrar orðsifjar.
En góð er sú auðmýkt sem býr í þessari túlkun sönglagsins fræga, "eru álfar kannski menn", söng Magnús Þór Sigmundsson, og geta því menn ekki verið dvergar líka?
Gott er að líta á þennan gallaða mannkynsstofn okkar sem einhverskonar mistök og eitthvað sem hefur farið úrskeiðis.
En það er kenning eins og annað.
Gaman að þessum pælingum. Frábært að fá svona djúpan og áhugaverðan pistil.
Ingólfur Sigurðsson, 14.11.2024 kl. 03:06
Takk fyrir þessa athugasemd Ingólfur, -þú hefur greinilega sökkt þér í merkingu orða og fræðin á bak við hana.
Ég las textana í þessum tveimur útgáfum af Völuspá, ef svo má segja, -Gylfaginningu og ljóðið Völuspá.
Ef hæft er að tala um að ég hafi komist að niðurstöðu þá er hún einfaldlega sú að dvergar séu menn, rétt eins og Gylfaginning segir.
Það er stundum talað um að vera dverg-hagur, og á það þá oftast við handverk. Dvergar í heimsmynd Völuspár geta því vísað til þess fólks sem verkin vinnur.
Við höfum orðið var við að þessu fólki fer fækkandi og hefur þurft að flytja það til landsins í sí auknum mæli sem erlent vinnuafl.
Það kemur mjög vel fram í goðafræðinni að það eru dvergar sem halda uppi himninum, þeir Austri, Vestri, Norðri og Suðri.
Móðsognir var mestur meðal dverga og Durinn þar á eftir; sá sem virkjar móðinn og sá sem heldur dvergum rólegum (sofandi) um það hverjir halda uppi heiminum.
Ég er ekki frá því að Simpsons komist að svipaðri niðurstöðu um það hverjir séu goð og dvergar, -elíta og verkalýður. Án þess að vita það því ég hef ekki horft á Simpsons í áratugi.
Takk fyrir góða athugasemd ég verð einhvern tíma að vinna úr henni.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2024 kl. 06:00
Takk strákar.
Kveðja suður og að neðan.
Ps. Eruð þið hérarnir farnir að flytja inn drulluna frá útlöndum, alla leið frá Sahara, eins og þið eigið ekki nóg af henni uppá Kárahnjúkum??
Nær væri að flytja inn malbikshaga, svo við losnum við matardrulluna sem vegagerðin leggur á vegi landsins.
Ómar Geirsson, 14.11.2024 kl. 08:10
Magnús og Ingólfur fara hér dúpt í menningu okkar, hef engu við að bæta, en hef oft notað táknmál Wotanismans (Vors siðar) í Arkívinu þó ég geri það helst ekki í Spennulosun, en nota þá helst eigin reynslu frekar en textamoð Snorra og hans drjóla.
Vilti ekki athugasemdast en minni á Ham og nausyn þess að rifja upp þann móða galdur.
Bestu kveðjur, og þakkir.
Guðjón E. Hreinberg, 14.11.2024 kl. 16:11
Takk fyrir takkið úr neðra, Ómar, -já það hefur verið Sahara sólskin á Héraði tvo þrjá síðustu daga með tveggja stafa tölum.
Sahara sandurinn náði að rjúka á Egilsstaðanesinu undan steypubílunum í blíðunni í dag og kannski hefur Afríska eyðimörkin náð að binda matarolíusullið á stöku stað.
Tvöfalt vistvænt kolefnisspor eða þannig, sannkallað Carbmix.
Sólskins kveðjur úr efra í neðra.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2024 kl. 18:10
Þú segir nokkuð Guðjón, -dvergarnir í steypunni vorum hamhleypur í dag, og ég ungur í eitt skiptið enn, -en er allur lurkum laminn núna í augnablikinu, rétt skreiðist með harmkvælum á milli stóla.
Vanalega læt ég nægja að vera svona einhverskonar Móðsognir með Rúmenunum. En í dag þurfti að draga gamlan sótraft á flot því Sahara blíðan mátti ekki fara til spillis til þegar steypa er annars vegar, og frost í spánum.
Já það þarf nauðsynlega að rifja upp þann gamla galdur að hafa hamskipti reglulega, það er bara svo óhemju gaman.
Bestu kveðjur.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2024 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.