10.12.2024 | 21:28
Sjö sekúndur í frelsarans slóð
Gólanhæðir norðaustan við Galíleuvatn. Svart grjót og öræfi allt upp í mót. Þoka, súld og hrjóstrugt land, -skyldi ég vera fyrir austan. Allavega er Sýrland einhversstaðar þarna fyrir austan úti í dimmri þokunni.
Þrjátíu, fjörutíu, fimmtíu skriðdreka fylki um víð og dreif undir seglum í felulitunum með hlaupin niður, -bíða þess að það komi tímar.
Rústir þorpsins í þokunni við veginn; skólin, húsin, moskan allt sundur skotið eða niður sprengt, -áður Sýrlenskt land.
Ps. Textinn hér að ofan er úr dagbókinni minni þann 14. febrúar 1998. Þá var ég í landinu helga við steypu störf.
Þennan dag tókum við félagarnir frí og keyrðum í kringum Galíleuvatn og upp í Gólanhæðir, -þar sem við sáum skriðdrekana sem biðu þess að kæmu tímar.
Alla dagbókarfærsluna hef ég birt tvisvar áður, sem sjö sekúndur hér á blogginu árið 2020, -og upphaflega í frelsarans slóð 1998.
Athugasemdir
Já þetta er tíminn Magnús, til að rifja þetta upp.
Heimurinn beinir sjónum sínum að sjálfsögðu stöðugt að Ísrael, miðju jarðarinnar, þar sem Guð á sér tjaldbúð, en einnig nú að Sýrlandi, sem er hluti þess landsvæðis sem Guð gaf Abraham, Ísak og Jakobi.
Ég fór nokkurn veginn í samskonar hringferð og þú lýsir, en það var tuttugu árum fyrr eða vorið 1978. Þá var ég í hópferð í Ísrael með guðfræðistúdentum frá HÍ. Við fórum einnig upp í Gólanhæðir eins langt austur og við komumst, eða þar til við þurftum að stöðva við jarðsprengjusvæði.
Á meðan við vorum í Ísrael, réðust Ísraelsmenn inn í Líbanon. Það var svar við árás hryðjuverkamanna frá Líbanon, sem gerð var á tvær rútur almennra borgara á leið milli Tel Aviv og Haifa. Hryðjuverkamennirnir drápu hvert einasta mannsbarn í báðum rútunum.
Í ákafri leit sinni að hryðjuverkamönnunum stöðvuðu ísraelskir hermenn okkur á ferðalaginu. Þeir beindu byssum sínum að okkur á meðan þeir gengu úr skugga um að þeir sem þeir leituðu að væru ekki á meðal okkar.
Slóð frelsarans liggur svo sannarlega um Hans eigið land, landið Ísrael. Innan skamms er Hann væntanlegur aftur til jarðar og tekur þá við konungdómi ríkis síns á jörðu. Hann mun þá setjast í hásæti sitt í Jerúsalem. Allar þjóðir munu þá beygja sig undir vald Hans.
Á Hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn Hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki Hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma. (Jes. 9:6-7).
Allt sem á sér stað nú í Mið-Austurlöndum er undanfari komu Hans.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 10.12.2024 kl. 23:37
Þakka þér fyrir innihaldsríka athugasemdina Guðmundur Örn, -já við skulum vona að ríki kærleikans sé í nánd og tími skriðdrekana senn á enda.
Þegar ég var í Ísrael var Netanhjaú nýkominn til valda og sá tími sem menn bundu við friðarsamninga Simonar Peres, Isaks Rabin og Jassers Arafat, -á enda runninn. Saddam Hussen nýbúin að skjóta Skud flaugum á Ísrael.
Síðan hefur Afganistan, Írak, Líbýa og Sýrland, verið lagt í rúst svo ekki sé talað um byggðir Palestínumanna. Kannski sleppur Líbanon við að vera rústað í þetta sinn en þeir eru á á sjö ríkja dauða listanum ásamt Íran og Jemen, -ef ég man rétt.
Meðan framleiddir eru skriðdrekar er markaður, þetta vita auðrónar og vopnaframleiðendur. En við skulum halda áfram í vonina að friðarríki frelsarans sé í nánd, -þó ekki væri nema barnanna vegna.
Magnús Sigurðsson, 11.12.2024 kl. 06:08
Tvær heimsstyrjaldir þurfti til að endurnýja Ísraelsríki í Landinu helga. Þær sömu styrjaldir voru einnig forsenda stofnunar Íslenska lýðveldisins. Skrítið hvernig þetta hangir saman.
Minnumst þess að við Íslendingar erum Ísraelsættar, það sýna okkur landvættirnir.
Og nú virðist þriðja heimsstyrjöldin ætla að verða undanfari Friðarríkis Krists á jörðinni.
Því að spámaðurinn Jesaja segir:
En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér. Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín. Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt. (Jes. 43:1-6).
Guðmundur Örn Ragnarsson, 11.12.2024 kl. 07:45
Það er áhugavert að velta fyrir sér gyðinglegum uppruna Íslendinga í gegnum skjaldamerkið og hina miklu arfleið Íslands, sem virðist hafa verið meira vitund um áður fyrr, -s.s. Benjamín og Svarahafs uppruninn.
En ég er ekki svo viss um að að heimstyrjaldirnar hafi verið til gagns fyrir endurkomu Ísraels í landið helga enda á stærstur hluti ættkvísla Ísraels heima víða um heim, -hvað þá að styrjaldir hafi verið háðar til sjálfstæðis Íslendinga í eigin landi.
Þegar pólitík, peningar og vopnaframleiðsla er annars vegar, þá er það meira í ætt við víxlara musterisins ásamt fræðimanna og farísa. Friður verður aldrei skapaður með stríðsæsingum og gengdalausum manndrápum.
Magnús Sigurðsson, 11.12.2024 kl. 13:34
Sá sem beitir rangindum og þjóðvitundarvélun - sverði - verður að bráð þess sama, og það á við jafnt um Almúgajón og Sérajón. --Jesú (laul. umorðað)
Guðjón E. Hreinberg, 12.12.2024 kl. 19:17
Satt er það Guðjón, -menn skyldu forðast að snúa andskotanum upp á ömmu sína.
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. (Matt 7.12.)
, , , umorðað, -gullna reglan.
Magnús Sigurðsson, 12.12.2024 kl. 20:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.